Ábyrgð og frelsi

Ábyrgð og frelsi

Frelsið er ekki út í bláinn. Frelsið er alltaf til einhvers. Frelsið miðast alltaf við eitthvað, það á sér andlag sem mótar það. Frelsi er ekki taumleysi. Taumleysisfrelsi er skaðlegt og lífshættulegt. Frelsinu þarf að gefa mynd, það þarf að móta, það þarf að eiga sér takmörk, markmið og girðingar.
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
17. febrúar 2011

Kálfafoss

„Til frelsis frelsaði Kristur okkur. Standið því stöðug og látið ekki aftur leggja á ykkur ánauðarok,“ segir Páll postuli í Galatabréfinu og bætir við:

„Bræður og systur, þið voruð kölluð til að vera frjáls. Misnotið ekki frelsið í þágu eigin girnda heldur þjónið hvert öðru í kærleika.“

Áður en lengra er haldið víkjum við talinu að eyfirskum fossafræðum.

Í Myrká í Myrkárdal eru þrír nafngreindir fossar. Sá neðsti heitir Byrgisfoss. Sá efsti er hæsti foss í Eyjafirði, er mér sagt. Hann ber nafn síðustu tröllskessu á Íslandi sem kastað var í fossinn af bónda einum sem þjáðist af támeyru. Skessan hét Geira og fossinn Geirufoss.

Það er þó miðfossinn sem fær athyglina hér en um hann er sögð þessi saga:

Eitt vorið var kálfum frá Myrká hleypt út í fyrsta sinn.

Þeir voru frelsinu fegnir og töldu sig mikla lánskálfa að vera nú lausir við skorður, hömlur, veggi og girðingar. Tóku þeir á rás suður frá bænum með rassaköstum og hoppum og stefndu á gljúfur Myrkár.

Hróp og grátbænir fólksins á bænum stöðvaði þá ekki. Þvert á móti virtust þeir heldur herða á sér eftir því sem þeir nálguðust hyldjúpt gilið.

Sú för kálfanna endaði með því að þeir steyptust ofan í beljandi fossinn sem var hinn glannalegasti í vorleysingunum. Hefur ekkert til þeirra spurst síðan. Þessi saga og nafn fossins, Kálfafoss, minnir okkur á tilveru þeirra og örlög. Segja má að sagan um Myrkárkálfana hafi endurtekið sig fyrir nokkrum árum. Nýríkum íslenskum athafnamönnum var hleypt út á hinar víðu lendur EES-samningsins. Blámóðuþakinn og stjörnum skrýddur Evrópuhiminninn þandist út yfir höfðum þeirra. Frelsi sínu fegnir bauluðu þeir sprökum raustum, skvettu til rössunum og hlupu í átt að þverhnípinu. Þegar sveitungar þeirra sáu þá þeysast ýlfrandi fram fram af brúninni og hverfa í fossúðann bölvuðu þeir sér fyrir að hafa ekki sett upp girðingar og haft meira eftirlit með þessum kálfum.

Samanburður á Myrkárkálfunum og útrásarkálfunum leiðir í ljós að frelsið reyndist báðum dýrkeypt.

„Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil,“ er sungið í dægurlaginu.

Einmitt það getur verið svo hættulegt, að gera það sem maður vill.

„Misnotið ekki frelsið í þágu eigin girnda heldur þjónið hvert öðru í kærleika,“ segir postulinn.

Frelsið er ekki út í bláinn. Frelsið er alltaf til einhvers. Frelsið miðast alltaf við eitthvað, það á sér andlag sem mótar það. Frelsi er ekki taumleysi. Taumleysisfrelsi er skaðlegt og lífshættulegt. Frelsinu þarf að gefa mynd, það þarf að móta, það þarf að eiga sér takmörk, markmið og girðingar.

Frelsi án ábyrgðar er ekki frelsi. Það er hömlulaust og getur endað úti í lífshættulegum fossum.

Tengsl ábyrgðar og frelsis sjást kannski best á því, að ef við tökum frelsið af manninum, segjum hann ekki frjálsan gerða sinna, heldur sé allt ákvarðað fyrir fram og þess vegna ráði maðurinn sér í raun ekki sjálfur og sé leiksoppur örlaganna, ef við tökum þetta frelsi af manninum, þá er hann ekki lengur ábyrgur gerða sinna. Hann getur ekki borið ábyrgð á því sem hann hefur ekki haft frelsi til að gera.

Sá sem fær gjöf frelsisins, eins dýrmæt og hún er, fær ábyrgðina líka.

Frelsi kristins manns felur í sér þá ábyrgð að þjóna náunganum í kærleika.

Guði séu þakkir fyrir frelsið og megi vitundin um ábyrgð kristins manns eflast í öllu því frelsi sem honum er gefið.