Ný byrjun

Ný byrjun

fullname - andlitsmynd Bára Friðriksdóttir
07. janúar 2016
Flokkar

Nýtt ár, ný byrjun. Það er eitthvað tært og fallegt við nýtt upphaf. Það gefur von og fyrirheit. Við þekkjum öll hvað er gott að horfa á nýfætt barn. Það ber í sér von um mikla möguleika og framtíð. Það á eftir að vaxa upp, styrkjast, finna og efla hæfileika sína. Það veit enginn hvað verður úr nýfæddu barni. Líf þess getur haft áhrif á nánasta umhverfi þess, alla í landinu eða á allan heiminn. Lærisveinninn Andrés var bróðir Péturs sem Jesús fól að stofna kirkju sína um víða veröld. Við vitum ekki margt um Andrés, hann var sjómaður, einn af lærisveinunum tólf. Hann var ekki í innsta hring hjá Jesú, það voru þeir Pétur, Jóhannes og Jakob. En Andrés gerði eitt sem heldur minningu hans ætíð á lofti. Það var hann sem kynnti Pétur fyrir Jesú. Það minnir á að framlag hvers einstaklings er mikilvægt. Það getur virkað einfalt eða ómerkilegt en ef þú gerir þitt besta á hverjum degi til að auðga þig og umhverfi þitt þá veistu ekki nema þú sáir ómetanlegum fræjum. Þetta einfalda hversdagslega hefur áhrif til góðs eða ills. Ný byrjun ber í sér ný tækifæri. Við höfum öll aðgang að nýrri byrjun, nýjum möguleika. Í byrjun hvers dags er nýtt upphaf. Nýtum það vel til góðs.

Eggið er tákn um nýtt upphaf. Þar er frjóangi hins nýskapaða sem á eftir að vaxa og ber í sér nýtt líf. Páskaeggin eru tilvísun í lífið sem kviknar, nýsköpunina í egginu. Táknrænt séð benda þau til Jesú. Þegar hann dó á krossi og reis upp frá dauðum braut hann lögmál hins almenna og hóf nýtt líf, eilíft líf sem stendur manninum til boða. Það er til staðar í þeim sem játast Jesú.