Ég hlustaði á vitra konu, sem líka er prestur, tala um kirkjuna. Hún talaði með næmleik um vanda dreifbýlis og þéttbýlis og stöðu og hlutverk kirkjunnar. Svo sagði hún, að vandi kirkjunnar í dreifbýlinu væri kannski hvað sárastur, þegar fólk nyti ekki athygli.
Þetta var sláandi athugasemd og ég staldraði við. Getur verið að þetta sé kirkjumein? Er kannski athyglisbrestur einn meginvandi okkar kirkju? Það er dyggð að sjá fólk, í gleði þess og sorg, í vanda þess og vegsemd. Engin manneskja verður til nema vera séð. Ef enginn sér fólk byrjar það að deyja, svo afdrifaríkur og skelfilegur er skortur tillits. Þegar fólk hylur sig gegn augliti Guðs færist myrkrið nær.
Hrifin augu vekja viðbrögð. Elskurík móður- og föðuraugu sjá mennsku í barni sínu. Þær augnagotur ástarinnar verða til að draga eða kalla fram andlega auðlegð þess og þroska. Guð sér okkur menn og þess vegna verður lífið gott og gjöfult. Athygli Guðs bjargaði heiminum.
Það er æviverkefni að stæla sjón. Við megum gjarnan læra að sjá betur, líka heyra betur og finna meira til með öðrum. Og við þurfum æfa okkur. Við ættum líka að stunda stífar hrósæfingar, segja fólki þegar það gerir gott. Auðvitað eigum við ekki að leggja af gagnrýni, heldur fylgja henni eftir með H-vítamíninu – hrósi. Við prestar megum gjarnan vera góð fyrirmynd í að veita fólki næma athygli. Kirkjulegir starfsmenn mega veita fólkinu í samfélaginu og kirkjunni athygli. Allir þarfnast þess að vera séðir.
Athygli varðar biskupsþjónustuna. Að vera biskup er að vera episkopos, sá eða sú sem sér, nemur og iðkar tilsjón. Eitt af mikilvægustu verkefnum og skyldum biskups í framtíðinni er að sjá og heyra í fólki - í dreifbýli og í þéttbýli. Og til að tilsjónin verði skilvirk þarf biskup að veita athygli - næma athygli.