Sigurhátíð

Sigurhátíð

Framundan eru gleðidagarnir í kirkjunni okkar, sem standa munu fram á uppstigningardag. Við skulum gera þá daga að sannkölluðum gleðidögum í eftirfylgdinni við Drottin Jesú. Það gerum við með því að bera fram þakkir á hverjum degi – fyrir kærleika Krists og sigur hans – og lifa í þessum sigri.
fullname - andlitsmynd Bjarni Þór Bjarnason
08. apríl 2007
Flokkar

Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill, því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.

En engillinn mælti við konurnar: Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann. Þetta hef ég sagt yður.

Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. Matt. 28. 1-8

Gleðilega páska!

Sigurhátíð sæl og blíð ljómar nú og gleði gefur, Guðs son dauðann sigrað hefur, nú er blessuð náðartíð. Nú er fagur dýrðardagur, Drottins ljómar sigurhrós, nú vor blómgast náðarhagur, nú sér trúin eilíft ljós.

Yndislegur sálmur – Sigurhátíð – gleði - dýrðardagur - því að „þetta er dagurinn sem Drottinn hefur gjört, fögnum, verum glaðir á honum.“

„Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðóp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors. Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum. Því að Drottinn er mikill Guð.“

Gleðilega páska! Við skulum óska hvert öðru gleðilegra páska – tökumst í hendur á þessum páskadagsmorgni og lofum Drottinn fyrir mikilfengleik hans.

Upprisa Jesú er mesta gleði sem heimurinn hefur nokkurn tímann reynt og séð fyrr eða síðar. Hún er svo stór, að við ættum í raun og sannleika ekki að geta ráðið okkur fyrir kæti. Gleðiefnið er svo stórt og er svo mikið – Jesús kristur er upprisinn – hann hefur sigrað dauðann – fyrir mig og fyrir þig.

Sigur þinn oss sigur gefi, sigurhetjan Jesú minn.

Það er gott að vera í sigurliðinu – hver þekkir ekki tilfinninguna? Liðið mitt sigraði. Liðið mitt er Íslandsmeistari – Evrópumeistari. Það er alveg einstök tilfinning að fara á úrslitaleik og upplifa sigur liðsins síns. Það er þessi upphafna gleði sem brýst út á sömu stundu – allir rísa á fætur – lyfta höndum og senda frá sér fagnaðarhljóð – eins og hverjum og einum er lagið. Liðið mitt sigraði. Freddie Mercury gerði frægan texta fyrir 30 árum sem sunginn er um víða veröld í þessu sambandi. Ég vil fá að leyfa mér að vitna í hann þrátt fyrir að hann sé á ensku:

We are the champions - my friends And we'll keep on fighting Till the end We are the champions We are the champions No time for losers 'Cause we are the champions of the World.

Þessi enski texti gæti alveg eins átt við okkur, sem erum kristin. Við erum öll sigurvegarar með Kristi. Sigurlaunin er margs konar í þessum heimi. En okkur eru ætluð enn stærri og meiri en nokkur jarðnesk – eilíft líf – samfélag við Drottin Jesú um alla eilífð.

Sigur Drottins Jesú er svo stór, enda sagði Páll postuli forðum að orð Gamla testamentisins hefðu ræst:

„Dauðinn er uppsvelgdur í sigur. Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?“

Christus Victor! – Svo er sagt í klassískri guðfræði - Kristur sigurvegari – því að hann er sterkari en dauðinn. Hann hefur eiginlega gleypt dauðann – uppsvelgt hann í sigur.

Þetta er fagnaðarerindið. Gleðitíðindin miklu. Jóhannes guðspjallamaður segir: „Trú vor, hún er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn.“

Þetta fagnaðarerindi fengu konur fyrst að reyna. Samkvæmt guðspjalli dagsins voru það Maríurnar tvær sem fóru í birtingu hinn fyrsta dag vikunnar að gröf Jesú. Þær voru með ilmsmyrsl í fórum sínum. Þær ætluðu að smyrja líkama hans. Ef við reynum að setja okkur inn í aðstæður þessara kvenna, þá sjáum við afar daprar og sorgmæddar konur. Þær höfðu verið á föstudeginum á Golgata. Þær sáu hvar frelsarinn var negldur á kross – hvernig hann þjáðist og lést. Þær fylgdust með því er líkami hans var lagður í gröf skömmu áður en sólin settist á föstudaginn langa. Þær sátu gegnt gröfinni er stórum steini var velt fyrir grafarmunnann og þær sáu er varðmennirnir gengu tryggilega frá gröfinni og innsigluðu steininn.

Þær hafa örugglega átt erfitt með að festa blund þá um nóttina – yfirkomnar af sorg – meistarinn þeirra var dáinn – tekinn af lífi á krossi. Laugardagurinn hefur verið lengi að líða. Þær hafa sjálfsagt fengið grátköst og verið eirðarlausar – farið út að ganga - hitt lærisveinanna sem voru í losti. Pétur ekki mönnum sinnandi – hafði afneitað honum þrisvar - og var með sektarkennd. Hópurinn allur var því úrræðalaus og dapur.

Það hefur sjálfsagt verið Maríunum ákveðin huggun, að fá að smyrja líkama meistarans að morgni þriðja dags – að hvíldardegi liðnum. Að fá tækifæri til að sýna honum þakkir og virðingu á þennan hátt. Þær hafa farið á fætur eldsnemma og gengið út í morgunsvalann með stírurnar í augunum – Það tók nokkurn tíma að ganga út að gröfinni. Það gerðu þær þegjandi – ólíkt þeim, sem voru vanar að tala saman. Er þær voru komnar á áfangastað tók jörðin að ganga í bylgjum – landskjálfti – þær urðu hræddar – hvað var eiginlega að gerast? Þær urðu vitni að ótrúlegri sjón. Þær sáu hvar engill kom af himni ofan og velti steininum frá grafarmunnanum. Hann var sem elding ásýndum og klæðin sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu. Engillinn ávarpaði Maríurnar og sagði þeim að vera ekki hræddar.

„Ég veit, að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn.“

Hann sýndi þeim tóma gröfina og hvatti þær að fara og segja lærisveinunum frá, sem þær og gerðu, eða eins og segir í guðspjallinu: „með ótta og mikilli gleði.“

Þær upplifðu tilfinningalegan umsnúning – frá dýpstu depurð til mestrar gleði. Þær hrópuðu upp yfir sig á leiðinni: „Hann sagði satt. Hann sagði satt. Hann lifir – Hallelúja.“

Á leiðinni kom Jesús á móti þeim. Gleði þeirra var fullkomin á þeirri stundu. Þær féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans. Þær grétu af gleði – þær voru svo innilega glaðar og þakklátar – þær kysstu fætur hans og héldu þeim lengi í faðmi sér. Hann ávarpaði þær upp risinn. „Veriði ekki hræddar, farið og segið bræðrum mínum að halda af stað til Galíleu og þar munu þeir sjá mig.“

Þessar tvær konur voru sérstaklega útvaldar af Drottni til þess að bera lærisveinunum þessar yndislegu fréttir.

Næstu fjörutíu dagar voru sannkallaðir gleðidagar í lífi þeirra allra sem fylgdu Jesú. Hann birtist þeim aftur og aftur, eða eins og segir síðari ritningarlestri dagsins:

„Og hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu, sem flestir eru á lífi allt til þessa, en nokkrir eru sofnaðir. Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum. En síðast allra birtist hann einnig mér.“

Jesús var svo raunverulegur upp risinn, að hann borðaði meira að segja grillaðan fisk með lærisveinunum á strönd Galíleuvatnsins,

Framundan eru gleðidagarnir í kirkjunni okkar, sem standa munu fram á uppstigningardag. Við skulum gera þá daga að sannkölluðum gleðidögum í eftirfylgdinni við Drottin Jesú. Það gerum við með því að bera fram þakkir á hverjum degi – fyrir kærleika Krists og sigur hans – og lifa í þessum sigri, eða eins og sagði í enska textanum hér að framan:

We are the champions - my friends And we'll keep on fighting.

Það er einmitt kjarni máls, að þrátt fyrir sigurinn megum við ekki sofna á verðinum. Við verðum að berjast trúarinnar góðu baráttu á hverjum degi – með því að gera hið góða og fagra og stefna á hið fullkomna

Ég þakka, Jesú, þér, að þú hefur gefið mér þá von, sem vetri breytir í vor, er sælu heitir. Því linnir lof mitt eigi á lífsins sigurdegi.

Guði séu þakkir sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist.