Fólk á ferð. Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi Nú er nýtt ár hafið og hátíðatíminn að baki. Hversdagsleikinn framundan, sumir sakna þessa kærkomna uppbrots á dimmasta tímanum og kvíða því sem nú er framundan. Aðrir fagna því að lífið fari aftur að ganga sinn vanagang, finnst hversdagslífið vanmetið með sinni festu og ákveðna takti. Guðspjallið að þessu sinni er ekki fallegt en samt í anda þess sem einmitt heyrist oft í fréttum. Ráðamaður, ánetjaður valdinu, fremur óhæfuverk í því skyni að tryggja yfirráð sín. Ekkert er nýtt í þessu. Fyrr í þessum texta er sagt frá því að Jósef hafði fengið vitrun í draumi og honum verið bent á að taka barnið og móður þess og flýja með það burt úr landinu, inn í annað land þar sem meira öryggi var að finna. Þannig má segja að Jesúbarnið sé eins konar erkitýpa allra flóttabarna fyrr og nú. Flótti undan ofsóknum og ferð í átt til fyrirheitna landsins lands þar sem ríkir friður og öryggi. Fólk á ferð, það er gömul saga og ný, á vissan hátt erum við öll á ferðalagi í eiginlegum og óeiginlegum skilningi. Jafnvel þótt við sitjum kyrr þá þokumst við áfram eftir brautarteinum tímans, nú rétt komin framhjá skilti sem á stóð 2016. Öll erum við á einn eða annan hátt í leit að einhverju betra, í von um betri heim, meiri frið, meiri kærleika, meiri miskunn en ekki endilega meira réttlæti þó því sé gjarnan fléttað þarna með. Réttlæti er mikilvægt en það er ekki alltaf kærleiksríkt né miskunnsamt. Oft er „réttlætið“ mótað af hefndarhuga og refsigleði sem lítið á skylt við draum um betra líf. Jafnvel til að vernda eina hagsmuni á kostnað annarra. Samt er nauðsynlegt að setja ramma, gera samning um sameiginlegar reglur, sáttmála sem menn skuldbinda sig til að halda. Forfeður okkar hér á landi flýðu ofríki og ofsóknir, ofstjórn og ofbeldi, sigldu út á úfið haf í leit að betra lífi, meiri frið. Létu sér í léttu rúmi liggja hvað landið hét sem þeir fóru frá og þjóðin enda varla til í þeim skilningi. Ekki leið þó á löngu þar til ástandið í hinu nýja landi varð lítið skárra, það vantaði virkan sáttmála. Hann var að vísu til um skeið en síðan hættu menn að taka mark á honum. Er eitthvað svipað að ske nú? Það má velta því fyrir sér hver sé tilgangur með hugsun um þjóð og þjómenningu, sagt er að þessi hugsun hafi eiginlega varla komið upp, með skilgreindum hætti, fyrr en í byrjun nítjándu aldar. Því fylgdi upphafning fortíðar, „þá riðu hetjur um héruð“ sögðu menn hér á landi. -Í raun ribbaldar sem níddust á saklausu fólki og átu það út á gaddinn. Margir vilja meina að í raun hafi upphafning þess sem kalla má þjóð og þjóðerni verið notað sem drifkraftur hinna skelfilegu stríðsátaka tuttugustu aldarinnar. „Stórkostleg dyggð að deyja fyrir föðurlandið“. Kristin trú er í grunninn alþjóðlegt fyrirbæri er tengir sig ekki við neina eina þjóð. Sú þjóð sem í myrkri gekk og sá mikið ljós er tákn allra þjóða og engra. Við erum fólk á ferð. Íslenska þjóðin þekkir vel eyðimerkurgöngur þótt eyðimörkin sé annað hvort svartir sandar eða, og ekki síður, líflausar fannbreiður. Forfeður okkar á eilífum hrakningi milli örreytiskota í veikri von um rýmri beit, betri slægjur, veiðivon í vatni. Ferð í leit að fyrirheitnu landi, í von um betri heim. Það þekkja flestir sem farið hafa í ferðir um vetur og lent í hrakningum, hversu freistandi það getur verið að tylla sér niður, kannski í skjóli við stein og láta þreytuna líða úr sér meðan veðrið hamast allt um kring. En einmitt þá er hætta á ferð. Ekki gott að festast í værðarmóki, hætta vofir yfir, helkuldinn læsir klónum. Bjargráðið eina að herða sig upp, hrista af sér drungann og halda áfram móti veðrinu. Hver veit nema senn sjáist týra í glugga er vísar veg í lítið hús, yl og vinsemd. Postulinn minnti okkur á að vaka og vinna, um leið og uppbygging hættir hefst niðurbrot og sumstaðar jafnvel niðurrif, þar til ekkert stendur eftir nema rústir einar. Menn vissu það þá og vita það enn að værðarmókið sem er svo þægilegt þegar „vetrar geisar stormur stríður...“, að ef við ekki beitum okkur hörðu og rífum okkur upp þá er vafamál hvort staðið verður upp aftur. Margt getur líka orðið til hjálpar og hvatningar. Kannski „stendur hjá oss friðarengill blíður“. Hvað gerum við þá? Hristum hausinn og teljum það blekkingar eða réttum fram hönd og þiggjum leiðsögn? Hreykið yður ekki í orðum, sleppið engum stóryrðum af vörum því að Drottinn er vitur Guð, hann metur verkin. Þetta var okkur bent á í fyrri lestrinum eitt er að tala annað að koma einhverju sem máli skiptir í verk. En jafnvel þótt ýmsu sé komið í verk þá er það ekki nóg. Framfarir eru vissulega góðar en nýi vegurinn nýtist jafn vel fyrir þjófinn og ofbeldismanninn og þau sem hafa gott í hyggju. Hið sama gildir um greiðar rafrásir netsins þar á ljótleikinn jafn greiða leið og annað sem byggir upp og bætir. Það er hugsunin og viðhorfin sem mestu skipta þegar allt kemur til alls. Það er þar sem Jesús Kristur vill vísa veginn. Hin mannlega tilhneiging er að setja kærleikanum mörk, fjölskylda, þjóð, kynstofn og áfram mætti lengi telja. Hvað er merkilegt við það að elska þá sem þig elska spurði Jesús. Við þekkjum hvernig fjölskyldubönd geta orðið að hlekkjum, hvernig þjóðerniskennd getur slegið menn blindu, hvernig kynþáttahyggja hefur leitt af sér ólýsanlega glæpi. Við sækjum í að setja upp girðingar, hér erum við, þarna eru hin, þau koma okkur ekki við. Þá verður stutt í það að segja: Þau eru öðruvísi en við og í framhaldi af því: Þau eru óvinir okkar. Samt leikur um okkur öll sama loftið. Mengunin mín þekkir ekki þessar girðingar og ekki þeirra heldur.
Jesús Kristur er okkur fyrirmynd á þessu sviði, hann gekk gegnum allar viðteknar girðingar, ögraði þannig viðteknum venjum sem settu fólki skorður. Kærleikurinn þekkir engin landamæri hann setur ekki skilyrði. Í för með honum er miskunnsemi, umburðarlyndi, fyrirgefning. Hann fer á undan með ljós og vísar veginn í átt til fyrirheitna landsins til friðarríkisins sem allir þrá. Hann vill hrista þann til og vekja sem sest hefur að og á hann sigið værðarmók. „Rís upp tak rekkju þína og gakk“. Það er verk að vinna. Fyrir framan okkur er sviðin jörð en moldin er þrungin frjómagni. Tækifærin eru óþrjótandi. Tökum höndum saman, myndum einn sterkan þráð um alla jörð. Myljum niður múra, sáum fyrir grænum grundum. Biðjum þess að Guðs ríkið komi með krafti, í Jesú nafni amen.