Söngsunnudagur í dag og þá talar Jesús Kristur um andann. „Þegar sannleiksandinn kemur, mun hann leiða yður í allan sannleikann.... Þegar ég er farinn mun ég senda hann til yðar. Þegar hann kemur mun hann sannfæra heiminn um synd, réttlæti og dóm....“
Hvaða andi er það? Hver er þessi andi sannleikans, sem Jesús talar um í guðspjalli dagsins? Hvernig skiljum við anda Guðs?
Sjálfsþekking Véfréttin í Delfí í Grikklandi var kunn í fornöld. Yfir dyrum í forgarði stóðu orðin: „Gnoþi seauton“ - þekktu sjálfan þig (γνῶθι σεαυτόν). „Þekktu sjálfa þig.“ Svona slagorð heillar auðvitað og er lýsing æviverkefnis okkar manna. Við gerum margt og reynum ýmislegt til að þekkja sjálf okkur betur. Svo hefur þessi snilldaryfirskrift líka verið söluslagorð til að halda að fólki mikilvægi véfréttarinnar og tryggja rekstur hennar. Allir þokkalega upplýstir vissu, að sjálfsþekking væri torsótt, nema með guðlegri hjálp. Þar með var komin réttlæting Delfíhelgidómsins og spádóma hans.
Hinum óþekkta Guði Þegar Nóbelskáldið William Golding féll frá árið1993 var hann að skrifa bók um völvu í Delfí. Bókin var síðan gefin út þrátt fyrir, að hún væri ekki fullgerð frá hendi höfundar. Þetta er heillandi bók og segir sögu stúlku, sem varð völva, n.k. meðalgangari Guðs og manna, prestur sem flutti boðskap af hæðum. Stúlkan ólst upp á höfðingjasetri í Grikklandi og Golding útmálar hvernig valdabarátta og hrossakaup stýrðu, að hún en ekki einhver önnur stúlka var send til uppeldis og þjálfunar í Delfí. Síðan er rekstri fyrirtækisins, véfréttarinnar, lýst, hvernig boðskapinn þurfti stöðugt að búa út svo hann hugnaðist valdhöfum, Rómverjum og grískum höfðingjum. Öllu varð að hagræða til að tryggja rekstur véfréttarinnar. Allt varð að skilja pólitísku hyggjuviti og færa í trúarlegan búning og orðfæri. Véfréttin var ekki lengur tengill himins og jarðar heldur PR-miðstöð, spunastofa stjórnmála og hagsmuna þess tíma. Veröldin reynir alltaf að toga himininn niður.
Völvan unga varð að læra og horfast í augu við að heimurinn er harður, að hugsjónir, hrein trú og heilindi væru lúxus, sem aðeins glóparnir geta leyft sér. Um tíma varð hún að láta undan, en var þó í stöðugri baráttu við eigin samvisku annars vegar og forstjóra véfréttarinnar hins vegar. En dagar Delfí voru taldir, mæliglas þess tómt, guðleg návist horfin og boðskapurinn af hæðum enginn.
Trúariðnaður er óvinur guðlegs anda og valdapot eyðir lífi. Völvan sagði skilið við svikamylluna, tók sig upp með ævilaun sín og eign og fór til Aþenu. Þar réð hún færustu listamenn til vinnu og lét gera altari. Hún hafði þekkingu á yfirborðslegum trúariðnaði og hafði enga löngun til að reisa Delfíguðum altari. En þrátt fyrir sögu sína hafði hún ekki misst trúna á, að guðlegur máttur væri til. Hún lét reisa altari og lét rita á það setninguna: „Hinum óþekkta Guði.“
Þetta er eftirminnileg og sláandi saga. Völvan missti ekki trúna heldur sakleysið, trúði dýpra og með lífsreynslu. Golding hefur í ýmsum bókum fjallað um togstreitu milli guðstrúar og villimennsku og að Guð deyr ekki þrátt fyrir hroða mannanna. Þegar við sjáum hvernig mennirnir fara að verða spurningar knýjandi hver og hvar Guð sé.
Skaparinn Andi Sannleiksandinn, huggarinn, sem Jesús sendir. Andi Guðs var í stóru-sprengju, þegar vetrarbrautir mynduðust. Andi Guðs var að verki þegar gufur þéttust og hnettir voru mótaðir, líka ofurmáninn sem við sáum á himni í gærkvöldi og nótt. Andi Guðs kristinna manna var að verki, í spurningaleik Sókratesar eða íhugun Búddha. Kristnir menn hafa ekki smæðarlega og sértrúarlega afstöðu gagnvart sköpun Guðs og handleiðslu. Það er Guð, sem er að verki þegar móðir mylkir barni sínu, þegar ástin kviknar í öllum myndum, þegar gott verk er gert, þegar særður er borinn til læknis og hungraður mettaður. Andi Guðs er að starfi í hinum mestu málum geims og líka umhyggju lóunnar gagnvart unga í hreiðri. Andinn kom við sögu þegar þú varst mótuð eða mótaður í móðurkviði. Án þess lífsanda hefði ekkert orðið. Og það er verk andans, sem skapar fegurðina og veitir þér færni til finna til og hrífast. Kristinn trúmaður getur átt í sér þessa nálgun gagnvart alheimi, umhverfi og lífi og hvílt í trausti til hins mikla Guðs, sem barn í móðurfaðmi.
Skírnarstúlkan Bryndís Halldóra er ávöxtur anda Guðs, umlukin þeim anda og mun njóta hans alla tíð. Hún er blessuð og allt hennar fólk. Þau eru í móðurfaðmi Guðs.
En þegar allt þetta er sagt er líka mikilvægt að minna á, að Andi Guðs verður ekki höndlaður í fyllingu af smáum huga okkar manna. Jesús segir, að hann sendi Andann, huggarann. Trúarlærdómar falla, aðrir lifna og nýjar áherslur verða til. Breytingar dynja á heiminum og mönnunum og rugla okkur í ríminu.
Kyrrstaða, íhaldsemi, er kannski það, sem við ættum að óttast mest því þá erum við mótstöðufólk hins skapandi Anda Guðs. Það eru fleiri öfl í þessum heimi en Andi Guðs. Í mestu hamingju er dauðinn nærri, í gleði er fléttuð sorg, myrkrið er skuggi ljóssins. Með miklum hæfileikum er stutt í að gjafir Guðs séu notaðar til ills. Gáfur eru nýttar til fólskuverka í stað þess að veita velferð og gæsku til sem flestra.
Synd, réttlæti og dómur Það er í þessu sértæka samhengi, sem Jesús talar um sannleiksandann sem verði sendur til að sannfæra menn um synd, réttlæti og dóm. Í fyrsta lagi: Andinn opnar vitund um veruleika hins illa. Synd er ekki aðeins slæm verk, mistök og hliðarspor. Synd í Biblíunni er það að missa marks. Og markið er ávallt eitt og hið sama - Guð. Sannleiksandinn hríslast í þér til að spyrja þig um samband þitt við Guð, hvort og hvenær þú sért í líflegu sambandi við Guð og hvenær ekki. Hið annað, sem andinn skapar, er réttlæti. Og réttlæti í samhengi Nýja testamenntisins tengist lífi og líkn Jesús. Það er réttlætisgerningur Guðs þegar þér er hjálpað, þér sem gast ekki fundið leiðina heim til Guðs, varst lánlaus.
Hið þriðja sem sannleiksandinn opinberar er dómur yfir öllu því, sem er slæmt og spillt í heimi. Boðskapur Jesú varðar myrkravöld. Upprisa Jesú er dómur yfir hinu illa afli, sem aflagar fólk og náttúru.
Sannleiksandinn kemur til þín og spyr þig um trú og traust. Viltu heyra og skilja sannleikann um þig? Jesús sagði, ég er sannleikur sem frelsar. Það gagnar ekki, að hafa skarpan heila ef þinn innri maður er haminn. Það stoðar ekki að eiga liðugan fót og lausa hönd, leiðir til allra átta ef hugurinn er blindur og augun haldin. Sannleikurinn kom og kemur til þín og til þessa safnaðar.
Sannleiksandinn kemur til okkar Völvan í Delfí, fullþroska og búin að fá nóg af lygi og prettum trúariðnaðarins, fór til Aþenu og reisti óþekktum Guði altari. Samkvæmt Postulasögunni í Nýja testamenntinu tók Páll postuli sér stöðu við það altari og hóf predikun sína. Hinn ritsnjalli William Golding spinnur sögu sína um guðsdýrkun í Delfi, sem brást, að sögu kristninnar. Sagan opnast í mikilleik sínum á nýjan hátt, þegar lesandinn gerir sér grein fyrir hinu stóra samhengi. Völvan, sem vildi ekki eða gat ekki lengur spunnið blekkingarvef í Delfí, lagði kristnum dómi til altari og sögu um leit mannanna að því sem er satt. Saga hennar er brot okkar eigin sögu. Von hennar var fyrirboði um framtíð sem kom. Jesús kom í heiminn, hinn óþekkti Guð varð maður.
Síðan hafa ölturu verið byggð um allan heim. En er við altarið sagður sannleikur um þig og um Guð? Musteri í þessari sókn – og öllum öðrum kirkjum líka - er kallað til að þjóna sannleika. Sá andi boðar stöðugt að við eigum ekki að týna trúnni í rekstri, fjármálum, byggingum og skipulagi. Við megum aldrei láta trúariðnað yfirtaka líf kirkjunnar. Við erum öll kölluð til að boða sannleikann um Guð, sem sprengir alla smækkun manna og sjálfhverf ráð, Guð sem elskar þig og skapar undur lífsins.
Amen
Prédikun í Neskirkju, 4. sunnudag eftir páska, 6. maí 2012. A-röð.
Lexía: Esk 36.26-28 Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama ykkar og gefa ykkur hjarta af holdi. Ég mun leggja ykkur anda minn í brjóst svo að þið farið að boðum mínum og haldið reglur mínar og framfylgið þeim. Þið skuluð búa í landinu sem ég gaf feðrum ykkar og þið skuluð vera mín þjóð og ég skal vera Guð ykkar.
Pistill: Jak 1.17-21 Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að, frá föður ljósanna. Hjá honum er engin umbreyting né flöktandi skuggar. Hann er ávallt hinn sami. Hann ákvað að láta orð sannleikans vekja okkur til lífs til þess að við skyldum vera frumgróði sköpunar hans.Vitið þetta, elskuð systkin. Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði. Því að reiði manns ávinnur ekki það sem rétt er í augum Guðs. Leggið því af hvers konar saurugleik og alla vonsku og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði er frelsað getur sálir ykkar.
Guðspjall: Jóh 16.5-15 En nú fer ég til hans sem sendi mig og enginn yðar spyr mig: Hvert fer þú? En hryggð hefur fyllt hjarta yðar af því að ég sagði yður þetta. En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs að ég fari burt því ef ég fer ekki kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer sendi ég hann til yðar. Þegar hann kemur mun hann sanna heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur. Syndin er að þeir trúðu ekki á mig, réttlætið að ég fer til föðurins og þér sjáið mig ekki lengur og dómurinn að höfðingi þessa heims er dæmdur. Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú. En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann. Það sem hann segir yður hefur hann ekki frá sjálfum sér heldur mun hann segja yður það sem hann heyrir og kunngjöra yður það sem koma á. Hann mun gera mig dýrlegan því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á er mitt. Því sagði ég að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.