Þetta ár er frá oss farið, Fæst ei aftur liðin tíð. Hvernig höfum vér því varið? Vægi´oss Drottins náðin blíð. Ævin líður árum með Ei vér getum fyrir séð, Hvort vér önnur árslok sjáum. Að oss því í tíma gáum.
Góð áminning og bæn við áramót, sem sálmabókin geymir, sálmur eftir Brynjólf Jónsson frá Minna-Núpi. Sálmaskáldið spyr og biður örugglega eftir að hafa lesið guðspjall gamlársdags, dæmisöguna um eiganda víngarðs sem leitaði ávaxta á fíkjutrénu sínu ár eftir ár, en fann ekki. Hann vildi láta höggva það upp og farga því, en umsjónarmaðurinn baðst vægðar, “herra, lát það standa enn þetta ár.” “Vægi´oss Drottins náðin blíð”.
Áramót er tími uppgjörs, - við spyrjum óneitanlega margra spurninga, um þjóðfélagið, um nánasta umhverfi, gleðistundirnar, áfangana sem glöddu, allt uppbyggilegt og gott starf, sem unnið hefur verið að. Við skoðum hrunið mikla, áföllin í fjölskyldu og vinahópi, - við leitum ávaxtanna, - hvað finnum við, hvað blasir við þjóðinni, já, hvað blasir við okkur sem einstaklingum?
Þjóðmálin hafa rækilega verið tekin út af hagspekingum, stjórnmálamönnum og öðrum sérfræðingum. Sitt sýnist hverjum og sannarlega hefur ekki verið auðvelt fyrir almenning að skilja og meðtaka allt það sem borið hefur verið á borð fyrir okkur. Við sjáum kannski ekki marga ávexti, ekki mikinn árangur, en samt hefur verið unnið hörðum höndum á mjög mörgum vígstöðum, sem vert að þakka í dag.
En sárin eru víða, reiðin, sorgin, vonbrigðin, og það tekur tíma að vinna úr því, hvað hrunið varðar og einnig önnur áföll sem svo margir hafa þurft að horfast í augu við, - slys, ástvinamissir, - veikindi, - atvinnumissir, fjölskylduerfiðleikar af ýmsum toga. - Sorgarvinnan er ströng, en hún er þess virði og mjög nauðsynleg. Við þurfum að taka á öllu sem við eigum og treysta á vini og vandamenn til stuðnings og huggunar. Og þá er gott að eiga bæn sem þessa í hjarta sínu: Vægi´oss Drottins náðin blíð!
Fyrir jólin kom út lítil bók eftir biskup Íslands sem heitir “Fleiri orð í gleði”, - þar eru margar góðar örsögur, sem fá mann til að hugsa. Ein er á þessa leið: Hvað er þetta annars með peningana? Ég skil þetta ekki. Hvers vegna gerir auðurinn menn sjálfhverfa og sjálfselska? Þannig spurði maður nokkur prestinn sinn. Presturinn sagði: Komdu út að glugganum! Hvað sérðu? - Ég sé konu með barn. Og ég sé vagn sem ekur í átt að akrinum. Gott. Komdu nú hér að speglinum. Hvað sérðu? Hvað á ég svo sem að sjá? Sjálfan mig auðvitað! Já, sagði presturinn. Skilurðu nú? Glugginn er úr gleri og spegillinn er úr gleri. Maður setur bara ögn af silfri á bak spegilsins og þá sér maður ekkert nema sjálfan sig. Í orðskviðum Salómons segir: Betra er lítið með réttu en mikill arður með röngu. Heilræði, sem gott væri að hafa á skilti á heimili sínu, eða kannski í bankanum.
Þetta ár er frá oss farið, Fæst ei aftur liðin tíð.
Þetta er ljóst og í kvöld er þetta væntanlega kristaltært fyrir okkur öllum. Og enn má spyrja: Hverjir eru ávextirnir’
Jú, við skulum gleðjast yfir því sem vel er gert, - eitt sem vakti þjóðarathygli var Þjóðfundurinn í Laugardalshöllinni á dögunum, - athyglisverð tilraun til að fá almenning til að tala saman undir handleiðslu góðra manna. Allt var þetta vel undirbúið og vel stjórnað. Nú er hægt að sjá útkomuna, sjá hugmyndirnar, sem fólk setti á blað, margt athyglisvert og gott.
Gildin sem skoruðu hæst voru þessi; heiðarleiki, virðing, réttlæti og jafnrétti, en miklu fleiri voru dregin fram. Það sem vekur athygli er, að þessi gildi eru ekki ný, - þetta eru gömul og þekkt gildi. Íslendingar sem setjast niður til að leita að gildum rekast að sjálfsögðu á gildin sem hafa mótað menningu okkar frá upphafi vega. Það ætti heldur ekki að koma á óvart, að gildin sem oftast voru nefnd eru gildi sem kristin trú hefur haldið á lofti í 2000 ár og helgar ritningar og heimsspekingar fornaldar í enn lengri tíma. Páll postuli orðar þetta fallega, þegar hann skrifar til Galatamanna: En ávöxtur andans, þ.e. hins góða lífs, er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Öll þessi orð rötuðu inn í hugmyndabanka Þjóðfundarins, enda eru þetta gildi sem hafa sannað sig og verið höfð að leiðarljósi öld fram af öld.
En hvernig náum við fram þessum gildum, hvernig ná þessir góðu ávextir að vaxa meðal þjóðarinnar, hjá okkur sem einstaklingum? Ein leið er að tala um gildin, leita þau uppi eða gera áramótaheit, eins og sumir gera, lofa sjálfum sér og öðrum að gera betur, láta gott af sér leiða. Sækja sér uppbyggilega fræðslu og samfélag, þar sem hægt er að iðka hið góða líf.
Vissulega er stutt í andhverfu þessara góðu gilda, hatur, óvild, ófrið, græðgi, sjálfhverfu, taumleysi svo eitthvað sé nefnt. Lífsmáti þar sem slíkt hugarfar ríkir er eyðileggjandi og rústar að lokum mannlegu samfélagi, það vitum við og höfum orðið vitni að nú síðustu misserin. Við þurfum að setja rétt orð á ástandið, nefna lestina réttum nöfnum, vinna með þá, líta í eigin barm og gera erfiðu málin upp, biðjast fyrirgefningar, sættast. Ef við getum það ekki sjálf, þá ættum við að leita hjálpar hjá góðu fólki, en ekki síst að leita hjálpar hjá góðum Guði, sem elskar okkur undir öllum kringumstæðum lífsins. - Allir hafa syngdað og skortir dýrð Guðs, - segir í heilagri ritningu, sem þýðir, að öll þurfum við á hjálp að halda. Í Fjallræðunni segir Jesús: Sælir eru fátækir í anda, því þeirra er himnaríki. En að vera fátækur í anda er einmitt það sama og að sjá þörf sína fyrir hjálp. Sá sem viðurkennir vanmátt sinn, horfist í augu við synd sína og bresti, hann er sæll, hann er kominn á góða braut, búinn að finna veg til betra lífs, þetta er reynsla aldanna, þetta er reynsla kristninnar.
Bæn og ákall víngarðsmannsins í guðspjalli kvöldsins er í þessum anda: “Herra, lát ávaxtalausa tréð standa enn þetta ár, þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan.”
Þetta er sannarlega góð fyrirmynd að bæn og ábyrgri afstöðu til lífsins. Við megum ákalla Guð um miskunn og náð, megum treysta elsku hans og umburðarlyndi, en það þýðir ekki að við leggjum árar í bát, þvert á móti, við tökum til hendinni, við tökum til í garðinum okkar, gröfum í kring, berum áburðinn á og vökvum staðfastlega. Þetta á við um þjóðlífið allt og líf og starf hvers einstaklings. -
Þegar læknirinn sagði gömlu konunni að hún ætti í mesta lagi þrjá mánuði ólifaða, fór hún þegar í stað að skipuleggja jarðarförina. Ásamt prestinum ákvað hún sálmana sem sungnir yrðu, hvaða texta ætti að lesa og hvaða fötum hún skyldi klædd í kistunni. Og svo er eitt mjög mikilvægt, sagði sú gamla, ég vil halda á gaffli í hendinni. Presturinn gat ekki dulið undrun sína. Gaffli, má ég spyrja, hvers vegna? sagði hann hissa. Ég get úskýrt það, sagði konana brosandi. Ég hef setið margar veislur um dagana og mér hefur alltaf þótt skemmtilegt þegar þjónninn tekur diskinn og segir: haltu gaflinum! Þá vissi ég að nú var eitthvað ennþá betra í vændum, ábætir sem væri meira en einhver froða, heldur eitthvað bitastætt. Ég vil að fólkið mitt sjái mig við kistulagninguna og spyrji sig: Hvers vegna heldur hún á gaffli? Þá getur þú, prestur minn, útskýrt það fyrir þeim. Og þú getur áminnt þau um að halda á gafflinum. - Eitthvað miklu betra er í vændum!
Gamla konan vissi á hvern hún trúði, vissi, að hún var að fara heim í ljós himnanna. Við stöndum á tímamótum í kvöld og í nótt, við erum að kveðja margslungið ár, nýtt ár rennur upp, við vitum ekki hvað býður okkar, en við megum halda í vonina, trúa því og treysta að eitthvað miklu betra sé í vændum á komandi ári og um alla eilífð. Horfum út um gluggann, virðum fyrir okkur raunveruleikann, tökum þátt í tiltektinni, uppbyggingunni, en staðnæmumst ekki við spegilinn.
“Vægi´oss Drottins náðin blíð. “
“Frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð” - “Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.”
Gleðilegt nýtt ár kæri söfnuður og bestu þakkir fyrir samfylgdina á liðnu ári. Dýrð sé Guði föður syni og heil. anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda, Amen.
Ég vil geta þess, að á morgun verður hér hátíðarguðsþjónusta kl. 14.00 og á sunnudaginn verður messsa kl. 11.00. Þetta eru síðustu messurnar hér í kirkjunni að sinni, því Hallgrímskirkju verður lokað eftir helgina vegna frekari viðgerða og hreinsunar í einar 6-8 vikur. Meðan á þessu stendur verður boðið upp á bænastundir á mánudögum, þriðjudögum, morgunmessur á miðvikudögum, starf eldri borgara, foreldramorgna, fermingarstarf og barna- og unglingastarf auk AA funda hér í kórkjallara kirjunnar. Og í janúar og fram í febr. mun Hallgrímssöfnuður fara í 4 messuheimsóknir með formelgum hætti til nágrannakirkna, Neskirkju, Laugarneskirkju, Dómkirkju og Háteigskirkju. Heimsóknir verða auglýstar jafnóðum, en með þessum heimsóknum viljum við einnig minnast þess að nú eru 70 ár frá stofnun Reykjavíkurprófastsdæmis. en þá urðu til þrjár nýjar kirkjusóknir hér í borg auk Dómkirkjunnar, en það voru Nes-, Hallgríms- og Laugarnessóknir.
Meðtakið postulega kveðju: Náð Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfél. Heilgas anda sé með yður öllum. Amen.