Elsku kennarar

Elsku kennarar

Elsku kennarar! Þið eruð að vinna gríðarlega mikilvægt starf við að kenna börnunum okkar og hjálpa til við að ala þau upp. Þið eigið skilið laun í samræmi við ábyrgð ykkar og framlag til þess að byggja upp góða og réttláta einstaklinga sem kunna eitthvað. En því miður getum við bara ekki borgað ykkur meira. Við þurfum nefnilega að nota peningana í annað. En þið munuð fá þau laun sem þið eigið skilið, að lokum. Það verður bara ekki fyrr en í himnaríki. Jesús sagði nefnilega að hin síðustu munu verða fyrst og hin fyrstu síðust.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
16. febrúar 2014
Flokkar

 Hér er hægt að horfa og hlusta á prédikunina. Rétt ranglæti Elsku kennarar! Þið eruð að vinna gríðarlega mikilvægt starf við að kenna börnunum okkar og hjálpa til við að ala þau upp. Þið eigið skilið laun í samræmi við ábyrgð ykkar og framlag til þess að byggja upp góða og réttláta einstaklinga sem kunna eitthvað. En því miður getum við bara ekki borgað ykkur meira. Við þurfum nefnilega að nota peningana í annað. En þið munuð fá þau laun sem þið eigið skilið, að lokum. Það verður bara ekki fyrr en í himnaríki. Jesús sagði nefnilega að hin síðustu munu verða fyrst og hin fyrstu síðust.

Elsku Pólverjar sem hafið flutt til Íslands! Við erum ykkur svo þakklát fyrir að þið skuluð vilja koma hingað og vinna og fyrir að þið skuluð vilja búa hér á Íslandi. Við getum bara ekki greitt ykkur jafn há laun og Íslendingunum sem eru í sömu störfum og þið. Við þurfum nefnilega að nota peningana í Íslendingana. En þið munuð fá þau laun sem þið eigið skilið, að lokum. Það verður bara ekki fyrr en í himnaríki. Jesús sagði nefnilega að hin síðustu munu verða fyrst og hin fyrstu síðust.

Elsku hinsegin fólk og öll þið sem verðið fyrir mannréttindabrotum í Rússland! Við viljum heilshugar styðja ykkur.  Það er bara svo gaman að vera boðið á ólympíuleika að það er ekki hægt að afþakka það. Það er líka svo erfitt að vera með leiðindi á svona skemmtunum og því gátum við bara ekki komið þessum skilaboðum til harðstjórans. En þið munuð upplifa réttlæti að lokum. Það verður bara ekki fyrr en í himnaríku. Jesús sagði nefnilega að hin síðustu munu verða fyrst og hin fyrstu síðust.

Þessi orð Jesú, um að hin síðustu munu verða fyrst og hin fyrstu síðust, eru upplögð til kúgunar. Til að viðhalda óréttlátu ástandi. Og einmitt á þann hátt hafa þessi orð oft verið notuð. Til þess að kúga.

Þetta er eitt af því erfiða við Biblíuna. Hún er full af frelsandi og fallegum boðskap sem boðar líf og von og fær manneskjuna til að vaxa en hún er líka full af viðkvæmum boðskap og orðum sem hægt er að túlka á alla vegu og jafnvel nota til ills. Hún líka full af sorglegum og jafnvel ljótum frásögum. Vitnisburðum um misjafnlega merkilegt líf okkar mannfólksins. Biblían er nefnilega vitnisburður um trú fólks í gegnum tíðina ásamt því að vera vitnisburður um það þegar Guð gerðist manneskja. Og í þessari bók, sem fjallar um lífið, hlýtur þá að finnast óréttlátur boðskapur og ljótar sögur. Því þannig er lífið okkar. Það er bæði svo dásamlega fagurt og skelfilega ljótt.

Þessu orð voru og eru eflaust hugsuð sem huggun og kannski til þess að minna okkur á að þetta með réttlæti og ranglæti er ekki alltaf svo einfalt. Að við erum ekki alltaf sammála um hvað sé réttlátt og hvað sé óréttlátt og því verði að skoða alla hluti í samhengi við aðstæður. Himnaríki hvenær? Getur verið að Jesús vilji með þessum orðum hugga þau sem verða fyrir ranglæti, þau sem eru síðust á einhvern hátt, með því að segja þeim að bíða bara róleg því þetta verði allt í lagi. Bara löngu síðar?

Eða getur verið að Jesú vilji einnig, með þessum orðum, hvetja okkur til þess að berjast fyrir og koma á réttlæti hér og nú? Í þessu lífi!

Að himnaríki geti orðið hér og nú?

Öfugt ranglæti Sagan sem við heyrðum áðan um húsbóndann sem greiðir daglaunamönnunum öllum sömu laun fyrir sömu vinnu er óréttlát. Það er ekkert réttlæti í því að sá sem vinnur allan daginn, líka í mesta sólarhitanum, fái sömu laun og sá sem rétt lítur við í stutta stund seinnipart dags.

Hugsið ykkur ef við fengjum öll sömu laun. Sama hvað við störfuðum við. Að Seðlabankastjóri væri með sömu laun og afgreiðslustúlkan eða maðurinn í Bónus. Umsjónarkennari 10. bekkjar og flugstjórinn. Listamaðurinn og skilanefndarstarfsmaðurinn. Dæmið hans Jesú snýst um þetta.

Að öll fáum við sömu laun. Að öll séum við jöfn. Að öll séum við jafn dýrmæt. Að öll séum við elskuð.

Þetta hljómar fallega. En er þetta eitthvað sem við viljum?

Væntanlega ekki. Er eitthvað réttlæti í því að sá sem vinnur lítið fái sömu laun og sá sem vinnur langan vinnudag? Að sú sem hefur lagt mikið á sig til að mennta sig fái sömu laun og sú sem ekki hefur neina menntun?

Eða er það kannski einmitt allt í lagi?

Jesús segir að þessi dæmisaga fjalli um himnaríki. Að öll séum við jafn velkomin í himnaríki hvort sem við komum til trúar seint eða snemma. Og hvernig sem líf okkar hafi æxlast. En er það ekki jafn óréttlátt og að vera með mismunandi laun og ólík réttindi eftir kynhneigð, kyni, aldri og þess háttar? Er ekki líka óréttlátt að maðurinn sem er búinn að vera í góðu sambandi við Guðdóminn allt sitt líf, fylgt bæði boðorðunum og gullnu reglunni, kunnað Biblíuna utan að og lifað frómu og fögru lífi, sé jafn elskaður og velkominn í faðm Guðs og þessi sem leiddist út í glæpi og ofbeldi og skeytti ekkert um Guð en sneri blaðinu við á síðustu metrunum?

Mögulega er aðeins auðveldara að sætta sig við þetta ranglæti (ef þetta er ranglæti) þegar það snýst um himnaríki en ef það snerist um veraldlegt réttlæti og jafn mikilvæga hluti og laun og afkomu.

Kannski má segja að þetta sé öfugt ranglæti því þetta er of mikið réttlæti.

Ranglætið sem við þekkjum felst m.a. í miklum launamuni og mismunandi verðmiðum á okkur og okkar störfum. Hvað er t.d. réttlátt við það, svona í alvöru talað, að Pólverjar fái mun lægri laun en Íslendingar fyrir sömu störf? Hvert er réttlætið í því að kennarar fái lægri laun en bankastjórar. Svona í alvörunni. Hvað er réttlátt við það að stjórnvöld séu svo meðvirk með harðstjóra stórveldis að þau mæta með bros á vör á Ólympíuleikana í Rússlandi og taki þátt í leikriti sem borið er uppi af ofbeldi og ranglæti?

En þetta er rétt ranglæti því að við skiljum það og erum vön því. Himnaríki á jörðu Getur verið að þessi saga, þetta óréttlæti eða algjöra réttlæti sem Jesús lýsir í dæmisögunni sé einnig sett þarna fram til þess að fá okkur til þess að íhuga það ranglæti sem við beitum hvert annað sem samfélag og manneskjur, á hverjum degi?

Það rímar ekki á nokkurn hátt við boðskap Jesú Krist að hann styðji ranglæti. Og það rímar alls ekki við boðskap hans að vilja viðhalda óþolandi ástandi með því að fá fólk til þess að sætta sig við það með von um laun á himnum.

Það er vissulega huggun í því að einhvern tíma muni tími réttlætisins rísa upp. Sérstaklega fyrir þau sem ekki hafa nokkra einustu möguleika eða von um að hafa áhrif á eigin aðstæður. En sá boðskapur dugir ekki einn og sér.

Jesús notaði sjálfur hvert tækifæri sem gafst til þess að mótmæla spillingu og óréttlæti. Og því er ég sannfærð um að hann vilji gefa okkur kraft til þess að koma á réttlátari heimi nú þegar, hér í þessu lífi. Ég trúi því að hvar sem óréttlæti ríkir, þar sé Jesús mitt á meðal, að mótmæla.

Hver hin fyrstu eru og hin síðustu eru kannski ekki okkar að meta þegar upp er staðið. Hvernig getum við dæmt um það? Við erum jú sjálf fyrst, síðust eða einhversstaðar mitt á milli. Því er kannski best að láta Guð um allt þess konar mat en einbeita okkur að því að koma himnaríki á nú þegar.

Hér á þessari jörðu. Í þessu lífi. Amen.