Ei myrkrið vann ljósið

Ei myrkrið vann ljósið

Páskatrúin hefur ekki verið ríkjandi á Íslandi. Við höfum haft meiri trú á dauðanum en lífinu. Sú trú hefur rekið okkur á harðasprett um lífið. Okkur hefur verið talin trú um að nauðsynlegt sé að eignast sem mest meðan kostur er, upplifa sem mest, sanka að okkur sem mestu.

Köngull

Gleðilega páskahátíð!

I

„Nú er fagur dýrðardagur,” syngjum við í páskasálmi og það er nú svo undarlegt með páskadag að ég minnist þess ekki að hann hafi verið öðruvísi en bjartur og fagur dýrðardagur þótt veðrið hafi ábyggilega verið með ýmsu móti á öllum mínum liðnu páskadögum.

Þessu er svo þveröfugt farið með föstudaginn langa. Það er næsta víst að ég hef oft átt þá bjarta og sólríka. Engu að síður er drungi yfir þeim öllum í minningunni.

Þetta eru ólíkir dagar, páskadagur og föstudagurinn langi. Samt geta þeir ekki hvor án annars verið. Föstudagurinn langi væri óbærilegur ef hann væri endastöðin, ef hann væri lokasvarið, og gildi páskadagsins lýkst ekki upp fyrir okkur fyrr en við sjáum hann á grunni föstudagsins langa.

Báðir eru þessir dagar meira en dagar. Þeir eru tímabil. Þeir eru skeið. Þeir eru ástand. Einhvern tímann höfum við öll verið stödd á föstudeginum langa, óháð deginum og almanakinu. Við höfum upplifað drunga hans, fundið það sama og Jesús á krossinum, einsemd og vonleysi. Og það þarf ekki heldur að vera páskadagur til þess að við reynum sigurmátt lífsins og skæra gleði yfir tapi sem snúist hefur í sigur.

Mahatma Gandhi segir á einum stað: „Guð bar ekki aðeins krossinn fyrir 1900 árum heldur ber hann krossinn í dag og hann deyr og rís upp frá dauðum á hverjum degi.”

II

Fyrir 65 árum, rúmum mánuði áður en seinni heimsstyrjöldinni lauk, var Berlín í rústum. Barist var á götunum. Unglingar, börn og gamalmenni voru send í bardaga. Lík lágu á víð og dreif um borgina. Matur og drykkur var af skornum skammti. Þjóðverjum var ljóst að stríðið var tapað en Hitler hafði samt látið þau boð út ganga að öllu skyldi eytt í Þýskalandi. Sigurvegararnir skyldu ekkert herfang eignast nema rykið og öskuna. Það átti að berjast til síðasta manns í þess orðs fyllstu merkingu. Að mati foringjans hafði þjóðin brugðist honum og átti ekki skilið að lifa.

Í þessu andrúmsloft dauðans og vonleysisins var efnt til einstakra tónleika. Að frumkvæði Alberts Speer, arkitekts Hitlers og hergagnaráðherra Þriðja ríkisins, kom Fílharmóníuhljómsveit Berlínar fram í tónleikahöll, sem var eitt sárafárra uppistandandi húsa í borginni. Tónleikarnir fóru fram 12. apríl árið 1945 og voru ógleymanlegir þeim sem viðstaddir voru. Speer hafði gripið til ráðstafana til að tryggja húsinu rafmagn meðan hljómsveitin lék. Borgarbúar áttu að fá að sjá tónleikahöllina upplýsta í hinsta sinn.

Margir hafa ritað um þennan listviðburð, þessa fágun mitt í viðurstyggð manndrápa og tortímingar, í ljósum prýddri höll í dimmri, kaldri og sundursprengdri borg. Áheyrendur upplifðu páska í drunganum. Þeir sáu ljós. Fólkið gat lokað augunum og hafið sig upp úr eymdardalnum á vængjum tónlistarinnar. Það fékk að upplifa mikifengleika og fegurð. Og þessa stund í höllinni voru það ekki foringinn og hershöfðingjarnir sem höfðu orðið heldur stjórnandinn og hljóðfæraleikararnir. Eina kvöldstund var fólkið ekki á valdi mannfjandsamlegrar hugmyndafræði heldur gaf það sig dásemdum listarinnar á vald.

Það komu páskar í Berlín þetta kvöld. Örlítið ljós kviknaði í myrkrinu - en ráðamenn gættu þess að slökkva þau ljós áður en tónleikagestir gengu út á sundursprengt Potsdammer-torgið.

Við útgöngudyr biðu einkennisklædd börn úr Hitlersæskunni, héldu á körfum og buðu fólki blásýruhylki. Ókeypis.

III

Sagan um þessa tónleika Berlínarfílharmóníunnar er páskasaga. Hún er saga um fólk sem upplifði ljós í myrkri og fékk að sjá örlítinn glampa af sigurmætti lífsins í dauðadrunga tortímingarinnar.

Sagan minnir okkur líka á að það eru öfl í þessum heimi sem vilja ekki að við upplifum neina páska. Þau vilja slökkva ljósin sem páskarnir kveikja. Það er þeim hagstæðara að hafa lýðinn vonlausan. Þeim hentar betur að útbreiða trú á dauðann en lífið.

Í sögunni eru börnin með blásýruhylkin verkfæri slíkra afla. Svo úthugsuð og kaldrifjuð er illskan að hún notar börnin, tákn framtíðarinnar og vonarinnar, til að slökkva vonarneistann sem hugsanlega hafði kviknað í borg dauðans. Börnin voru gerð að standandi auglýsingaskiltum með áróðri um að framtíðin sé dauðans en ekki lífsins.

Þessi öfl, sem vilja innræta okkur trú á dauðann fremur en lífið, þau eru enn að verki. Þau eru vel merkjanleg í samtíð okkar. Og heilagir páskar eru þeim ekki að skapi. Þeir eru eins og Berlínarfílharmónían. Þeir kveikja ljós, þeir glæða vonir, þeir efla lífstrú og lífsmátt.

Börnin með blásýruhylkin eru send á vettvang; úrtöluraddirnar, efasemdirnar, vantrúin. Stanslaus áróðurinn um að manneskjan sé ekkert nema hold, bein og sinar og eigi sér engan tilgang nema þann að fullnægja sínum efnislegu þörfum. Og það sé um að gera að fullnægja þeim sem best og mest og fljótast, því enginn viti hvenær hinn mikli Herra alls, dauðinn, kemur, moldin eignist okkur og hlátrarnir kafni í myrkrum grafanna.

Páskatrúin hefur ekki verið ríkjandi á Íslandi. Við höfum haft meiri trú á dauðanum en lífinu. Sú trú hefur rekið okkur á harðasprett um lífið. Okkur hefur verið talin trú um að nauðsynlegt sé að eignast sem mest meðan kostur er, upplifa sem mest, sanka að okkur sem mestu. Græðgin og sóunin eru fylgifiskar slíkra viðhorfa og menningin sem við þeim blasir er menning dauðans.

En í dag höldum við páska. Í dag heyrum við Fílharmóníuna spila. Í dag syngjum við sigursöngva. Í dag afneitum við trúnni á dauðann og græðgina og sóunina, hraðann og streituna, óttann og áhyggjurnar. Í dag játumst við páskum. Í dag kveikjum við ljósið, glæðum við vonirnar og eflum trúna á mátt og kynngi lífsins.

Þeir segja að páskatrúin sé fáránleg; það sé út í hött að trúa á upprisuna. Þeir vilja trúa því að dauðinn lifi en lífið deyi.

Trú páskanna er á hinn bóginn sú að dauðinn deyi en lífið lifi, hversu fáránlega sem það kann að hljóma.

„Ei myrkrið vann ljósið, þótt langt væri stríð, nei, ljóssins var hrósið um eilífa tíð. Burt hrelling er flúin, því himneska von oss hefur veitt trúin á Guðs einkason.”

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.