Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ Matt 28.18-20
„Ég kalla þig með nafni, þú ert minn“ segir Drottinn (Jes. 43:1B). Í augum hans og huga hans erum við hvorki nafnlaus peð né einsleit hjörð heldur dýrmætir einstaklingar. Engin tvö okkar eru alveg eins og öll höfum við eitthvað fram að færa sem enginn annar hefur á sama hátt.
„Ég kalla þig með nafni“. Nafnið er hluti persónuleikans. Áður fyrr var það oft táknrænt eða lýsandi fyrir einstaklinginn sem bar það. Að óvirða nafn einhvers jafngilti árás á persónuna.
Gyðingar báru svo mikla virðingu fyrir nafni Guðs að þeir vildu ekki segja það upphátt.
Að sama skapi álítum við það óvirðingu að afbaka eða fara rangt með mannanöfn. Mörg okkar geta rifjað upp hve innilega það gladdi okkur þegar kennarinn, íþróttaþjálfarinn, starfsmaður sumarbúðanna - eða einhver annar fullorðinn - ávarpaði okkur með nafni. Enginn vill láta ávarpa sig „þú, þarna“.
Nafnið fylgir okkur yfirleitt frá frumbernsku. Engum hefur dottið í hug að börn eigi að vera nafnlaus uns þau hafa náð aldri og þroska til að velja sér nöfn. Þau alast upp við nafnið, það er hluti af persónu þeirra frá því áður en þau muna eftir sér.
Enn eru flest íslensk börn borin til skírnar. Þar er nafn þeirra nefnt, oft í fyrsta sinn sem það heyrist upphátt, og allir vita að nú festist það við barnið.
Samt er skírnin ekki nafngjöfin. Þessu tvennu er iðulega ruglað saman og skepnur, hús og skip „skírð“ ýmsum nöfnum - en það er ekki skírn heldur einungis nafngjöf. Skírnin er trúarlegs eðlis, kristið sakramenti, andleg fæðing. Við erum helguð Guði á sérstakan hátt í skírninni, endurfæðumst og eignumst aðgang að ríki hans.
Skírn og nafngjöf eiga það þó sameiginlegt að í báðum tilvikum velja foreldrarnir fyrir börnin, af einskærri umhyggju í garð þeirra, velja eftir bestu vitund það sem foreldrarnir telja að verði börnunum til heilla.
Skírn og nafngjöf eiga það líka sameiginlegt að þegar barnið vex úr grasi getur það haft að engu það sem foreldrarnir gáfu því í góðri trú á sínum tíma. Hægt er að breyta nafni sínu í þjóðskrá. Það er dálítil fyrirhöfn. Hitt er algjörlega fyrirhafnarlaust að afþakka blessun skírnarinnar, hafna nálægð Guðs og afneita umhyggju hans. Til þess þarf enga pappíra, bara vilja.
Á skírnarstund veit enginn hvað barnið velur þegar það vex úr grasi. Það á eftir að koma í ljós.
Samt er sérhver barnsskírn fögur athöfn og heilög stund. Yndislegur hvítvoðungur er borinn að skírnarlauginni í örmum ástvinar og þiggur þar þá gjöf sem felur í sér eilíft líf - gjöf sem vissulega er hægt að láta ónotaða og forsmá eins og aðrar gjafir.
Við skírn ungabarns kemur oft upp í huga minn hve lánsamt barnið er að fæðast hér á landi. Barnadauði er sem betur fer sjaldgæfur, almenn skólaskylda, engin þrælavinna barna, öflugt velferðarkerfi og heilsuvernd. Staðreyndin er nefnilega sú að þriðju hverja sekúndu deyr barn í heiminum úr skorti. Þau eru þá 20 á mínútu, 1200 á klukkustund, tæplega 30 þúsund á sólarhring eða sem nemur öllum íbúuum í Kópavogi. Fæst þessara barna þyrftu að deyja ef við værum örlátari og sanngjarnari og fúsari að miðla þekkingu, lausnum og gæðum til systkina okkar um víða veröld.
En íslensk börn hafa það gott, betra en flest önnur börn. Lánið er margfalt sé um stúlku að ræða. Víða í veröldinni er hlutskipti þeirra frá barnsaldri að vinna, þjóna karlmönnum og ala börn. Ekki er gert ráð fyrir því að konur þurfi að mennta sig. Þrátt fyrir allt, sem enn er ógert í jafnréttismálum, er staða kvenna hvergi betri en á Vesturlöndum, gleymum því aldrei!
Sé miðað við lífslíkur og ytri aðbúnað er gott að fæðast á Íslandi. Enn skortir þó talsvert á að mál séu skoðuð frá sjónarhóli barna og miðað við þarfir og hagsmuni þeirra þegar um þau er fjallað. Eins er alltof algengt að börn séu afgangsstærð í lífi foreldra sinna.
Barnið hefur ekki ákveðið að verða til. Það ræður því ekki hvar og hvenær það fæðist. Fyrst um sinn er það algjörlega háð umhyggju ástríkra aðstandenda, án hennar getur það ekki lifað og dafnað.
Börn eiga rétt á foreldrum sínum en ekki öfugt! Það gleymist stundum í hatrömmum deilum um forræði og umgengni. Það gleymist líka iðulega í amstri daganna, þegar foreldrarnir láta börnin sitja á hakanum vegna alls hins sem tekur pláss, hvort sem það eru efnisleg verðmæti, tímafrek áhugamál, metnaður í starfi eða þrældómur fíknar. Börnin eiga rétt á okkur, þau eiga að hafa forgang í lífi okkar og við eigum að skoða álitamálin á forsendum þeirra.
Um daginn kom fram í fjölmiðlum að tiltekinn hópur fólks ætti „rétt“ til barneigna. Það er hæpin nálgun, svo ekki sé meira sagt. Í rauninni á enginn rétt til barneigna.
Hins vegar eiga öll börn rétt á að fræðast um uppruna sinn, líka líffræðilegan uppruna. Vonandi hefur það ekki gleymst í löggjöf um tæknifrjóvgun með gjafasæði. Annars gætu komandi kynslóðir hneykslast á afstöðu okkar og dæmt okkur fyrir að hafa ekki hugsað hlutina til enda á sínum tíma. Það yrði þá eitthvað í líkingu við reiði samtímans í Breiðavíkurmálinu. Morgundagurinn er jafnan óvæginn ákærandi og harður dómari.
Það kemur líka í ljós síðar þegar foreldrar hafa vanrækt börn sín og þar með svikið frumskyldu allra foreldra. Slíkt er alltaf sorglegt.
Þó má ætla að flest íslensk börn séu velkomin, búi við ástúð og öryggi, eigi von um bjarta framtíð. Einnig er stórkostlegt hve skilningur hefur aukist á því að okkur komi við hvernig börn hafa það um víða veröld.
ABC-barnahjálp er 20 ára um þessar mundir. Þau börn skipta tugum þúsunda sem Íslendingar styðja til betra lífs og bjartari framtíðar gegnum ABC og önnur hjálparsamtök. Það er ómetanlegt framlag til að bæta heiminn.
Kannski er það útópía að láta sig dreyma um veröld þar sem öll börn eru velkomin og öllum börnum eru búin hagstæð skilyrði til lífs og þroska.
En það er falleg draumsýn og rætist örugglega ekki nema við leyfum okkur að dreyma. Því fleiri sem deila þeirri hugsjón, þeim mun meiri líkur eru á því að ástandið batni.
Hugsjónin rætist í réttu hlutfalli við fjölda þeirra sem taka mark á orðum Jesú í guðspjalli dagsins. Þar notar hann boðhátt fjórum sinnum: Farið - gerið - skírið - kennið. Þetta er kristniboðsskipunin, einnig nefnd skírnarskipunin.
Boðið „farið“ felur í sér hreyfingu. Kirkjan er á hreyfingu. Kirkjan er hreyfing. Hún er kölluð til að fara, send af stað. Kyrrstaða er ekki inni í myndinni!
„Gerið allar þjóðir að lærisveinum“ þýðir að fagnaðarerindi kristinnar trúar er ætlað öllu mannkyni. Engin þjóð, engin kynslóð, engin kirkjudeild hefur leyfi til að halda því frá öðrum. Enginn söfnuður, ekkert samfélag, engin stofnun á að hafa það að markmiði að njóta Krists út af fyrir sig. Fagnaðarerindið ber með sér kraft og líf sem breytir tilveru einstaklinganna, samskiptum þjóðflokkanna, lífskjörum þjóðanna. Það staðfestir reynsla aldanna og það sannast enn á okkar tímum.
„Skírið“ er boð Jesú um að gefa nýjum einstaklingum, nýjum þjóðum og nýjum kynslóðum kost á að mæta Guði á einstæðan hátt, reyna snertingu hans og þiggja blessandi samfylgd hans. Í pistli dagsins (Róm. 6:3-5) líkir Páll postuli skírninni við það að deyja og rísa upp með Kristi. Hann dó dauða okkar og gefur okkur líf sitt. Skírnin felur það í sér, ekkert minna!
„Kennið“ er síðasti boðháttur guðspjallsins. Auðvitað þurfum við að læra um trúna, læra að iðka hana, læra að þekkja Guð betur og eiga samfélag við hann. Í því efni verðum við aldrei fullnuma. Eðlilegt er að byrja strax að kenna skírðum börnum hvað í því felst að vera kristinn.
Hérlendis mátti lengi vel gera ráð fyrir því að heimilið, skólinn og kirkjan tækju höndum saman í því efni.
Á heimilunum fór fram heimilisguðrækni og þar lærðu flest börn að biðja.
Í skólunum voru kenndar Biblíusögur. Þar lærðu börnin um líf, starf og boðskap Jesú og það samhengi trúar og menningar sem hann starfaði í.
Börnin komu svo í kirkjurnar til að taka þátt í kristnu samfélagi og iðka það sem þau höfðu þegar lært heima og í skólunum.
Því miður hefur þetta riðlast.
Heimilisguðrækni virðist á undanhaldi og þeim börnum fækkar sem alast upp við bænamál heima. Ömmur og afar sinntu þessari miðlun arfsins áður fyrr en koma nú í minna mæli að uppeldi barnanna. Í nútímasamfélagi, þar sem hver baukar í sínu horni, mega foreldranir ekki vera að þessu - eða börnin sofna út frá sjónvarpinu eða tölvunni í herberginu sínu.
Tekist er á um kristinfræðikennslu í skólum og sterkur andróður er gegn öllu kristnu uppeldi. Fámennur en hávær hópur ofstækisfullra trúleysingja reynir að koma kristninni út úr opinberu lífi, rétt eins og hún sé pest eða plága.
Eða - trúir því einhver í alvörunni að það geri börnum illt að læra gullnu regluna og tvöfalda kærleiksboðorðið eða heyra um miskunnsama Samverjann og góða hirðinn? Hefur einhver orðið verri manneskja af því að læra um umhyggju Jesú gagnvart þeim sem minna mega sín? Er vonarboðskapur upprisunnar hættulegur?
Sumir trúleysingjar ganga svo langt í yfirgangi og afskiptasemi að þeir vilja banna bænir í kirkjum ef börn eru viðstödd. Þekkir þú barn sem hefur farið illa út úr því að vera viðstatt bænagjörð?
Auðvitað eigum við óhikað að kenna börnum trú og trúariðkun - rétt eins og við kennum þeim almenna kurteisi, borðsiði og matarvenjur, umferðarreglur eða muninn á réttu og röngu.
Í skólum þarf vitanlega að virða mörk trúfræðslu og trúboðs en kristinfræði í skólum er ekkert „hættulegri“ en íþróttir og listir, svo dæmi séu tekin um aðrar gildishlaðnar námsgreinar.
Íslenskt þjóðfélag og íslensk menning eiga rætur í kristinni trú. Horfumst í augu við það og svíkjum ekki börnin okkar um að verða læs á það samfélag sem mótar þau og fóstrar. Látum ekki hávaða fárra æra okkur!
Trúleysingjar hafa alltaf verið til og munu alltaf verða til. Þeir hafa fullan rétt á því - sama rétt og við hin höfum til að eiga, rækja og rækta trú. Hvort tveggja er grundvallarmannréttindi.
Til lengri tíma litið eru nokkrir trúleysingjar ekki helsta ógn kristinnar trúar í landinu. Því síður stendur kristninni ógn af iðkendum annarra trúarbragða sem koma hingað með friði og vilja fá að iðka trú sína óáreittir. Margir þeirra hafa einmitt sest hér að til að njóta þess góða sem einkennir íslenskt þjóðfélag ekki síst vegna þess að kristin trú hefur verið iðkuð og boðuð í landinu allt frá því það byggðist. Lög, siðgæðishugmyndir og samskiptahættir mótast að verulegu leyti af hugmyndum kristinnar trúar um manngildi, umhyggju og umburðarlyndi.
Það þarf ekki að breytast - en mun vitaskuld breytast ef kristinni trú verður ýtt til hliðar.
Í Englandi er því spáð að áhrif kristinnar trúar dvíni hratt og hverfi jafnvel að mestu á einni öld. Sú spá tekur mið af sinnuleysi fjöldans í trúarefnum. Múslímar rækja og rækta sína trú mun betur en hinir nafnkristnu.
Hvað um okkur Íslendinga?
Það eina, sem raunverulega getur ógnað kristni landsins, er almennt tómlæti og skeytingarleysi.
Horfum ekki framhjá þeirri staðreynd að kristin trú hefur haft - og hefur enn - gríðarlega jákvæð og góð áhrif á mannlíf, samskipti og samfélag. Sé kristninni ýtt til hliðar, er grundvöllur þjóðfélagsins rýrður og grafið undan honum til lengri tíma litið.
Verða börn áfram borin til skírnar á Íslandi? Fá uppvaxandi kynslóðir að læra um kristna trú og þjálfast í að iðka hana? Mun þjóðfélagið áfram mótast af grunngildum kristinnar hugsunar?
Svörin við þessum spurningum haldast í hendur og í þessu efni átt þú síðasta orðið. Framtíðin ræðst af afstöðu hins þögla meirihluta. Nú er kominn tími til að hann tjái afstöðu sína og vilja sinn.
„Ég kalla þig með nafni, þú ert minn“ segir Drottinn við þig (Jes. 43:1B). Hverju svarar þú? Viltu vera hans í raun og sann?
Við erum kölluð til að taka þátt í því mikla og mikilvæga verki Guðs að fara, gera, skíra og kenna. Við erum kölluð til að vera hvorki hlutlausir áhorfendur né velviljaðir jámenn að nafninu til, heldur leggja okkar af mörkum í þágu fagnaðarerindis kristinnar trúar, vera iðkendur en ekki aðdáendur.
Guð kallar þig með nafni. Vilt þú stuðla að því að nafn hans helgist, eins og við segjum í faðirvorinu, þ. e. a. s., að Drottinn Guð sé áfram í öndvegi hjá þjóð okkar, að Jesús Kristur sé í raun og veru leiðtogi lífs okkar, að Heilagur andi móti hugarfar okkar og vilja til að þjóna honum og bæta heiminn?
„Engin tvö okkar eru alveg eins og öll höfum við eitthvað fram að færa sem enginn annar hefur á sama hátt.“
Þegar kallað er með nafni svarar þú - eða enginn.
Guð gefi okkur öllum náð til að svara kalli hans, þjóna honum og rækja þannig æðsta ætlunarverk okkar í veröldinni. Þar kemur enginn í þinn stað.
Dýrð sé Guði föður, syni og Heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.