Er eitthvað við biskupsembættið sem kallar fremur á karl en konu?

Er eitthvað við biskupsembættið sem kallar fremur á karl en konu?

Eftir kosningasumar á íslenska þjóðkirkjan nú kosningavetur framundan. Enginn veit enn hvort hann verður harður eða mildur fremur en hvort komandi jól verða rauð eða hvít. Kosningabaráttan má ekki fara af stað áður en rætt hefur verið um grundvallaratriði.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
05. desember 2011
Meðhöfundar:

Eftir kosningasumar á íslenska þjóðkirkjan nú kosningavetur framundan. Enginn veit enn hvort hann verður harður eða mildur fremur en hvort komandi jól verða rauð eða hvít. Kosningabaráttan má ekki fara af stað áður en rætt hefur verið um grundvallaratriði. Við þurfum að nota tímann vel því líklega er kosningaundirbúningur þegar hafinn bak við tjöldin og reikna má með að opinberlega hefjist hann af krafti fljótlega eftir hátíðir.

Kviksaga

Nokkrar konur sitja á tali um komandi kosningar. Ein þeirra dregur fram símaskrá presta og saman leita þær að frambærilegum kvenkandídat. Þess skal getið að þar eru ríflega 60 embættisgengar konur að finna. Eftir að hafa blaðað fram og aftur í skránni komast þær að niðurstöðu: Þarna er engin kona sem kemur til greina sem biskupskadídat!

Hvað segir þessi saga okkur?

Segir hún eitthvað um konurnar?

Hugsanlega segir hún eitthvað um þær sem felldu dóminn. Einhver gæti freistast til að segja að þetta sanni að konur séu konum verstar. Það er þreytt klisja og gjarnan notuð gegn konum.  Vissulega er til að konur dæma kynsystur sínar hart og gera til þeirra óraunhæfar kröfur.  En á það eitthvað sérstaklega við um konur? Konur eru konum bestar og konur eru konum verstar. Sama getum við sagt um karla — að þeir séu körlum ýmist verstir eða bestir.

Það eru ekki allar konur framsæknar í jafnréttismálum og fráleitt allar femínistar. Sumar telja öruggast að halda í gömlu ,,góðu" dagana þegar staður konunnar var „á bakvið eldavélina“, eins og Guðni sagði um árið! Það eru heldur ekki allir karlar framsæknir í jafnréttismálum og fráleitt allir femínistar.

Segir sagan eitthvað um prestsvígðar konur?

Spyrja má hvort sagan segi eitthvað um þær konur sem hafa embættisgengi í biskupskjöri?

Það er hæpið. Hópur prestsvígðra kvenna virðist í fáu skera sig frá körlunum. Í honum eru konur með langa og glæsta reynslu af prestskap. Margar eru með mikla reynslu af sálgæslu aðrar með sérhæfingu á öðrum sviðum. Í hópi prestsvígðra kvenna er að finna konur sem tekið hafa þátt í alþjóðlegu og samkirkjulegu starfi, sem og hálærða guðfrærðinga. — Ekki verður séð að prestsvígðu konurnar standi körlum í prestastétt neitt að baki nema síður sé.

Hér verður þó að víkja að einu atriði sem oft er talið mæla gegn því að kona verði næsti biskup nefnilega að þær séu flestar fullungar til að takast embættið á hendur. Við ættum því að bíða einn umgang með að taka það skref að kjósa konu.

Hér verður þó að fara varlega. Við skulum staldra við og líta til þeirra karla sem hafa gegnt hér biskupsþjónustu. Þeir hafa gjarnan verið á líkum aldri og þær konur sem um hefur verið sagt að ungur aldur sé þeim fjörur um fót. Þá verða kjörmenn í biskupskjöri að hafa það hugfast að að verði kona ekki kjörin biskup 2012 gæti það dregist til 2022, 2027 eða jafnvel 2032. Þá verður þjóðirkjan fyrir löngu búin að fá þá einkunn að hún sé stofnun sem ekki vinni að raunverulegu jafnrétti í eigin röðum heldur láti hún það yfir sig ganga. — Dapurleg niðurstaða það!

Segir sagan eitthvað um biskupsembættið?

Er hugsanlega eitthvað við biskupsembættið sjálft sem veldur því að eðlilegt sé að velja fremur til þess karl en konu?

Þeirri spurningu svaraði íslenska þjóðkirkjan fyrir sína parta fyrir hart nær fjórum áratugum er fyrsta konan var vígð til prests. Þá höfðu konur haft embættisgengi allt frá miðjum öðrum áratugi aldarinnar. Víða í nálægum kirkjum kostaði prestsvígsla kvenna þrálátar deilur og klofning hefur sem jafnvel enn ekki gróið að fullu. Við sluppum við slík átök. Aðrar kirkjur og jafnvel heilu kirkjudeildirnar heimila ekki prestsvígslu kvenna enn í dag.

Standi prestsembættið konum opið gegnir sama máli um biskupsembættið. Að lútherskum skilningi eru engar gildar ástæður til að gera greinarmun á þessum tveimur embættum að þessu leyti.

Segir sagan eitthvað um biskupsímyndina?

Hér gæti vandinn legið hjá mörgum þegar kemur að því að hugsa sér karl eða konu í biskupsembættið.

Biskupsembættið er umlukið heilum táknheimi sem er karllægur. Biskup Íslands hefur hingað til verið föðurlegt (patríarkískt) embætti eða hlutverk. Ef við setjum okkur biskup fyrir hugskotssjónir og setjum á biskupinn ásjónu, þá sjáum við fyrir okkur karl — hugsanlega gamlan karl.

Hér verðum við að vera á varðbergi, hugsa á gagnrýninn hátt. Við þurfum að gaumgæfa hefðirnar og skipta þeim út fyrir nýja hugsun vegna þess að nú lifum við nýja tíma. Við verðum að greina hvað tengir biskupsímyndir okkar karlkyninu, vega og meta gildi þessara atriða og gera okkur grein fyrir að flest lúta þau að ytir hefðum, venjum og vanahugsun. Þessi atriði hafa ekkert raunverulegt gildi þegar til kastanna kemur.

Nú stendur íslenska þjóðkirkjan í líkum sporum og þjóðin fyrir rúmum þremur áratugum eða þegar frú Vigdís var kjörin til forseta. Þá afbyggði þjóðin forsetaembættið og skóp því nýja ímynd. Er ekki komið að biskupsembættinu nú? Er raunverulega svo mikið sem skilur á milli kirkju og þjóðar? Erum við í kirkjunni enn vanbúin að rjúfa glerþakið?

Íslenska þjóðin vakti heimsathygli er hún fyrst allra valdi sér konu að þjóðhöfðingja í lýðræðislegum kosningum. Íslensku þjóðkirkjan á engan kost á viðlíka athygli. Vagninn er farinn hjá. Sambærilegar kirkjur hafa þegar eignast biskupsvígaðar konur, jafnvel konur sem höfuðbiskupa. — Nú er bara spurning hve humátt okkar verður langdregin.

Hvað er til ráða?

Íslenska kirkjan lifir nú vitjunartíma. Áður en (hana-)slagurinn byrjar verðum við að hafa ráðrúm og getu til að ræða nokkrar grundvallarspurningar sem lúta að biskupsembættinu og kjöri til þess. — Þar á meðal er spurningin um jafnréttið. Hefur íslenska þjóðkirkjan burði til að taka „prinsípsumræðu“ eða erum við dæmd til að ræða um persónur?