Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina því að kraftar himnanna munu riðlast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.“Í dag er annar sunnudagur í aðventu. Við kveikjum á Betlehemskertinu og minnum okkur á fæðingarstað frelsarans er hann kom í þennan heim, í hinar fábrotnustu aðstæður á hinum fyrstu jólum. Það sem er svo einkennandi fyrir samfélagið á þessum árstíma er undirbúningurinn. Við undirbúum okkur fyrir komu frelsarans í heiminn og öll eigum við okkar siði sem við höldum fast í á þessum undirbúningstíma. Guðspjallstextar aðventunnar minna okkur á, hvers við væntum og krefur okkur jafnframt til innri undirbúnings og íhugunar á boðskap Krists.Jesús sagði þeim og líkingu: „Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám. Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður að sumarið er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.
Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok uns allt er komið fram. Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða. Lk 21.25-33
Það er afar áhugavert að fylgjast með undirbúningi þjóðarinnar fyrir þessa miklu hátíð sem í vændum er, allir hafa í nógu að snúast og ríflega það og heitustu umræðurnar í samfélaginu varða - Hann sjálfan. Umræðurnar eru þó svolítið frábrugðnar því sem áður var í þessu þjóðfélagi, því nú er spurt hvort hann og hans boðskapur megi koma við börn í leikskólum eða grunnskólum. Grundvallarspurningin er sú hvort við eigum að kenna börnum kristinfræði og með hvaða hætti það skuli þá gert. Það er hollt að skerpa á þessum málum - og hvert skuli stefna og við skulum ekki flýja málefnalega umræðu um þessa hluti, því hún er afar mikilvæg.
Allir, jafnt trúaðir sem trúlausir virðast vera sammála um að nauðsynlegt sé að gera trúarbragðafræði hærra undir höfði í menntakerfinu, enda hefur sú fræðigrein kannski aldrei verið eins mikilvæg eins og einmitt nú. Aukin hnattvæðing og vaxandi búferlaflutningur, bæði Íslendinga til framandi menningarheima og eins erlendra einstaklinga hingað til lands, hefur gert það að verkum að við þurfum að þekkja sögu, menningu og trúarbrögð helstu menningarsvæða heimsins.
Við hljótum öll að geta tekið undir þá fullyrðingu að kristin trú og siður hefur mótað þessa þjóð í gegnum aldirnar. Það sjáum við á sögunni, í menningu og listum. Saga kirkjunnar er samofin sögu þjóðarinnar. Og í gegnum aldirnar hefur sá boðskapur sem Kristur opinberaði heiminum orðið til stórstígra framfara, alls staðar þar sem hann hefur fengið að ráða. Þannig hefur kirkjan í sögunni verið brautryðjandi í ýmsum mikilvægum málum, kærleiksþjónustu og uppfræðslu. Hér á landi var kirkjustofnunin uppspretta þeirrar hugsunar er lagði áherslu á aðstoð við fátæka, þurfamenn og sjúklinga - og á biskupsstólunum voru fyrstu vísar að öldrunar- og líknarstofnunum. Kirkjan var frumkvöðull í uppfræðslu ungmenna og stuðningur við menningu og listir. Við getum verið sannarlega verið stolt af þeirri sögu.
Á tiltölulega stuttum tíma hefur þjóðfélagið tekið miklum stakkaskiptum, fjölbreytnin er meiri og einstaklingar annarrar trúa hafa flust hingað til lands. Það breytir hins vegar ekki sögu þjóðar okkar eða þeim siðum sem hafa verið vörður í lífi einstaklinga í þjóðfélaginu. Stærstu hátíðir kristninnar eru hátíðir samfélagsins og hin kristnu siðferðisgildi er grundvöllur í siðferði þeirra sem hér búa.
Og nú er svo komið að fáar en háværar raddir óma um að nú skuli Kristur víkja úr öllu opinberu lífi þjóðarinnar. Hann má vera inni í kirkjunum, en helst hvergi annars staðar. Í trúleysinu felist hið fullkomna hlutleysi og það sé það ástand sem allt eigi að miðast við og kristin áhrif eða helgileikir eiga ekki erindi í skólabyggingarnar. Staðreyndin er þó sú að trúleysi er engu minni afstaða eða ekkert meira hlutleysi heldur en að tilheyra ákveðinni trú. Það er hins vegar eðlilegt að við viðhöldum þeirri hefð og gerum henni hátt undir höfði, sem hefur hér skapast og flestir hafa notið góðs af.
Með því að ryðja kristinni trú úr litlum jólum grunnskólana er sannarlega verið að höggva skarð í menningarsögu þjóðarinnar. Kynslóð eftir kynslóð hefur sett upp jólahelgileik í nánast hverjum grunnskóla þessa lands. Þar sem börnin fá tækifæri til þess að minna sig og aðra á það hvers vegna allt tilstandið er í desember, og er sá vettvangur þar sem þau taka sig út úr þeim skarkala sem einkennir annars samfélagið í þessum mánuði.
Hvað er hættulegt við það, hvernig getur sá boðskapur verið börnum varasamur? Er kennurum þessa lands virkilega ekki treystandi til þess að kenna um þessa hlið menningar okkar án þess að það sé niðrandi fyrir aðrar lífsskoðanir? Viljum við virkilega draga úr hátíðleika litlu jólanna í grunnskólunum landsins svo eftir standi aðeins piparkökur og pakkaskipti?
Stundum hafa sumir hópar haldið því fram að hið fullkomna trúfrelsi náist með aðskilnaði ríkis og kirkju. Nú hafa trúleysingjar þó stigið skrefi lengra og á forsendum umbyrðarlyndis krefjast þeir aðskilnaðar ríkis og trúar- og menningarhefðar. Það er alvarlegt mál þegar við þurfum að láta af þeim siðum sem hér hafa ríkt um aldir, eingöngu vegna þess að hávær minnihlutahópur finnst á sér brotið þegar friðar og kærleikans boðskapur Jesú Krists nær út fyrir veggi kirkjunnar. Það er sannarlega misskilið umburðarlyndi.
Fyrir mikla Guðs mildi ríkir trúfrelsi hér í landinu sem er stjórnarskrárvarið. Það þýðir að öllum er frjálst að ástunda trú sína, hver svo sem hún er. Með trúarbrögðum sem við þekkjum lítið fylgja oft siðir sem okkur eru framandi. Og í stað þess að kynna okkur trúarbrögðin til hlítar erum við oft fljót að dæma vegna vanþekkingar okkar.
Það er löngu þekkt staðreynd að fordómar eru afleiðingar óöryggis og vanþekkingar. Við þurfum að vera örugg á því fyrir hvað íslenskt samfélag stendur, á hvaða grunni það byggir og hvert við viljum að það stefni. Fordómar eru aldrei af hinu góða og þess vegna er það skylda okkar samfélags að auka þekkingu æskunnar á ólíkum menningarheimum en ekki síður á þeirri trú sem hin íslenska þjóð hefur aðhyllst í tíu aldir. Ef sjálfsmynd þjóðarinnar stendur ekki á kláru, er líklegt að erfiðara reynist að meðtaka þá sem hingað flytjast frá öðrum menningarsvæðum án fordóma og óöryggis.
Þess vegna hefur það kannski aldrei verið eins mikilvægt eins og nú að gera kristinfræði hærra undir höfði til þess að við getum átt samræður við önnur trúarbrögð og boðið þau velkomin í samfélag okkar.
Og á sama hátt er afar brýnt að leggja áherslu á hin kristnu gildi í samfélaginu almennt þar sem stundum virðist skorta á þekkinguna á réttu og röngu og siðferðislegir þröskuldar þjóðfélagsins hafa lækkað. Okkur hafa verið gefnar leiðbeiningar til þess að geta lifað góðu og innihaldsríku lífi, meta það sem raunverulegu máli skiptir og þar hvílir áhersla trúarinnar.
Áhrif trúar á siðferðisvitundina getur verið afar sterk og hvetur okkur til að ástunda kærleikans verk. Það kemur hvað skýrast fram nú á aðventu þar sem hugur þjóðarinnar er bundinn við jólin og þann boðskap sem Kristur kenndi og stendur fyrir. Mætti sá boðskapur verða okkur efstur í huga allt árið um kring.
Og þessi boðskapur er ekki aðeins mikilvægur til þess að verða læs á sögu og menningu þjóðarinnar, heldur fyrst og fremst fyrir þær sakir að hann er frá Guði kominn. Í guðspjalli dagsins er vísað til guðdóms Krists og til hvers hann er raunverulega megnugur.
Á aðventunni undirbúum við okkur fyrir komu Krists, höldum upp á fæðingarhátíðina er Jesús kom í heiminn með látlausum hætti í fjárhúsinu í Betlehem og fáir vissu af. Í dag íhugum við komu Krists er hann kemur öðru sinni. Samkvæmt lýsingum guðspjallsins er það með öllu fyrirferðameiri hætti en þegar hann fæddist á hinum fyrstu jólum. Öll náttúrulögmál raskast, tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og kraftar himnanna munu riðlast og menn munu óttast. En einn er sá sem engum náttúrulögmálum lýtur, heldur er sá Guð sem líknar og leysir. Hann er sá sem valdið hefur og er sá Guð sem öll mannsins börn þurfa að heyra um og lúta. Þegar hann kom hér í heiminn gaf hann okkur þær leiðbeiningar sem við þurfum á að halda til þess að lifa góðu og innihaldsríku lífi. Í þeim boðskap hvílir hvatning okkur Kristnum til handa, til þess að vera undirbúin fyrir þá komu sem Jesús boðar í guðspjallstextanum. Jesús Kristur býður að lausn okkar er í nánd. Frelsunin er í hendi Guðs eins. Trúin treystir fyrirheitunum og Guð vill að allir verði hólpnir. Í því birtist hans óendanlegi kærleikur til okkar manna að einmitt þess vegna gaf hann einkason sinn, svo að allir gætu skilið boðskap hans og vilja.
Um það verður ekki deilt að sá kærleiksboðskapur sem kristin trú boðar hefur haft meiri áhrif á menningu okkar, trú og siði en nokkuð annað. Það er vilji stærsta hluta þjóðarinnar að svo verði áfram, sem sést hvað best á því að tæp 90% barna sem hér fæðast eru borin til skírnar. Þess vegna verðum að leyfa Guðs orði að vera lifandi í samfélaginu.
Verum óhrædd við umræðuna um trúarbrögðin. Til þess að sýna umburðarlyndi í garð annarra þurfum við ekki að gefa afslátt okkar siðum og menningu. Þvert á móti, leyfum skoðunum annarra að skína, en þorum að standa samt fast á þeirri skoðun og siðum sem við sjálf höfum.
Nú kemur heimsins hjálparráð, Jesús Kristur. Hann er sá Guð sem stendur mér þér, sem vill ganga með þér gegnum lífið. Reisa þig við er þú hrasar, áminna þig er þú reikar á rangri leið, þerra tárin er þú grætur. En umfram allt sá Guð er lætur sig þig varða. Undirbúum okkur fyrir komuna og leyfum þeim kærleiksríka gleðiboðskap sem Kristur stendur fyrir að heyrast. Sjálfum okkur til blessunar, Guði til dýrðar.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verða mun um aldir alda. Amen.