Gleðiljóð

Gleðiljóð

Uppteiknað, sungið sagt og téð. Hér rúmast hinar margslungnu leiðir tjáningarinnar. Hér í Hallgrímskirkju hefur verið leitast við að fara margar leiðir í hefðbundnu helgihaldi, myndlist, leiklist og ekki síst tónlist og söng.
fullname - andlitsmynd Jón D Hróbjartsson
12. apríl 2009
Flokkar

Kristur er upprisinn!

Kristur er sannarlega upprisinn!

Yfir þessu undri fagnar kristin kirkja í dag. Við syngjum gleðiljóð, við syngjum fagnaðarsöngva, því að upprisan er grundvöllur trúarinnar.

Hvað segir ekki postulinn: Ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun okkar, ónýt líka trú ykkar. Frásögn Matteusar guðspjallamanns af atburði páskamorguns er hrífandi, - þar fer ekki milli mála, að páskaundrið er í höndum Guðs, - engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann, - jörðin skalf, - og það er engillinn sem boðar fagnaðarerindi páskanna. “Ekki óttast, - ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta, hann er ekki hér, hann er upprisinn, - komið og sjáið staðinn þar sem hann lá,” - gröfin var tóm.

Fæðing Jesú gerðist einnig með undrum og stórmerkjum, eins og við þekkjum úr jólaguðspjallinu, - “en engill Drottins stóð hjá hirðunum og dýrð Drottins ljómaði kringu þá, - verið óhræddir, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur.

Hjálpræðisverkið er stórkostlegt undur, Guð, skapari himins og jarðar, Drottinn allsherjar snerti jörðina, hann sendi engla sína til þess að ýta hjálpræðisverkinu úr vör, og hann lauk því með því að staðfesta upprisuna og sigur lífsins yfir dauðans böndum, hann staðfesti það með sendiboða himinsins, gleðiboðskap himinsins um hinn upprisna, - hann er ekki hér, hann er upprisinn.

Hjálpræðisverkið var fullkomið. Það er athyglisvert að í bæði skiftin hófu englarnir ræðu sína á orðunum: Verið óhrædd, - þetta voru vissulega mjög áþreyfanlegir atburðir, - á jólanótt endurómaði englasöngurinn um Betlehemsvellina og á páskadagsmorgun nötraði jörðin, þegar páskaboðskapurinn hljómaði í fyrsta sinn.

Það tók lærisveinana eðlilega nokkra stund að átta sig á upprisunni, þeir voru búnir að fara gegnum dimman dal þjáningar og ótta, þeir höfðu tapað, voru í liðinu sem varð undir og þeir földu sig á bak við lás og slá. Bönd dauðans umluktu þá í orðsins fyllstu merkingu - en nú fengu þeir að sjá hann upprisinn, hann kom til þeirra um luktar dyr, boðaði þeim frið, uppörfaði þá og sendi þá út um allan heim. “Eins og faðirinn sendi mig, eins sendi ég ykkur.”

Og trúin hefur svo sannarlega skapað líf og gleði, upprisutrúin hefur orðið að sannfærandi krafti, sem hefur breytt lífi fólks, auðgað líf fólks á öllum sviðum lífsins og þar með menningu okkar í 2000 ár. Sem dæmi um sannfærandi kraft má nefna hina fjölmörgu píslarvotta kristninnar sem hafa á öllum öldum gegnið í dauðann fyrir trú sína.

Á fyrsta skeiði kirkjunnar voru margir líflátnir fyrir það eitt að játa trú á hinn upprisna, þannig var það með postulana Pétur og Pál, en þeir voru færðir til Rómaborgar í hlekkjum og síðan líflátnir. Eftir- maður Péturs í Antiokkíu, biskupinn Ignatíus, var mjög mikilvægur leiðtogi kristinna manna á þessari fyrstu öld kirkjunnar, eftirmaður Péturs í Antiokkíu, en 107 var hann tekinn höndum af hermönnum Trajanusar keisara, sem hafði það á stefnuskrá sinni að útrýma kristinni trú í ríkinu og því var nauðsynlegt að taka fasta þá, sem voru leiðandi. Það tók margar vikur að koma Ignatíusi til Rómar á þessum tíma. Það vakti undrun hermannanna hve Ignatíus var fús að koma með þeim, hann lét í ljósi djúpa gleði yfir því að deyja Guði til dýrðar. Á þessari löngu leið skrifaði biskupinn 6 bréf sem urðu hinni ofsóttu kirkju mikil huggun og styrkur.

Trajanus vildi sjálfur dæma biskupinn og ákæran var skýr: Hann trúði á upprisu Jesú Krists. Honum var varpað fyrir villidýr í Colosseum leikvanginum, eins og svo mörgum öðrum. En kristnir vinir söfnðu beinunum saman og sendu þau í öskju til Antiokkíu, en þar er enn hægt að sjá þessar minjar. Það tókst ekki að útrýma kristinni trú á þessum tíma og það hefur aldrei heppnast, en það hefur oft verið reynt. Og enn deyja píslarvottar.

Vitnisburðurinn um hinn upprisna nálæga frelsara hefur tekið á sig margar myndir í bókmenntum, ljóðum, sálmasafni kirkjunnar, myndlist og ekki síst tónlist.

Kirkjan hefur á öllum öldum leitað leiða til að koma vitnisburði kristninnar á framfæri.

Sr. Hallgrímur bað:

Ó, Jesús, gef þinn anda mér allt svo verði til dýrðar þér upp teiknað, sungið, sagt og téð síðan þess aðrir njóti með.

Uppteiknað, sungið sagt og téð, - hér rúmast hinar margslungnu leiðir tjáningarinnar. Hér í Hallgrímskirkju hefur verið leitast við að fara margar leiðir í hefðbundnu helgihaldi, myndlist, leiklist og ekki síst tónlist og söng.

Á nokkra mánaða fresti er skift um myndlistarsýningar í forkirkjunni, Listvinafélagið býður upp á fjölbreytta dagskrá allt árið, þar sem listformin blandast vel saman.

Í dag fáum við sýnishorn af tónlistararfinum.

Jóhannes Sebastian Bach er stundum kallaður 5. guðspjallamaðurinn, en hann hefur á undraverðan hátt komið boðskapnum til skila í stórum og smáum tónsmíðum. Allt gert og merkt: Guði til dýrðar. Það má því með sanni segja að menn eins og Bach, séu sendiboðar himinsns, englar, verkfæri Guðs, sem flytja okkur boðskap, gleðiboðskap, huggunarboðskap á öllum tímum. Sendiboðar himinsins spanna allar þarfir okkar, kærleiksþjónustuna, sem við þörfnumst hvert og eitt og þeir sem færa okkur listaverkin mörgu og stóru.

Í páskakantötunni sem nú verður flutt notar Bach páskasálm frá miðöldum, sem Lúther o.fl. hafa síðan farið höndum um og þýtt á mörg tungumál.

Í dauðans böndum Drottinn lá, frá dauða svo vér sleppum en uppreis dauðum aftur frá, svo eilíft líf vér hreppum Í Guði því oss gleðjast ber Og gjalda þökk og syngja hver Af hjarta: Hallelúja. (sjá Sálmabók 157)

Hvert vers í þessum sálmi er efni í margar prédikanir, - ég legg til að við lifum okkur inn í sálminn og boðskap hans og leyfum honum að tala til okkar og fylla okkur páskagleði. Við finnum væntanlega öll, að þessi forni texti passar á öllum öldum, líka í dag.

Gleðilega páska.