,,Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá.” Svo hljóðar áttunda sæluboð frelsarans í Fjallræðunni. Það vísar til þess að Guð sjáist með innri augum og skynjun og það reyni þeir sem veiti ljósi hans farveg inn í veru og vitund sína, sál og hjarta. Þvílík reynsla vitnar um sig í fari þeirra með því, að þeir eru í ljósi og ekki rökkvaðir tvílyndi og myrkvaðir undirferli og svikráðum en sýna þess í stað einlægni og hrekkleysi, velvilja, hlýju og umhyggjusemi, líka í andstreymi.
Slíkt þel og far hljóta að fara presti vel sem boðanda Guðs ljóss og lífs í Jesú nafni og komanda ríkis hans.
Annað geðslag kann þó að þykja raunhæfara hér í heimi og hagkvæmara líka hjá prestum vilji þeir kunna fótum sínum forráð og koma sér fram til áhrifa, hyggindi sem í hag koma, ráð og brögð í glímu við varasama samferðarmenn. Algjört hrekkleysi sé barnaskapur og heimskuleg einfeldni. Óskynsamlegt sé því að túlka sæluboðin þröngt og bókstaflega.
Sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson, sóknarprestur Selfossprestakalls, virðist þó tilheyra þeim sem það gera. Hann er flestum íslenskum prestum burðarmeiri og voldugri ásýndum, einkar þó ljúfur og hlýr í viðmóti en jafnframt fastur fyrir þyki honum að sér vegið og unnið gegn réttum viðmiðunum og sanngirni.
Þetta kemur vel fram í kvikmynd Gríms Hákonarsonar, sem hann nefnir ,,Hreint hjarta”. Hún er með heimildarsniði og fjallar um prestsþjónustu sr. Kristins Ágústs og baráttu hans við mótdrægar ytri aðstæður. Hann er vanur kvikmyndaleik enda hefur hann komið fram í innlendum og erlendum kvikmyndum þar sem yfirbragð hans, mikil vallarsýn og hljómþýð rödd og styrk njóta sín vel.
Kvikmyndin sýnir glöggt, að sr. Kristinn laðar mjög að sér fólk sem þarfnast skilnings og leiðsagnar í margs konar neyð og vanda og er næmur sálusorgari og vel að sér í sálgæslufræðum. Skjólstæðingar treysta honum greinilega vel fyrir sér, því að þeir hafa heimilað kvikmyndatökur í viðtölum á skrifstofu hans. Sjaldan sést þó framan í þá en oftar og fremur svipur, fas og viðbrögð sálusorgarans. Hann hlustar vel og skilgreinir stöðuna hverju sinni og er nærfærinn og ráðhollur og hlúir vel að sínum.
Sóknarprestinum er fylgt oftar en einu sinni inn á heimili vinar síns á áttræðsaldri sem glímir við krabbamein og veit að hann getur ekki háð það stríð öllu lengur enda kvalirnar að aukast. Hann er þó yfirvegaður og óttalaus og miðlar ástvinum sínum bjartsýni, trausti og trú. Hann leyfir sér meira að segja góðlátlega glettni og gamansemi, er sáttur við Guð og menn og þakklátur fyrir lífsgönguna. Honum þykir greinilega vænt um prestinn sinn hjartahreina, sem af skilningi glæðir trúarsýn og -skyn og er metinn að verðleikum fyrir það. Hann skipuleggur með honum komandi útför sína, velur sálma og ætlar að segja honum meira af lífshlaupi sínu en tækifæri hafa fyrr gefist til.
Allt annað á við þegar sóknarpresturinn kemur að morgni dags í Selfosskirkju. Þá þarf hann að herða upp hugann. Honum þykir sem hann hafi ekki fengið þar það vægi sem honum ber sem sóknarpresti og hafi orðið fyrir því að kirkjuyfirvöld hafi ekki fylgt réttum viðmiðunum og veikt aðstöðu hans. Hann sé því sem laumufarþegi um borð í höfuðkirkju sinni. Samt sinnir hann helgiþjónustunni vel og samvikusamlega og nær vel til fermingarbarnanna.
Hann er þó oft mæddur og hryggur. Það kemur fram þegar hann er heima. Hann kemur þar líka hreint fram, leyfir að nærri sér sé gengið í kvikmyndatökunni, sem eykur mjög áhrifamátt kvikmyndarinnar. Hann er sýndur rísa úr rekkju þungbúinn og stúrinn en tekur sig taki og fjörgast af hressandi sturtu, aga og einbeitni. Hann er einn heima, því að eiginkonan, sem er hjúkrunarfræðingur, hefur eftir efnahagshrunið orðið að leita sér starfa utanlands og vinnur á Grænlandi. Þau talast oft við í síma og tölvumyndasíma og uppörva hvort annað og orðin sem á milli fara votta ást þeirra og virðingu. Dóttir þeirra, sem er að mennta sig í lögfræði, er ein barna þeirra skammt frá föður sínum og reynist honum styrkur og sálarvinur.
Lokakafli myndarinnar er sérlega áhrifaríkur. Snjóþung færðin á götum Selfossbæjar dregur fram líkt og innri baráttu og erfiðleikana sem sóknarpresturinn á við að etja. Spor hans eru þung upp og niður stigann á Biskupsstofu þar sem enn greiðist ekki úr málum hans svo að viðunandi sé. Og svo berast honum tíðindi af því að vinur hans, sem hann hafði heimsótt og hlúð að sjúkum, hafi skyndilega látist og án þess að geta greint frá sögu sinni eins ýtarlega og til hafði staðið.
En blessuð jólin eru í nánd, svo sem sést á götuskreytingum á Selfossi og ljósbirtunni í kirkjunni, líka við útför vinarins góða. Sóknarprestinum lýsir honum vel í kveðjuorðunum og einnig fyrirheitum frelsarans, sem hann er falinn. Og prestinum tekst svo sem hann hafði lofað að fá söfnuðinn, sem kveður kæran samferðarmann, að hlæja dátt að gamansögu um hann. Himinskin og ljós aðventu og komandi jóla lýsa upp kveðjustundina og vitna um æðri lífsveruleika, upprisu til nýs lífs í Jesú nafni og jafnframt sigur í hverri sannleiks- og réttlætisbaráttu, sem háð er í ljósi hans og með virðingu fyrir viðmiðunum hans.
Kvikmyndin endar með því að sr. Kristinn Ágúst fagnar eiginkonu sinni á Reykjavíkurflugvelli sem komin er í heimsókn fyrir jól og þau ganga hönd í hönd í skammdegismyrkrinu á vit jóla og framtíðar í von og trausti.
Kvikmyndin ,,Hreint hjarta” hefur góðan en jafnframt alvöruþrungin boðskap að flytja. Hún er upplýsandi og afhjúpandi og því tímabær, þegar gætt er að stöðu og verkefnum Þjóðkirkjunnar í samfélaginu. Hún lýsir prestsþjónustu á umróts- og ólgutímum eftir efnahagshrunið og hve vandasamt getur verið og lýjandi að gegna helgri þjónustu þegar skilgreiningar og leiðarmerki virðast hafa flosnað upp og riðlast.
Í aðdraganda hrunsins brugðust grunnstoðir samfélagsins og var ekki Þjóðkirkjan sama marki brennd? Kvikmyndin ,,Hreint hjarta” vísar ljóst og leynt til þess að heiðarlegs uppgjörs sé þörf innan hennar og gegnsæis. Um það verður að spyrja og fá greið svör við því hvort að þar var jafnan farið eftir réttum viðmiðunum og reglum? Er ekki tvímælalaust kveðið á um það, að sóknarpresti beri að hafa heildarumsjón með söfnuðum sínum og fái til þess stöðu og vægi? Veikir það ekki kirkjuna, ef þeirri ráðstöfun er hnikað og ráð og ábyrgð frá honum tekin? Ber ekki líka að huga vel að því, að verksvið sóknarprests og sóknarnefndar séu nákvæmlega skilgreind og umsjón sóknarprests yfir helgiþjónustu og mótun safnaðarstarfs virt og viðurkennd jafnframt því sem staðfest sé að sóknarnefndin eigi að hafa umsjón með fjármálum, útgjöldum og kostnaði við rekstur sóknarkirkju og safnaðarstarfs? Er þá ekki fyrst að vænta góðs samstarfs presta á milli og sóknarnefnda, að viðmiðanir séu glöggar og virtar og þeim fylgt í samræmi við inntak og eðli fagnaðarerindisins um háleita sýn og það himinljós, sem lýsir upp hreint hjarta?
Kvikmyndin ,,Hreint hjarta” er sérlega vel gerð þrátt fyrir lítinn tilkostnað og ber vott um glöggskyggni og vandvirkni Gríms sem kvikmyndaleikstjóra. Hún líður vel fram og nær tökum á áhorfendum, sem finna vel fyrir ábyrgð og vanda prestsþjónustunnar, gleði hennar líka en einnig innri átakastraumum. Sóknarpresturinn styður sóknarbörn sín í lífsglímunni, uppörvar og huggar en heyr jafnframt sína eigin baráttu fyrir stöðu sinni og ber þess merki.
Kvikmyndatakan kemur togstreitunni vel til skila svo að umhverfið, vetrarveður og skammdegismyrkur taka líkt og þátt í henni og endurspegla hana, líka í myndskeiðum innan dyra þar sem líf og dauði togast á, skilnaður og samstaða.
Mikinn kjark hefur þurft til að gefa færi á slíkri nánd við eigið líf, persónu og innri átök sem sr. Kristinn Ágúst gerir. Það veldur því að kvikmyndin ,,Hreint hjarta” er áhrifarík og sannferðug.
Það eykur enn vægi heimildarmyndarinnar, að það er sem hún fjalli ekki aðeins um þjónustu og baráttu sr. Kristins Ágústs fyrir stöðu sinni heldur Þjóðkirkjunnar líka fyrir framgangi og farnaði sínum í ölduróti samtíma og samfélags. Er ekki sem kvikmyndin minni á það, að því aðeins sé hægt að tryggja dýrmæta og stjórnarskrárvarða samleið Þjóðar og Kirkju, að það sé viðurkennt og lagfært, er miður hefur farið í brú og á dekki á kirkjuskipinu? Hvetur kvikmyndin ,,Hreint hjarta” ekki augljóslega til þess líka, að þess sé gætt á siglingunni fram, að viðmiðunum og björtu leiðarljósi frelsarans sé betur fylgt, svo að kirkjan fái í nafni hans gert hjörtu hrein með trúverðugri boðun og fagni þeim og styðji þá sem vitna um það í viðhorfum sínum og verkum, að þeir eru í raun og sanni einlægir og hjartahreinir?
Stjörnugjöf ****