Svo er um himnaríki sem mann er ætlaði úr landi. Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gerði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það.Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gera skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm. Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.
Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær. Og húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.
Loks kom sá er fékk eina talentu og sagði: Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt. Og húsbóndi hans sagði við hann: Illi og lati þjónn, þú vissir að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim. Takið af honum talentuna og fáið þeim sem hefur tíu talenturnar. Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.
Matt. 25:14-30
Ég horfi á kort með mörgum litlum mannsmyndum sem raðað er í hálfhring í kringum eina hvíta mannveru. Við skulum láta hvíta spjaldið hérna við altarið minna okkur á þessa hvítu mannsmynd. Fyrsta mannsmyndin er rauð og svo breytast litirnir. Síðasta mannsmyndin í hálfhringnum er alveg fagurgræn. Kallarnir og kellingarnar á skýringarmyndinni erum við manneskjurnar í samfélagi hver við aðra sem börn og fullorðnir. Í því samfélagi er til vinátta, vernd, öryggi og gleði. Þar er líka til einelti, ofbeldi, illkvittni og einmanaleiki. Kallinn í miðjunni táknar einstakling sem verður fyrir einelti. Mannsmyndirnar í ólíku litunum sem raðað er í kringum þá hvítu eru allir hinir sem umgangast þann sem lagður er í einelti.
Einelti getur verið svo margþætt. Á heimasíðu Regnbogabarna sem berjast gegn einelti eru taldar upp þessar tegundir eineltis:
- Uppnefningar og baktal
- Sögur sem sagðar eru til að koma öðrum í vandræði
- Að fólk sé talið frá því að spjalla eða vingast við ákveðna einstaklinga
- Þegar gert er grín af öðrum vegna útlits eða þyngdar
- Þegar hæðst er að menningu, trú eða húðlit eintaklings
- Þegar hæðst að fötlun eða heilsuleysi
- Þegar ákveðnir einstaklingar fá ekki að vera með í leikjum
- Þegar ítrekað er gert er grín að einstaklingi sem tekur því nærri sér
- Þegar sendir eru illkvittin sms eða netpóstar
- Þegar neitað er að vinna með ákveðnum einstaklingum í skólanum
- Þegar eigur annara eru eyðilagðar
- Þegar beitt er líkamlegum meiðingum, sparkað, slegið, hrækt eða einstaklingur felldur
Einelti er reyndar ekki nema þriggja alda gamalt orð í íslensku, og önnur afbrigði orðsins eru einelta og einelting. Þetta er gott orð og gagnsætt og þýðir að veita einhverjum einum eftirför, reyna að ná og elta á röndum. Einelti og einelta undirstrika þannig hóp sem veitist að einum.
Þegar ég var barn var aldrei talað um einelti, heldur aðeins um krakka sem var mikið strítt. Þegar barni var strítt voru til hundrað skýringar á stríðninni, barnið var of lítið eða of stórt, of þroskað eða of lítið þroskað, það var rauðhært og með gleraugu, eða gat ekkert í leikfimi, eða hafði asnalega rödd, leit útlendingslega út, eða átti einkennilega foreldra. Áherslan var öll á barninu sjálfu, það hlaut eitthvað að vera að þeim sem var strítt. Fáum datt í hug að það væri eitthvað athugavert við þau sem stríddu barninu, eða þau sem stóðu hjá og þóttust ekki taka eftir því þegar bekkjarfélagi þeirra var niðurlægður og skilinn eftir útundan. Og enn færra fólk talaði um að stríðni væri ekki bara eitthvað sem kom fyrir börn í skóla, heldur viðgengist líka meðal fullorðins fólks.
Sem betur hefur umræðan um stríðni, hrekkjusvín, einelti á vinnustað og kynferðislega áreitni breyst frá því að ég var barn. Og samt eru það svo ótrúlega margir sem vilja lítið vita af þessi stóra meini sem eineltið er í samfélagi okkar. Einelti er ekki bara eitthvert vandamál, sem að krakkar vaxa upp úr ef þeir læra að vera nógu kúl. Einelti er bæði félagslegt og heilbrigðislegt vandamál. Einelti er ekki einkamál þess sem verður fyrir því, heldur skömm á hverjum þeim skóla, kirkju, vinnustað, félagsmiðstöð, hverfi, sveitarfélagi, og byggðu bóli sem vill taka það alvarlega að allir eigi að rétt á því að njóta virðingar og öryggis sem manneskjur í samfélagi. Þegar við komum saman sem söfnuður í húsi Guðs til að lofa Guð og íhuga það sem Guð vill að við gerum við okkar eigið líf, þá eigum við ekki að líða einelti. Við eigum ekki að kúga og niðurlægja annað fólk, hvort sem við erum börn í skóla eða fullorðið fólk á vinnumarkaði. Við eigum ekki að stríða öðrum. Við eigum ekki að skilja aðra eftir útundan. Við eigum heldur ekki að líða það að aðrir níðist á fólki fyrir framan okkur. Við eigum ekki að vera eineltingar, hvorki með beinum eða óbeinum hætti.
Ég minnist áðan á heilt eineltislitróf kalla og kellinga sem raðar sér upp í kringum þann sem verður fyrir einelti. Við erum öll á þessu rófi hvort sem okkur líkar betur eða verr vegna þess að við búum í samfélagi þar sem einelti viðgengst. Við erum skólafélaginn, vinnufélaginn, nágranninn, safnaðarmeðlimurinn, vegfarandinn, vinurinn, mamman, pabbinn, systkinið, kennarinn, presturinn. Og þess vegna fenguð þið öll litað spjald með messuskránni ykkar í dag, ekki vegna þess að þið séuð einmitt þeir sem liturinn ykkar táknar, heldur til að undirstrika það að einelti varðar okkur öll. Mörg okkar höfum verið í öllum hlutverkunum, líka hlutverki þess sem lagður er í eineltu.
Rauði kallinn sem ég talaði um er sá sem á frumkvæði að ofbeldinu og tekur virkan þátt í því. Rauði kallinn var kallaður hrekkjusvín þegar ég var barn og helsta ráðið gegn hrekkjusvíninu var gjarnan talið að forðast það. Það er ekki auðvelt að beita því ráði þegar maður er með hrekkjusvíninu í bekk, eða það vinnur á skrifborðinu við hliðina. Hitt má ekki gleymast að í eineltishringnum eru fleiri en hrekkjusvín og þau sem fyrir hrekkjusvínunum verða.
Í eineltisrófinu er líka fjólublái vinur hrekkjusvínsins, sem finnur kannski ekki upp á stríðninni en er alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd.
Síðan er þar guli vinurinn styður eineltið að einhverju leyti, eða er óvirkur en eineltinu samþykkur.
Sá blái hefur enga skoðun á málinu og þykist aldrei taka eftir því. Kannski er hann orðinn svo æfður í því að taka ekki eftir ofbeldi, stríðni, áreitni og einelti að hann heldur í alvöru að svona séu hlutirnir alltaf og að engu sé hægt að breyta.
Hinum megin hringsins er hinn ljósblái sem veit að eineltan er röng, en þorir ekki að skipta sér af henna eða vill það ekki.
Og að lokum er það græni kallinn sem er verndari þeirra sem verða fyrir eineltingu. Geymum hann í hjarta okkar.
* * * Guðspjall dagsins er ein af dæmisögunum sem Jesús sagði. Hún fjallar um peninga, mikla peninga. Þessir peningar voru kallaðir talentur og hver talenta var gríðarmikils virði. Hún jafngilti launum daglaunamanns á dögum Jesú í fimmtán ár. Lágmarkslaun á Íslandi fyrir fulla vinnu eru 165 þúsund krónur og daglaunamaður á Íslandi hefur því 30 milljónir í laun á 15 árum. Ef við ímyndum okkur 30 milljón krónu pening, komumst við nærri þeim upphæðum sem talenturnar í sögu Jesú stóðu fyrir í huga fólksins sem hlustaði á sögurnar hans. Sagan segir frá ríkum manni sem bað þjóna sína um að geyma fyrir sig talentur sínar. Einn fékk fimm, annar tvær og hinn þriðji eina talentu. Hann bað þá alla um að ávaxta talenturnar fyrir sig og fór síðan úr landi. Þegar ríki maðurinn koma aftur og rukkaði þjónana um talenturnar, hafði sá með fimm talenturnar grætt aðrar fimm. 150 milljónirnar sem honum hafði verið trúað fyrir voru komnar upp í 300 milljónir. Þessi með talenturnar tvær var líka montinn, því að hann hafði grætt aðrar tvær. 60 milljónirnar hans voru komnar upp í 120 milljónir. síðustu kom fram þjónninn sem fékk eina talentu. Hann var svo hræddur um að einhver stæli frá sér talentunni að hann gróf hana í jörð og skilaði henni nú aftur til húsbónda síns. Ríki maðurinn varð gríðarlega reiður, skipaði svo fyrir að þjóninum yrði varpað í ystu myrkur og að talentan hans yrði gefin þeim sem mest hafði grætt.
Sagan um talenturnar er alveg furðuleg saga og hún kemur illa við marga sérstaklega eftir hrun. Það er óþægilegt að hlusta á sögur í guðshúsi um hvernig á að græða peninga. Það er enn verra að hugsa til þess að þessi ríki maður í sögunni á alveg augljóslega að tákna Guð. Er Guð þá eins konar útrásarvíkingur sem hugsar ekki um annað en að græða peninga í gegnum skósveina sína og refsar þeim harðlega sem tekur ekki þátt í sukkinu? Er Guð vinur fjárglæframanna sem einbeita sér að háum fjárfestingum og mikilli áhættu? Var það ekki bara gott hjá þjóninum að neita að græða peninga í hinu kapítalíska neyslukapphlaupi og grafa talentuna í jörð í staðinn? Hann tók enga áhættu og skilaði talentunni sem hann hafði verið beðinn um að geyma.
Ekki er verra að rifja upp í þessu sambandi að hæfileikar heita “talent” á ensku. Orðið varð til í þessari yfirfærðu merkingu í ensku á miðöldum fyrir bein áhrif þessarar sögu. Þegar enskumælandi fólk talar um “talent”, þá er ekki fjallað um 30 milljóna gullpening, heldur hæfileika sem okkur er ætlað að rækta. Og þannig hefur sagan gjarnan verið túlkuð á þann hátt að Guð gefi okkur hæfileika og verði óendanlega glöð eða glaður þegar við ávöxtum þær gáfur. Að sama skapi verði eigandi talentnanna reiður og sár þegar við misnotum hæfileika okkar. Þegar við lesum lexíuna og pistilinn í dag þá sjáum við sömu hugsun þar að baki. Við eigum ekki að ofmetnast eða týna okkur í samkeppni, þó svo að við höfum margar og miklar gáfur. Orðið gáfa er náskylt orðinu gjöf vegna þess að gáfur okkar eru gjafir frá Guði. Og við eigum öll hæfileika og gáfur þó að sumir hafi kannski ekki uppgötvað enn hverjar þær gáfur eru.
Það sem er svo spennandi við góðar dæmisögur er að þær bjóða upp á ólíkar túlkanir. Og í dag langar mig til að hugsa um dæmisöguna út frá því sem við ræddum um áðan, það er að segja eineltuna og eineltislitrófið sem við heyrum öll til með einum hætti eða öðrum.
Getur ekki verið að æðsta og besta talentan sem Guð hefur gefið okkur sé sú gáfa að geta laðað fram talentur í fari okkar sjálfra og annarra? Við erum sjálf óendanlega mikils virði, svo mikils virði að 300 milljónir eru einskis virði í samanburði við okkur, hvert og eitt. Getur ekki verið að þær talentur sem Guð hefur lagt í lófa okkar sé að vera öðrum grænn kall og kelling, sem að uppörva og taka eftir, eru öðrum vinur og tekst alltaf að koma auga á eitthvað jákvætt og vonarríkt þrátt fyrir allt? Og að Guð verði óendanlega sár og reið þegar við drepum niður þessar talentur í fari annarra í stað þess að efla þær og vernda? Þau okkar sem upplifað hafa eineltu og komist frá því muna vel þessa grænu kalla og kellingar, sem stundum hafa orðið á vegi okkar. Við þekkjum hið græna í Guði og góðum manneskjum. Það er vegna þeirra sem við eigum gott líf. Það er vegna þeirra sem við þorum að treysta öðrum Það er vegna þeirra sem við þorum að treysta á að við eigum líka talentur og að þær verði metnar að verðleikum og beri ávöxt. Það er vegna þeirra sem við þorum að láta rödd okkar hljóma, lýsa sársauka okkar og segja okkar sögur. Og það er vegna þeirra sem við trúum því að við séum sterk og máttug og við skiptum máli hvert og eitt.
Grundvöllurinn er Kristur segir pistillinn og fáar fyrirmyndir getum við betur fengið en Jesú Krist til að læra að verða grænir kallar og kellingar. Jesús þoldi ekki einelti. Jesús var hugrakkur og hann hjálpaði öðrum að verða hugrakkt og réttsýnt fólk. Jesús sá þau sem aðrir horfðu í gegnum. Jesús talaði við þau sem fannst þau vera alveg glötuð. Jesús varði þau sem voru hædd í samfélaginu og niðurlægð af öðrum. Jesús átti óvenjulega vini. Og Jesús vildi frekar deyja heldur en að verða rauður, fjólublár, gulur, blár eða ljósblár kall. Sá sem tekur þátt í einelti er tæpast að fylgja í fótspor Krists á meðan. Jesús Kristur er þannig fyrirmynd þeirra sem vilja frekar vera Kristseltingar en eineltingar. Eltum Krist í stað þess að veitast hvert að öðru.
Græni kallinn hjálpar eða reynir að hjálpa eftir bestu getu. Græna kellingin tekur eftir þeim sem er skilinn útundan og hefur hann með. Græni kallinn kann að uppörva aðra. Græna kellingin finnur eitthvað jákvætt í okkar fari þegar okkur finnst við alveg glötuð. Græni kallinn brosir til okkar. Græna kellingin verður reið yfir óréttlæti. Græni kallinn yfirvinnur freistinguna af að þykjast ekki sjá neitt, þó að það sé þægilegt. Græna kellingin er hugrökk. Græna kellingin og græni kallinn kunna að ávaxta talentur. Græna kellingin og græni kallinn eru að gera það sem Guð vill að við gerum. Og þess vegna fengum við öll grænan miða til að taka með okkur heim og minna okkur á það hvernig við eigum að rækta talenturnar okkar í vikunni sem í hönd fer.
Guð gefi okkur öllum að verða Kristseltingar í næstu viku og allar vikur. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.