Stundaglasið

Stundaglasið

Ein mínúta getur verið lengi að líða ef maður fer að bíða eftir að sandurinn renni niður en þegar maður horfir á hann og nýtur þessa að upplifa hreyfingu hans er mínútan fljót að líða. Neðra glasið byrjar tómt en fyllist smá saman. Efra glasið byrjar fullt en endar tómt. Það er stöðug hreyfing, stöðug breyting.
fullname - andlitsmynd Ragnheiður Sverrisdóttir
01. janúar 2013
Flokkar

Stundaglas

Mér finnst gaman að horfa á sandinn í þessu stundaglasi renna niður úr efri hluta glassins í neðri hluta þess. Það tekur tæpa eina mínútu. Stundaglas er notað til að mæla tíma en það er ekki mikið notað í dag nema kannski til skemmtunar eins og þetta glas hérna. Ég keypti þetta sem leikfang fyrir dótturdóttur mína en sennilega hef ég haft meiri ánægju af því en hún. Ein mínúta getur verið lengi að líða ef maður fer að bíða eftir að sandurinn renni niður en þegar maður horfir á hann og nýtur þessa að upplifa hreyfingu hans er mínútan fljót að líða. Neðra glasið byrjar tómt en fyllist smá saman. Efra glasið byrjar fullt en endar tómt. Það er stöðug hreyfing, stöðug breyting.

Nýtt ár – nýtt upphaf

Tíminn er mældur á ýmsa fleiri vegu t.d. í árum og nú er nýtt ár hafið og síðasta ár er búið. Nýtt ár er nýtt upphaf, ný byrjun. Þú getur litið á Nýjársdag sem nýtt upphaf í lífi þínu. Nýtt upphaf gefur ný tækifæri. Kannski til að breyta, taka nýja stefnu eða að minnsta kosti að íhuga líf sitt. Alls konar hugsanir koma upp og stundum finnst manni óþarfi að vera að íhuga einhverjar breytingar eða áramótaheit – maður getur sagt að það breytist svo sum ekkert. Það er heldur ekkert nauðsynlegt að vera að breyta bara til að breyta og bara af því að það eru áramót. Öðrum kann að finnst það frábært að velta fyrir sér lifi sínu og horfa á líf sitt og spyrja sig spurninga um það. Spurningin um hvað maður eigi að verða í framtíðinni er mikilvæg fyrir sum t.d. í hvaða framhaldsskóla maður ætti að fara eða hvað mann langi til að gera eftir 10 ár. Aðrir sjá ekki fyrir sér að lífið eftir 10 ár hafi mikið val fólgið í sér en líf okkar fer eftir ýmsum aðstæðum t.d. aldri og heilsu. Við getum valið margt en svo er sumt sem við veljum ekki. Það bara kemur til okkar óboðið. Það getur bæði verði óvænt gleði og ánægja en líka andstæða þess eins og sjúkdómar, atvinnumissir og erfiðleikar í skólanum. Stundum hefur stundaglasið verið notað um lífið sem smá saman líður og lýkur svo einn daginn. Það er nú frekar dapurlegt að staldra of mikið við dauðann á þennan hátt en hann getum við samt ekki flúið. Það versta er að það er ekki jafn mikill sandur í öllum glösum. En á meðan líf okkar varir erum við þátttakendur í því. Í dag er nýtt upphaf og Jesús Kristur boðaði nýtt upphaf, í raunar byltingu sem kostaði hann lífið. Að horfa á trúarlíf sitt um áramót getur verið gagnlegt vilji maður þroskast andlega, öðlast nýtt líf eða staðfesta það sem er fyrir t.d. segja „ég ætla að halda áfram að fylgja Jesú Kristi.“ Við getum litið á þátttöku okkar í þessari guðsþjónustu sem nýtt upphaf í trúarlífinu. Hér höfum við tekið frá tíma til að gefa okkur tækifæri til að iðka trú okkar. Við fáum bæði að gefa og þiggja. Stundum er notað orðalagið að gefa Guði dýrðina. Það gerum við þegar við lofum Guð og þökkum með orðum okkar hér og nú. Við þiggjum leiðsögn Guðs og blessun, hlustum á hann og biðjum.

Guðspjallið (Jóh. 2.23-25)

Nýjársdagur er átta dögum eftir jóladag og á þeim degi var Jesús umskorinn og gefið nafn. Það var og er hefð hjá Gyðingum að hafa þessa athöfn átta dögum eftir fæðingu. Til að lýsa hlutverki Jesús eru notuð margvísleg nöfn og við þekkjum nafnið Kristur eða Messías best. Það lýsir konungdómi hans. Í Gamla testamentinu eru fleiri nöfn sem gefa til kynna hver hann er þ.e. Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi. En guðspjall dagsins fjallaði ekki um umskurnina og nafngjöfina heldur um Jesús þegar hann var orðinn fullorðinn og margir trúðu á hann. Þar er persónu hans lýst. Hann þurfti ekki að „markaðsfæra“ sig sem leiðtoga fólksins eins og hann væri í framboði. Á nýju ári fáum við að heyra og sjá slíkar persónur sem eiga allt undir því að fá gott almenningsálit og að hann eða hún sé sá eða sú sem getur leyst allan pólitískan vanda. Jesús var öðruvísi því hann vissi hver hann var og var öruggur í hlutverki sínu. Fólk trúði á hann vegna verka hans og þau voru tákn frá Guði um að hann væri sonur Guðs. Hann var ekta en ekki skrum. Hann vildi að boðskapur sinn yrði boðaður áfram eftir dauða sinn og bauð lærisveinum sínum að prédika og vitna um miskunn Guðs og fyrirgefningu syndanna eins og við heyrðum um í öðrum ritningarlestri. (Post. 10.42-43). Ferðalag

Jesús var á stöðugu ferðalagi þau þrjú ár sem hann starfaði en erum við ekki líka á ferðalagi? Við fórum alla vega í ferðalag til að komast hingað. Slíkt ferðalag frá einum stað til annars getum kallað ytra ferðalag. Við erum iðulega að ferðast á þann hátt. En núna í þessari guðsþjónustu erum við á annars konar ferðalagi - innra ferðalagi þ.e. ferðalagi sem við eigum með okkur sjálfum innra með okkur, ferðalagi þar sem við sitjum kyrr og látum ferðina vera ferð hjartans og hugans. Á þessu ferðalagi erum við að þjóna Guði eins og orðið guðsþjónusta felur í sér. Okkur langar að vera saman og kristin trú leggur mikla áherslu á samfélag, að vera saman og deila kjörum.Vera saman í hinu innra ferðalagi þó þau geti verið ólík. Við vitum að við þjónum Guði á margan annan hátt en að vera í kirkju. Einnig vitum við að við mætum Guði alls staðar en samt komum við hingað og tökum frá sérstakan tíma til að vera með Guði. Guðsþjónusta er frátekinn tími til að hlusta á Guð, lofsyngja hann, tilbiðja hann og þakka honum, slást í för með honum. Vera með honum á okkar innra ferðalagi.

Drottinleg blessun (4.Mós. 6.22-27)

Fyrri ritningarlesturinn Drottinleg blessun. Ég ætla að ljúka þessari prédikun með íhugun um hana. Svona hljómar hún: Drottinn blessi þig og varðveiti þig, Drottin láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur, Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið. Þið þekkið þessa blessun því henni er lýst í lok hverrar messu. Mér finnst mér ekki veita af að fá blessun með mér út úr kirkjunni til að fara útí daglega lífið. Þess vegna opna ég lófana til að taka á móti blessuninni á táknrænan hátt. Taka blessunina með mér eins og gjöf sem lögð er í lófa minn. Þannig get ég tekið hana með mér sannfærð um að hún gefi mér styrk til að vera áframhaldandi lærisveinn Jesú. Ég er af og til með guðsþjónustu í Kolaportinu og þar endum við alltaf með því að ganga á milli fólksins og gera krossmark í lófa þess með olíu og segja blessunarorðin um leið. Þannig langar mig einnig að gera hér í dag í lok messunnar. Það getur orði okkur tákn um að stundaglas okkar er fyllt blessun Guðs á nýju ári. Dýrð sé Guði, föður,syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen