Fátt er nöturlega en barn sem stendur eitt á berangri, umkomulaust og yfirgefið. Orð fá ekki lýst þeirri skelfingu sem vaknar þegar barn hefur týnst, örvinglan foreldra og annarra sem bera ábyrgð. Samfélagið hefur brugðist og allt skal gert til að koma barninu aftur inn í hópinn, finna það og leiða öryggi og eðlilegt samhengi. Lítil börn eiga ekki að vera ein. Þau eru hluti af þorpinu, sem mótar þau og verndar. Það gerir þau ekki aðeins í stakk búin til að standa á eigin fótum, heldur miðlar þeim lífsgildum og býr þau undir að verða um síðir sjálf ábyrg gagnvart sínum minnstu systkinum.
Sögur af einsemd
Einsemd barns fær sjáöldrin til að víkka og við sperrum eyrun. Hana má skoða sem stef í menningunni. Sögur segja frá hlutskiptum slíkra barna, allt frá Óliver Twist og Litlu stúlkunni með eldspýturnar til þeirra myndar sem er víst vinsælsta jólamynd allra tíma - Home Alone.
Árið 1942 kom út bókin, Palli er einn í heiminum, eftir danska rithöfundinn Jens Sigsgaard. Þar er drengurinn, Palli, í hjarta sögunnar, einn og yfirgefinn að morgni dags. Við lesum ekki um angist hinna fullorðnu heldur er sagan sögð frá sjónarhorni drengsins. Við fylgjum honum eftir þar sem hann tekst á við heim sem virðist vera yfirgefinn. Hann er eins og Róbinson Krúsó á eyðieyjunni, nema að umhverfi hans er manngert, með byggingum, farartækjum og öllum þeim búnaði sem mannleg samfélög hafa skapað. Það er til marks um áhrif þessarar sögu, að nú fyrir jólin skrifaði Hermann Stefánsson skáldsögu sem byggir á henni og segir frá Páli, fullorðnum manni í sömu sporum.
Einvera Palla litla verður að þroskasögu og boðskapinn sem ég las út úr henni mætti orða að hætti Einars Ben.: ,,Maðurinn einn er ei nema hálfur, með öðrum er hann meiri en hann sjálfur.” Barnið nær aldrei þroska og vexti ef það er ekki í návist fólks. Hlutirnir og frelsið hafa enga þýðingu ef það er enginn sem deilir með okkur gleðinni og lífinu. Þá sitjum við á vegasaltinu kyrr ofan á jörðinni og hreyfumst ekki neitt. Atburðirnir reyndust í sögunni aðeins vera draumur sem breyttist í martröð og loks vaknaði Palli er hann lá á gólfinu við rúmið sitt en hann varð skjótt umkringdur því fólki sem á að hugsa um hann. Barnið var komið aftur á réttan stað í rétt samhengi.
Jesús í musterinu
Frásögnina í guðspjalli dagsins má skoða sem grein af þessum meiði. Þar er tekist á við angistina sem hinir fullorðnu finna fyrir þegar ungmennið reynist ekki vera með í för þegar hópurinn hélt aftur í þorpið. Mikið var umkomuleysi þeirra og þau voru ,,harmþrungin” eins og því er lýst í textanum. En sagan endar ekki á þeim stað. Rétt eins og á við um barnabókina um Palla má lesa hana sem hugleiðingu um þann stað sem barnið er á, hvernig það er hluti af samfélaginu. Lyktir sögunnar eru einmitt á þá leið að þegar barnið er í rétta hópnum, þá er allt með felldu. Samfélagið hefur endurheimt ungmennið, eða í raun þá var það alltaf á hinum rétta stað.
Hugtakið sem stendur í kjarna slíkra frásagna, er sjálf menningin. Þetta orð sem íslenskan tengir við manneskjuna: maður og menning, en hið alþjóðlega orð, kultur vísar til vaxtar og gróanda.
Menning er ekkert smáorð. Sagt er að Winston Churchill hafi spurt hvers vegna þjóðin væri að berjast í stríðinu ef svo ætti að skera menninguna niður við trog. Og danskur ráðherra sagði eitt sinn í miðri olíukreppunni á 8. áratugnum að ekki kæmi til greina að ganga of langt á þá sjóði sem ætlaðir voru til menningar: ,,Godt nok er vi fattige, men vi behøver ikke også at være dumme.” Í þessum orðum birtist okkur sú sýn að menning er ekkert hátt upp hafið, engin kokteilboð og djúpvitur listaverk, heldur er hún sjálft inntak mannlífsins, sjálfsbjargarviðleitni samfélags, rótartaugarnar sem allt hangir á þegar aðrir þættir tilverunnar hafa gefið sig.
Já, Jesús tólf ára hvarf úr hópi fjölskyldu og ættingja þar sem þau voru á árlegri pílagrímsferð til borgarinnar helgu. Og þau fundu hann í öðru samfélagi. Hann var í musterinu, sem var ekki aðeins hinn trúarlegi helgidómur heldur var hann musteri þess sem getum kallað, menning í öllum margbreytileika þess orðs. Í frásögninni erum við að lokum leidd inn þennan helgidóm og við fáum þar í leiftursýn að fylgjast með því hvernig menningu þessari er miðlað á milli kynslóðanna. Þessi svipmynd sem birtist okkur í textanum staðsetur okkur í hjálpræðissögunni. Jesús hafði vissulega algera sérstöðu, en hann var ekki eins og Palli sem var einn í sínum heimi. Hann gekkst við þeim arfi sem hann var hluti af. Taktur ársins, kynslóðanna var honum ekki framandlegur. Hér verður ekkert rof, engin skil þar sem hið gamla er dæmt óverðugt og fráleitt. Þvert á móti byggir það sem nýtt er á grunni þess sem fyrir er.
Menningin, mannlífið eða vöxturinn, hvernig sem á það er litið er keðja sem hlykkjast áfram í gegnum tímann. Þótt engir tveir hlekkir séu eins er keðjan samt sem áður með sínum einkennum og sérkennum og þar sem eitt tekur við af öðru, rofnar hún ekki heldur varir áfram. Og það er einmitt hugsunin sem ég held að búi að baki þeirri skilgreiningu sem er á menningunni. Hún er ekki aðeins ásjóna þess og arfleið, heldur innsta eðli þess, það sem hefur líf fólksins upp úr moldinni, gefur því gildi, setur markmið og reisir það upp.
Uppgjörið við fortíðina
Jesús leitaði í helgidóminn og svaraði því til að honum bæri að vera í húsi föður síns. Við finnum það mjög sterkt, að í uppgjöri við mistök fortíðar hafa helgidómar okkar menningar fengið óvægna umfjöllun og því er ítrekað haldið fram að þeir séu engir staðir fyrir börn. Áróðurinn er linnulaus og eindregin afstaða gegn kirkjunni verður að aðgöngumiða að hópi hópi fólks. Viðkomandi stimplar sig inn, leggur línurnar, enginn skyldi efast um afstöðuna. Þessi situr réttu megin borðsins.
Því kirkjan er jú andstæð gagnrýninni hugsun, ekki satt? Illa er farið með þá aura sem renna í sjóði kirkjunnar. Þar verður engin verðmætasköpun, eða hvað? Er börnunum ekki hætt við því að heyra sögur og frásagnir sem engin leið er að staðfesta eða hrekja? Viljum við ekki kenna þeim að hugsa sjálfstætt? Viljum við ekki taka þau út úr því samhengi sem fyrri kynslóðir hafa lifað og hrærst í, þessar sömu kynslóðir og settu samfélag okkar á höfuðið, steyptu öllu í kaldakol, sólunduðu verðmætum foreldra sinna, okkar og komandi kynslóða?
Mögulega munu einhverjir sagnfræðingar sem í ókominni framtíð rýna í okkar samtíma reyna að finna tenginguna þarna á milli. Hún er afar torfundin svo ekki sé fastar að orði kveðið. Söfnuðir út um allt land horfðu jafn máttvana á þessa atburðarrás og aðrir. Sums staðar höfðu þeir forgöngu um björgunarstarf. Víða hafði hljómað hávær gagnrýni frá kirkjunni, löngu áður en hallaði á verri veg. Og vitringar úr heimi hagfræði og viðskipta sendu kirkjunnar mönnum föðurlega tóninn og endurtóku kreddur og möntrur sinna fræða, þeirra sömu og áttu síðar eftir að kollvarpa öllu.
Nú horfir svo við að þetta allt er í uppnámi. Já, við horfum fram á það sem raunhæfan möguleika að helgidómar kirkjunnar verði í náinni framtíð mannlausir og yfirgefnir, standi sem minnisvarðar um veröld sem var, keðju sem rofnaði og samfélag sem afneitaði því sem lifað hafði, kynslóð fram af kynslóð.
Í áróðrinum er sífellt klifað á því að trú og skynsemi séu andstæður, að frjálslynd opin kirkja sé jarðvegur fyrir öfgatrú.
Og þó blasir veruleikinn við okkur, sem rennir engum stoðum undir slíkar ásakanir. Virtustu og elstu háskólar Evrópu eiga rætur að rekja til kirkjunnar. Í Bandaríkjunum stofnuðu kristnir trúarhópar Harvard,Yale og Princeton. Samtökin Amnesty International, Saving the Children, Greenpeace eiga öll rætur að rekja til mannræktarstarfs kristinna manna. Ekkert af þessu kemur fram í þeim áróðri sem á okkur dynur. Enda er hann áróður og ekki til þess fallinn að greina og skýra heldur að einfalda og skekkja. Og kynslóðirnar sem ólust upp í faðmi frjálslyndrar þjóðkirkju, sem vann náið með skólakerfinu og lagði grunninn að því félagslega, áttu eftir að slá heimsmet þegar rýnt var í jákvæða afstöðu til vísinda. Þær áttu ekki eftir að fylla samkomusali hjá trúarhópum sem afneituðu þróunarkenningunni og öðrum sambærilegum hugmyndum. Meðlimir slíkra safnaða náðu aldrei nema fáeinum prómillum af íslensku samfélagi.
Og þegar kom að því að takast á við ný viðfangsefni í kjölfar breyttra tíma þá var það gagnrýni innan þjóðkirkjunnar sem hafði mest áhrif á störf hennar og viðbrögð. Afstaðan til hjónabands samkynhneigðra er dæmi um þetta og er það hneisa að einmitt það byltingarkennda skref sem kirkjunnar fólk steig skuli enn í dag vera notað til að koma á hana höggi og halda fram alrangri mynd af þessu samfélagi.
Baráttan snýst áfram um það hvort við viljum kirkju með stóran og opinn faðm eða hvort við viljum einangra trúna og svipta henni út úr menningunni. Hún snýst um einangrun eða samfélag.
Mannlíf og vöxtur
Menning er bæði mannlíf og vöxtur og sem slík þá byggir hún á samhengi sem nær frá kynslóð til kynslóðar. Það vekur sannarlega skelfingu þegar okkur berst mynd af yfirgefnu barni. Það er til marks um að eitthvað er ekki með felldu í samfélagi þess. Slíkar sögur hafa sterkan hljómgrunn og vekja upp viðbrögð. Mögulega eru þær áminning til okkar að rjúfa ekki samhengið. Brjóta ekki allt niður sem gott er, heldur byggja á því sem fyrir er, endurbæta það, þar sem fólk framtíðar lærir af þeim sem fyrir eru og svona heldur sagan áfram og menningin. Martröðin sem Palli vaknaði upp af, er vondur draumur þar sem tengslin hafa rofnað, þar sem menning hverfur og einsemd tekur við. Erindi kirkjunnar er að fyrirbyggja að slík martröð verði að veruleika. Gæði hvers samfélags byggja á því að rækta það góða sem fyrir er svo heilbrigður vöxtur geti orðið. Sá er jú boðskapur sögunnar um ungmennið Jesú í helgidómnum í Jerúsalem.