Við erum alltaf að flokka og skilgreina. Einhver mesta ógn samtímans er líklega þessi endalausa tilhneiging þar sem flokkunin gengur út á það í stórum dráttum að annars vegar erum það ,,við“ og hinsvegar ,,hin“. Við erum Íslendingar, hin eru útlendingar. Við erum hvít, hin eru lituð. Er hvítur þá ekki litur? Við erum þróuð, hin eru vanþróuð. Við erum rík, hin eru fátæk. Við erum konur, hinir eru karlar. Það er hægt að halda svona áfram endalaust. Með því reisum við veggi og erum líkt og kýrnar í fjósinu hver á sínum bás, þar sem hver á sinn stað og við reynum að vernda okkar bás fyrir ,,hinum“.
Ég las um stúlku frá Móabssléttu sem er okkur góð fyrirmynd í því að hugsa þetta upp á nýtt. Hún talar skemmtilega inní samtímann okkar. Hún giftist manni sem var aðkomumaður frá Betlehem. Eftir tæplega tíu ára hjónaband lést eiginmaðurinn. Tengdamóðir konunnar og svilkona voru einnig ekkjur og þær þrjár héldu saman fyrst um sinn og fóru síðan áleiðis til heimalands tengdamóðurinnar. Eftir áeggjan hennar snéri hin tengdadóttirin til baka til síns fólks. En okkar kona var einbeitt og þrátt fyrir að tengdamóðir hennar legði hart að henni að snúa einnig til baka sagðist hún fylgja henni. Hún orðaði það svo framúrskarandi fallega og eflaust væri hægt að koma í veg fyrir deilur og erjur víða um heim ef þeim orðum væri haldið á lofti. Það er jafnvel ekki fjarri lagi að ef orð hennar væru endurtekin nógu oft og víða kæmu þau í veg fyrir stríð og hryðjuverk: ,,Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð“. Þetta sagði hún við tengdamóður sína og þetta er hún að segja við mig í dag. Hún er líka að tala við þig. Þessi skilaboð eru svo mikilvæg og við ættum að standa saman í því að bera þau áfram. Stúlkan sem ég er að vitna í heitir Rut. Sagan hennar er skráð í Rutarbók gamla testamentisins. Magnað hvernig sumar frásagnir eru sígildar og viðeigandi, einhvern veginn hafnar yfir tíma og rúm. Ef Rut væri uppi í dag vitum við ekki hvort hún væri kristin, gyðingur, múslimi eða jafnvel enn annarrar trúar. En við heyrum sannleikann í orðum hennar: ,,þinn guð er minn guð“.
Rut minnir okkur líka á hvað það er mikilvægt að konur standi saman. Íslenskar konur sýndu og sönnuðu enn eina ferðina hvers þær eru megnugar þegar þær standa saman. Átakið ,,á allra vörum“ þar sem safnað var fyrir leitarvélum til þess að greina brjóstakrabbamein á frumstigi skilaði tugum milljóna. En það skilaði svo miklu meiru. Það sýndi okkur að við berum umhyggju hver fyrir annarri, við sýnum skilning, samstöðu ug samúð þegar mikið liggur við. Frú Vigdís Finnbogadóttir sagði eina af mínum uppáhalds setningum þegar hún var að kynna átakið:
KONUR ERU KONUM BESTAR.