Leiðarstjarnan

Leiðarstjarnan

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
25. desember 2005
Flokkar

Guðspjall: Lúk. 2. 1-14

“Í sögu einni greinir frá umrenningi sem átti hvergi höfði sínu að halla og hélt til þar sem skjóls var að vænta hverju sinni. Honum þótti góður sopinn og hann gætti þess að eiga alltaf flösku innan klæða sem hann gæti yljað sér með í kuldanepjunni.

Á aðfangadagsmorgun vaknaði hann upp með andfælum. Bæði hendur og fætur, líkami og höfuð, já og líka hugur og hjarta, allt var gegnkalt. En þá um kvöldið fann hann fyrir örlítilli hlýju á einum stað í hjarta sínu. Hann nuddaði bláar hendurnar og tók að berja sér til hita. Hann fiskaði flösku upp úr vasa sínum og skrúfaði tappann af með skjálfandi fingrunum. Nú fékk hann sér vænan sopa og vínið hlýjaði vel. Í þessum sömu svifum lét hann sig dreyma um jólin þegar hann var enn barn og það var ekki laust við að hann langaði núna að upplifa þessa stemningu aftur. Hann minntist sérstaklega eins aðfangadagskvölds. Faðir hans var byrjaður að lesa borðbænina þegar móðirin mundi allt í einu eftir því að það hafði gleymst að gefa hænunum vatn. Þeir feðgar fóru saman út í hænsnakofa síðar um kvöldið. Á leiðinni til baka stóðu þeir í garðinum nokkra stund til að skoða stjörnurnar á himninum. “Er ekki undarlegt að hugsa til þess”, sagði faðir hans “að það var á þessari nótt fyrir tvö þúsund árum að ein stjarna tók sig út úr allri þessari mergð og vísaði vitringunum leiðina til barnsins í jötunni”. Þegar umrenningurinn hugsaði um þetta þá sagði hann við sjálfan sig. “Góði Guð, getur þú ekki leyft mér að upplifa jólin þín einu sinni enn?” Hann stóð síðla sama dag á opnu svæði og horfði til himins. Þar lýstu stjörnur í þúsundatali. Skyndilega varð hann þess áskynja að öll athygli hans beindist að einni ákveðinni stjörnu. Hún hreyfðist hægt frá austri til vesturs og var mjög lágt á himninum. Ómeðvitað byrjaði hann að ganga í átt til stjörnunnar sem hann sá um síðir að hafði staðnæmst á himninum.

Hann vissi ekki að kona ein á reiðhjóli var á ferð yfir brú eina í næsta nágrenni þegar framhjólið varð loftlaust og hún þurfti að staðnæmast. Lýsingin á brúnni var biluð þetta kvöld. En luktin á hjólinu lýsti henni á dimmri brúnni. Luktin á hjólinu var stjarna umrenningsins.

Hann flýtti sér sem mest hann mátti þegar hann gerði sér grein fyrir því að hann var að nálgast stjörnuna. Allt í einu nam hann staðar, vonsvikinn. Stjarnan sem hann hafði elt var bara lítið útiljós á litlu húsi. Hann hlaut að hafa misst af hinni raunverulegu stjörnu. Brátt gerði hann sér grein fyrir því að útiljósið líktist einmitt stjörnunni hans. Hann gekk að húsinu. Hann gat ekki haft á röngu að standa. Guð gat ekki verið að plata hann, ekki þetta kvöld þegar hann hafði meiri þörf en nokkru sinni fyrr fyrir eitthvað hlýtt og lifandi. Klukkan var rúmlega átta á aðfangadagskvöld.

Inni í þessu litla húsi bjuggu hjón með tvo unglinga. Þau höfðu hlýtt saman á útvarpsmessuna kl. 6 og lokið við að borða þegar umrenningurinn knúði dyra hjá þeim. Heimilisfaðirinn gekk til dyra furðu lostinn yfir því að einhver væri við útidyrnar á þessum tíma og opnaði þær. Faðirinn missti andlitið þegar hann sá umrenninginn í dyragættinni sem spurði hvort eitthvað óvenjulegt hefði gerst hjá þeim. Faðirinn svaraði því neitandi, dró varfærnislega upp veski sitt úr vasa sínum og gaf honum þúsund kall og lokaði dyrunum.

Sonurinn byrsti sig og sagði við föður sinn: “Jú, hér hefur svo sannarlega nokkuð óvenjulegt og fallegt gerst! Hér var stödd manneskja sem raunverulega gerði sér einhverjar vonir um Jesú. Þú lést okkur hlusta á útvarpsmessuna í kvöld. En hvað varð um allan kærleikann þegar róninn stóð andspænis þér?” Þú kastaðir honum á dyr!” Faðir hans fékk sér sæti gjörsamlega ráðþrota. “Nei”, sagði hann lágt, “við verðum að bjóða honum inn. Það var eitthvað við hann”. Hann spratt á fætur og hrundi upp útihurðinni og fann umrenninginn skammt frá húsinu þar sem hann var að horfa á útiljósið á húsinu og bauð honum inn til þeirra. Húsmóðirinn hitaði upp afganginn af jólagrautnum og gaf honum. Umrenningurinn þakkaði fyrir sig og minntist m.a. á það að þegar hann var barn þá las faðir sinn jólaguðspjallið fyrir sig og fjölskylduna. Hinn unglingurinn á heimilinu spurði hann þá hvort hann gæti ekki lesið jólaguðspjallið fyrir þau núna á þessari stundu? Umrenningurinn var ekki lengi að fletta upp á jólaguðspjallinu og las það fallega upphátt fyrir þau þar sem þau sátu í kringum hátíðarborðið. Þegar hann hafði lokið lestrinum sagði hann brosandi: “Og ég fann Jesús þrátt fyrir allt”. Og þá gerði hann sér jafnskjótt grein fyrir því að hann tilheyrði fjölskyldu Guðs. Það þarf ekki að taka fram að umrenningnum var boðið að halla höfði sínu þar innan dyra um nóttina sem hann þáði með þökkum”.

Þessi saga er ekki lengri en ég tel víst að boðskapur hennar eigi erindi til okkar á þessari helgu jólanótt þar sem hún leggur áherslu á kærleikann sem leitar ekki síns eigin.

Jón Gnarr sagði í Fréttablaðinu nýverið að það væri ekki hægt að versla með kærleikann, það væri aðeins hægt að gefa hann. Hann hefur lög að mæla enda hefur hann barnslega góða kímnigáfu.

Umrenningar eru til í íslensku þjóðfélagi. Við köllum þá reyndar útigangsfólk, menn og konur og jafnvel börn því miður. Ég hef stundum furðað mig á því að hvers vegna það hafi ekki verið tekið almennilega á húsnæðismálum þessa ógæfusama fólks fyrir löngu með viðeigandi hætti sem sæmir manneskjum? Við Íslendingar höfum gagnvart þessu fólki fetað alltof oft í fótspor levítans og prestsins í dæmisögunni um miskunnsama Samverjann og látið sem þetta fólk sé ekki til.

Jólaboðskapurinn gefur sterkt til kynna að Guð vitjar sérhverrar manneskju hvernig svo sem högum hennar er háttað, hvernig sem litaraft hennar er eða hvaða tungumál hún talar eða hvaða trú viðkomandi aðhyllist.

Ákveðin skikkan ríkir í vestrænum samfélögum þar sem kristin gildi eru í heiðri höfð. Þar hvílir sú skylda á hverju stjórnvaldi að veita fólki margvíslega velferðarþjónustu til líkama og sálar þar sem hin samfélagslega ábyrgð á hag náungans er höfð að leiðarljósi. Það fer vel á því vegna þess að hver einstaklingur er óendanlega dýrmætur í augum Guðs. Þess vegna ber stjórnvöldum að gefa hverrri manneskju kærleika. Hins vegar virðist mér stjórnvöld halda að sér höndum í velferðarmálum. Oft hafa þau verið gagnrýnd fyrir það. Það er vissulega í mörg horn að líta. Það gætir þeirrar tilhneigingar hjá stjórnvöldum að vonast eftir því að grasrótin taki til höndum að þessu leyti. Ég velti því fyrir mér hvort það sé neikvætt eða jákvætt? Mér finnst það neikvætt vegna þess að þá finnst okkur að stjórnvöld eigi að skaffa okkur allt án þess að neitt komi á móti frá okkur þegnunum. Mér finnst það jákvætt vegna þess að öll viljum við innst inni geta látið gott af okkur leiða í þágu þeirra sem eiga um sárt að binda af ýmsum ástæðum. Að þessu leyti finnst mér jákvætt að stjórnvöld haldi að sér höndum vegna þess að það ýtir undir það að við þegnarnir látum til skarar skríða og gefum þeim kærleika sem eru hjálparþurfi. Við sjáum þetta ekki síst á aðventunni þegar ýmsir aðilar taka sig til og hjálpa þeim sem eru nauðstaddir.

Barnsins glaði jólahugur sýnir sig á aðventunni og á jólunum, ekki síst í gjafmildi okkar í garð hvers annars. Athygli vekur þegar fólk ákveður að fata fjölskyldu upp sem á ekki utan á sig í stað þess að gefa hvert öðru gjafir. Við eigum flest nóg af öllu en það eru líka margar manneskjur sem ekki eiga neitt hérlendis og erlendis og búa við hörmulegar aðstæður sem við myndum ekki láta bjóða okkur. Þessu fólki megum við ekki gleyma árið um kring. Við megum til með að muna eftir þessu fólki í bænagjörðum okkar á degi hverjum. Eitt er víst að Guð gleymir ekki þessu fólki. Hann gefur því oft á tíðum englavernd í mennsku fólki eins og reyndin var með umrenninginn í sögunni góðu sem ég las fyrir ykkur í upphafi sem mætti góðu fólki sem gaf honum kærleika.

Hver er leiðarstjarnan okkar í lífinu? Er það lukt á hjóli? Eru það útiljósin á húsinu okkar eða bílljósin sem við greinum á myrkvuðum þjóðvegum landsins? Eru það stöku vegprestar á gatnamótum eða prestar þjóðkirkjunnar sem sumir segja að gangi á Guðs vegum?

Eða er það morgunstjarnan sjálf sem rann upp árla hinn fyrsta dag vikunnar um sólarupprás, Jesús Kristur, barnið í jötunni sem knýr á hjartadyr okkar á þessari jólanótt? Birtan sem frá þessu barni stafar er skærara en það ljós sem frá luktinni og útiljósunum stafar. Okkur býðst að opna dyr hjartna okkar upp á gátt fyrir þessu ljósi. Þegar það fær að komast inn þá vinnur það kraftaverk og við förum þá að gefa meiri kærleika af okkur gagnvart þeim sem standa okkur næst en ekki síst andspænis þeim sem eiga um sárt að binda af margvíslegum ástæðum í þessum heimi sem einkennist af mikilli misskiptingu lífsgæða. Við megum til með að leitast við að stuðla að því að hver og ein einasta manneskja í þessum heimi geti búið við eins góð lífsgæði og hægt er miðað við kringumstæður hennar á hverjum tíma. Fjölskyldan veitti umrenningnum húsaskjól, mat og samfélag um stundarsakir. Það getum við einnig gert með framlagi okkar í þágu nauðstaddra í þessum heimi.

Það er ekki síst við hæfi á þessari jólanótt að biðja fyrir öllu þessu fólki sem býr ekki við sömu lífsskilyrði og við hér á Húsavík. Ég bið ykkur þess vegna um að minnast þeirra með mér í almennu kirkjubæninni hér á eftir. Bænin er lykill að Drottins náð sem vakir yfir hverju barni sínu um alla jörð. Megi Drottinn snerta við umkomulausu fólki um þessi jól og gefa því vonarríka framtíð í Jesú nafni.