Ein hjörð – einn hirðir

Ein hjörð – einn hirðir

Eins og bóndinn þekkir kindurnar sínar - þá þekkir Jesús þá sem fylgja honum… Við erum í hjörðinni sem Jesús vakir yfir… og hann heldur utanum okkur svo enginn glatist…

Þjóðbúningamessa á sumardaginn fyrsta                          Esk 34.11-16, 31, 1.Pét 2.21-25, Jóh 10.11-16
Bíldudalskirkja.

Ein hjörð – einn hirðir

Eilífi Guð, við biðjum… opnaðu hjörtu okkar fyrir boðskap þínum, gefðu að lifandi orð þitt snerti líf okkar og að við verðum aldrei viðskila við þig. Við lofum þig og tignum. Amen

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.

 Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta… er sungið í 23. Davíðssálmi og í þessum orðum er sálmaskáldið fullviss að Drottinn muni vaka yfir honum, vernda og blessa hann í öllum aðstæðum, allt hans líf… og þema texta dagsins er vernd Drottins í öllum aðstæðum. 
Í guðspjallinu sagði Jesús: Ég er góði hirðirinn… og lýsingin á þeim sem er ,,góður hirðir” fylgir… Góður hirðir leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina… Ég geri ekki ráð fyrir að lærisveinar hans hafi tekið þessum orðum bókstaflega… enda hafði Jesús sagt við þá að hann talaði í dæmisögum…

Við finnum hirðislíkinguna nokkuð oft í GT og Jesús notaði hana í sögum sínum enda var hann að tala við fólk sem átti búfénað… Fólk sem vissi hvað það var mikilvægt að halda vel utanum hjörðina sína og glata engum sauð. Landbúnaður var aðal lífsbjörgin hjá okkur hér áður og bændur á Íslandi hafa farið í leitir á haustin, seinni leitir og jafnvel fleiri leitir eftir það.. ef sauðirnir hafa ekki allir skilað sér af fjalli… þeir vilja heldur ekki að neinn glatist. Hér á landi er það hörð vetrar veðráttan sem grandar fénu en á slóðum Jesú voru það óvargadýrin, úlfar eða ljón, sem þurfti að varast dag og nótt.. allan ársins hring… en hvort sem vá-in er vetur eða óvargadýr þá er nauðsynlegt að halda utanum og vernda hjörðina sína.

Eins og bóndinn þekkir kindurnar sínar - þá þekkir Jesús þá sem fylgja honum… Við erum í hjörðinni sem Jesús vakir yfir… og hann heldur utanum okkur svo enginn glatist… Hann er alltaf með þér og segir við þig: Hjarta yðar skelfist ekki, trúðu á Guð, trúðu á mig. Einmitt núna þegar þessi veira gengur yfir heiminn þá þurfum við á þessari hughreystingu að halda… Hjarta yðar skelfist eigi… trúðu á Guð, trúðu á mig…  Í samkirkjulegu bæninni sem er flutt í hádeginu á hverjum degi, les ég orð Guðs í Jesaja: Óttast eigi, því að ég er með þér, vertu ekki hræddur því ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með sigrandi hendi minni því ég er þinn Guð, ég held í hægri hönd þína og segi við þig: Óttast eigi, ég bjarga þér (Jes 41:10,13)

Við sækjum styrk í svona ritningarvers… Ekki skelfast, ekki óttast… ég styrki þig, styð þig, ég bjarga þér… við fáum huggun, enda segir ritningin að við skulum ekki vera hugsjúk um neitt, heldur gera í öllum hlutum óskir okkar kunnar Guði, í bæn, beiðni og þakkargjörð… Guð er og verður alltaf með okkur. Guð hlustar á allar bænir og veit betur en við sjálf hvers við þörfnumst. Við getum komið með allar okkar áhyggjur til hans… en vinirlistin er, að skilja þær eftir hjá honum… ekki halda áfram að burðast með áhyggjurnar – heldur treysta því að Guð leysi málin með þér, á sinn hátt og á réttum tíma.

Ég hef sagt við fermingarbörnin í fermingarfræðslunni, að Guð geti notað annað fólk til að hjálpa okkur og að hann geti líka notað okkur til að hjálpa öðrum… Í þessu veiru-ástandi kemur þessi sam-hjálp svo fallega fram… Fólk er svo jákvætt, skilningsríkt, þolinmótt og ótrúlega uppátækjasamt við að nota tæknina og finna nýjar leiðir til að létta lundina hjá sjálfum sér og náunga sínum… þjóðin hefur fundið upp leiðir til að vera faðmlag án þess að faðmast… Kærleikurinn, bókstaflega flæðir yfir net-heimana. Fólk keppist við að flytja fallegan boðskap, hughreysta með fallegum orðum eða gjörðum, syngja eða jafnvel prjóna veiruna burt. Á Ítalíu sungu menn úti á svölum, hér syngjum við á netinu… 

Markmiðið með faðmlaginu á netinu… er að virkja ÞIG til góðra verka, fyrir ÞIG… svo ÞÉR líði vel… ef þér líður vel – þá líður fólki vel í kringum þig og þá höfum við hin “minni” áhyggjur… Ég sagði ,,minni” áhyggjur því fjöldi fólks hefur áhyggjur af þessu ástandi, sérstaklega fólk komið yfir vissan aldur eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma… og ég held að það séu flestir sammála um að heimurinn verði aldrei aftur eins… við verðum áfram varkár og vakandi fyrir smitleiðum… sérstaklega gagnvart ókunnu fólki… Það verður okkar helsta vörn. Allt verður breytt og við endurmetum hvað er sjálfsagt, hvað eru lífsgæði og forréttindi… og hvað við getum verið þakklát fyrir.

Núna, getum við ekki annað en beðið eftir að þessu ástandi ljúki… og farsælast fyrir okkur að fara í einu og öllu eftir því sem þrenningin okkar (Alma, Víðir og Þórólfur) ráðleggja okkur… Þau reyna eins vel og þau geta, að halda utanum okkur… þeas, íslensku hjörðina… Eins og alltaf eru einhverjir svartir sauðir að þvælast út fyrir girðinguna… og þá er enn nauðsynlegra fyrir okkur hin að vera árfam varkár… og hlýða öllum tilmælum. Á meðan við bíðum, gengur lífið sinn gang… náttúran er að taka við sér, sumarið er komið og ég sé sífellt fleiri utandyra, gangandi, hlaupandi eða hjólandi.

Það er skrítin tilhugsun að fara út í góða veðrið og vonast til að maður hitti ekki neinn… og, munið bara, að við sjálf, erum hinn besti félagsskapur… við erum svo góður félagsskapur að við erum aldrei ein, Guð er alltaf með okkur… við erum í hjörðinni sem Jesús vakir yfir… leitið til mín, sagði hann og ég læt ykkur finna mig… við getum lagt allar okkar óskir fyrir hann… en versið áðan minnti okkur á, að færa Guði…  þakkargjörð.

Þó þetta ástand ríki – er þrátt fyrir allt, margt sem við getum verið þakklát fyrir… ss allt heilbrigðisfólkið og ráðamenn sem hafa verið í forsvari og stýrt aðgerðum til að verja okkur sem best og ná tökum á þessari veiru… Við skulum vera þakklát fyrir að búa hér, hafa skýr landamæri, vera tæknivædd, hafa gott heilbrigðiskerfi, ríka samkennd og náungakærleik. 

Já, það er einmitt í gegnum náungakærleikann sem Guð getur notað annað fólk til að hjálpa okkur og getur notað okkur til að hjálpa öðrum. Í dag er sumardagurinn fyrsti og lömbin farin að fæðast… hjörð bóndans stækkar… bráðum verða túnin full af þessum litlu krúttum, fuglasöngurinn vekur okkur á morgnana, sólin vermir og blómin gægjast upp úr jörðinni… nýtt líf… nýtt upphaf… nýjir tímar í vændum. Ég vona að hjörð Drottins stækki og hann glati engum… Hann er góði hirðirinn lagði líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Verum hughraust og treystum Guði til að leiða okkur út úr þessu ástandi, hjálpa okkur að vera samtaka, (vera sem ein hjörð) í þessari baráttu… og munum þessi orð Drottins:  Ekki skelfast, ekki óttast… ég styrki þig, styð þig, ég bjarga þér… ég er með þér alla daga allt til enda veraldar.

Og ég vil enda með bæn: Drottinn, þú ert hirðirinn, sem safnar saman, og við treystum þér fyrir okkar málum. Við biðjum þig Drottinn að gefa okkur þann styrk sem þarf, til að takast á það sem hver dagur felur í sér. Ég bið í Jesú nafni,  Amen.

 Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen 

Tekið upp í Bíldudalskirkju á samsung galaxy síma, klippt saman og sett á netið á sumardaginn fyrsta.

https://www.youtube.com/watch?v=oSZ-3V9I7vY&t=27s