Guðspjallið Lk 16.1-9 Enn sagði hann við lærisveina sína: Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann, og var sá sakaður við hann um það, að hann sóaði eigum hans.Hann kallaði hann fyrir sig og sagði við hann: Hvað er þetta, er ég heyri um þig? Gjör reikningsskil ráðsmennsku þinnar, því þú getur ekki verið ráðsmaður lengur.Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni.Náð og friður sé með ykkur kæru kirkjugestir!Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum? Hann svaraði: Hundrað kvartil viðsmjörs. Hann mælti þá við hann: Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu.Síðan sagði hann við annan: En hvað skuldar þú? Hann svaraði: Hundrað tunnur hveitis. Og hann sagði honum: Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu.
Og húsbóndinn hrósaði rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins.
Og ég segi yður: Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.
Textar dagsins fjalla um ráðsmennsku, trúmennsku, þjónustu, kænsku, þekkingu, hyggindi og speki. Mikið væri það undursamlegt ef við kynnum skil á þessum hlutum, byggjum yfir þessum dygðum, kynnum að fara með völd, kynnum jafnframt að þjóna, værum hyggin, kæn og svo framvegis. Eða hvað? Trúum við því ekki að ef svo væri, ef við værum virkilega klók og byggjum yfir eiginleikum sannrar trúmennsku, að það myndi lita líf okkar á jákvæðan hátt?
Guðspjallstexti dagsins er skrýtinn. Það sem er undarlegt við hann er að það er klippt á frásöguna, eiginlega þar sem síst skyldi: á brún hengiflugsins. Frásögnin, eins og henni hefur verið raðað saman í guðspjallinu, er lengri en þetta. Jesús var ekki búinn að segja það sem hann vildi segja um þessi mál, ef það var þá hann sem sagði þetta yfirleitt. Það vitum við ekki. Það sem við vitum er að þessi orð eru lögð honum í munn af Lúkasi sem skrifaði guðspjallið og þar með öðlast sagan í hugum kristins fólks sinn mikla áhrifamátt.
En aftur að dæmisögunni sem endar á því að húsbóndinn segir það sniðugt að afla sér vina meðal hinna ranglátu. Það muni koma sér vel síðar fyrir viðkomandi. Ég ætla þá að segja ykkur hvað haft er eftir Jesú varðandi ráðsmennsku og trúmennsku:
Lúk: 16: 10-13 Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu, og sá sem er ótrúr í því smæsta, er og ótrúr í miklu. Ef þér reynist ekki trúir í hinum rangláta mammón, hver trúir yður þá fyrir sönnum auði? Og ef þér reynist ekki trúir í því sem annars er, hver gefur yður þá það, sem yðar er? Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.Þessi orð Jesú sem koma strax á eftir guðspjallstexta dagsins eru í ósamræmi við það sem á undan er komið. Þau segja ekki að það borgi sig að spila af kænsku á kerfið; skara eld að eigin köku, reyna að halda öllum góðum. Nei, Jesús hefur aðra skoðun: hann talar um að vera heilsteypt manneskja, vera trúr jafnt í hinu smæsta sem og í hinu mesta í lífinu. Það virðist ekkert rúm fyrir bæði og í lífsskoðun Jesú: ekki er hægt að þjóna tveimur herrum, það er ekki hægt að þjóna Guði eins og ber, og jafnframt vera virkur í hinu rangláta kerfi heimsins. ”Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu, og sá sem er ótrúr í því smæsta, er og ótrúr í miklu”, segir Jesús
Mér finnst þessi speki Jesú afskaplega djúp. En jafnframt svo djúp að ég veit á stundinni að ég veit trúlega ekki hvað hún merkir í rauninni. Því hvað getur það þýtt, í raunveruleikanum, að vera trúr yfir litlu. Við lifum öll í einhverjum raunveruleika, þótt sá raunveruleiki geti vissulega verið afskaplega mismunandi hjá ólíku fólki. Samt eru hlutir sem eru sameiginlegir öllum hvar sem er í heiminum. Öll eigum við eitthvert fólk að sem er okkur nákomið, fjölskylduna, stóra eða litla.
Flest störfum við og við eitthvað, vinnum einhverja vinnu, þótt hún geti einnig verið afskaplega mismunandi. Að vinna er nauðsynlegt til þess að geta lifað. Við þurfum peninga til að lifa í heiminum. Þarna kemur Mammon, guð auðæfanna, peningaguðinn til sögunnar í guðspjallinu og þjónusta okkar við hann.
En, íhugum augnablik hvað hefur verið kallað það litla í lífinu? Er það ekki daglega lífið sem allir eiga meira eða minna sameiginlegt? Umönnun við fjölskylduna, uppeldi barnanna, fjarri valdabrölti og hagsmunapoti. Ef við hugsum um það er það auðvitað hlálegt að kalla það sem tengist fjölskyldu og heimili hið litla og það sem tengist atvinnu, stjórnsýslu og stjórnmálum hið stóra. En þannig hefur hinn vestræni heimur litið á þessi mál um aldir og gert stóran greinarmun á hinu persónulega sviði og almannasviðinu. Á einkalífinu og atvinnu- og stjórnmálalífi.
Það er hins vegar alls ekki víst til hvers orð Jesú um hið smæsta vísa. Hann var ekki bundinn af menningunni og viðmiðum hennar. Hið litla og hið smæsta hjá honum vísar örugglega ekki bara til einkalífsins og hins persónulega sviðs. Hið smæsta í hans huga er líka hið stóra. Það er leyndardómurinn. Vídd guðspjallsins er nefnilega önnur. Lúkas guðspjallamaður er upptekinn af hinu komandi guðsríki þar sem Guð er allt í öllu, Guð sem hefur skapað bæði himinn og jörð. Skaparinn er Guð alls sem er, bæði hins litla og hins stóra. Hið smæsta er einnig sköpun hans.
Húsbóndinn í guðspjalli dagsins var hrifinn, eða lést vera hrifinn af gerðum ráðsmanns síns þegar upp var staðið. Honum fannst hann hafa farið kænlega að ráði sínu þegar hann innheimti aðeins hluta skuldanna og kom sér þar með í mjúkinn hjá skuldurunum. Kannski réð hann náungann bara aftur þegar hann sá hvað hann var kænn!
Séð frá siðfræðilegum sjónarhóli finnst mér að í guðspjallstextanum sjáum við siðfræði staðar og stundar, sem þýðir u.þ.b. þetta: það er leyfilegt/réttlætanlegt að gera það sem nauðsyn krefur – aðstæðurnar sýna hvað það er hverju sinni sem þarft til að bjarga eigin skinni. Við erum ásökuð um eitthvað: vanrækslu, yfirsjón, leti... það á að segja okkur upp starfinu eða taka af okkur völd. Hvað eigum við að gera?
Siðfræði staðar og stundar svarar: vissulega vorum við vondir starfsmenn/ráðsmenn, stóðum okkur ekki í stykkinu, en hvað um það, það er búið og gert, maður verður að horfa fram á við – nú gildir að reyna að halda því sem haldið verður í áhrifum, völdum og auðæfum. Þá gildir að vera sniðugur og kænn - halda samböndum, díla.
Sú siðfræði sem skín í gegn í orðum Jesú (10-13) er annars konar. Í henni er öllu þessu snúið á hvolf. Hún fjallar um manngerð fremur en reglur eða afleiðingar verka. Hún segir ekkert um hvað maður á að gera, heldur hver maður á að vera.
Jesús leggur áherslu á heilsteypta manngerð, maður verður siðferðilegur gerandi með því að vera ákveðin manneskja. Hvernig á sú manneskja að vera? Jú hún á að vera trú í hinu smæsta og trú yfir því sem annarra er. Megni hún það gerist eitthvað, manneskjan stækkar sem manneskja. Sinni hún hinu minnsta, kannski því allra auvirðilegasta og annist hún það vel sem ekki er hennar, þá gefst henni það sem hún má síðar kalla sitt eigið. Auður hennar er að hafa stækkað sem manneskja. Ég skil þetta sem svo að við verðum að að vera virk í því að skapa okkur sem siðferðilega gerendur og að það gerist þegar samfella verður milli þess smæsta og hins stærsta, milli þess sem er annara og okkar eigið.
Hvar sjáum við hið smæsta í veröldinni og hvað er annarra og ekki okkar? Já, hvað er stórt og hvað smátt. Hérna liggur dýpt orða Jesú
Ég hef ekki öðlast næg hyggindi eða nægja speki til að geta sagt öðrum til um þessar svörin við þessum spurningum og reyndar held ég að enginn geti gert það nokkur sinni svo vel sé. Þar sem einn álítur stórt finnst öðrum smátt. Hin siðferðilega dómgreind er sú sem er erfiðust að höndla.
En lítum við til fleiri guðspjalla og til fleiri frásagna af verkum Jesú, og svo til lífsverks hans og dauða á krossi, sjáum við móta fyrir þeim svörum sem við leitum að. Jesús dvaldi virkilega meðal hinna smæstu í samfélagi síns tíma. Samstaða hans og samlíðan þegar hinir smæstu áttu í hlut mættu því vera okkur leiðarljós á tímum þegar bilið milli þeirra sem hafa og ekki hafa í heiminum öllum bara breikkar. Einnig hér hjá okkur. Mætti okkur öllum auðnast að auðgast af speki og hyggindum í því að koma auga á hið smæsta og vera trú yfir því. Mættum við einnig bera gæfu til að annast hag annarra svo vel sé. Já, mættum við virkilega læra að þekkja Guð hins smáa.
Amen.