Þegar steininum er velt frá

Þegar steininum er velt frá

Inntak páskaboðskaparins er að það var sjálfur höfundur lífsins sem kom til jarðarinnar og gerðist maður eins og þú, fæddur af Maríu og lagður í jötu, lítið ósjálfbjarga barn, til þess að taka á sig alla mannlega neyð, allar misgjörðir þeirra og syndir og síðast dauðann sjálfan sem er afleiðing syndarinnar, og sigra það allt.
fullname - andlitsmynd Kristján Valur Ingólfsson
12. apríl 2009
Flokkar

Sem hrelldur smáfugl hímir undir steini um hæstan vetur, sat ég oft í leyni uns Jesús kom og kulda dauðans eyddi og kærleiksvorið inn í brjóst mitt leiddi.

Þá sólin rennur vaknar kátur kliður, er konung dagsins hyllir fuglaniður, eins fagna ég, sem fyrri stundi hljóður og föðurnafnið blessar nú minn óður.

Því son Guðs kom með sól og morgunroða, er sendur var í heiminn til að boða, að föður hans vér föður mættum kalla og fárátt mannkyn bræður sína alla.

Þann gleðiboðskap þér vér þökkum, faðir! og þér, vor bróðir fylgjum hjartaglaðir, nú verður jörðin blessað bræðrasetur og börnum jarðar hverfur hel og vetur. Matthías Jochumson.

Ritað er í Jóhannesarguðspjalli:

Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma að enn var myrkur og sér steininn tekinn frá gröfinni. Jóh.20.1

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Það vannst ekki tími til þess á föstudaginn langa að búa líkama Jesú til greftrunar eins og venja var í gyðinglegum sið. Hvíldardaginn allan mátti ekkert gera. Þess vegna biðu konurnar allan laugardaginn, en lögðu af stað um leið og dagur var í nánd.

Í morgun voru hér rúmlega fjörutíu manns sem höfðu einmitt nálgast Þingvelli þegar dagur var í nánd. Það var fögur röndin bjarta yfir fjallahringnum í austri á frostköldum morgninum meðan við sungum úti fyrir kirkjunni. Og svo rann sólin upp.

Í frásögn guðspjallanna segir frá konum sem héldu til grafarinnar í morgun með smyrslin sín. Þess vegna fyrirgefst prestinum kannski að lesa í upphafi þetta ljóð Matthíasar Jochumsonar þar sem einungis bræður eru nefndir, því nú eru systur í aðalhlutverki. Systur með smyrsl. Allar nema María Magdalena, ef marka má orð Jóhannesar um það. Hún var ein með sorg sína. Nóttin var enn við völd. Dagur var ekki runninn. Fyrstu andartök morgunsins eru einkennilegur tími. Við erum hvorki sofandi né vakandi og stírurnar í augunum koma í veg fyrir að við sjáum skírt. Við erum enn að hluta til í landi draumanna, en verkefni dagsins toga í okkur eins og sáðreitur sem bíður útsæðisins.

Á þessum andartökum erum við sérstaklega viðkvæm fyrir því sem getur haft áhrif á yfirbragð dagsins og breytt ferli hans.

María kemur fyrst að gröfinni. Í fyrstu morgunskímu sér hún að steininum hafði verið velt frá og fyrst allra fær hún að sjá að Jesús er í raun og veru upprisinn til hins nýja veruleika.

Allar stundir síðan er það bæn þeirra sem koma saman frammi fyrir hinum upprisna Drottni að augu þeirra ljúkist upp svo þau megi sjá hann mitt á meðal þeirra.

Og þau gætu gert þessa bæn að sinni:

Jesús Kristur, þú ert eins og morgundöggin sem myndast mjúkt og létt á mótum dags og nætur. Þú ert eins og dagsbirtan sem brýst út úr myrkrinu. Þú ert eins og morgunsólin sem gefur ljós og yl og glæðir líf og von.

Nóttin hefur undarlega töfra. Sumt fólk gerir nóttina að degi. Það nýtur dimmunnar og leitar hennar eins og skjóls. Það felur sig í henni eins og hún væri huliðshjálmur. Aðrir óttast kyrrð næturinnar, hugsanir sínar og tilfinningar sem koma að innan úr huldum hirslum hugans og leita helst fram í myrkrinu.

Óttist maður um aðra manneskju er sá ótti sterkastur á nóttunni. Hvar er sá sem ég ann?

Hvar er barnið mitt sem ekki er enn komið heim? Hvar er ástvinur minn sem ég vænti?

Og hvar er sá sem ég missti og dauðinn tók?

Það er þessi ókyrrð sem rænir Maríu svefni og leiðir hana út að gröfinni. Eins og svo marga sem missa.

María Magdalena leitaði návistar Jesú alla tíð. Um það og merkingu þess eru skrifaðar bækur. Hvað sem efni þeirra líður er ljóst af guðspjöllunum að saga hennar er sérstök. Hún var við krossinn Jafnvel postularnir eru ekki nefndir þar, utan einn. Og hún leitar grafarinnar í sorg sinni meðan enn er nótt. Sorgin slær manninn blindu. Tárin fylla augun og trufla sjónina. En þá gerist líka fleira: Að gráta gerir augun blind en hjartað sjáandi.

Þess vegna kann sá sem syrgir svo vel að skilja á milli þeirra sem í raun og veru vilja hugga og þeirra sem eru með innantóm orð á vörum.

Það er þessi tegund skilnings sem við þörfnumst frammi fyrir boðskap páskanna. Ef það er aðeins eyrað og höfuðið sem heyrir frásögnina um upprisu Jesú Krists frá dauðum hefur engum steini verið velt frá. Hann liggur þá enn á hjartanu.

Valdimar Briem vissi hvað það var að missa barn þegar hann orti páskasálminn : Í austri rís upp ársól skær, þar sem segir:

Það ógnarbjarg er oltið frá er yfir gröf vors Drottins lá, og gröfin opnuð aftur, Ó, hver tók líka burt það bjarg á brjósti mér er lá sem farg? Það gjörði Guð, þinn kraftur.

Í Drottins gröf varð blítt og bjart þar birtust englar ljóss með skart og ásýnd undurfríða. Í hverri gröf sem grafin er í gegnum myrkrið trúin sér Guðs engla birtast blíða Jesú. Virst þeim láta er liðna gráta legstað yfir, engla boða að látinn lifir. Valdimar Briem. (Sb. 148)

Kæri söfnuður.

Sjónvarpsfréttirnar hafa flutt okkur undanfarna daga fregnir og myndir af grátandi fólki á Ítalíu. Fyrst fyrir framan hrunin hús í von og ótta og svo við hina stóru sameiginlegu útför þeirra sem létust í hamförunum. Í hópi syrgjenda var æðsti maður ítölsku þjóðarinnar með lífverði á báðar hendur og passaði jafn illa í hópinn og rottuhali í rósavönd.

Peningar og völd andspænis dýpstu og heitustu tilfinningum manneskjunnar megna ekki neitt. Ég hef misst þann sem ég elska mest.

Upprisuboðskapurinn er huggun þeim sem misst hafa og trúa, en hann fyllir ekki það skarð sem rofið er í hópinn. Það er í raun tvennt ólíkt, en það getur tengst og fullkomnast í sátt þar á milli. Hin persónulegu tengsl milli einstaklings og hins upprisna er aðeins önnur hliðin. Jesús vitjar mín og huggar mig í sorginni og gefur mér gleði eftirvæntingarinnar. Við munum sjást aftur hjá honum. Hin hliðin er miklu stærri og meiri. Vegna þess að Jesús sigraði dauðann er veröldin ný á þessum morgni og allt sköpunarverkið fagnar upprisunni. Lækur fagnar og lambið. Allt er orðið nýtt.

Lind er í fjallinu lækur í gili lamb á þúfu. Orðið þitt Guð er uppspretta alls.

Ilmur úr moldinni, angan af vori, ungar á hreiðrum. Elska þín Guð er umhverfis allt.

Dagur í austrinu, dýrð á fjöllum, Drottinn kemur. Ljósið þitt Guð er lífgjöf mín.

Páskarnir eru sannarlega vitnisburður um það til sérhvers manns að sjálfur höfundur lífsins gekk á hólm við dauðann og sigraði, en það er líka, og einmitt þess vegna hátíð alls sköpunarverksins. Páskarnir eru óskiljanlegt undur.

Kæri söfnuður.

Við færumst nær því að skilja leyndardóma sköpunarinnar. Við kunnum að skilja í sundur minnstu einingar efnisins, kunnum að greina galla og villur í litningum, finna lækningu við áður ólæknandi sjúkdómum og jafnvel beita sköpunarkrafti stofnfrumunnar til að bæta það sem spillst hefur eða glatast í líkamanum. En við kunnum ekki að lækna sorgina og ekki búa til ástina. Og að vekja til lífs það sem dó getum við ekki.

Páskarnir eru undur. Lífið sjálft er óskiljanlegt undur. Upprisan undrið mesta.

Þið leitið að Jesú frá Nasaret hinum krossfesta. Hann er upprisinn , hann er ekki hér. (Mark.16.6) Þetta sagði sendiboðinn sem stóð inni í gröfinni, skrýddur ljósi, við konurnar úti fyrir. Boðskapur guðspjallsins og engilsins er þessi: Jesús er ekki persóna í gamalli sögu, heldur lifir hann, og gengur sem lifandi leiðtogi á undan okkur, hann kallar okkur til að fylgja hinum lifandi eftir og finna veg lífsins.

Lærisveinarnir voru í nokkrum vafa með þetta allt saman alveg frá því að Jesús nefndi fyrst við þá hvað koma myndi. Það segir hjá Markúsi:

Á leiðinni ofan fjallið bannaði Jesús þeim að segja nokkrum frá því er þeir höfðu séð, fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum. Þeir festu orðin í minni og ræddu um hvað væri að rísa upp frá dauðum. (Mark.9.9-10) (sjá einnig mark.9. 31b-32.)

Hvað merkir það, að Jesús reis upp frá dauðum?

Ef það snýst bara um það að Jesús sem dó á krossinum verði aftur lifandi, þá er það sannarlega gleðilegt fyrir þau sem standa honum næst og elska hann, en það hefði engu breytt fyrir annað fólk eða heiminn.

Þess vegna er það ekki heldur inntak páskaboðskaparins. Inntak hans er að það var sjálfur höfundur lífsins sem kom til jarðarinnar og gerðist maður eins og þú, fæddur af Maríu og lagður í jötu, lítið ósjálfbjarga barn, til þess að taka á sig alla mannlega neyð, allar misgjörðir þeirra og syndir og síðast dauðann sjálfan sem er afleiðing syndarinnar , og sigra það allt. Svo að ekki bara ég og þú og þau sem við elskum megum eiga eilíft líf með honum, og megum stíga í gegnum gröfina eins og í gegnum dyr inn til Guðríkisins , heldur að öll sköpun Guðs rísi upp og verði ný og heil og hrein.

Og það sem fullkomnast um síðir við endi aldanna er orðinn lifandi veruleiki hér og nú.

Jesús Kristur er sá sem segir í Opinberunarbókinni:

Vertu ekki hræddur, ég er hinn fyrsti og hinn síðasti og hinn lifandi. Ég dó en nú lifi ég um aldir alda og ég hef lykla dauðans og heljar. (Opb.1.17b -18)

Jesús lifir. Lífið sanna leysti fjötur allra manna. Heldur lyklum Heljar á hann sem leysir dauða frá. Amen

Gleðilega páskahátíð.

Dýrð sé Guði, Föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen