Meðan Jesús mælti þetta við þá kom forstöðumaður einn, laut honum og sagði: "Dóttir mín var að skilja við, kom og legg hönd þína yfir hana, þá mun hún lifna." Jesús stóð upp og fór með honum og lærisveinar hans.Kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár, kom þá að baki Jesú og snart fald klæða hans. Hún hugsaði með sér: "Ef ég fæ aðeins snert klæði hans mun ég heil verða." Jesús sneri sér við og er hann sá hana sagði hann: "Vertu hughraust, dóttir, trú þín hefur bjargað þér." Og konan varð heil frá þeirri stundu.
Þegar Jesús kom að húsi forstöðumannsins og sá pípuleikara og fólkið í uppnámi sagði hann: "Farið burt! Stúlkan er ekki dáin, hún sefur." En þeir hlógu að honum. Þegar fólkið hafði verið látið fara gekk hann inn og tók hönd hennar og reis þá stúlkan upp. Og þessi tíðindi bárust um allt héraðið. Matt 9.18-26
Hægt er að hlusta á ræðuna á annál Arnar Bárðar.
Í liðinni viku heyrði ég skemmtilega frétt frétt, hvort sem þið trúið því eða ekki. Í öllu þessu fári og neikvæðu fréttum þá hljómaði jákvæð frétt í útvarpinum um nýtt líf, einskonar upprisu. Heyrum þessa frétt:
„Júdeudöðlupálminn var ein helsta útflutningsvara Júdeumanna um aldir en þegar Rómverjar eyðilögðu musterið í Jerúsalem árið 70 urðu þáttaskil. Gamalgróið efnahagslíf Júdeu var fyrir bí og smám saman hurfu hinir miklu skógar döðlupálmans á bökkum Jórdanár. Á endanum hvarf tegundin júdeudöðlupálmi með öllu en á áttunda tug 20. aldar fundust nokkrir döðlusteinar við uppgröft í höll Heródesar konungs. Þessir steinar voru svo vel varðveittir í lokaðri leirkrukku að fyrir þremur árum tókst að rækta upp af einum þeirra döðlupálma sem er sá fyrsti af Júdeugerðinni sem vex á jörðinni í hátt á annað þúsund ár. Pálminn sá gæti borið ávöxt árið 2010, þ.e.a.s. ef hann er kvenplanta.“ (Vítt og breitt, Rúv, Rás 1 28.okt. 2008)
Merkileg frétt úr landinu helga og ekki sú eina sem við höfum heyrt í áranna rás. Döðlupálmi rís af gröf eftir að hafa legið þar í tvö þúsund ár! Jurtaríkið færir okkur merkilega lexíu og líkingu um lífið og mátt þess. Fagnaðarerindi Jesú Krists er gleðifrétt úr landi þessa döðlupálma.
Merkilegt hvernig upprisutrúin, hin stærsta von sem nokkur maður getur hugsað sér, blundaði öldum saman með fólkinu sem mælir í Gamla testamentinu. Upprisutrúin rættist loks í Kristi og Nýja testamentið, hinn nýi sáttmáli Guðs og manns, varð að veruleika. Ný tilvist mannsins er þar boðuð með afgerandi hætti. Og þessi upprisutrú hefur haft ótrúleg áhrif heimsbyggðina í þau tvö þúsund ár sem hún hefur verið boðuð.
Trúin á upprisu og eilíft líf er okkur, sem misst höfum ástvini, huggun og styrkur. Gott er að minnast þess á Allra sálna messu, messu látinna, sem er í dag skv. gamalli hefð en í gær var Allra heilagra messa til minningar um helga menn, karla og konur.
Lexía dagsins er þessi magnaði texti Esekíels spámanns um beinin í dalnum, um þá sem liggja í valnum sem skinin bein er fá á sig sinar og hold fyrir mátt hins skapandi anda Guðs. Hér er boðuð upprisa þjóðar úr vonlausum aðstæðum. Erum við í vonlausum aðstæðum? Nei, öðru nær en við erum í dimmum dal efnahagsglegrar lægðar og þurfum að rata út. Þar hjálpar upprisutrúin og vonin. „Vakna þú sem sefur og rís upp frá dauðum og þá mun Kristur lýsa þér“, ritaði postulinn (Ef 5.14b). Hér er átt við að vakna til nýrrar vitundar um lífið og skilja það með huga Krists (I Kor 2.14nn) eða sjá það með augum hans. Já, við getum haft huga Krists, lesið lífið með hans augum.
Afstaða kristinnar trúar og guðfræði til mannsins er sú að hann er undursamlegur í hæfileikum sínum um leið og hann er breyskur. Í manninum er brotalöm. Hann hefur hæfileikann til að gera hið góða en tilhneygingin til að gera hið illa er alltaf á næsta leyti. Þetta kalla höfundar NT synd sem merkir geigun, að missa marks.
Þetta gleymdist í taumlausri markaðshyggjunni, í ofurtrú á manninn og markaðinn. Syndin gleymdist, menn héldu að þeir væru í Paradís, að allt væri svo gott að eftirlit væri nánast óþarft. Og alveg eins og í merkustu táknsögu allrar veraldar, alls mannkynsins, var höggormur í garðinu og hann lét til skarar skríða. Frjálshyggjan er fallin eins og mannkynið féll forðum. Við vorum öll rekin út úr garði gróðans og verðum nú að vinna í sveita andlitis okkar (1. Mós 3) eins og hin helga bók orðar það og sagt var við Adam. Við erum eins og Adam.
Afl dauðans eins nam krenkja alla í veröld hér. Skal ég þá þurfa að þenkja, hann þyrmi einum mér? Adams er eðli runnið í mitt náttúrlegt hold, ég hef þar og til unnið aftur að verða mold.
Svo kvað sr. Hallgrímur Pétursson.
Við erum hans ættar, komumst ekki undan því. Við erum breyskar manneskjur.
Við megum aldrei gleyma þessum tveimur þáttum í manninum, viljanum til hins góða og möguleikanum til hins illa.
Kertin tvö á altarinu eru okkur til áminningar um að í lífinu er fagnaðarerindi og lögmál, frelsi og ábyrgð. Taumlaust frelsi leiðir til glötunar og eintómt lögmál og reglur drepa lífið í dróma. Á sama hátt er fyrirgefning án iðrunar ekki til, elska án góðra verka ekki heldur.
Þjóð okkar á í vanda og þann vanda þarf að leysa. En við þurfum líka að leiða sannleikann í ljós og draga þau til ábyrgðar sem brugðust. Dómstólar sjá um að dæma til sektar eða sýknu. Okkar er að kjósa fólk til forystu og krefjast af því fólki á hverri tíð réttlætis og sannleika. Hér má engu sópa undir teppi eða afsaka með afskræmdri fyrirgefningu án iðrunar.
Lítum nú á guðspjallið um konuna og stúlkuna - og Jesú. Konan hafði haft blóðlát í 12 ár og var því ófrjó, gat ekki fætt af sér líf. Hún læknaðist fyrir orð Jesú. Stúlkan sem fólkið syrgði var ung, framtíðarvonir hennar og ástvina hennar úr greipum gengnar. Hún var reist upp til lífs og nýrrar framtíðar fyrir orð Jesú. Það hljómaði eins og brandari þegar Jesús sagði stúlkuna sofa. Fólkið hló. Fólkið vissi að hún var dáin. Á þessum tíma var fólk grafið samdægurs og þetta fólk vissi sínu viti. En hvað þá með Jesú? Þegar Jesús talar um líf og dauða lítur hann málið með augum og huga Guðs. Hann talar ekki bara um hið líkamlega líf, um frumurnar í líkamanum, blóð og sinar. Hann talar um það líf sem er líf af lífi Guðs. Þetta líf er ekki háð frumum til að lifa en það þarf að vera í lifandi tengslum við Guð sjálfan. Þetta líf er frá honum komið og hann viðheldur því. Og þetta líf er frá honum í heilagri skírn. Þið urðuðu vitni að því áðan. Þú átt þetta líf í heilagri skírn. Slitni það úr tenglsum við Guð getur þetta líf dáið - andlegum dauða - jafnvel þótt maður kunni að virðast sprækur og spriklandi hér á jörðu. Það er til þess konar lífs sem Jesús vísar þegar hann segir: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu“. (Lk 9.60a) Á hinn bóginn getur maður verið lifandi - andlega lifandi - þótt liggi maður liggi á líkbörum kaldur. Á máli trúarinnar er talað um að sofa. Maður er ekki dáinn, en maður sefur. Maður er í hendi Guðs og mun vakna þegar hann segir sitt máttuga orð: „Rís þú upp!“ (Lk7.14).
Jesús talar til þín í dag. Hvað getur orð Jesú gert fyrir þig? Orð hans eru ekki bara hversdagsleg orð, heldur orð hins almáttka.
Þú hefur gengið til fundar við hann sem hefur máttinn til að reisa upp til lífs skinin beinin í dalnum, reisa við þjóðir, lækna sjúka, gefa dauðum nýtt líf.
Hverjar eru aðstæður þínar? Okkar?
Við erum öll stödd í mikilli efnahagslægð, höfum mörg hver tapað fé og innstæðum. Látum það nú vera því sum okkar glíma við enn erfiðari mál, eru sjúk og kannski kvíðin vegna læknisaðgerðar eða þróuna sjúkdómsins, önnur kvíða vegna barna sinna sem eru í slæmum málum, hafa áhyggjur af maka, foreldrum, framtíðinni.
Vandi þjóðar okkar er sá að hún hefur vikið af réttri leið. Hvar erum við stödd á lífsins vegi? Erum við á réttri leið?
Hver er lausnin? Hún er að snúa sér til Krists, til hans sem mætti öllu vel meinandi fólki af elsku og umburðarlyndi með orði máttar síns og líknandi anda.
Eru þínar aðstæður erfiðari eða vonlausari en konunnar með blóðlátið, stúlkunnar sem var látin, beinanna sem lágu dreifð um dalinn? Þú veist svarið.
„Vertu hughraust, dóttir,“ sagði Jesús, „trú þín hefur bjargað þér.“
Trúin bjargar þér líka, trúin á hinn máttuga Guð.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.