Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust. En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“ Mark 16.1-7
Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.
Skreytið hendur og eyru með glitrandi gimsteinum. Haldið dansleiki og veislur undir vorbláum himni. Hrópið afreksverk ykkar og hetjudáðir af húsþökunum.
Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.
Byggið hallir og musteri úr drifhvítum marmara. Leggið götur og stræti úr gulum og rauðum sandsteini. Reisið turna og vígi, sem enginn kemst yfir nema fuglar himinsins.
Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.
Á þessum páskum, er fagnaðarhátíð upprisunnar fylgir flóðbylgju sólarljóssins er það skellur á jarðarkringlunni svo að morgnar í hverju landinu af öðru, þá þykir mér þetta ljóð eftir skáldið Stein Steinarr hitta okkur Íslendinga fyrir þar sem við erum stödd.
Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.
E.t.v. hefur þjóðin sem byggir þetta land aldrei fyrr verið jafn full af sjálfri sér.
Einn ágætur prestur norður í Lofoten í Noregi sagði okkur hjónum eitt sinn merka sögu. Hann hafði farið að vitja öldungs eins á sjúkrahús sem orðið hafði fyrir slysi og legið við drukknun, og saga þessa gamla manns hefur síðan orðið mér hugstæð. Hann hafði verið stærsti útgerðarmaðurinn í sínum firði, og jafnan átt mikið undir sér. Á gamalsaldri naut hann góðrar heilsu og kunni því illa að sitja auðum höndum. Var það vani hans á góðviðrisdögum að hann reri bát sínum út á fjörðinn til að renna fyrir fisk. Þessi fjörður og hafið úti fyrir hafði gefið honum öll hans auðæfi, en þakklátastur var hann þó sjálfum sér, dugnaði sínum og útsjónarsemi. Nú var hann orðinn aldraður og eftirlét öðrum að puða þótt hann gæti ekki fengið af sér að hætta með öllu að róa. Og sem hann er róinn all langt út á fjörðinn einn góðan veðrudag, þá skynjar hann breytingu öðru megin í líkamanum. Einhver undarlegur doði og stjórnleysi virtist koma yfir hann. Þá hugsaði hann með sjálfum sér, að ef hann væri nú að fá heilablóðfall og deyja, þá væri betra að komast að landi svo ekki þyrfti að leita hans um allan fjörð. Hann snéri bátnum fimlega og lagðist á árar með sínum sterklegu hrumu höndum og sóttist róðurinn vel. Og sem kjölurinn rennur upp í fjöruborðið, leggur hann árar í bát og býr sig undir að klofa fyrir borð... en þá gerist það. Hann missir mátt og jafnvægi og þessi þungi mikli skrokkur leggst hálfur út fyrir lunninguna og hangir þar bjargarvana með höfuðið hálft á kafi í sjó. “Og þarna lá ég” sagði gamli maðurinn við prestinn sinn. “og aldan færði höfuð mitt á kaf. Ég sem alltaf hafði haft vald á lífi mínu og öll mín skipstjórnarár aldrei misst háseta í sjóinn, lá nú fram af borðstokk þessa litla báts og var að drukkna af því að ég gat ekki reyst mig upp. Þá áttaði ég mig á því að ef ég andaði að mér á útsoginu, þegar aldan færðist frá landi, en andaði frá mér í aðfallinu þá myndi ég kannski ekki kafna. Og svo byrjaði ég að anda í takt við hafið og hrynjandi þess. Langur tími leið áður einhver sá mig og mér var bjargað, en ég hefði ekki viljað fara á mis við þann tíma. Því þarna sem ég lá máttvana á hvolfi og neyddist til að anda í takti við öldu hafsins þá uppgötvaði ég Guð. Ég hafði alltaf litið á sjálfan mig sem herra yfir hafinu, mætti þess og gæðum, en nú var því öllu bókstaflega snúið á haus. Og ég bað til Guðs í fyrsta sinn frá því ég var barn. Og ég segi þér satt, ég bað hann ekki um að bjarga mér. Ég bað hann bara að fyrigefa mér og taka við mér.”
Þakklátum huga hefði þessi gamli maður gert orðin sem lesin voru hér frá altarinu að sínum: “Drottinn hefur hirt mig harðlega en eigi ofurselt mig dauðanum. ... Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er nú orðinn að hyrningarsteini. “
Það gildir einu hver öldin er, hvert landið er, hver maðurinn er, reynslan af Guði er alltaf söm. Þegar líf okkar opnast fyrir Guði þá flökrar ekki að okkur að biðja hann um að bjarga okkur, því frá þeirri stundu er andi mannsins þekkir Guð, þá óttast hann ekki framar örlög sín heldur Guð einan. “Ég segi þér satt, ég bað hann ekki um að bjarga mér. Ég bað hann bara að fyrigefa mér og taka við mér.”
Það hefur alltaf verið hlegið að vanmætti trúarinnar í þessum heimi. Þeir stóðu undir krossinum á Golgatahæð, skóku höfuð sín og sögðu: “Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað.” Og það var hverju orði sannara. Hér hékk hann sem sendur var af Guði veröldinni til hjálpar og gat með engu móti bjargað sjálfum sér. “Verði ekki minn vilji, heldur þinn.” hafði hann beðið og sviti hans var sem blóðdropar er féllu á jörðina. “Verði þinn vilji!” “Slíðra þú sverð þitt!” hafði hann skipað Pétri lærisveini. “hver sem sverði bregður mun fyrir sverði falla.”
Hvað er hlægilegra en krossfestur konungur, hvað er aumkunarverðara en grátandi Guð, nema ef vera skyldi þau sem á hann trúa?
Varla getum við reist þjóðfélag á slíkum hornsteini? Við hljótum að hafna vanmættinum en tileinka okkur styrkinn. Við hljótum að líta á sjálf okkur sem herra jarðarinnar. Frjáls og glöð hljótum við að halda áfram að nýta allar auðlindir heimsins, smíða hagkerfi sem umfaðamar veröld alla, ná tökum á genamengi mannsins og nema öll lönd önnur eftir því sem þau láta undan getu okkar. Og þetta hljótum við að gera á eigin forsendum, því við eigum þennan heim. Enginn á hann nema við.
...Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.
Skreytið hendur og eyru með glitrandi gimsteinum. Haldið dansleiki og veislur undir vorbláum himni. Hrópið afreksverk ykkar og hetjudáðir af húsþökunum.
Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.
Byggið hallir og musteri úr drifhvítum marmara. Leggið götur og stræti úr gulum og rauðum sandsteini. Reisið turna og vígi, sem enginn kemst yfir nema fuglar himinsins.
Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.
Við erum þátttakendur í stærstu tilraun sem gerð hefur verið á jörðinni. Við erum byggingarverkamenn í hæsta Babelsturni sem reistur hefur verið. Loksins nú skal hann ná til himins eftir allt. Og það breytir engu um viðhorf okkar Íslendinga þótt við vitum að eimitt núna sé lokið mesta hagsældarskeiði í sögu þessa eylands á sama tíma og heimilin skulda meira en nokkru sinni. Það breytir engu, því staðreyndir skipta ekki máli. Við trúum á tilraunina. Það breytir engu þótt misskipting hafi aldrei verið megnari í veröldinni en nú og blóð hinna föllnu hrópi til himins. Við trúum á tilraunina. Og þótt börnin okkar og unglingarnir búi við vaxandi geðraskanir, aldrei hafi fleiri börn verið forsjárlaus á þessum hnetti og uppsöfnuð reiði meirihluta jarðarbúa snúi að okkur þessum fáu heppnu, þá trúm við enn sem fyrr á tilraunina. Og jafnvel þótt jöklarnir bráðni fyrir framan augun á okkur og yfirborð sjávarins hækki vegna hlýnunar jarðar af manna völdum, þá sjáum við bara ný tækifæri í stöðunni með nýjum siglingaleiðum kringum norðurskaut og möguleika á olíuhreinsunarstöðvum. Við trúum á tilraunina.
Þeir gerðu það líka valdsherrarnir í Júdeu. Þeir trúðu á sína tilraun. Pax Romana hét hún, hinn rómverski friður. Það var léttir að smiðurinn frá Nasaret skyldi gefa upp öndina vonum fyrr, svo hægt væri að koma honum í gröfina áður en hátíðin gengi í garð. Þá væri það mál úr sögunni. Ræningjana sem upp voru hengdir með honum þurfti að taka, lemstra þá og geyma í dýflissu. Það var þó bót í máli að vera laus við þennan “gyðingakonung”.
En að kveldi páskadags. Um það bil sem ræningjarnir hafa líkast til verið búnir að taka sín síðustu andköf ... “þá stendur hann sjálfur á meðal [lærisveina sinna] og segir við þau: “Friður sé með yður!” En þau skelfdust og urðu hrædd og hugðust sjá anda. Hann sagði við þau: “Hví eruð þið óttaslegin og hvers vegna vakna efasemdir í hjarta ykkar? Lítið á hendur mínar og fætur að það er ég sjálfur. Þreifið á mér og gætið að. Ekki hefur andi hold og bein eins og þið sjáið að ég hef.” Þegar hann hafði þetta mælt sýndi hann þeim hendur sínar og fætur. Enn gátu þau ekki trúað fyrir fögnuði og undrun. Þá sagði hann við þau: “Hafið þið hér nokkuð til matar?” Þau fengu honum stykki af steiktum fiski og hann tók það og neytti þess frammi fyrir þeim.” Lúk. 24.36-42)
Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.
Og við þetta hundelta, auðmýkta fólk. Við þessa syrgjendur, þessa grátendur mælti Jesús: “Svo er skrifað að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum að taka sinnaskiptum og þiggja fyrirgefningu synda og hefja það í Jerúsalem. Þið eruð votta þessa. Ég sendi ykkur andann sem faðir minn hét ykkur en verið kyrr í borginni uns þið íklæðist krafti frá hæðum.” (Lúk. 24.46ff)
Hér er komin ástæða þess hve trú og boðun kristinnar kirkju er jafnan hlægileg. Kirkja Jesú boðar öllum þjóðum á öllum tímum að taka sinnaskiptum og þiggja fyrirgefningu synda. Ekkert er fyndnara en það í augum þess valds sem safnar sjálfu sér. Á því megum við þekkja vald heimsins, að það gengur upp í sjálfu sér hvar sem það birtist. En vald Jesú Krist megum við kannst við með því móti að það dreifir sér ókeypis til allra, líkt og grasið sem vex og sáir sér eftir því sem tíminn vinnur með því.
Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.
Upp risa Jesú frá dauðum, vald Guðs í þessum heimi snýr öllu á haus. Gamli útgerðarmaðurinn fékk að þreifa á því. Svo lengi sem við viðurkennum ekki vald Guðs þá erum við ekki með í veruleikanum. “Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu. Farið því..” mælti hinn upp risni frelsari við flokkinn sinn þar sem þeir stóðu á sandölunum sínum og áttu ekki neitt, voru ekki neitt. “Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu. Farið því ... Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.” (Matt. 28.18 og 20)
Á þessum páskadagsmorgni kemur kirkja Jesú saman hvarvetna í veröldinni til þess að þakka og fagna í trúarfullvissu. Atburður krossins og hin tóma gröf er ekki tilraun. Jóhannes lýsir síðustu andartökum í ævi Jesú svo: “Jesús vissi að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann til þess að ritningin rættist: “Mig þyrstir.” Þar stóð ker fullt af ediki. Hermennirnir vættu njarðarvött í ediki, settu hann á ísópslegg og báru að munni honum. Þegar Jesús hafði fengið edikið sagði hann: “Það er fullkomnað.” Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andan.”
Kristin kirkja byggir ekki von sína á tilraun. Það er fullkomnað! mælti Jesús. Afdrif þín í þessari veröld eru ekki tvísýn. Með dauða sínum og upprisu hefur Jesús Kristur fullkomnað hjálpræðisverkið. Þessi veröld er löngu orðin laus á límingunum og hún hefur alltaf verið það, það eru engar nýjar fréttir. Hér er ekkert sem varir. ”En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.” Sagði Jesús við vini sína. (Lúk. 21.28) Í þessari vissu er gleði og sigurvissa trúarinnar fólgin. “Föðurland okkar er á himni” skrifar Páll í bréfi sínu til Filippímanna. “Föðurland okkar er á himni og frá himni væntum við frelsarans, Drottins Jesú Krists. Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama okkar svo að hann fái sömu mynd og dýrðarlíkami hans því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig.” (Fil. 3.20-21)
Kristin kirkja lifir í heiminum og hinn upprisni frelsari krefur hana um fulla ábyrgð í mannréttindum, umhverfismálum og öllu öðru er viðkemur þjónustu lífsins. En þótt við lifum í heiminum þá erum við ekki af heiminum.
Þótt himininn farist og hrynji vor storð þótt hrapi hver stjarna, þá varir hans orð. Þótt eygló hver slokni við aldanna hrun hans eilífa loforð ei bregðast þó mun.
Jesús er upp risinn!
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Prédikun samin af prestunum Bjarna Karlssyni og Jónu Hrönn Bolladóttur. Flutt á páskum 2008 í Laugarneskirkju og í Bessastaðakirkju.