Menn færðu börn til Jesú að hann snerti þau en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það sárnaði honum og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég ykkur: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ Og Jesús tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau. Mark. 10:13-16
Mikið var yndislegt að syngja með börnunum „Jesús er besti vinur barnanna“. Það eru forréttindi að trúa á kærleiksríkan Guð sem tekur alltaf við okkur og er með í blíðu og stríðu.
Jesús sagði sjálfur: „Leyfið börnunum að koma til mín“ (Mark. 10:14). Þau orð hans eru í fullu gildi. Um þessar mundir eru þau jafnvel enn mikilvægari og dýrmætari en við gerðum okkur grein fyrir í uppsveiflunni og góðærinu.
Forvarnastarf er mikilvægt, það vitum við öll. Trúarlegt, kristið uppeldi er auðvitað frábært forvarnastarf, fyrirbyggjandi og hefur varanlegt gildi.
Þegar efnisleg verðmæti bregðast, þegar eignir í bréfum verða ekki pappírsins virði, þegar laun lækka en skuldir hækka, þegar glansmynd þenslunnar afskræmist í hryllingsmynd – einmitt þá reynir á hin sönnu verðmæti sem mölur og ryð fá ekki grandað (sbr. orð Jesú í Matt. 6:19-21). Þau verðmæti eru trú á Jesú Krist og vissa um nálægð Guðs í öllum hlutum.
Hvað, sem gerist á lífsleiðinni, verða þau verðmæti okkur alltaf tiltæk þegar mest á reynir. Trúin hefur orðið mörgum haldreipi þegar þrengdi að – og jafnvel síðasta hálmstráið þegar allt annað brást.
Þjóðkunnur Íslendingur lýsir því í endurminningum sínum þegar hann sat í gæsluvarðhaldi, alsaklaus en grunaður um aðild að hræðilegum glæp (Einar Bollason). Hann var látinn dúsa í einangrun svo vikum skipti og brotnaði smám saman niður. Sjálfur segist hann sannfærður um að ver hefði farið ef hann hefði ekki átt trúarneista og getað beðið Guð um styrk. Hann nefnir sérstaklega að það, sem hann heyrði og lærði hjá KFUM í Vatnaskógi ungur að árum, hafi skilað sér þarna, þegar hann þurfti mest á því að halda. Það hjálpaði honum að komast af þegar myrkrið var svartast.
Aldraður rithöfundur hélt því fram í sjónvarpsviðtali rétt fyrir jólin að KFUM hefði bjargað lífi hans (sjá Fréttabréf KFUM og KFUK jan. 2009, umræddur er Sigurður A. Magnússon). Fleiri gætu sagt eitthvað álíka.
Um þessar mundir eru einmitt 110 ár frá því að Friðrik Friðriksson stofnaði KFUM og KFUK á Íslandi. Það starf hefur orðið mörgum til blessunar, sem og annað kristilegt æskulýðsstarf hér á landi. Í slíku starfi er æskunni gefið varanlegt, hollt veganesti, sem endist betur en flest annað og rýrnar ekki þótt sverfi að.
Þau, sem losna úr viðjum fíknar og óreglu, þakka það oft Guði og trúnni á hann. Mörg þeirra höfðu alist upp í trú, lært að biðja og heyrt biblíusögur. Það kom þeim til hjálpar þegar verst stóð á í lífinu. Frækornið, sem sáð hafði verið í hjörtu þeirra í æsku, bar þá ávöxt.
Dæmin sanna að Guð hjálpar vissulega í nauðum. Núna stendur illa á hjá þjóð okkar og einföld lausn er ekki í sjónmáli. Um hríð munum við bera þungar byrðar. Hví skyldi Guð ekki gefa okkur styrk til þess að standa undir farginu, ef við leitum til hans? Hví skyldi hann ekki hjálpa okkur þegar verst gegnir í þjólífinu?
Einn höfunda Biblíunnar segir: „Nemið staðar við vegina og litist um, spyrjið um gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin og farið hana svo að þér finnið sálum yðar hvíld“ (Jer. 6:16).
Undanfarin ár höfum við sneitt hjá gömlu götunum. Nýjungagirni var allsráðandi. Núna eru loftbólurnar sprungnar. Sýndarveruleiki endalauss ofsagróða hefur verið afhjúpaður. Hitt er óbreytt sem var, er og verður alltaf á sínum stað: Gamla, góða, kristna trúin, hamingjuleiðin að sátt við Guð og sálarfriði.
Þeirri leið lokar enginn mannlegur máttur – þótt ýmsir reyni, með öllum tiltækum ráðum. Já, það er merkilegt, eiginlega með hreinum ólíkindum, hve markvisst og hatrammlega er barist gegn iðkun og miðlun kristinnar trúar á opinberum vettvangi, einkum þegar börn og ungmenni eiga í hlut. Tilgangurinn helgar meðalið og ekki að sjá að fólk leggi upp úr því að vera sjálfu sér samkvæmt.
Almennt er t. d. talið sjálfsagt að tengja margvíslegt íþrótta- og tómstundastarf við frístundaheimilin sem annast börnin að loknum skóladegi – en vissara að hafa allan varann á þegar um kirkjustarf er að ræða.
Í sumum leikskólum þykir sniðugt að bera fram þjóðlegan, íslenskan mat. Samt er hluti barnanna nýbúar af ýmsu þjóðerni þar sem allt aðrar matarhefðir ríkja. Önnur börn eru líka alin upp við annað mataræði þótt þau séu Íslendingar í marga ættliði. En öll smakka þau slátur og svið, hugsanlega líka skötu. Það er þjóðlegt!
Hins vegar er torsótt að fá að fræða leikskólabörnin í kristinni trú. Tregðan er á þeirri forsendu að sum þeirra komi frá heimilum þar sem kristin trú er ekki iðkuð.
Fyrir jólin má varla fjalla um fæðingu Jesú í sumum skólum og leikskólum. Hins vegar fer að sjálfsögðu mikill tími í að kynna jólsveinana af því að þeir eru hluti af íslenskri menningararfleifð. En – bíðum við – elsta heimild um íslenska jólasveina er frá því seint á 17. öld. Sagan um fæðingu Jesú hefur verið sögð í landinu frá upphafi byggðar. Hún á margfalt dýpri rætur og meira en þrefalt lengri hefð í íslenskri sögu og menningu!
Þannig mætti lengi telja dæmin sem sýna ósamkvæmni og ótrúlegan tepruskap gagnvart trú og trúariðkun.
Samt er ekki hægt að finna eitt einasta dæmi þess að íslenskt trúaruppeldi hafi orðið neinum til tjóns. Lifandi trú hefur þvert á móti jákvæð áhrif, er hluti af daglegu lífi og mótar það til góðs. Þegar á móti blæs er mikilvægt að trúin sé ekki innhverft einkamál og feimnismál heldur sýnileg sem sjálfsagður þáttur tilverunnar.
Íslenskir múslímar gera sér fulla grein fyrir þessu. Þeir auglýstu opinbera bænastund fyrir landi og þjóð nú um áramótin. Í því felst bæði einlægni og djörfung. Þeim er ljóst, eins og öllum öðrum sem taka trú sína alvarlega, að við eigum óhikað að fela okkur Guði á vald og biðja um leiðsögn hans á erfiðum tímum.
Við, hin kristnu, getum ekki verið þekkt fyrir að eiga minni djörfung eða sýna minni einurð. Við eigum frelsara sem gerir okkur að börnum Guðs og hann segir sjálfur: „Hver, sem tekur ekki við Guðsríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma“ (Mark. 10:15).
Í þessum orðum felst náðin, sérkenni kristinnar trúar. Við þurfum ekki að vera neitt sérstakt eða afreka neitt sérstakt gagnvart Guði. Að taka við eins og barn þýðir að treysta efalaust og algerlega. Guð mun ekki bregðast slíku trausti. Gagnvart honum verðum við alltaf í sporum barnsins, aldrei fullþroskuð eða fullnuma en vonandi alltaf einlæg og sönn. Þannig eigum við aðgang að Guðsríki hans.
Lexía dagsins boðar það Guðsríki. Þar ríkir von og gleði. Guð mun snúa við högum okkar. Hann mun snúa illu til góðs (v. 13).
Það gildir líka um þjóð okkar. Við eigum eftir að sjá slíkt gerast í þjóðlífinu. Því megum við treysta, megum tileinka okkur traust barnsins sem hvílir áhyggjulaust í örmum foreldranna og efast ekki um aðstandendur sína. Þannig megum við hvíla í Guði.
Undanfarna mánuði höfum við gengið gegnum eðlileg viðbrögð við áfalli. Afneitun á því að svona illa hafi í raun farið, ótti við það sem framundan er, reiði yfir því hvernig var farið með okkur og uppgjöf gagnvart ókleifum skuldafjöllum – þetta eru áfallaviðbrögð. Þau eru fyrstu viðbrögð við áfalli, svo tekur endurreisnin við.
Nú er komið að því. Í upphafi nýs árs er mikilvægt að festast ekki í bölsýni og sjálfsvorkunn. Okkur mun opnast leið út úr ógöngunum. Við þurfum að halda áfram, takast á við breyttar aðstæður á uppbyggilegan hátt og stefna fram á við.
Allra fyrst skulum við þó horfast í augu við það sem fór úrskeiðis og gera upp við okkur hvað við vildum að hefði verið öðruvísi, bæði hjá þeim sem fóru á undan og hjá okkur sem fylgdum þeim eftir. Eftir á að hyggja einkenndust undanfarin ár nefnilega af hömluleysi, ekki fárra, heldur alltof margra.
Hömluleysið er í víkingablóðinu sem rennur í æðum okkar og eykur líkurnar á að við förum fram úr sjálfum okkur, séum óöguð. Það á t. d. við þegar við smeygjum okkur framfyrir biðröð, leggjum bíl í merkt stæði eða uppi á gangstétt og ökum með síma í hendi.
Fyrir nokkrum árum varð eldsvoði í miðborg Reykjavíkur að kvöldlagi. Erfiðasta verkefni lögreglunnar var að halda almenningi utan afgirts hættusvæðis og tryggja að slökkviliðið gæti unnið starf sitt óáreitt af mannfjöldanum sem valsaði um og skipti sér af.
Fyrir rúmum tveimur árum þurftu lögregla og björgunarsveitir bókstaflega að setja upp vegartálma á fjölförnum þjóðvegi sem lokaðist vegna stórhríðar. Fólk tók ekkert mark á því þótt veginum væri lokað með merkingum. Sama hömluleysi og agaleysi einkenndi lífsstíl margra sem haldið var uppi með lánum á lán ofan og boginn spenntur hátt.
Auðvitað á þetta ekki við um okkur öll, en hver naut samt ekki góðs af háu gengi íslensku krónunnar? Það leiddi af sér ódýrari utanlandsferðir og lægra verð á innfluttri vöru en annars hefði verið.
Núna hefur það breyst og sú breyting snertir okkur öll.
En fleira hefur breyst. Í sorgar- og áfallaatburðum kemur líka skýrt í ljós allt hið besta í fari mannkynsins. Umhyggja verður sýnilegri og samstaða er áberandi. Hjálpsamt og óeigingjarnt fólk tekur af skarið. Náungakærleikurinn blómstrar.
Mikið væri frábært ef okkur tækist að varðveita þetta góða og jákvæða og láta það einnig móta samfélag okkar þegar aftur fer að ára betur. Góðu gildin eiga alltaf við.
Trúin á líka alltaf við, ekki eingöngu í vanda og neyð, heldur ekkert síður þegar allt leikur í lyndi. Kristin trú er fyrst og fremst trú gleði og vonar og birtu. Munum að setja Guð ekki afsíðis í næsta góðæri heldur höfum hann með í öllum áformum og verkum.
Þannig felast tækifæri í erfiðleikunum, tækifæri til að læra af hinu liðna og forðast að það óæskilega endurtaki sig. Í víkingablóðinu er líka áræði og kraftur til að bregðast skjótt við og vinna sig hratt út úr erfiðleikunum. Sameinumst um það!
Þrátt fyrir skellinn erum við rík þjóð og ráðum yfir miklum auðlindum. Um síðir munum við greiða niður erlendar skuldir þjóðarbúsins. Það höfum við áður sýnt.
Vissulega er mikið alvörumál að skuldsetja komandi kynslóðir. Engum dettur í hug að gera lítið úr því.
Þó er það ekki það versta sem hent gæti þjóðina. Enn alvarlegra væri að ræna börnin okkar þeim lífsgrundvelli sem traustastur er og best hefur reynst, kynslóð eftir kynslóð, í allsnægtum og örbirgð.
Gætum þess vel, í umróti breytinga og endurmati lífsgilda, að týna ekki gömlu götunum, hamingjuleiðinni. Hróflum ekki við þeim kristnu gildum sem hafa blessað okkur í aldanna rás.
Hugsum um framtíð afkomendanna. Þeim kemur best að hér búi áfram frjáls, kristin þjóð í landi tækifæra og nægta, þjóð sem hefur lært af mistökum fyrri kynslóða og endurtekur þau ekki, þjóð sem hefur tamið sér nægjusemi og hófsemi, þjóð sem kappkostar að sýna samkennd og umhyggju, þjóð sem er þakklát fyrir þau lífsgæði sem henni hafa hlotnast og horfir bjartsýn fram á við, þjóð sem velur gömlu, góðu göturnar, hamingjuleiðina einu sönnu, en forðast nýjar hraðbrautir sem enda í vegleysu.
Rætist þessi framtíðarsýn? Það er að miklu leyti komið undir okkur sjálfum. Þar gilda orð Jesú: „Leitið fyrst ríkis hans (Guðs) og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki“ (Matt. 6:33).
Þetta er forgangsröð þeirra sem vilja hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs síns. Viljum við það ekki öll? Byrjum þá á því að fela Guði allan hag okkar, allar áhyggjur, öll vonbrigði, alla sorg – en líka allar væntingar, þrár og gleði. Það er svo óviðjafnanlega gott að vera ekki einn heldur vita sig barn Guðs, eiga skjól hans, vernd og náð, vera í hendi hans. Leyfum börnunum þess vegna endilega að koma til Jesú. Stuðlum að því að uppvaxandi kynslóðir læri að treysta Guði og þiggja nálægð hans. Við getum ekki gefið þeim betra veganesti. Við getum ekki gefið sjálfum okkur og þjóðinni betri gjöf á umbrotatímum.
Jesús er besti vinur barnanna – og við megum öll tilheyra þeim barnahópi, í meðbyr og andstreymi, í gleði og sorg. Dýrð sé Guði föður og syni og Heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.