Sæl og blessuð guðs börn í fallvöltum heimi

Sæl og blessuð guðs börn í fallvöltum heimi

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
02. nóvember 2003
Flokkar

Guðspjall: Matt. 5: 1-12 Lexia: Jes. 60: 19-21 Pistill: Op. 7: 9-12

Á Allra heilagra messu erum við hér saman komin í fögrum helgidómi sem er tákn hliða himinsins, fordyri að lífsins gleðisölum. Við horfum mót austrinu í sólarátt. Í austrinu hvílir altarið sem er tákn auglitis Guðs og návistar. Tákn þess Guðs sem gefur lífið, ýtir því úr vör og vakir yfir því dagana á jörð og um eilífð alla.

Á altari þessa fagra helgidóms má sjá blómvendi. Þeir minna okkur á það að andspænis Guði er maðurinn smár og umkomulaus og þarf því að reiða sig á miskunn hans í lífi og dauða. Við fáum svo litlu ráðið oft á tíðum á ögurstundum í lífi okkar en Guð gefur okkur styrk og kraft m.a. fyrir hendur þeirra sem er umhugað um okkur til líkama og sálar. Hlýr faðmur Drottins umvefur því okkur, lífsblómin mörgu, á erfiðum stundum en einnig ánægjulegum, á dýrmætum augnablikum í lífi okkar.

Í guðsþjónustu kirkjunnar, tilbeiðslu og þakkargjörð sunnudagsins erum við á sérstakan hátt sameinuð þeim sem á undan eru gengin út úr þrengingu þessa lífs inn í lofsönginn eilífa á himnum. Frelsari mannanna, Jesús Kristur hefur gefið okkur hlutdeild í upprisu sinni og við vonum að við fáum að taka undir lofgjörð englanna á himnum.

Í guðspjalli þessa Drottins dags kemur fram að Jesús hafði sérstaklega mikið aðdráttarafl. Hann dró að sér mikinn mannfjölda og leit yfir rúnum rist andlitin áður en hann tók til máls. Þar gat hann lesið hvað fólkið hafði gengið í gegnum. Þar gat að líta andlega sem veraldlega fátækt. Fólk sem hafði gengið í gegnum mikla erfiðleika sökum andlegra sem líkamlegra sjúkdóma. Fólk sem búið hafði við óréttlæti, ofsóknir og kúgun. Fólk sem var sorg- og sakbitið.

Jesús fann til með þessu fólki vegna þess að hann hafði sjálfur reynslu af þessu öllu og gat því gefið af sjálfum sér. Í Sæluboðunum leggur hann áherslu á það hversu mikilvægt það sé fyrir hvern og einn að fá að vera Guðs barn í þessum fallvalta heimi, finna sig umvafinn þegar syrtir að, finna fyrir styrkri hönd sem leiðir þegar þokubakkarnir byrgja sýn.

Við finnum þetta sjálf. Orðið sorg ristir ekki djúpt í vitund ef það tengist ekki persónulegri reynslu. Þegar sorgin verður hins vegar okkar, þín og mín þá breytir orðið um hljóm. Þá sjáum við ekki fyrir okkur nafn í frétt eða andlit á skjá, heiti eða augu þjáðrar syrgjandi manneskju sem við þekkjum ekki og á enga beina aðild að einkalífi og innra lífi okkar. Þá er þrautin okkar. Við lifum okkur sjálf í þeim harmi og kvöl sem þyrmdi yfir. Og enginn annar grætur tárum okkar. Enginn annar lifir okkar þungu, sáru hjartaslög. Þessi reynsla er einstök hverjum einstökum einstaklingi.

Guð. Ekkert orð er eldra en það. En það hefur túlkað margvíslegar og sundurleitar hugmyndir. Það getur verið tómt, efnislaust, dautt hugtak. En það getur fengið hljóm og líf þegar það verður veruleiki í vtund manns, samofið meðvitund hans um sjálfan sig. Þessari reynslu kynnumst við í Biblíunni og í kristnum trúarvitnisburði. Þessi reynsla kristins manns gæti verið á þessa leið: “Guð minn, þú ert hjá mér, þú ert í hverju æðaslagi mínu, þú skynjar hugrenningar mínar, sérð inn í huga minn, skilur mig alveg til grunna. Og allt, það getur ekki haggast, hvað sem annars kann að bresta eða hrynja, hvað sem ég missi. Ég á sjálfan mig og alla hluti með þér. Því að þú átt mig. Þess vegna get ég í rauninni ekkert misst. Allt er varðveitt hjá þér. Þú ert og verður Guð minn. Miskunn þín er mætari en lífið. Þótt hold mitt og hjarta tærist er Guð bjarg hjarta míns og hlutskipti mitt um eilífð”.

Það getur sannarlega gerst að þú spyrjir. Hvar ertu Guð minn? Hvar varstu að þetta skyldi koma fyrir mig, að þetta skuli geta gerst? Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?

Allur sársauki leitar að líkn, hvert böl verður bæn í einhverju formi. Þegar ógn og myrkri lýstur yfir verður hver maður líkt og hjálparlaust barn og kallar eftir hjálp með andvarpi eða með öðrum hætti. Þó að við vissum ekkert, þá var það ofið inn í hverja taug að einhver væri í nánd sem heyrði og skildi og hlyti að hjálpa.

Þessi var vafalaust sammannleg reynsla margra þeirra sem hlýddu á Jesú flytja sæluboðin forðum á fjallinu. Fólkið skynjaði að Jesús ætti auðvelt með að setja sig í þeirra spor og hlyti að hjálpa því.

“Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða”, sagði Jesús. Það er sameiginleg reynsla margra kristinna manna að trúin á Guð hjálpi mörgum að ganga í gegnum sorgardalinn. Jesús er núna hjá okkur í anda sínum sem nefndur hefur verið huggarinn. Hann huggar því og gefur líkn með þraut, ber smyrsl á hjartasárin. Hann starfar hér og nú fyrir hendur kristinna einstaklinga sem gefa sig að sálgæslu í garð þeirra sem glíma við missi. Þar vinnur þjóðkirkjan ómetanlegt starf en víða er boðið upp á stuðningsúrræði af þessu tagi.

“Sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki”. Hér segir frelsarinn þá einstaklinga vera sæla sem hafa gert sér grein fyrir hjálparleysi sínu og haft lagt allt sitt traust á Guð. En hlýðnin er hverju barni Guðs mikilvæg sem vill halda borgararéttindum sínum í himnaríki.

Í þriðja sæluboði sínu fjallar Jesús um hógværðina. “Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa”. Hér segir Jesús þá einstaklinga vera sæla sem hafa stjórn á ástríðum sínum og eðlishvötum vegna þess að þeir hafa gefið sig Guði á vald. Þetta sæluboð er umhugsunarvert í ljósi hnignandi siðferðis í landinu þar sem hógværðin á í vök að verjast á kostnað drambseminnar. Þetta birtist bæði innan veggja heimilanna í landinu þar sem hjónaböndin sundrast vegna þess að annar makinn vill stöðuglega fara sínu fram á kostnað annarra í fjölskyldunni. Þá má nefna í þessu sambandi að fyrirtæki hafa tilhneigingu um þessar mundir til að vilja stækka við sig á kostnað smærri fyrirtækja. Að sögn er það gert í hagræðingarskyni. Þá verður til fákeppni og verðlag hækkar á kostnað neytenda. Í óefni getur stefnt ef drambsemin verður slík að menn missa sjónar á því sem skiptir öllu máli í mannlegum samskiptum sem er að geta viðurkennt eigin fávisku og veikleika og lært af henni að hógværðin er fremri drambseminni.og meira til þess fallin að vera Guði þóknanleg þegar upp er staðið.

Í fjórða sæluboðinu segir Jesús: “Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því að þeir munu saddir verða”. Hér segir Jesús þá menn vera sæla sem þrá að hlutirnir séu í lagi, að enginn komi lengur til með að finnast að réttur sinn sé fyrir borð borinn. Þessu muni Guð koma til leiðar því að réttlæti hans tekur fram réttlæti mannanna. Réttur hvers manns til að verða Guðs barn er til að mynda ekki háður aldri né vinnuframlagi hans. Réttlæti Guðs birtist þannig sem gjöf hans til mannanna barna. Fyrirgefning Guðs tekur þannig fram fyrirgefningu mannanna vegna þess að hún krefst ekki endurgjalds.

Í fimmta sæluboðinu segir Jesús: “Sælir eru miskunnsamir því að þeim mun miskunnað verða” Jesús segir hér að þeir menn verði sælir sem muni auðsýna miskunnsemi í orði og verki og leitist við að setja sig í spor annarra, sýni samhug í verki án þess að hugsa um hvort þeim verði gjaldað líku líkt.

“Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá” Hér segir Jesús þá menn vera sæla sem hafa til að bera heilbrigðar og jákvæðar hvatir því að dag einn munu þeir sjá Guð. Þetta sæluboð hvetur okkur til sjálfs skoðunar þar sem við athugum hvaða hvatir liggja að baki orðum okkar og verkum. Og það hvetur okkur til þess að reyna að bæta það sem betur má fara í ljósi kenningar Krists. Við eigum sjálf að reyna að kappkosta að halda hjörtum okkar hreinum í þessum heimi fýsna og freistinga. Þá eigum við hægara með að sjá Guð að verki í lífi okkar.

“Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða”. Hér segir Jesús þá menn sæla sem leitast við að koma á réttu og eðlilegu sambandi milli manna þar sem jafnvægi og friður ríkir í samskiptum. Þetta er æðsta verkefni sérhvers kristins einstaklings.

“Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætissakir, því að þeirra er himnaríki” Hér segir Jesús þá einstaklinga vera sæla sem starfa í þágu góðs málstaðar, t.d. fagnaðarerindinsins, og eru ofsóttir fyrir. Því að laun þeirra verði mikil á himnum. Lærisveinar Krists máttu þola ofsóknir og dóu margir píslarvættisdauða vegna þess að þeir trúðu því að málstaður þeirra væri réttur. Á Allra heilagra messu minnumst við þessara kristnu einstaklinga í þökk. Það þarf ekki kristna menn til því að nú ber svo við að ýmsir eru tilbúnir að deyja píslarvættistdauða í þágu málstaðar sins. Það er sannarlega hörmulegt hversu þetta bitnar á saklausu fólki í heiminum um þessar mundir. Það líður varla sá dagur að við heyrum ekki um sjálfsmorðsárásir í nafni trúarinnar á Allah.

“Í heiminum hafið þér þrenging en ég hef sigrað heiminn”, sagði Kristur eitt sinn. Hann sagði aldrei að lífið auðvelt. Það er erfitt á köflum og vandasamt að lifa í þessum heimi nútímans þrátt fyrir allar þær miklu framfarir sem hafa átt sér stað. Það er merkilegt hvað þessi sæluboð hafa staðist tímans tönn líkt og boðorðin tíu. Þessi orð úr Bbilíunni eru lifandi og tala til okkar. Og það er okkar að taka við þeim sem andlegri fæðu og leitast síðan við með hjálp Krists að láta þau virka í daglegu lífi okkar og gera þannig þennan heim í sameiningu að þeim sælureit sem hann sá fyrir sér að mögulegt væri að gera með hjálp mannanna. Amen.