Drottinn við þökkum þér og lofum þig, að við fáum að fagna á þessari hátíð og gleðjast yfir upprisu þinni, að þú lifir og ert mitt á meðal okkar. Við þökkum þér að við fáum að vera með. Líka við sem erum veik að trúa og við sem eigum bágt með að skilja hvað sigur þinn merkir. Fyll okkur sigurvissu og gleði, sem þráir að syngja og hrópa af fögnuði. Lát gleðina enduróma í sálum allra barna þinna og í öllum þínum helgidómum. Kristur er upprisinn! Amen
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen
I
Myndin sem fram - kallast í huga þegar hlýtt er á frásöguna um för kvennanna snemma morguns að gröf Jesú til að smyrja hann ilmsmyrslum eins og frá sagði í guðspjallinu en Jesú var ekki þar - hann var upprisinn er í senn ótrúleg mynd kyrrðar og mynd ólgu og krafts þess sem ekki var, en komið til að vera og það er ekki aftur snúið. Konurnar gengu beygðar af harmi, áhyggjufullar að gröfinni. Stuttu síðar fara þaðan við fót sem frekast þær máttu - óttaslegnar. Eitthvað hafði gerst sem þær gátu ekki af mannlegum mætti borið en áður höfðu þær áhyggjur af því hver velti fyrir þær steininum frá grafarmunnanum. Vegna dýptar myndar frásögunar er ekki í mannlegum mætti hægt að botna þá frásögu og eða tæma með mannlegum skilningi. Vissulega er eilíft tilefni til að gleðjast á þessum morgni. Hvort sem við göngum í huga með konunum að gröf Jesú eða látum hugan hvarfla til sinnar eigin æsku á leið í páskamessu snemma á syfjuðum morgni, fuglasöngur í lofti og sólstafir kitla vanga minninga og heima beið páskaeggið eftir að verða lokið upp og uppgvöta innihald þess. Gleði þess ósvikin á þeirri stundu, ekkert annað komst að.
Vissulega er tilefni á þessari stundu að gleðjast. Þá gleði tjáum við í tali og tónum skærum er lyftir okkur upp úr myrkri föstudagsins langa. Höfum í huga ef atburðir þeir sem gerðust þá hefðu ekki átt sér stað, værum við ekki hér með kitlandi sæld í hjarta snemma páskamorguns upprisunnar. Værum við ekki að hlusta á fagran söng og tæran hljóm er tjáir okkur að Jesús er upprisinn. Ef ekkert myrkrið væri þá væri ekki til neitt er heitir ljós. Í mannlegri tilveru eru ljósir tímar, skuggar, gleði og sorg. Hafa stuðning hvort af öðru.
Páskaatburðurinn er ekki aðeins atburður sem átti sér stað fyrir margt löngu. Á hverjum einasta degi á hann sér hliðstæðu í lífi okkar, í okkar hversdagslega lífi. Frásagan er ótæmandi, því hugsun hennar og mynd eru þannig að ekkert fær af mannlegri hugsun fært hana úr stað. Hún er þarna og það er búið að færa steininn frá vitund okkar en við horfum inn í svart myrkrið skilningsvana. Í stað þess að dveljast þar grípum við andan á lofti eins og til að varðveita andrúmsloftið en verðum láta frá okkur fara til þess af vanmætti að endurnýja kynni okkar af frásögunni ef verða mætti til að varpa nýju ljósi á hana. Kann að vera að svo sé en þrátt fyrir það er það aðeins morgunskíma í samanburði við birtu dagsins í dag sem bregður birtu á þann atburð sem breytti svo mörgu sem gaf von í þrjáðan heim.
Með þessum atburði var ekki tekið í burtu það sem hrjáir, það sem eyðileggur, það sem hið illa og miskunnarlausa kann að stíga á þungum skrefum – nei – ekkert af því var afmáð úr mannlegum veruleika. Inn í þann veruleika sem konurnar voru sveipaðar í og gengu um í sandölum bundnum böndum brostinna vona var þeim heilsað með rödd vonarinnar og fullvissunnar um að atburður föstudagsins langa var ekki og er ekki andvarp þessa heims.
II
Hversu oft skildum við standa frammi fyrir þungum steini hversdagsleika veruleikans og velta fyrir okkur á hvern hátt við getum velt honum frá og eða hvar er hægt að fá hjálp við það. Hugsun okkar og hugmyndir leyfa okkur að velta honum frá vitund okkar en það nær ekki lengra. Þegar á þarf að taka í raunveru okkar haggast hann ekki. Hann er of þungur fyrir okkur að við mættum ein bifa honum. Þessir steinar þessar steinhellur eru út um allt í svo mörgu sem hindrar okkur í að lifa því lífi sem við óskum okkur helst. Kann að vera þess vegna að við göngum ekki áfram í átt að því sem okkur finnst ógjörningur að vinna bug á. Því óskir okkar og draumar um lífið og tilveruna eru ekki endilega eins og við óskum okkur helst að væri. Konurnar þrjár óskuðu sér að einhver gæti hjálpað þeim að færa steininn frá grafarmunnanum áttu sér ekki þá ósk að mæta nýjum tíma, nýjum veruleika. Það gerðu þær. Þær mættu nýjum tíma, nýjum degi, nýju upphafi. Það gerðu þær vegna þess að þær áræddu að ganga til móts við það sem í þeirra huga var ógjörningur að leysa. Þær gerðu það samt. Þess vegna og aðeins þess vegna urðu þær vitni að einhverju sem hugur þeirra nokkru áður var uppfullur af varð skilin eftir á rykugum slóða þess sem hafði alltaf verið og þangað til eins og ekkert fengi breytt. En allt það sem var - varð breytt.
Allt það sem konurnar ætluðu að væri var ekki lengur. Það sem var, var skilið eftir undir skósólum þeirra á leið þeirra óttaslegnar til móts við nýjan tíma eða réttara að segja að nýr tími fylgdi þeim á hæl til móts við gamla tímann. Það var komið að vaktaskiptum þess gamla og þess nýja, myrkursins sem var og ljóssins sem er. Veröldin sem var - var í andaslitrunum og úr þeim andköfum reis upp ný vitund og fullvissa sem konurnar sem frá segir í Markúsarguðspjalli voru nestaðar með fyrst allra – lái þeim hver sem vill að þær urðu óttaslegnar.
Óttinn sem þær báru með sér er enn í dag-gleðin sem þær höfðu fram að færa er óttanum sterkari enn í dag. Við höfum allt til að gleðjast yfir á þessum morgni-því ljós upprisunnar tendrar í hjörtum okkar birtu vonar.
III
Páskaatburðurinn er ekki aðeins atburður sem átti sér stað fyrir margt löngu. Á hverjum einasta degi á hann sér hliðstæðu í lífi okkar, í okkar hversdagslega lífi. “Skelfist ekki…hann er upprisinn…” eru orð sem sögð eru við okkur á hverjum degi.
Hvenær eigum við ekki sameiginlegt fagnaðarefni ef ekki á páskum, hátíð hátíðanna. Sigurhátíðinni, þegar lífssólin bjarta rís og sendir geisla sína á jörð alla. Hvaða fagnaðarhátíð er meiri þegar sól hækkar á lofti. Þegar sól eilífðarinnar rís upp yfir fjöll. Hvenær ef ekki nú á helgum páskum er hægt að snerta strengi fagnaðar í beygðri sálu, þegar við minnumst þess að lífið sigraði dauðann. Þegar konungur lífsins gengur fram í upprisuskrúðanum og mælir hin konunglegu orð til mannkynsins: “Ég lifi og þér munuð lifa.”
Það er boðskapur páskanna fyrst og fremst. Ljós upprisunnar er okkur rétt, boðskapur páskanna hljómar okkur. Veitum okkur þann munað að taka á móti þeirri staðreynd, köllum hana fram í mynd veruleika okkar. Hvort heldur hún er framkölluð í ólgu eða kyrrð hugans þá kallar hún á okkur. Það er okkar að stíga fram og velta steini vitundar okkar frá raunveru okkar eins og við sjáum hana og skynjum. Aðeins þá getum við verið hluttakendur í þeim atburði er páskafrásagan greinir frá. Aðeins þá getum við í ótrúlegum fögnuði og forundran horfst í augu við veröldina eins og hún heldur að hún sé, en við vitað betur.
Megi góður Guð gefa þér og fjölskyldu þinni gleðilega páskahátíð.