Heyr gleðiboðskap þann, sem æðstur er, Og eilífð nýja birtir heimi snauðum. Sjá engill Guðs þann helga boðskap ber: Vor bróðir, Kristur, risinn er frá dauðum. Amen.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Gleðilega hátíð.
“Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni”. Þannig segir frá í heilögu guðspjalli páska, sem ég las frá altarinu. Vondaufar konur á ferð semma morguns á leið í kirkjugarðinn til að sinna um líkamsleifar ástvinar, sem dæmdur var til að deyja á krossi tveimur nóttum áður. Þessar konur, sem höfðu verið nánir vinir Jesú, eru nafngreindar, María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme. Þær ræða sín í millum á ferðinni hver myndi hjálpa þeim velta steininum frá grafaropinu. Þegar þær koma að, þá sjá þær að gröfin er opin, steininum hafði verið velt frá. En á móti þeim tekur ungur maður, klæddur hvítri skikkju. Konurnar urðu hræddar, en hann segir við þær: “Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upprisinn, hann er ekki hér”.
Og hér erum við samankomin árla hinn fyrsta dag vikunnar á páskadagsmorgni, fögnum og gleðjumst . Kristur er upprisinn.
Þetta var atburðurinn sem öllu breytti. Hér urðu þáttaskil í sögu mannsins. Enginn viðburður hefur haft meiri áhrif í tímans rás, að Jesús Kristur sem dó á föstudaginn langa, en reis upp frá dauðum á páskadagsmorgni. Þetta er grundvöllur kristinnar trúar, hyrningarsteinninn sem öllum skilum skiptir. Þetta er bjargið sem kirkjan hvílir á og þetta er grundvöllurinn sem menningin og gildismatið nærist af. Um engan mann hafa verið skrifaðar fleiri bækur en Jesú Krist og ekkert hefur listrænni menningu verið hjartfólgnara um aldir, en einmitt lífið hans, boðskapur, verk, dauði og upprisa. Hvíldardagurinn sem samkvæmt hefð Gyðinga er á laugardegi, varð um síðir sunnudagur í kristnum sið af því að Jesús Kristur reis uppfrá dauðum á fyrsta degi vikunnar.
Og mikil hafa áhrif trúarinnar verið á íslenskt þjóðlíf. Við siðaskiptin á 16. öld, þegar lútherskur siður tók við af katólskum, þá var alþýðumenntun sett í öndvegi, allir skyldu kunna að lesa og skrifa og þekkja a.m.k. skil á grundvallaratriðum trúarinnar. Forsjárhyggjunni, að kirkjan skyldi hafa vit fyrir fólki og sjá alfarið um sambandið á milli Guðs og manns, var nú vikið til hliðar. Nú skyldi hver maður rækta samband sitt beint við Guð og þá varð að fræðast um inntak trúarinnar. Trúin krafðist menntunar almennings. Heimilisguðrækni öðlaðist þá mikilvægan sess í lífi þjóðar. Kirkjan stóð í sterkum rótum og er á þeim tímum eini staðurinn sem fólkið átti saman. Um aldir sáu prestarnir um alþýðufræðslu á Íslandi og fylgdust með að börnin lærðu til lesturs og stafs og lögðu sjálfir mikið að mörkum í fræðslustörfunum. Prenttækni undir forystu kirkjunnar var komið á fót og óx fiskur um hrygg, Guðsorðið varð almenningseign, sálmar, postillur og guðsorðabækur af ýmsum toga ásamt alþýðlegum fróðleik. Hér var lagður hornsteinn að húslestrunum sem nærði íslenska menntun og menningu um aldir. Og þetta gerist allt mitt í sárri fátækt þjóðar. Saga segir af útlendingi sem ferðaðist um landið á 18.öld. Hann undraðist mitt í öllu umkomuleysinu og örbirgðinni, hve almenningur hefði víðtæka þekkingu, læs og skrifandi þjóð. Á vegi hans varð prestur, sem skreið illa til fara út úr kofa sínum, en talaði reibrennandi latínu, víðlesinn og afar fróður.
Þannig er saga og trú á Íslandi samofin órjúfanlegum böndum. Og menningin líka sem á alþýðumenntun þjóðar um aldir svo mikið að þakka. Í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar gegndi kirkjan mikilvægu hlutverki. Hún var eins og fjölmiðill þar sem miklvægum skilaboðum og tíðindum var komið á framfæri við þjóðina. Þetta nýtti Jón Sigurðsson sér vel. Þá eru fjölmörg söguleg dæmi til um það, að tækninýjungar í atvinnulífi hafi einmitt verið fyrst kynntar á vettvangi kirkjunnar. Víst var kirkjan kjölfestan í lífi þjóðar.
Núna, mitt í alsnægtunum auðsældar, á tímum þegar margir þykjast vita allt, geta allt og kunna allt, þá ræða vitrir menn, að brýnt sé að afnema kristnifræðikennslu í skólum af því að hún mismuni fólki samkvæmt hugmyndum um trúarbragðafrelsi. Hvenær kemur að því, að krafist verði að börnum sé ekki lengur kennd íslenska í skólum af því að það brjóti gegn lögmálum um frelsi barna til að læra hvaða tungumál sem er?
Ef þjóðin hættir að kunna sæmileg skil á inntaki kristinnar trúar, þá rýfur hún sambandið við sögu sína og menningu, gildismat og grundvöll. Verður sögulaus þjóð, lýður án fortíðar. Íslensk rokkstjarna sem er líka fræg í útlöndum, sagði í viðtali um daginn, að þessi hefðbundnu trúarbrögð hefðu gengið sér til húðar. Það væri nær að sækja sér guðlegrar og andlegrar uppbyggingar til náttúrunnar með umhverfisrækt. Já, mikil er þörfin að virða og varðveita náttúruna, um það efast fáir. En ætlar maðurinn að gera það á sínum forsendum? Þeir reyndu það í Austantjaldsríkjum og bönnuðu trúarbrögðin um margra áratugaskeið og sögðu að maðurinn væri almáttugur og Herra lífsins. Afleiðingarnar urðu skelfilegar, mannréttindi fótum troðin og náttúran víða rústum líkar.
Kristin trú setur lífinu heilög takmörk. Þar er kærleikur settur í öndvegi, virðing og réttlæti. Það gildir hvorttveggja um mann og náttúru. Og ábyrgðina berum við gagnvart hvert öðru og Guði. Hætta er á, að ef þjóðin rýfur samband sitt við Guð, þá verði allt leyfilegt og maðurinn gjöri það sem hugur girnist án heilagra og siðrænna takmarkanna.
Örfáir, eru samkvæmt fréttum, að selja hlut úr banka nú um bæna- og hátíðardagana. Andvirðið er sagt á annað hundrað milljarða. Hvað ætli fari stór partur af þessum viðskiptum til samfélagslegrar þjónustu, í þágu sameiginlegrar velferðar þjóðar? Hvar liggja heilög viðmið í efnislegum viðskiptum á Íslandi? Leyfist græðginni að helga meðalið? Stórríkir krefjast þess að borga enn lægri skatta. Láglaunafólk veit hvað það borgar af tekjum sínum í sameiginlegan sjóð og finnst nóg um. Mörgum finnst stærðarhlutföll efnislegra lífsgæða vera orðin meira en lítið afstæð. Sumir eiga vart til bærilegrar framfærslu fyrir sig og börnin sín þrátt fyrir þrotlausa vinnu á meðan nokkrir eru að drukkna í fjármunum í orðsins fyllstu merkingu án þess að sérstak vinnuframlag liggi að baki. Er hér um töfrabrögð að ræða eða kerfi skipulags sem þjóðin er sátt við? Lætur kirkjan sér þetta í léttu rúmi liggja?
Nú er ástæða til að stórefla kristna trú í íslensku þjóðlífi. Skýra og efla kristin og heilög takmörk í ljósi kærleika og réttlætis, virðingar og velferðar, að samfélagsheill verði í öndvegi. Þar gildir að fram fari m.a. sérstakt átak um stóraukna kristnifræðslu í skólum og að laða fólk til samfélags á vettvangi kristinnar kirkju með sameiginlegum krafti. Mannréttindi eru í húfi og mannskilningur sem virðir lífið, náttúruna og okkur öll og skilur sögu sína til þess að skapa bjarta framtíð.
Ég vil vekja athygli okkar á viðtali við Jónas Þórisson forstöðumann Hjálparstarfs kirkjunnar í útvarpinu í gær þar sem fjallað var um hrikalegar aðstæður þrælabarna á Indlandi. En þar er kristin von að störfum í árangursríku hjálparstarfi, von sem virðir heilagt gildismat og gerir aldrei mannamun. En betur má ef duga skal.
Guð er enn og verða mun. Því Kristur er upprisinn.
Upprisa Jesú Krists breytti öllu. Mikil voru þau áhrif í íslensku þjóðlífi og um veröld alla og megi þau enn verða til blessunar og farsældar.
Sem upp rís sól um árdagsstund Og upp rís blóm á þíðri grund Úr köldum klakahjúpi Svo upp rís síðar eilíft ljós Og óvisnanleg himinrós Úr dauðans myrkradjúpi. Jesús, Jesús Þótt ég deyi, eg óttast eigi, Æðri kraftur Leiðir mig til lífsins aftur.
Í Jesú nafni Amen.