Ég er ekki tæknifróður maður og iðulega þarf ég að fá aðstoð sérfræðinga þegar ég lendi í vandræðum með þann flókna búnað sem er allt í kringum mig. Já, það er vandlifað í henni veröld og ég, eins og aðrir nútímamenn, notast við hátækni á hverjum degi, margsinnis án þess að leiða hugann að því – nema auðvitað þegar græjurnar hætta að virka.
Slökkt og kveikt
Þegar loks hefur tekist að hafa upp á kunnáttufólki finnst mér eins og ráðið sé oftar en ekki hið sama. Það er alveg ótrúlegt hversu miklu það virðist breyta í flóknum heimi hátækni einmitt þetta einfalda ráð að slökkva á gripnum, bíða í nokkur andartök og kveikja svo á honum að nýju. Ekki veit ég hvaða undur og stórmerki eiga sér stað í fínofnu innvolsinu við þessar einföldu aðgerðir en þær duga nánast alltaf hvort sem það er tölvan, síminn eða myndlykillinn. Slökkva og kveikja – viti menn allt er komið í lag að nýju.
Nú deili ég þeirri vangaveltu með ykkur ágætu hlustendur hvort svipuð lögmál eigi við um okkur mennina.
Því samtími okkar einkennist ekki aðeins af síflottari og flóknari tækjum. Við þurfum líka stöðugt að endurskoða og endurmeta það hvernig við hugsum um tilveru okkar og hvað okkur kann að finnast um það sem í kringum okkur er. Þetta á við um fyrirbærin og efnisheiminn sem við erum hluti af. Fréttir berast af makalausum tilgátum sem spekingar hafa komið með varðandi eðli alheimsins. Kynslóðum saman töldu menn að jörðin væri miðpunktur alheimsins. Svo var það sólin. Þegar hugrakkir hugsuðir sýndu fram á að sú væri fjarri því raunin olli það miklu uppnámi svo sem kunnugt er. Nú vitum við að miðjan er engin í óravíddum alheimsins og við erum agnarsmá á þeim mælikvarða. Undir það síðasta hefur fólk sett fram efasemdir um það sem hingað til hefur verið talið sjálfsagt, nefnilega að alheimurinn okkar sé sá eini. Kenningin gengur út á að margir aðrir slíkir hafi mótast í gegnum tíðina og einhvern veginn verður þetta svo stórt og yfirþyrmandi að venjulegu fólki hljóta að fallast hendur að skilja þessi ósköp. Nema þá til þess eins að vita og skilja að við þurfum að temja okkur þá auðmýkt að vera tilbúin að viðurkenna að við sjáum heiminn eins og í gegnum skuggsjá, í ráðgátu eins og postulinn sagði.
Eða eins og hann segir í pistli dagsins:
Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans! Hver hefur þekkt huga Drottins?
Það felur í sér að við höngum ekki á þeirri heimsmynd sem við höfum vanið okkur við. Tilveran er svo margbrotin að hún kemur okkur sífellt í opna skjöldu. Það er eitt af því fáa sem við getum tekið sem gefnu.
Þetta á auðvitað ekki síður við um fólkið sem er í kringum okkur. Erum við ekki stöðugt áminnt um að hlaupa ekki með fordóma gagnvart þeim sem á vegi okkar verða í lífinu?
Illa upp alin börn?
Eitt sinn heyrði ég merkilega sögu af manni sem bjó í stórborg vestanhafs og var vanur að ferðast til og frá vinnu í neðanjarðarlest. Þreyttur að loknum vinnudegi sat hann í þéttskipuðum vagninum og beið þess að ferðin tæki enda og hann kæmist til síns heima. Meðal farþega var maður með tveimur börnum sínum og börnin létu ófriðlega. Þau ollu miklum ama þar sem þau ólmuðust og hrópuðu. Faðirinn aðhafðist ekkert og reyndi ekki að róa börnin sem voru farin að reyna á þolrif farþeganna. Loks var sögumanni nóg boðið. Hann vatt sér að manninum og spurði hvort hann þyrfti ekki standa sig betur í uppeldinu. Stæði honum virkilega á sama afkvæmi hans yllu vinnulúnu fólki slíku ónæði? Vissi hann ekki hvað hann ætti að gera með þessi hávaðasömu börn? Og maðurinn sagðist ekki vita hvað hann ætti að gera. Þau væru nýkomin frá sjúkrahúsinu. Einkona hans og móðir barnanna hefði þar legið banaleguna og nú voru þau á heimleið eftir að hún hafði skilið við. Börnin voru því yfirbuguð af sorg og hún braust út í þeim ófriði sem þau sýndu.
Hvernig skyldi nú sögumanni okkar hafa liðið er hann fékk þessa skýringu?
Nú fylltist hann ekki vandlætingu heldur fann hann til hluttekningar í garð mannsins og barnanna. Gagnrýnin beindist í einni andrá að honum sjálfum og þetta atvik leið honum aldrei úr minni. Það var mikilvægur prófsteinn á hann sjálfan og það hvernig hann dró ályktanir um samferðafólk sitt – oft í fljótfærni að óathuguðu máli.
Þekkjum við sambærilegar frásagnir úr okkar lífi? Höfum við fellt ranga dóma um það fólk sem okkur finnst í fljótu bragði óþægilegt að umgangast? Þetta þekkjum við af nýliðinni umræðu í samfélaginu. Við getum reynt að setja okkur í spor fólks sem aðhyllist þann átrúnað hversu þrúgandi það er að vera settur undir hinn sama hatt og það ofstækisfólk sem kemst í heimsfréttirnar fyrir óhæfuverk sín. Við getum með sama hætti reynt að skilja hvernig fólki líður sem sætir aðkasti vegna kynhneigðar eða húðlitar. Hversu dýrmætt er það að geta mætt manneskjunni á jafnréttisgrunni og fagnað fjölbreytileikanum í stað þess að tortryggja hann?
Endurræst og endurfæðst
Já, stundum kemur veruleikinn okkur annarlega fyrir sjónir. Og stundum þurfum við að endurræsa okkur eins og við gerum svo oft með tækin. Við slökkvum á þeim gamla þankagangi og kveikjum á nýrri sýn á lífið og tilveruna. Tilefnið er ekki alltaf þægilegt en ef við berum gæfu til þess að endurskoða það hvernig við hugsum þá stöndum við eftir sem betri manneskjur.
Hvernig getur maður fæðst að nýju? Svona spurði faríseinn Nikódemus í guðspjalli dagsins. Skyldi maður fara aftur í líf móður sinnar?
Það er alltaf sama sagan í frásögnum af Jesú. Þar er ekki vegið að þeim hópum sem fólk var almennt á því að væru á villigötum. Þetta vakti athygli fólks og jafnvel hneykslun því með þessu sýndi Kristur þeim stuðning sem þóttu vera óhreinir og óforbetranlegir. Fólkið fylltist sömu vandlætingu og sögumaðurinn í lestinni sem ég sagði frá hér áðan – það furðaði sig á því að Jesús skyldi eiga samfélag við tollheimtumenn, skækjur og bersynduga eins og þeir voru kallaðir. En svo setti hann fram hárbeitta gagnrýni og hann vandaði um fyrir mönnum. En þá voru það oftar en ekki hinir frómu og réttlátu sem fengu að kynnast því hversu takmörkuð þekking þeirra var og breytnin ámælisverð þrátt fyrir það í hve miklu áliti þeir voru meðal samferðafólks og þeirra sjálfra, vitaskuld.
Í þessu guðspjalli er fjallað um þetta óræða hugtak endurfæðinguna. Og það er ekki að undra að orð Krists um það að hver sá sem fylgi honum þurfi að fæðast að nýju skuli vekja athygli hins hámenntaða farísea. Hann á þó að vita betur en hugmyndin var vel þekkt meðal gyðinga. Kristur færir orð hans í samhengi hins jarðneska og þess himneska. Hann sýnir fram á að um leið og við tökum trú á hann og þann róttæka en kærleiksríka boðskap sem hann flutti, þá er eins og við höfum fæðst að nýju.
Skýringarnar eru þó ekki jarðbundnari en þetta. Við fáum að skynja að hér er enn talað í þeirri miklu ráðgátu sem postulinn talar um þar sem þekking Guðs er æðri hverjum skilningi. En við komumst engu að síður nærri því að skilja hvað í endurfæðingunni felst þegar við lítum í eigin barm og rifjum upp eitthvert það skipti sem fékk okkur til þess að líta á heiminn nýjum augum. Sagan af manninum í lestarvagninum geymir slíka frásögn. Í því tilviki breytti hún ekki bara hugmyndum mannsins um föðurinn og börnin sem með honum voru. Hún hvatti hann til þess að líta á samferðafólk sitt öðrum augum en hann hafði áður vanist. Hann gerði sér betur grein fyrir því að á baki því sem augun sjá og eyrun heyra leynist atburðarrás og saga sem ekki blasir við í fyrstu. Þess vegna þarf að leggja sig fram um að skilja manneskjuna og mæta henni á sínum eigin forsendum. Hún birtist í því þegar við lítum umhverfi okkar nýjum augum þótt það líti eins út og það gerði. Skyndilega stöndum við á öðrum stað og það sem áður hafði virst óhugsandi er raunhæfur möguleiki.
Endurfæðing er nokkuð sem tilheyrir því að vera kristin manneskja. Við erum tekin inn í söfnuð Krists í skírninni og það er til staðfestingar á því að náð Guðs er ekki eitthvað sem við við vinnum okkur inn heldur er hún gjöf til okkar. En boðunin mætir okkur í lífinu í orði Guðs. Þar kynnumst við því hvað það er að fylla raðir kristinna manna. Það er að líta á náungann og finna þar eitthvað sem er gott og byggir upp. Það er að finna jafnvel eitthvað dýrmætt í sálu þeirra sem allir aðrir hafa fordæmt og standa upp fyrir þeim sem eru utangarðs og úthrópaðir.
Jafnvel og ekki síst þegar þeir hafa fundið tilgang og lífsfyllingu í öðrum trúarbrögðum en þeim sem Kristur boðaði. Það er jú engin tilviljun að gagnrýni hans skyldi beinast einkum að hinum frómu og réttlátu. Því hann sýndi fram á hve grunnt var á því góða ef það fól í sér að stöðugt þyrfti að lítillækka aðra sem þóttu vera síðri. Þetta er ein mynd þeirrar endurfæðingar sem kristnir menn ganga á í gegnum er þeir sýna og staðfesta að þeir eru heilir í köllun sinni.
En sem breyskar og syndugar manneskjur þurfum við stöðugt að vera á varðbergi fyrir því að okkur kann að reka af réttri leið og við erum stöðugt í hættu á því að falla í gryfju fordóma og ranglætis. Hið framandlega ógnar okkur og okkur hættir til þess að dæma fólk og meta það léttvægt. Þá kemur að því að minnast þess að kristnir menn eru endurfæddir. Við endurræsum okkur, við stígum út úr aðstæðunum og hugleiðum það hver köllun okkar er og tilgangur. Þá sjáum við fordæmi Krists og þá leiðsögn sem hann veitir okkur.