Árið 2012 verður ár biskupakosninga. Biskup Íslands og vígslubiskup Hólastiftis hafa báðir tilkynnt að þeir muni láta af biskupsþjónustu á næsta ári
Áður en við förum að nefna nöfn þarf að fara fram málefnaleg umræða um það hvernig biskupa við viljum. Þetta á sérstaklega við um embætti biskups Íslands.
Munum við standa upprétt eftir þessar kosningar sem kirkja sem gengur með þjóðinni, meðlimum sínum, inn í framtíðina? Eða verðum við skilin eftir og yfirgefin af þjóð sem hrópar á breytingar?
Mörg okkar telja mikilvægt að kona veljist sem næsti biskup Íslands. Ég er ein þeirra þó ég muni heldur velja karl sem setur jafnréttismál á oddinn (feminista) en konu sem ekki mun vinna að því að jafna stöðu kvenna og karla í kirkjunni. Eins og staðan er nú situr engin kona biskupafund og það þarf að lagfæra með því að velja konu að minnsta kosti í annað embætttið næsta sumar.
Ég tel ekki nauðsynlegt að taka fram að guðfræði biskupskandídatsins sé afar mikilvæg sem og sýn hans á manneskjuna.
Þrjú atriði önnu tel ég að gott sé að hafa í huga þegar næsti biskup Íslands verður valinn.
Í fyrsta lagi þarf biskupsefnið að vera manneskja sem ljóst er að muni gera það sem í hennar valdi stendur til þess að jafnréttislögum og jafnréttisstefnu Þjóðkirkjunnar verði fylgt. Það er löngu kominn tími til að jafna stöðu kynjanna þegar kemur að vali á prestum, bikupum, kirkjuþings- og kirkjuráðsfulltrúum og fulltrúum í nefndir og ráð kirkjunnar. Fleiri ákærur á biskupsembættið vegna brota á jafnréttislögum mega ekki líðast.
Í öðru lagi þarf biskupsefnið að vera manneskja sem ber virðingu fyrir stjórnsýslulögum og fylgir þeim. Biskupinn á ekki að vera þræll stjórnsýslunnar en verður að gera allt sem í hans valdi stendur til þess að lögum og reglum sé fylgt s.s. við val á prestum og djáknum.
Í þriðja lagi er afar brýnt að í embætti biskups Íslands veljist manneskja sem hefur til að bera góða félagsgreind og þroska í samskiptum við annað fólk. Hún þarf að vera diplómatísk þegar svo ber undir en ákveðin og óhrædd við að taka ákvarðanir þegar aðstæður kalla á það. Hún þarf að vera auðmjúk og samstarfsfús og hafa til að bera það sjálfsöryggi sem gerir henni kleift að leyfa öðrum að njóta sín.
Ég óttast ekki að okkur skorti biskupsefni meðal presta sem hafa alla þessa kosti til að bera og marga til viðbótar en ég er hrædd um að mörg þeirra veigri sé við að gefa kost á sér. Ég geri mér grein fyrir því að það hefur ekki verið auðvelt að vera biskup undanfarin ár og mikið hefur mætt á embættinu og persónunni. Ég tel þó að ef sú manneskja sem velst sem næsti biskup verður dugleg að nýta sér allt það greinda og hæfileikaríka fólk sem er að finna í presta- og djáknastétt og meðal óvígðs fólks í kirkjunni þá þurfi hún ekki að óttast.
Því má ekki gleyma að biskupinn þjónar ekki einn. Biskup þjónar með Guði og öðru fólki.
Megi Guð gefa okkur góðar biskupakosningar og leiða okkur í vali á yfirmönnum og hriðum okkar!