Lestrar: Míka 5.1-4 og Lúkas 2.1-14
Gleðileg jól, öllsömul, innilega gleðilega hátíð. Nú ómar ósk um gleði og frið um allan heim; fáir staðir í heiminum eru ósnortnir af fegurð þessarar kveðju. Jafnvel þar sem kristin trú hefur ekki náð að skjóta rótum birtast áhrif hennar í líki heilags Nikulásar sem er gjafmildin sjálf holdi klædd.
Fyrir okkur hér í landi náttmyrkurs er þessi tími líka fagnaðarhátíð ljóssins þegar sólin smám saman hækkar á lofti og daginn tekur að lengja. Og þetta hvíta sem kemur úr loftinu – snjórinn – vekur fögnuð fullorðinna og barna: „Það verða hvít jól, mamma!“ Birtuboð af himnum, þau bera snjórinn.
Norðurlandabúar hafa vanist við að hefja jólahátíðina kl. 18 á aðfangadegi jóla, þegar jólanóttin er að ganga í garð. Þetta er hefð sem við höfum frá Gyðingum og mikið er það nú gaman að þurfa ekki að bíða þangað til í fyrramálið að taka upp gjafirnar.
Sígilda myndin um Trölla sem stal jólunum fjallar dálítið um jólapakka. Hún Cindy Lou með löngu augnhárin sín og ævintýralegar greiðslurnar er dálítið efins um að jólin snúist einvörðungu um pakka, eins og fullorðna fólkið virðist halda. Nákvæmlega hvað hún telur innhald jólanna vera er ekki alveg ljóst en eitthvað í þá veru að það sé samveran og gleðin sem fylgir hátíðinni sem sé það mikilvægasta. Og í ljós kemur að hún hefur rétt fyrir sér: Það er alveg hægt að gleðjast þó að Trölli taki bæði tré og pakka. En tilhugsunina um að hann sé einn á jólunum fær hún ekki afborið og leggur því í hættuför til að að fá hann með í fögnuðinn. Endinn þekkið þið flest – og ef þið hafið ekki séð myndina ætla ég ekki að eyðileggja það fyrir ykkur.
En sem sagt: Jólin eru eitthvað óútskýranlega fallegt, leyndardómur sem hrífur okkur með sér. Leyndardómurinn felst í því að lítið barn fæddist í einni minnstu ættborg í Júda, barn ungrar konu í erfiðum aðstæðum. Hugsið ykkur, hún var að fæða sitt fyrsta barn og engin kona var hjá henni, ekki mamma eða frænka eða systir eða nágrannakona. Bara hann Jósef. En það var nú líka heilmikið. Jósef stendur fyrir styrk og kjark og hann var lánsamur að fá að taka á móti drengnum Maríu- og guðssyni. Barnið litla sem englarnir sögðu birta dýrð Guðs og fluttu hirðunum þannig gleðifréttir var sjálft hirðir, hirðir okkar, en það er einhver sem passar upp á okkur.
Barnið, svona nýtt og ferskt, er frá ómunatíð, ævafornt ætterni, segir Míka spámaður. Barnið sem áreiðanlega hefur grátið eins og flest heilbrigð börn gera við fæðingu er friðarboði, friðurinn sjálfur.
Þannig er kjarni jólafrásögunnar um barnið í jötunni, kjarni gleðilegra jóla, friður og dýrð og dásemd himnanna sem snerta jörðina. Okkar litla líf fær að nærast af þessu lífi, varnarleysi okkar finnur þar styrk, lífsóttinn kjark, kvíðinn frið.
Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.