Átta þúsund bænir

Átta þúsund bænir

Átta þúsund blöðrur svifu til himins. Meira en milljón manns var á staðnum og fylgdist með. Átta þúsund blöðrur sem stóðu á fimmtán kílómetra svæði. Átta þúsund blöðrur.

Átta þúsund blöðrur svifu til himins. Meira en milljón manns var á staðnum og fylgdist með. Átta þúsund blöðrur sem stóðu á fimmtán kílómetra svæði. Átta þúsund blöðrur. Ég ætla að tala um þær í dag.

* * *

En byrjum á deginum sjálfum.

Deginum í dag.

Það eru eiginlega margir dagar í dag.

Það er sunnudagur. Fyrsti dagur vikunnar. Upprisudagurinn.

Það er næst síðasti sunnudagur kirkjuársins. Einn af dómsdögunum í kirkjunni okkar. Og lestrarnir eru frekar neikvæðir: Þú færð að vera með – þú færð ekki að vera með.

Það er árlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa. Og á messutíma koma saman fulltrúar þeirra sem hafa lent í slíkum slysum, þeirra sem hafa misst, þeirra sem hlúa að þeim sem hafa lent í slysum og fólkinu þeirra.

Svo er dagur íslenskrar tungu. Afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar sem orti:

Neisti guðs líknsemdar, ljómandi skær, lífinu beztan er unaðinn fær, móðurást blíðasta, börnunum háð, blessi þig jafnan og efli þitt ráð guð, sem að ávöxtinn gefur.

* * *

Ljósþráðurinn er reyndar þráður dagsins. Þráðurinn hans Jónasar. Þráður Matteusar guðspjallamanns. Þráðurinn minn.

Skáldið orti um ljómandi skæran neista og guðspjallamaður hefur eftir Jesú sögu um tíu meyjar með tíu lampa. Og við ætlum að ræða saman um ljós, ker og lampa. Því blöðrurnar átta þúsund voru upplýstar.

Þetta voru átta þúsund ljósker.

Til að skilja þær þurfum við samhengi.

Til að öðlast það skulum við íhuga nokkrar spurningar:

Hvernig vinnum við með það sem er erfitt? Það sem hefur vakið hjá okkur sársauka í fortíð og samtíð? Það er eiginlega eitt dómsstefið en um leið er þetta sístæð spurning okkar mannfólksins.

Hvernig vinnum við úr erfiðri reynslu? Sópum við henni undir teppið og látum sem ekkert sé? Horfumst við í augu við hana?

Mér er þetta hugleikið því ég var staddur í Berlín í síðustu helgi og hjólaði meðal annars í miðbæinn. Ég fór gegnum Brandenborgarhliðið og beygði til vinstri. Þar er risastór garður sem heitir Tiergarten og á móti honum er áhrifamikið minnismerki sem lætur ekki mikið yfir sér en er þeim mun áhrifameira. Það samanstendur af 2711 dökkgráum steinsteypustólpum sem standa í röðum. Það er hægt að ganga á milli þeirra. Jafnvel týnast stutta stund. Stíga inn í myrkrið og svo út úr því aftur.

Og hvers er verið að minnast?

Gyðinga. Þetta er minnisvarði Gyðinganna sem voru myrtir í Evrópu.

Og hann fær pláss á besta stað í borginni.

* * *

Á öðrum stað í Berlín, við Bernauergötu er annar minnisvarði. Það er minnisvarðinn um Múrinn sem skipti borginni í Austur og Vestur í nokkra áratugi, sundraði fjölskyldum og var táknmynd ófrelsisins sem fólkið í Austri bjó við. Þarna standa ennþá hlutar af Múrnum. Þeir eru háir. Kaldir. Ógnandi. En þeir standa eins og á berangri sem minnir okkur á að Múrinn féll og er ekki lengur tákn sundrungar heldur sameiningar.

Þegar við göngum meðfram Múrnum og skoðum minnisvarðann fæst innsýn í líf og starf og aðstæður fólksins. Hér voru göng sem fólk notaði til að flýja. Þessi létu lífið. Hér voru önnur göng sem öryggislögreglan Stasi gróf til að blekkja fólk. Þau leiddu beint í fangaklefann ef þú varst heppinn. Annars í gröfina.

Á einum stað eru myndir af fólki. Þær eru prentaðar á gler og framan við hverja mynd er smá silla. Þær eru af ungum og gömlum, körlum, konum, börnum sem létu lífið við Múrinn. Og á sillunum skilur fólk eftir litla smásteina. Eins konar bæna- og minningarsteina.

Þetta er minnisvarði um vondan tíma. Hann er á besta stað í borginni.

* * *

Ég var í Berlín um síðustu helgi og þetta var engin venjuleg helgi. Á sunnudaginn fyrir viku voru nefnilega liðin tuttugu og fimm ár frá falli Múrsins. Upp á dag. Og í tilefni þess var reistur minnisvarði. Á besta – eða kannski versta – stað í borginni. Hann var reistur þar sem Múrinn stóð áður. Hann var fimmtán kílómetra langur. Og nú er hann horfinn. Eins og Múrinn. Hann var kallaður Ljósmúrinn - die Lichtgrenze.

Berlínarmúrinn stóð í tuttugu og átta ár. Ljósmúrinn í þrjá daga. Sem er nota bene jafn langur tími og leið frá dauða Jesú til upprisu hans. Og úr hverju var þessi ljósmúr?

Þið hafið kannski þegar giskað á það.

Hann var úr átta þúsund blöðrum. Og inni í hverri þeirra var ljós. Það var kveikt á þeim föstudegi þær fengu að standa fram til klukkan sjö sunnudegi. Það var hægt að ganga meðfram þeim gengum borgina - í íbúðahverfum og á einskismannslandi. Á stöðum þar sem fólkið í Austur og Vestur Berlín bjó. Þar sem þeim leið vel. Þar sem þeim leið illa. Þar sem þau voru full vonar. Full vonleysis.

Ég gekk þessa Múrleið og það var bæði vont og gott. Vont af því að hugurinn leitaði til fólksins sem þjáðist og þráði jafnvel að flýja en gat það ekki. Eða reyndi að flýja og var handtekið og beitt ofbeldi. Gott af því að Múrinn féll og er fallinn og er ekki lengur tákn um vonleysi heldur von.

Milljónir gesta heimsóttu Berlín þessa helgi til viðbótar við allt fólkið sem býr í heimsborginni. Þau gerðust Múrpílagrímar eina helgi. Sum höfðu lifað með Múrnum, önnur voru ekki fædd þegar hann féll. Öll upplifðu söguna.

Svo.

Á sunnudegi klukkan sjö þá hvarf Ljósmúrinn. Hann féll samt ekki eins og Múrinn gerði fyrir tuttugu og fimm árum. Heldur var blöðrunum átta þúsund sleppt, einni af annarri. Og þær svifu til himins. Á hverja blöðru voru hengd skilaboð. Þau voru skrifuð af fólki á öllum aldri. Við vitum ekki hvað þau skrifuðu - kannski voru það áhyggjur, þakkarefni, vonarskeyti. Kannski voru það bænir. Kannski voru þetta átta þúsund bænir sem svifu til himins, átta þúsund andvörp sem voru færð í orð og fylgdu Ljósmúrnum upp í himinhvolfið.

Þetta var fallegt, áhrifaríkt og sárt. Og það var líka gott. Því Múrinn er í senn tákn um vonleysi og von. Rétt eins og krossinn er fyrir okkur sem erum kristin. Hann er pyntingartólið sem var notað til að deyða Jesú og hann minnir okkur líka á að Jesús sem dó reis upp á þriðja degi. Eins og Ljósmúrinn.

* * *

Það segir heilmikið um þjóð hvernig hún gerir upp við sársauka. Það segir heilmikið um þjóð hvernig hún horfir til framtíðar. Það segir heilmikið um þjóð hvernig hún talar. Um sig sjálfa og um annað fólk.

Allt þetta kemur saman í dag, á þessum degi sem er dómsdagur í kirkjunni, dagur tungumálsins og upprisudagur af því að hann er sunnudagur.

Í Berlín svifu átta þúsund blöðrur og bænir til himins fyrir viku. Í Reykjavík í dag eru að vísu engar blöðrur en hér eru bænarandvörp sem heyrast og svífa - til himins. Og Guð, Guð hlustar, heyrir – og uppfyllir þær að vilja sínum. Það er okkar von og trú.

Við skulum biðja ...