Allir menn leiða einhvern tímann hugann að Guði og spyrja sig ýmissa spurninga um veru hans. Þessar spurningar eru nátengdar lífi mannanna í heiminum og leit þeirra að tilgangi. Sumir eru fljótir að afskrifa Guð með ýmsum rökum og beygja sig bara hljóðalaust undir tilgangsleysi lífsins en aðrir nema staðar um stund og glíma við spurninguna um eðli hans og tilvist. Velta vöngum yfir stöðu mannsins í heiminum ef Guð er einhvers staðar á kreiki. Spyrja um tilgang Guðs með veraldarsiglingunni. Á mörgum tímabilum mannkynssögunnar hafa menn talið að Guð væri handan tilverunnar – utan við hana. Fjarlægur og óræður. Hann hefði vakið heiminn til lífs og látið sig síðan hverfa. Litið kannski annað slagið á gangvirki heimsins til að sjá hvað væri á seyði. Enn aðrir hafa talið Guð vera á ferli alls staðar í heiminum og ekki síst í náttúrunni. Sólin sem kom upp var sem heitt hjarta Guðs og máninn sem leið upp á himininn dularfull kveðja hans að kveldi dags. Í andvara næturinnar gekk hann léttum skrefum til þess að vekja engan. En hann var alls staðar – í öllu. Sýnilegur en þó ósýnilegur – og kannski dálítið duttlungarfullur. Enn aðrir hafa talið hann taka fullan þátt í framgangi sögunnar og jafnvel ávítt hann fyrir að vera full afskiptasamur.
Fyrri tíðar menn áttu sennilega í minni erfiðleikum en við sem þeytumst um í nútímanum að tala um Guð og hugsa um hann. Tilvist Guðs var svo sjálfsögð og varpaði ljósi á öll fyrirbæri heimsins - menn vísuðu bara til Guðs til að útskýra þau og fáir gátu svo sem andmælt eða lagt fram aðrar sennilegri skýringar. En framfarir í vísindum og tækni ýttu smám saman út öllum útskýringum sem áttu rót sína hjá Guði. Engu að síður voru óleyst mál látin liggja óhreyfð á borði Guðs.
Menn hafa sem sagt haft ýmsar hugmyndir um Guð, já svo margar að ógert var að benda á eina mynd af þeim aragrúa og segja: Þetta er Guð. Hugmyndir manna um Guð hafa líka tekið stórstígum breytingum í aldanna rás og sumar náð fótfestu um lengri tíma en aðrar um skemmri.
Hugsun kristinna manna um Guð stendur föstum fótum í fornum ritum. Sennilega hafa fá rit verið jafnmikið rannsökuð sem þau. Margvíslegir trúarstraumar eiga upptök sín í þeim og draga dám sitt af því hvaða augum menn líta ritningarnar. Sumir trúa hverju orði sem þar stendur og fylla því raðir bókstafstrúarmanna en aðrir telja sig þurfa að túlka þau eða komast að því hvað höfundar þeirra ætluðu sér í raun og veru að færa fram. Enn aðrir hafa fundið viðspyrnu í ritum sem byggja á hinum fornu ritningum eins og til dæmis dæmis ýmsum trúarjátningum sem eiga að draga fram kjarna trúarinnar og útskýra það sem óljóst kann að þykja eða hnykkja á öðru.
Kjarni kristinnar trúar er Jesús Kristur. Öll þau rit sem við höfum í höndunum um hann eru mótuð af trú og eru í raun og veru trúboðsrit. Hæpið er að blása trúarhugsun höfundanna á haf út og virða fyrir sér persónu Jesú frá Nasaret áður en höfundarnir og trúarsamfélag þeirra settu mark sitt á hana. Frásögnunum verður ekki breytt – en þær verða ætíð viðfangsefni hugsunar okkar og þar er túlkun okkar eitt aðal tækið til að komast að því hver boðskapur þeirra er. Túlkunin er lykill sem ekki má gleymast né týnast.
Stundum er sagt að hugsun manna um Guð sé nátengd tilfinningalífi þeirra. Við þekkjum öll fólk sem á sterka trú og sumir gefa sig á vald heitum tilfinningum þegar að trúnni kemur. En að baki þessum tilfinningum býr ákveðin túlkun.
Fjölmargir nútímamenn hugsa til Guðs þegar þeir glíma við grundvallarspurningar lífsins eins og t.d. tilgang og eðli þess, hvernig tíminn meitlar manneskjurnar; þær lifa og deyja. Andspænis dauðanum sem hvarvetna má sjá í heiminum er manneskjan óttaslegin og spurul. En kristin trú svarar t.d. þeirri spurningu og vekur aðrar. Okkar er að lesa – og túlka.