En á sjötta mánuði var Gabríel engill sendur frá Guði til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret,til meyjar, er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs, en mærin hét María.Og engillinn kom inn til hennar og sagði: Heil vert þú, sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.
En hún varð hrædd við þessi orð og hugleiddi, hvílík þessi kveðja væri. Og engillinn sagði við hana: Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala, og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans, og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu, og á ríki hans mun enginn endir verða.
Þá sagði María við engilinn: Hvernig má þetta verða, þar eð ég hef ekki karlmanns kennt? Og engillinn sagði við hana: Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur hins hæsta mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, sonur Guðs. Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni, og þetta er sjötti mánuður hennar, sem kölluð var óbyrja, en Guði er enginn hlutur um megn.
Þá sagði María: Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum. Og engillinn fór burt frá henni. Lúk. 1.26-38
María átti von á barni.
Það er stórkostlegt að eiga von á barni sem er velkomið í heiminn. Þú, sem ert faðir eða móðir - manstu ekki vel tilhlökkunina, væntingarnar, gleðina, kærleikann til hins ófædda lífs sem óx og dafnaði í móðurkviði?
Fæðing barns er mesta undur lífsins og ekkert stórkostlegra en að sjá barnið sitt fæðast, heyra fyrsta grátinn, taka það í fangið - þetta nýja líf sem er svo háð umhyggju og umönnun aðstandenda sinna.
Barn kemur í heiminn. Hvernig verður líf þess og framtíð? Vonandi á það víst skjól og öryggi og fær þarfir sínar uppfylltar.
Svo vex barnið úr grasi, umvafið ást sinna nánustu, - stækkar og þroskast, verður sífellt sjálfstæðara, tekst á við viðfangsefni og áskoranir; býr sig undir að slíta dagleg tengsl við foreldrana, flytjast að heiman og stofna eigin fjölskyldu.
Þetta er gangur lífsins, kynslóð eftir kynslóð. Okkur finnst eðlilegt að kynslóðirnar gangi þannig fram, hver á eftir annarri; að barn gærdagsins sé á besta aldri í dag og eldri borgari á morgun.
En stundum raskast þessi gangur og röðin riðlast, hin eldri lifa þau yngri. Það er mjög sárt að missa barnið sitt - hvort sem það deyr sem barn, unglingur eða fulltíða manneskja - það er svo sárt og oft óréttlátt og sorgin nístir hjörtu foreldranna.
Stundum er sorgin líka fólgin í því að vita að barninu er ekki ætlaður nema tiltekinn tími; að ævilíkur þess eru takmarkaðar.
María móðir Jesú þekkti allar þessar hugrenningar. Hún vissi vel hvaða hlutverki sonur hennar átti að gegna. Hann fæddist til að vera frelsari mannkyns, fórna lífi sínu í þágu okkar, deyja dauða okkar og gefa okkur eilífð Guðs.
Rúmum þrjátíu árum eftir heimsókn engilsins sá hún elskaðan frumburð sinn negldan á kross með ótíndum glæpamönnum og þar fjaraði líf hans út.
María gerði sér strax ljóst að líf sonar hennar og sonar Guðs yrði ekki endalaus dans á rósum. Samt gekk hún inn í hlutverk sitt í auðmýkt og þakklæti.
Það ætti alltaf að vekja okkur auðmýkt og þakklæti að vera trúað fyrir nýju lífi sem er dýrmætt og brothætt í senn, sannkallað kraftaverk og staðfesting þess að „Guði er enginn hlutur um megn“ (v. 37) eins og engillinn sagði við Maríu. Hann var þá nýbúinn að segja henni að Elísabet frænka hennar væri einnig orðin þunguð. Það var óhugsandi. Elísabet var fullorðin óbyrja, hafði árum saman búið við þá sorg og skömm að geta aldrei orðið ófrísk. María var hinsvegar kornung stúlka og ekki farin að stunda kynlíf.
Þannig voru þær frænkurnar hvor á sínum enda - María varla nema hálfstálpaður unglingur, Elísabet miðaldra kona. Báðar urðu þær óléttar af því að Guð hafði ákveðinn tilgang með því. Sonur Maríu fæddist til að vera frelsari heimsins en frændi hans, sonur Elísabetar, var Jóhannes skírari, síðasti spámaðurinn, sá sem ruddi frelsaranum brautina og undirbjó jarðveginn. Líf þeirra beggja hafði sérstakan tilgang.
Hvert barn, sem fæðist inn í heim okkar, er sérstakt. Þótt við skiptum milljörðum eru engin tvö okkar eins. Jafnvel fingraförin og augnliturinn eru sérkenni, greina okkur frá öllum öðrum sem lifað hafa hér á jörð.
Hvert barn, sem fæðist inn í þennan heim, hefur sérstakan tilgang. Ekkert okkar kemur í annars stað. Öll erum við einstök og óviðjafnanleg.
Þess vegna er ekkert annað hlutverk okkar í lífinu og tilverunni mikilvægara en foreldrahlutverkið. Hvað sem ég geri og hvað sem ég verð, skiptir það aldrei meira máli en sú staðreynd að ég er faðir eða móðir, skuldbundinn því lífi sem kviknaði af mínum völdum.
Börnin okkar eiga það besta skilið, um það erum við vonandi sammála. Það besta er að fá að hafa sem mest af okkur, foreldrunum, að segja. Dagvistarstofnanir og skólar sinna börnunum vissulega vel en koma aldrei í stað foreldra. Hvorki góðir vinir né heilbrigð áhugamál eru jafn góð forvörn og samvera fjölskyldunnar.
Börnin okkar þurfa á því að halda að hafa forgang í lífi okkar - ekki eingöngu allra fyrstu árin, heldur á einhvern hátt í öllum uppvextinum.
Börnin eru mikilvægari en áhugamálin, félagsstörfin, framinn, eignasöfnunin, neyslan - allt þetta sem fólk á besta aldri er svo upptekið af.
„Verndum bernskuna“ er heiti átaks sem nú stendur yfir og ætti alltaf að vera á döfinni. Við gleðjumst vissulega þegar börnunum okkar gengur vel - en leyfum þeim samt að vera börn. Hlífum þeim við áhyggjum og áreiti sem þau skortir forsendur og þroska til að takast á við eða vinna úr.
Nútímafjölmiðlun veldur því að lesefni, tónlist og ekki síst myndefni flæðir í stríðum straumum inn á heimilin í landinu. Margt af því á alls ekkert erindi til ómótaðra og viðkvæmra barnssálna. Samt sitja börnin oft ein og varnarlaus undir fjölmiðlaefni sem þau eru allsendis ófær um að meta og melta.
Stundum ruglum við saman kærleika og linkind, teljum jafnvel að við séum vond ef við segjum nei, setjum mörk, bönnum. En sannur kærleikur verndar.
Ég undrast oft hve kærulaus við erum gagnvart því, meðan börnin eru yngri, að virða aldursmörk varðandi kvikmyndir og tölvuleiki - og standa við reglur um útivistartíma
Enn erfiðara er að setja ungmennum mörk ef það var ekki gert meðan þau voru yngri.
Það er ekkert sniðugt hve lengi íslenskir unglingar fá að vera úti á kvöldin, jafnvel fram á nótt um helgar.
Það er sorgleg sjálfsblekking þegar foreldrar kaupa áfengi handa ólögráða ungmennum undir því yfirskyni að vilja frekar vita hvers er neytt og með hverjum.
Það er skelfilegt til þess að vita að unglingsstúlkur í efstu bekkjum grunnskóla séu komnar á pilluna af því að það þykir eina nokkurn veginn örugga leiðin til að koma í veg fyrir ótímabæra þungun.
Þó er óvelkomin þungun alls ekki eina neikvæða afleiðing frjálsræðis í kynlífi. Kynsjúkdómar smitast þannig - og hlýtur það ekki líka að hafa margvísleg sálræn og tilfinningaleg áhrif þegar kynferðislegt samneyti á sér ekki stað í varanlegu sambandi lífsförunauta heldur í skyndikynnum og tilraunastarfsemi?
Við eigum að vera á varðbergi þegar sagt er við börnin okkar, unglingana okkar, „prófaðu og veldu svo það sem þér finnst gott“. Það er vond leiðsögn varðandi kynlíf. Unglingarnir okkar eru engin tilraunadýr sem eiga að þreifa sig áfram hvert á öðru.
Það á líka við í umferðinni þar sem unglingarnir eiga það til að ögra hver öðrum en reynslan sýnir að oft er stutt milli lífs og dauða. Þegar slysið hefur átt sér stað er ekki hægt að hætta við, fara til baka eða byrja upp á nýtt eins og í tölvuleikjunum og þykjustunni.
Sérstaka varúð þarf þó gagnvart öllu því magni eiturlyfja sem borið er hingað til lands og fyrst og fremst ætlað unglingunum okkar. Samviskulausir sölumenn dauðans eira engu, skeyta hvorki um líf og framtíð ungmennanna sjálfra né eignir og sálarheill foreldranna, heldur nálgast markhópinn, unga fólkið - gjarnan fyrir tilstilli kunningja - og markaðssetja vöru sína í tælandi myndum í þeirri von að elskuleg börnin okkar ánetjist þeim, verði þrælar, hvað sem það kostar.
Sala fíkniefna ræðst af samspili framboðs og eftirspurnar. Það er virðingarvert að vilja minnka framboðið með því að stöðva innflutning og sölu þessa viðbjóðs. Enn árangursríkara væri þó að minnka eftirspurnina, vinna með öllum tiltækum ráðum gegn því að unga fólkið langi í eða muni nokkurn tíma láta sér detta í hug að prófa fíkniefni.
Í því forvarnastarfi skiptir fjölskyldan höfuðmáli. Við erum of feimin við að tala um fjölskyldugildi en enginn annar aðili kemur í stað fjölskyldunnar í því að miðla hefðum og gildismati og siðferðiskennd. Látum engum öðrum það eftir - og alls ekki þeim háværu öflum sem stefna eingöngu að eigin hagnaði.
Hér getum við lært af Maríu. Hennar er ekki oft getið í guðspjöllunum en helst í því samhengi að hún hafi kappkostað að rækja og rækta samfélagið við Guð og greinilega alið Jesú son sinn upp í trú og trúrækni.
Í öllu uppeldi er fólgið gildismat. Erum við feimin við að gangast við kristnum gildum? Ruglum við saman umburðarlyndi og skoðanaleysi þannig að við veigrum okkur við að gefa börnum okkar það andlega veganesti sem reynst hefur þjóðinni best í þúsund ár?
Umræða samtímans ber með sér að fólk hefur áhyggjur af ofveiði fisktegunda í sjónum og ofnýtingu fallvatna til rafmagnsframleiðslu. En hefur enginn áhyggjur af þurrð andlegra verðmæta, að við göngum of hratt á þau með því að vilja endalaust þiggja náð Guðs án þess að taka trúna alvarlega og helga líf okkar Jesú Kristi í raun og veru?
Við höfum áhyggjur af gengisfellingu krónunnar og hugsanlegu hruni verðbréfa. En hefur enginn áhyggjur af gengisfellingu þeirrar kristnu trúar sem hefur verið grundvöllur mannlífs á Íslandi í þúsund ár - og hefur enginn áhyggjur af hruni siðgæðis þegar kristin trú er ekki lengur sjálfsagt burðarvirki í samfélaginu?
Til lengdar gengur ekki að eyða um efni fram og gildir þá einu hvort um er að ræða einstaklinga og fjölskyldur eða fyrirtæki og banka.
Það er líka hættulegt vera örlátari í nafni kristinnar trúar en innistæða er fyrir.
Fjársjóður kristinnar trúar er Jesús, sonur Maríu, sem fæddist til þess að lifa lífi þínu og mínu, deyja dauða þínum og mínum, gefa þér og mér rétt Guðs barna.
Ekkert annað barn hefur fæðst til að gegna viðlíka hlutverki hér í heimi. Vegna hans er kristin kirkja til og án hans er hún ekkert. Ef kirkjan hættir að sækja viðmið og líf til hans er hún gjaldþrota. Líf hans, dauði og upprisa er innistæðan.
Einu sinni, þegar Jesús var að tala til fólksins, hrópaði kona nokkur í mannfjöldanum að móðir hans væri sæl að hafa fengið að ganga með hann, ala og hafa á brjósti. Þá svaraði Jesús: „Já, því sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það“ (Lúk. 11:28).
Guðspjöllin gera mikið úr hlut kvenna, þvert á ríkjandi viðhorf til þeirra á þessum tíma. Það er eins og guðspjallamönnunum sé það sérstakt kappsmál að draga fram mikilvægi kvennanna og fulla aðild að samfélagi kirkjunnar. Fyrstu vottar upprisunnar voru t. d. konur.
Auðvitað hlaut líka kona að fæða frelsarann í heiminn - og Lúkas gefur okkur þá mynd af getnaði hans að enginn karl hafi komið þar nærri.
Frænkurnar María og Elísabet fengu báðar að reyna að Guði er enginn hlutur um megn. Þær sáu kraftaverk gerast, líf kvikna sem enginn hefði trúað að gæti gerst.
Kristin kirkja er líka slíkt lifandi kraftaverk Guðs. Hún er til vegna þeirra sem hafa heyrt og varðveitt orð Guðs - og varðveita þýðir í þessu samhengi ekki að fela, geyma eða hafa í bakhöndinni, heldur að þiggja, iðka, taka til sín og láta það gegnsýra sig.
Í dag er boðunardagur Maríu til minningar um traust hennar og hlýðni þegar engillinn flutti henni boð Guðs. Hún heyrði erindi Guðs, játaðist hlutverkinu, varðveitti og fóstraði orð Guðs sem með henni bjó.
Mikið væri gott ef þessi orð ættu við um okkur - ef við kappkostuðum að heyra og varðveita orð Guðs.
Hávaði samtímans sljóvgar eyru okkar. Áreitin eru svo mörg og krefjandi að auðveldast er að loka eyrunum. Þessa dagana blandast hörmungafréttir, kosningaáróður og fermingartilboð saman í eina síbylju og við hættum jafnvel að heyra af því að hávaðinn er svo mikill!
En orð Guðs er ekki hluti af þeim ómi. Það heyrum við í kirkjunni og lesum í Biblíunni þar sem við mætum Jesú sjálfum.
Orð Guðs er boðskapurinn um kærleika Guðs í Kristi, um mikilvægi hvers einstaklings og um ábyrgð okkar á náunganum.
Sá boðskapur er sem fyrr grundvöllur og akkeri samfélagsins okkar. Þann boðskap þarf samtíð okkar að heyra, meðtaka og varðveita - ekkert síður en fyrri kynslóðir - ef ekki á að vera hætta á siðferðislegu hruni og andlegri kollsteypu!
Stundum ofbýður okkur græðgi, auglýsingamennska og klámvæðing samfélagsins - en gleymum við því þá kannski að við erum samfélagið?
Við erum jafnvel óánægð með þau sem stjórna og ráða - en þau hefðu aldrei komist í þá stöðu nema af því að við kusum þau.
Þegar við erum ósátt við fjölmiðlana skulum við minnast þess að þeir eru fyrst og fremst fjármagnaðir með auglýsingum fyrirtækja sem við höldum gangandi með viðskiptum og neyslu okkar.
Ef við viljum breyta þjóðfélaginu, þurfum við fyrst að líta í eigin barm og taka til í eigin lífi.
Og ef við viljum stuðla að farsælli framtíð barnanna okkar, skulum við leggja allt kapp á að sýna þeim gott fordæmi, gefa þeim sanna fyrirmynd í trú, siðgæði, líferni, samskiptum.
Flest íslensk börn eru helguð Guði í heilagri skírn. Stuðlum að því að þau alist upp við kristna trú og haldi áfram að eiga Guð að í lífi sínu. Það gerum við, hin eldri, fyrst og fremst með því að rækja eigin trú og lifa sjálf með Guði.
Í þessu efni sem og öðrum munu börnin okkar ekki endilega hlusta á orð okkar eða samþykkja kenningar okkar en þau munu tileinka sér hætti okkar og hegðun.
Fjölskyldan, hvernig sem hún er samsett, er nánasta samfélag okkar. Þar eru frumskyldurnar. Þar eigum við að þiggja og veita stuðning, mótast og miðla gildum. Þar stuðlum við foreldrarnir að því að börnin þroskist og læri á lífið - en við lærum líka sjálf af því að umgangast börnin okkar og sinna þeim, þroskumst áfram af því að styðja þau og takast á við lífið með þeim. Ef við vanrækjum að miðla trú okkar og gildismati til barnanna, munu þau læra að tileinka sér trú og gildismat hjá öðrum aðilum sem bera vísast ekki sömu umhyggju fyrir þeim, líta þau ekki sömu ástaraugum og við, sjá ekki í þeim það einstæða undur lífsins sem foreldrar sjá í börnum sínum.
María tók við trúararfi kynslóðanna og miðlaði honum áfram til sonar síns. Hún var kölluð til sérstaks hlutverks og gekk inn í það í trú og æðruleysi.
Öll fæðumst við til sérstakra hlutverka. Engin okkar eru varamenn eða staðgenglar hinna. Öll erum við dýrmæt, mikilvæg, kölluð til að þjóna Guði á sérstakan hátt með lífi okkar.
Við höfum líka tekið við trúararfi kynslóðanna. Guð gefi okkur náð til að eiga lifandi trú sem leiðir til blessunar í samfélaginu og skilar sér áfram til barnanna og barnabarnanna, um ókomna tíð!
Dýrð sé Guði föður og syni og Heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.