Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Guðspjall dagsins segir okkur af fólki sem kemur með lítil börn til Jesú, aðeins með það eitt fyrir augum, að hann mætti snerta þau.
Margar aðrar frásagnir er að finna í Nýja testamenntinu, þar sem fólk kemur eða er flutt af vinum sínum til Jesú, í leit að lækningu eða blessun. Í sumum tilfellum líkt og í sögunni af dóttur Jaírusar og einnig í sögunni af Lasarusi, var Jesú reyndar sóttur og færður til hinna þurfandi. Þannig bíður Jesús ekki bara eftir okkur, heldur kemur hann einnig til okkar.
En þessi litla frásögn sem hér um ræðir er ákaflega myndræn og falleg og auðvelt er að setja hana inn í aðstæður dagsins í dag.
Gefum okkur að við hefðum heyrt í útvarpinu messu auglýsta í Grafarvogskirkju og að í auglýsingunni kæmi fram að Jesús Kristur væri predikari dagsins, hann væri kominn til að kenna og frelsa, lækna og snerta þau sem til hans leita. Sum eru snert með þeim hætti að þau mýkjast öll á sálu og sinni, endurnýjast í anda. Önnur verða snert með þeim hætti að líkamleg mein hverfa líkt og dögg fyrir sólu og gera aldrei vart við sig meir.
Það verður uppi fótur og fit í samfélaginu.
Sum okkar hafa heyrt af orðspori hans, að hann kenni og boði með öðrum hætti en áður hafi þekkst, eða líkt og sá sem valdið hefur. Aðrir hafa beinlínis orðið vitni að kraftaverkum hans og fara einmitt þess vegna hamförum með síma sína og hringja út fjölskyldu og vini, að koma og hlusta á meistarann. Enn önnur hafa mætt honum og verið snert af honum, heiluð og frelsuð undan meinum sínum, jafnt andlegum sem líkamlegum. Þau segja öllum sem heyra vilja frá Jesú og iðka þar með sinn almenna prestsdóm Guði til dýrðar.
Við myndum öll reyna að komast sem fyrst til kirkju, reyna eftir fremsta megni að ná sæti framalega í þeirri góðu von að ná til hans, aðeins að hann mætti snerta okkur.
Á undra skömmum tíma, fylllist kirkjan. Kirkjuverðirnir taka til við að hleypa fólki niður á neðri hæðina, enda er nóg af sætum þar og hljóðkerfið öflugt og gott. Þegar neðri hæðin er líka orðin full af fólki og enn a.m.k. 20 mínútur þar til messan hefst, þá bregða ráðagóðir kirkjuverðir, nokkrir sóknarnefndarmenn og messuþjónahópurinn, kenndur við Björg Blöndal, á það ráð að sækja plaststóla upp á háaloft og raða úti á stétt austan megin kirkjunnar. En þegar síðasta plastsæti er frá tekið hópast mannsöfnuðurinn, sem enn drífur að kirkju úti fyrir andyri kirkjunnar, sumir sitja á garðvegg, aðrir í tröppum, en þeir hörðustu standa allan tímann. Kirkjan er galopin, úti skýn sólin og allt er eins og það á að vera. Úr sálardjúpi allra viðstaddra, ómar undurfögur innri röddin, einhvern veginn á þennan veg: ,,Bara að Jesús megi snerta mig!”
- - - Hin kristna manneskja þráir samfélag við frelsara sinn Jesú Krist. Hún kemur andlega nakin fram fyrir hann, líkt og lítið barn og getur ekki annað, því meistarinn þekkir okkur betur en við sjálf. Fyrir honum verður ekkert dulið. Kostir okkar og lestir, sorgir okkar og sigrar, allt leggjum við í hendur hans, sem horfir á okkur ástríkum augum og baðar okkur guðlegri náð frá uppsprettunni á himnum.
Og það eitt er í sjálfu sér hin fegursta snerting sem varir frá eilífð til eilífðar. Það er gjöf Guðs sem við verðskuldum ekki, en fáum samt að taka á móti. Og þar erum við í sömu sporum og hvítvoðungurinn sem ekkert hefur til unnið að taka við þeirri snertingu, hefur ekki þurft með nokkru móti að sanna sig fyrir Guði. Með þeim sama hætti tökum við algerlega óverðskuldað við gjöfum úr Guðs hendi... vegna þess hver við erum, en ekki vegna þess hvað við gerum.
Af fyrra bragði elskar hann okkur og það eina sem við getum gert, er í auðmýkt og á hverjum nýjum degi, að þakka þá dýrmætu snertingu sem okkur hlotnaðist í skírninni og sem við lifum hvern dag.
En einmitt þá, á skírnardaginn sameinast fjölskyldan og söfnuðurinn allur í fyrirbæn þar sem Drottni Guði er þakkað fyrir þá stókostlegu gjöf sem barnið er og þakkað fyrir að mega takast á við það dýrmæta hlutverk að fá að leiða barnið til manns og virðingar. Með bæninni leggja foreldrar og nærstaddir, barnið í hendur Guðs, bara að hann snerti það í heilögum anda.
Loftið er þrungið helgi liðinna alda og efalaust má sjá glitra á tár á hvörmum þeirra sem elska og þeirra sem skynja nærveru Guðs. Og einmitt þá er það fullkomnað, því foreldrar svara kalli Jesú, söfnuður sameinast í bæn, prestur stendur í sporum Jóhannesar skírara og barnið er snert af Guði. Og sjálfur sonurinn, sem er milligöngumaður Guðs og manna, sendir barninu heilagan anda. Þannig vorum við í skírninni, helguð Guði, tekin frá fyrir hann í hans himnesku þjónustu hér í þessu lífi. Snert af Guði.
Snerting Guðs er fegurst alls. Ekkert í tilveru manna nær þeim sama hreinleika, þeirri sönnu gleði og þeim yndislega friði og snerting Guðs getur gefið okkur.
Kærleikurinn sem er æðri öllu öðru í tilveru okkar streymir frá skaparanum, til sköpunarinnar, sem tekur við í einfaldri gleði og reynir svo í vanmætti sínum að gefa hann áfram. Eða hver hefur ekki upplifað stund eða stundir í lífinu, þar sem hjartað virðist ætla að rifna af fögnuði og maður finnur að hvergi annars staðar vill maður vera. Og í hugum okkar rifjast upp allar fallegu stundirnar í lífi okkar þegar allt var eins og það átti að vera. Einmitt þar er nærvera Guðs okkur svo áþreyfanleg að sumum tekst að skilgreina upplifun sína sem snertingu Guðs.
Hin kristna manneskja þráir þessa nærveru Guðs, leitar eftir samfélagi við Jesú og samfélagi við aðra kristna menn. Og svo finnur þú þig í þessum sporum hér í dag, í samfélagi við Guð og menn. Þú sem af einhverjum ástæðum varst kallaður eða kölluð til þjónustu í húsi Drottins og gengur hér út á eftir í hlutverki sendiboðans sem er kallaður til að leiða og laða aðra í átt til Jesú Krists.
Fólkið í guðspjalli dagsins leiddi börnin til Jesú Krists. Það var hið sanna kærleiksverk og Jesús vissi það. Lærisveinarnir hins vegar gerðu sér ekki grein fyrir því og upplifðu fólkið valda truflun og raska ró meistarans. Þeir sjá ekki samhengi hlutanna. Fyrir þeim er Jesús hirðirinn, sá sem kominn er til að þjóna og án nokkurs efa upplifa þeir sig vera sem framlenging þeirrar þjónustu og leggja sig í líma við að þóknast meistara sínum.
Ábyrgðafullir ganga þeir til verka og vísa fólkinu á brott, en skynja ekki hið mikla þjónshlutverk foreldranna. Og Jesús segir við þá: ,,Leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi, því slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég yður, hver sem ekki tekur við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.”
Við getum rétt ímyndað okkur hvort þessi setning hafi ekki hljómað einkennilega í eyrum lærisveinanna. Þarna standa þeir, vinir meistarans, lærisveinarnir sem gengu gegnum eld og brennistein fyrir fagnaðarerindið. Þeir upplifðu sig virkilega vera að skapa söguna, enda þrefuðu þeir um það sín í milli hver þeirra fengi hásæti við hlið Jesú í Himnaríki. Þeir gegndu mikilvægu hlutverki í áætlun Guðs. Þá gefur Jesú í skyn með orðum sínum að það sér bara alls ekkert víst að Guðsríkið sé þeirra... nema þeir taki við því eins og börn.
Barnið lifir Guðsríkinu lengst framan af bernsku sinni og sumum lánast e.t.v. að lifa himnaríkinu meira eða minna í öllu sínu lífi. Grundvöllur himnaríkis hvílir innst inni við hjartarætur okkar. En tilvera okkar er ekki eingöngu dans á rósum. Lærisveinarnir fengu virkilega að finna fyrir, þeir glímdu í trúnni. Og við þekkjum það eflaust öll hvernig maður getur fjarlægst Guð svo mikið að hið andlega hættir að skipta mann máli. Hið veraldlega laðar og læðir svo mjög að maður týnir ekki einvörðungu Guði, heldur líka sjálfum sér.
Það er nefnilega svo að á sama hátt og himnaríkið er grundvallað innra með okkur, þá er helvítið það líka. Hvort tveggja eru orð sem við notum til að skýra ákveðið ástand, sálarástand. En verða aldrei staðir sem hægt er að benda á eða fara til. Hver og einn getur rannsakað sitt eigið himnaríki og helvíti, skoðað sitt eigið hjartalag og fundið þar byrtu eða skugga. Hver og einn getur sótt sér ljós í hjartað, með því að rannsaka Ritninguna, tala við Guð og þjóna honum með því að svara kalli Drottins. Hvenær kallar Drottinn þig til verka? Akurinn er orðinn hvítur til uppskeru og við erum öll kölluð til vinnunnar, en ekki allir svara kallinu. Ekki allir heyra kallið, við gerum okkur svo upptekin við allt annað en að þjóna Guði. En þau sem svara kallinu, nálægjast Guð með sérstökum hætti. En svo er eins og við séum einhvern veginn aldrei alveg fyllilega ánægð, erum alltaf að leita eftir einhverju nýju, finna eitthvað betra. Og þetta eru óskir sem beinast að hinu ytra, að því sem er dauðlegt. Við leitum stöðugt að fullnægju í tilveru okkar og þess vegna verður okkar ytri veruleiki stöðugt fyrir breytingum, (hvort sem er í tómstundum, vinnu, aðbúnaði eða heimilislífi) en innst inni þráum við bara stöðugleika í líf okkar.
Það eitt að við skulum svona auðveldlega vera ófullnægð í veraldlegu tilliti leiðir af sér að við verðum leitandi í andlegu tilliti... og ef við leitum á réttum stöðum, þá munum við komast að því að hjartafró er aðeins að finna í Jesú.
Sadhu Sundar Singh var indverskur maður, kristinn trúboði, fæddur árið 1889 við rætur Himalayafjalla. Hann ferðaðist víða og boðaði fagnaðarerindið. Margir menn tóku trú fyrir hans orð og marga lærisveina eignaðist hann á stuttum starfsferli sínum, en talið er að hann hafi verið drepinn í Tíbet, kringum 1929. Hann bjó yfir einstökum hæfileika að yfirfæra mál sitt í myndlíkingar. Eftirrafandi er haft eftir honum:
,,Margir eru svo elskir að og samgrónir heiminum að þótt þeir hefjist oft upp og færist í átt til himnaríkis vegna afskipta og leiðbeininga Jesú barna, þá dregur heimurinn þá til baka til sín eins og þyngdaraflið togar í steina, og þeir falla niður og hverfa burt og deyja í helvíti. Þegar einhver iðrast í einlægni og reiðir hjarta sitt á Jesú, þá mun hann hreinsa musteri hjarta hans með svipu og með kærleika og gera það að himnaríki og að bústað fyrir konung konunganna.”
Þarna er Sundar Singh á sama máli og Jesú þegar hann segir að himnaríki og helvíti séu ástand sem við tilheyrum hér og nú. Og að þegar við höfum öðlast þá vitneskju, að Jesú einn geti gefið okkur sannan frið í hjarta. Og þegar okkur hefur lærst að lifa himnaríkinu hér og nú, þá hljótum við að springa af eftirvæntingu og löngun til að leiða aðra og laða í áttina að þeim sannleika.
Þjónn er sá sem laðar og leiðir, sá sem lifir skírnarheiti sínu, sem merkisberi heilags anda. Þjónn gleður sig í einlægni barnsins sem fær að lifa innra með honum sjálfum. Í þjónustunni finnur hann/hún fyrir snertingu Guðs.
Dýrð sé Guði Föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.