Fyrr í þessum mánuði var páfi rómversk-kaþólsku kirkjunnar, Frans I, á ferðalagi um Bolivíu og forseti landsins Evo Morales, færði honum að gjöf listaverk þar sem Jesús kristur hangir krossfestur á hamar og sigð að hætti kommúnista.
Gjöfin sjálf, og raunar látlaus svipbrigði páfa, vöktu athygli heimspressunnar og framganga Morales hefur jöfnum höndum vakið hneykslan og aðdáun þeirra sem hafa tjáð sig um málið.
Forsaga þessa látlausa en mikilvæga atburðar er löng og hlaðin miklum hagsmunum og því er rétt að setja samskipti Frans páfa og Morales í samhengi.
Bólivía er staðsett fyrir miðju rómönsk-ameríku og er fyrrum spönsk nýlenda en nýlenduveldi þeirra hófst með hersigrum á Inkum á 16. öld og stóð til 1825, þegar landið öðlaðist sjálfstæði í uppreisnum. Landið er að meirihluta kaþólskt frá trúboðum spánverja, um 80 % íbúa, og er meirihluti þeirra sem eftir standa mótmælendur þó um 3% standi utan við kristni. Evo Morales er fyrsti forseti Bólivíu sem er af ætt innfæddra en á 19. og 20. öld hefur stjórnarfar einkennst af harðstjórnum og óstöðugleika og meirihluti íbúa býr við sárafátækt.
Gripurinn sem Morales færði páfa er hannaður af þekktum Jesúítapresti í Bólivíu, Luís Espinal Camps, en hann var spænskur trúboði sem var drepinn af útsendurum harðstjórnar í landinu árið 1980. Lucho, eins og hann var kallaður, var baráttumaður fyrir mannréttindum og gagnrýndi yfirvöld harðlega fyrir eiturlyfjaspillingu og ofbeldi í garð þegna sinna og kirkjuna fyrir að gera ekki nóg í þágu fátækra. Boðskap sínum miðlaði hann í ræðu og riti og í gegnum kvikmyndir en eftir hann liggja átta myndir sem hann skrifaði handrit að og kom að framleiðslu á.
Hamar og sigð kommúnismans vísa til hinna vinnandi stétta, sigðin til bænda og hamarinn til verkalýðsins. Kaþólska kirkjan hefur ítrekað fordæmt kommúnisma sem hugmyndafræði og Jóhannes Páll II var áhrifamikill í andófi gegn kommúnisma í austur-Evrópu, sérílagi í heimalandi sínu Póllandi. Á valdatíma Stalíns í Sovíetríkjunum, þaðan sem táknfræðin er komin, voru ofsóknir á hendur trúarhópum miklar og milljónir voru teknir af lífi fyrir það eitt að neita að hafna trú sinni.
Hugmyndafræði og sögutúlkun Karls Marx hafa haft gríðarleg áhrif um allan heim og áhrifa hans gætir ekki síst innan kaþólsku kirkjunnar í suður-Ameríku. Frelsunarguðfræði er samheiti yfir hugmyndir kaþólskra guðfræðinga og presta sem hafa krafist þess að kirkjan láti sig varða aðstæður fátækra í heiminum og hafna því valdaskjóli sem kirkjan hefur notið. Frelsunarguðfræðinga má finna um alla álfuna og þó núverandi páfi hafi gagnrýnt margar af byltingarkenndari hugmyndum þeirra þá er þjónusta hans við fátæka í takt við slíkar áherslur.
Frans baðst í heimsókn sinni formlega afsökunar á þætti kirkjunnar í nýlendustjórn Spánverja en framganga rannsóknarréttarins er einn af smánarblettum kirkjunnar í mannkynssögunni. Þá lagði hann áherslu á mikilvægi réttlætis í sögu og samtíð, bæði gagnvart þeim sem fara halloka í hagstjórnun heimsins og náttúrunni, sem beðið hefur varanlegan skaða af neysluhagkerfi kapítalismans. Loks minntist hann þeirra í mið-austurlöndum og víðar sem eru ofsótt fyrir trú sína og kallaði þau trúarátök heimsstyrjöld og þjóðarmorð sem alþjóðasamfélagið verður að stöðva.
Í þessu samhengi er gjöf Morales í senn ögrandi og ógnandi en bæði embættin hafa lagt áherslu á við heimspressuna að gjöfin hafi verið gefin af góðum hug.
Lucho, sem hannaði gripinn, stóð fyrir mannréttindi fátækra andspænis ofríki auðvaldsins og boðaði byltingu, ekki í blóði heldur með bæn, boðun og kvikmyndagerð. Páfi gerði sér far um að koma við þar sem hann var líflátinn og minnast trúbróður síns í bæn og þökk fyrir þann málstað sem hann barðist fyrir.
Krossinn sem Kristur var festur á var ekki kristið tákn þegar sá atburður átti sér stað heldur kúgunartæki rómverska hersins, sem mat líf einstaklingsins einskis frammi fyrir þörfum Rómarveldis. Krossfestingar urðu örlög þeirra til forna sem ógnuðu valdajafnvægi þar sem fámenn forréttindastétt arðrændi almenning sem lifði við sára fátækt og valdleysi. Það urðu örlög Krists, enda sýndi hann samstöðu með hinum þjáðu og undirokuðu í sínu samfélagi.
Tveimur árþúsundum síðar er staða mannkyns í senn gjörbreytt og sú sama og hún hefur verið í gegnum mannkynssöguna. Í dag hefur harðstjórnin nýja ásýnd og ný kúgunartákn en meginþorri almennings býr enn við kjör sem fullnægja ekki grunnþörfum og stendur valdslaus í aðstæðum sínum. Um allan heim er fámenn forréttindastétt sem safnar völdum á meðan almenningur er sviptur reisn sinni og lífsviðurværi.
Hamarinn og sigðin urðu í höndum Stalín að kúgunartæki þar sem milljónir létu lífið í guðleysisofsóknum og draumur Marx um sameiningu öreigastéttarinnar breyttist í martröð þar sem einstaklingurinn var einskis verður frammi fyrir þörfum flokksins. Það er því viðeigandi að Kristur sé festur með sama hætti á nýtt kúgunartákn
Kristin trú er ekki pólitísk hugmyndafræði í samkeppni við stefnur sem gera tilkall til stjórnun samfélaga, heldur trúarlegur mannskilningur sem birtist í samstöðu með þeim sem á hverjum tíma eiga undir högg að sækja. Sá mannskilningur birtist með skýrum hætti í textum dagsins en annar kafli Postulasögunnar lýsir framgangi hinnar frumkristnu hreyfingar, sem gerði það að inntökuskilyrði að deila gæðum sínum með öðrum.
Í postulasögunni segir:
,,Allir þeir sem trúðu héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt. Menn seldu eigur sínar og muni og skiptu meðal allra eftir því sem hver hafði þörf á. Daglega komu menn saman með einum huga í helgidóminum, brutu brauð í heimahúsum, neyttu fæðu saman í fögnuði og einlægni hjartans. Þeir lofuðu Guð og höfðu vinsældir af öllum. En Drottinn bætti daglega við í hópinn þeim er frelsast létu.”
Marx var biblíufróður maður og margir hafa gert sér í hugarlund að hann hafi sótt samfélagssýn sína í Postulasöguna en hér er þó grundvallarmunur á. Í stað eignanáms eða skattheimtu er hér um að ræða samfélagssýn þar sem hver gefur af gæðum sínum með öðrum vegna þess að hann finnur til ábyrgðar gagnvart þeim sem ekki eiga nóg.
Marxismi og kristin trú eiga það sameiginlegt að byrja hugsun sína hjá þeim sem er lægst settur í samfélaginu og boða bæði róttæka samfélagssýn þar sem valdakerfinu er snúið á haus. Vandi Marxismans er hinsvegar sá að ,,byltingin étur börnin sín” í þeirri merkingu að þó að valdshöfum eins tíma er komið frá er næsta víst að völdin spilli þeim sem taka við með sama hætti.
Manneskjan safnar og beitir völdum af ótta við að eiga ekki nóg og að vera ekki óhult og án trúar er sá ótti viðvarandi. Fyrirheiti kirkjunnar og erindi Jesú Krists gengur þvert á þann ótta og boðar að veruleikinn er annar.
Við erum ekki verðlaus, heldur elskuð og dýrmætari en hægt er að mæla með þessa heims mælikvörðum.
Við erum ekki hjálparvana, heldur eigum aðgang að uppspretta valds þess sem grundvallaði heiminn ef við veljum að beina kröftum okkar í þágu þeirra sem þurfa þess við.
Og við erum ekki fátæk, við eigum meira en nóg, vandinn er að við þurfum að læra sem samfélag og kirkja að láta af forréttindum okkar og dreifa gæðum okkar með systkinum okkar um allan heim.
Það er erindi kristinnar kirkju og það erindi er í senn raunsætt á syndugt eðli manneskjunnar og takmörkum valdakerfa og bjartsýnt á mannhelgi hverrar manneskju og takmarkaleysi þess kærleika sem leysist úr læðingi þegar við opnum hjörtu okkar fyrir elsku Guðs.
Líkt og Lucho hélt á lofti boðar kirkjan byltingu, ekki í blóði, heldur með bæn, boðun og skapandi leiðum til að reynast hvert öðru hendur Guðs í þessum heimi.
Guð veiti okkur náð sína til að reynast þeirri köllun trú.