Geimferðalög mannkyns eru sprottin af sammannlegri þrá til að kynnast því sem er óþekkt og framandi og víkka út sjóndeildarhring okkar. Þeir geimfarar sem fyrstir fóru út fyrir gufuhvolf jarðar og sáu jörðina með berum augum hafa lýst því hvernig að sú reynsla hafði haft afgerandi áhrif á heimsmynd þeirra. Af lýsingum þeirra er ljóst að þeir höfðu gert sér í hugarlund að geimferðin myndi kenna þeim mikið um geiminn, að upplifa hann frá fyrstu hendi, en það sem hafði mest áhrif á þá var að öðlast yfirsýn yfir jörðina sjálfa, að sjá hana í heild sinni. Rithöfundurinn Frank White skrifaði áhrifamikla bók um reynsluna, sem hann kallaði The Overview Effect eða yfirsýns áhrifin, og byggði hana á viðtölum við geimfara sem lýstu vitundarvakningu í kjölfar ferðalagsins sem leiddi til djúpstæðrar samkenndar með lífríki jarðar og mannkyninu öllu.
Áfangasigrar í geimferðum 20. aldar tengjast flestir kaldastríðskapphlaupi Ameríku og Sovíetríkjanna, frá Spútnik gervihnetti Rússa til mannaðra geimferða NASA, en frá lokum þess hefur ekki farið eins mikið fyrir geimferðum í áherslum heimsveldanna. Fréttir liðinna vikna gefa þó tilefni til að halda að nýtt blómaskeið sé hafið í geimkönnun mannkyns og eru þær fréttir árangur af áratugalöngum undirbúningi.
Þrennt ber þar að nefna: Myndir bárust frá könnunarfarinu New Horizon sem hefur ferðast 4,3 milljarða kílómetra til að mynda dverginn Plútó, sem naut enn þess heiðurs að teljast pláneta þegar ég var í skóla, geimsjónaukinn Kepler, sem hefur það markmið að finna plánetur sem líf gæti hafa kvikknað, tilkynnti um fund á einni slíkri plánetu (Kepler 452b) í 1400 ljósára fjarlægð og rússnenski auðkýfingurinn Yuri Millner greindi frá því að hann hyggðist styrkja leitina að vitsmunalífi í alheiminum um 100 milljónir bandaríkjadala.
Spurningin hvort líf sé að finna á öðrum hnöttum er ein stærsta spurning sem mannkynið hefur leitað svara við og enn stærri spurning er hvort slíkt líf hafi vitsmunagreind á sama þróunarstigi eða hærra en við. Þó hægt sé að leiða líkum að því að líf sé að finna á öðrum hnöttum er ógjörningur fyrir okkur að staðfesta það með núverandi tækni, öðruvísi en að nema sendingar frá vitmunalífi sem er sambærilegt við þær útvarps og örbylgjusendingar sem við erum að senda út í geiminn, viljandi og af slysni.
Að baki þessari leit liggur sá draumur, sem í dag er viðfangsefni vísindaskáldsagna og nýaldarspeki, að mannkynið geti í fjarlægri framtíð lagt undir sig aðra hnetti en jörðina og átt samskipti við framandi verur í fjarlægum heimum. Líkt og með allar pílagrímsferðir mannkyns er næsta víst að niðurstaða leitarinnar að vistlegum plánetum og lífi í óravíddum alheimsins muni kenna okkur mikið um okkur sjálf og það samhengi sem við erum sprottin úr.
Ef alheimurinn iðar af lífi er það vísbending um að sérstaða okkar er ekki sú sama og við nú teljum og það gæti breytt sjónarhorni okkar með sama hætti og þegar sólmiðjukenningin leysti af hólmi hugmyndir um að jörðin væri miðpunktur alheimsins. Hið gagnstæða hefði ekki síður áhrif en ef líf er jafn fágætt í alheiminum og virðist við fyrstu sýn, er þeim mun meiri ástæða til að standa vörð um lífríki okkar sem er í bráðri hættu af okkar völdum.
Jafnvel þó leitin að vistlegri veröld skilaði árangri von bráðar er ljóst að fjarlægðir í alheiminum eru það miklar að flótti frá jörðu yrði ekki raunhæfur kostur. Loks er það áhugaverð spurning hvernig mannkynið kæmi ET fyrir sjónir, með allan þann vanda sem við höfum komið okkur í með gallaðri hugmyndafræði sem leitt hefur til styrjalda, hörmunga og skeytingarleysi gagnvart lífríki jarðar. Könnun alheimsins varðar mannkynið allt og því er það þakkarefni að áfangasigrar á borð við þá sem fréttir liðinnar viku færðu okkur hafa gefið okkur tækifæri til að ræða þessar stóru spurningar.
Kristin kirkja er í grunnin byggð á sömu viðfangsefnum og tæpt hefur verið á, annarsvegar þránni eftir augum sem sjá útfyrir þennan heim og hinsvegar leitinni að sammannlegum svörum. Með augum trúarinnar lítur biblían handan veruleika hversdagsins og boðar að á bakvið þann efnisheim sem við lifum í sé meira en augað sér og að baki þessu lífi sé kærleikur sem nær útfyrir þau takmörk sem okkur eru sett.
Sú reynsla sem geimfarar lýsa að öðlast heildarsýn á samhengi mannkyns er sambærileg þeirri sýn sem kristindómurinn boðar að mannkynið allt sé systkinahópur og beri að standa saman sem slíkur. Það má sannarlega færa fyrir því rök að trúarbrögðin hafi brugðist í því verkefni að sameina mannkyn og hafi valdið meiri sundrung en hitt en þrátt fyrir það býr í fagnaðarerindi kristindómsins slík þrá og slík von.
Trúarbragðafræðingar hafa leitt að því líkum að grundvöllur þeirrar vísindabyltingar sem þekkingarframfarir okkar byggja á hafi grundvallast á eingyðistrú gyðingdóms, sem kristni og Íslam deila.* Ólíkt öðrum trúarbrögðum fornaldar, þar sem náttúran var samofin þeim gyðum sem tilbeðin voru, stendur Guð gyðingdóms utan við sköpunina sjálfa og efnisheimurinn er sköpunar-verk sem mannkynið hefur ráðsmennsku með og birtir tilgang Guðs með sköpuninni.
Það er því á ábyrgð hins trúaða að rannsaka heiminn í þeirri von að mega betur kynnast sköpun Guðs og erindi hans í heiminum. Slík stef hafa ítrekað verið sótt í Biblíuna af menntamönnum úr röðum gyðinga, kristinna og múslima, og hafa verið órofahluti samræðuhefðar trúarbragða og vísinda í Evrópu í gegnum aldirnar. Leitin að lífi í alheiminum vekur upp trúarlegar spurningar með sama hætti og svörin, hver sem þau eru, koma til með að hafa áhrif á trúarhugmyndir okkar og heimsmynd með afdrifaríkum hætti.
Sjóndeildarhringur okkar, sem mannkyn og sem manneskjur, takmarkast af þeirri heimsmynd sem við búum við og þessvegna skiptir það máli að leitast við, sem einstaklingar og sem samfélag að færa út sjóndeildarhring okkar.
Guðspjall dagsins er fengið úr niðurlagi Fjallræðunnar, þar sem Jesús ber fram hina þekktu dæmisögu um að byggja á sandi eða bjargi. Dæmisöguna má lesa sem ákall um að ígrunda þann grundvöll sem við byggjum líf okkar á sem einstaklingar og einnig sem samfélag. Með þeim augum blasir við að sú staða sem við stöndum frammi fyrir að ganga á lífríki og andrúmsloft jarðar með þeim hætti sem við höfum leyft okkur undanfarna öld. Það er hætt við að loftslagsbreytingar okkar muni leiða til hamfara, sem gefa myndmáli dæmisögunnar nýja merkingu: ,,Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll og fall þess var mikið.“
Kristin trú og kennsla Jesú krefur okkur um að líta á heildarmyndina um stöðu mannkyns, jafnt samfélagsins sem einstaklingsins, og boðar að þegar öllu er á botninn hvolft þá erum við á sama báti. Geimferðaráætlanir hafa kennt okkur mikið um alheiminn og það er auðvellt að fyllast lotningu yfir litmyndum af framandi fyrirbærum á borð við dvergreikistjörnuna Plútó og uppgötvun pláneta þar sem líf gæti leynst. En mikilvægast af öllu er það tækifæri sem að geimferðir gefa okkur til að horfast í augu við heildarmyndina og þann vanda sem blasir við okkar.
Andspænis þeim vanda þarf meira til en tækni og vísindi, heldur samstöðu um þá ábyrgð sem á okkur er lögð að vera ráðsmenn Guðs á þeirri fögru plánetu sem okkur var treyst fyrir. Þar hefur kristin trú mikilvægt erindi og heldur á lofti þeim sannindum að lífið ber kærleika Guðs vitni, er heilagt og beri að varðveita. Verndun náttúru og lífríkisins er brýnasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir sem mannkyn og árangur þess mun skilgreina framtíð okkar á þessum bláa hnetti.
Guð veiti okkur náð sína til þess að reynast þeirri köllun trú.
*Peter E. Hodgson, Theology and Modern Physics, 2005.