Ég held að ástæðan fyrir því að Jesús gaf Símoni nafnið Pétur sem merkir klettur hafi ekki einungis verið vegna staðfestu postulans heldur líka vegna stjórnunaráráttu hans og þvermóðsku, þ.e. Péturs. Símon Pétur var nefnilega ekki mikið gefinn fyrir breytingar né óvæntar uppákomur, hann vildi hafa stjórn á hlutunum og þegar uppákomurnar urðu var hann fyrstur til að bregðast við, jafnvel án þess að hugsa. Mér þykir svo undur vænt um hann Pétur, sennilega af því að hann minnir mig svo á kirkjuna mína, alltaf vel meinandi en jafnframt dálítið kvíðin. Stjórnunarárátta er kvíðaviðbragð, við þekkjum það öll, við þurfum alltaf að finna okkur hafa stjórn á einhverju í lífi okkar, sérstaklega þegar mikið liggur við. Ég get t.d. viðurkennt að þegar ég er undir miklu álagi, þá fer ég að þrífa eins og enginn sé morgundagurinn, þetta er ákveðin þráhyggja sem ég hef lengi verið haldin og snarversnar þegar mér finnst ég ekki alveg vera við stjórn í lífi mínu, þá raða ég líka bókunum mínum alveg hnífjafnt í hillurnar svo ekki skeikar millimetra á milli og púðarnir í stofusófanum verða að vera á nákvæmlega réttum stað, annars er dagurinn ónýtur. Þið megið alveg hlæja að þessu, af því að þetta er bara fyndið, í versta falli grátbroslegt, fyrir þá sem næstir mér standa. Ég er viss um að Símon Pétur hefur verið haldinn einhverskonar þráhyggju, a.m.k. þótti honum mjög erfitt að sitja kyrr og þegja þegar Jesús tók upp á því að gera eitthvað óvænt og óútskýranlegt eins og í guðspjalli dagsins, umbreytingarfrásögninni, þá fer Pétur að raða púðum eins og ég, „Meistari, gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Einhvern veginn verður maður nú að bregðast við svona uppákomum, setja aðstæðurnar niður fyrir sig og sjá hvort ekki sé hægt að leiða málið til lykta. Mannlífið er gegnsýrt af þráhyggju, hvort sem þú lítur í prentmiðla eða á skjámiðla má sjá fólk sem er á fullu að reyna að stjórna lífi sínu með þráhyggjulegum hætti, oftast lítur sú stjórn að útlitinu, stundum með öfgafullri vöðvasöfnun eða gengdarlausum lýtaaðgerðum eða skelfilegum átröskunum, allt í kringum þig er fólk að reyna að spyrna við breytingum náttúrunnar til þess að finna sig hafa einhverja stjórn á þessu lífi. Dauðinn er reyndar versti óvinur þráhyggjunnar, af því að það er svo erfitt að hafa stjórn á honum, hvorki hægt að segja neitt né aðhafast nokkuð sem breytir orðnum hlut. Pétur mátti heldur ekki heyra á það minnst að Jesús yrði líflátinn, í kaflanum á undan guðspjalli dagsins ávítar Pétur Jesú fyrir að segja til um dauða sinn, en Jesús tekur aldrei við stjórnsemi Péturs, það er raunar einkenni á Jesú hvað hann lætur illa að stjórn, hann lætur postulann horfast í augu við sannleikann, hvort sem honum líkar betur eða verr. Og þannig er trúin í reynd, hún lætur mann horfast í augu við sannleikann, þar er engrar undankomu auðið. Og sannleikurinn er sá að trúin er umbreytandi, hún lætur ekki undan mannlegri stjórn, hún er veruleiki sem krefst þess að maðurinn gefi sig henni á vald og treysti leiðsögn hennar.Trúin er umbreytandi, ummyndandi. Þess vegna er engin tilviljun að þegar Jesús kemur niður af fjallinu ásamt þeim Pétri, Jakobi og Jóhannesi mætir honum faðir í öngum sínum yfir andlegri vanheilsu sonar síns, s.s. það fyrsta sem að Jesús gerir eftir hinn magnþrungna atburð ummyndunarinnar er að ganga inn í aðstæður skelfingar og ótta, hann læknar mann sem hefur verið sálsjúkur frá bernsku, reisir hann við til nýs lífs. Það var s.s. ekki haldið neitt frumsýningarpartý eftir opinberunina á fjallinu, heldur var ummyndunin, opinberun guðdómsins gerð að raunveruleika í lífi venjulegs fólks, og það er nákvæmlega tilgangur trúarinnar og bænarinnar. Pétur vildi finna öllum stað, ein tjaldbúð fyrir Elía, ein fyrir Móse og ein fyrir Jesú, það leit svo vel út, ekki að rugga bátnum, en þá kemur Guð og mótmælir stjórnseminni, „þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann.“ Jesús var ekki kominn til að afnema lögmálið eða segja upp spámönnunum, heldur til að uppfylla með kærleika sínum sem reyndist sterkari en sjálfur dauðinn. Jesús lagði ríka áherslu á að við þekktum lögmálið sérstaklega boðorðin 10 og hann lagði líka þunga áherslu á hið spámannlega hlutverk en hvort tveggja vildi hann að við þekktum og ræktum af einlægri trú, umbreytandi trú, trúarréttlæti og það er dálítið flókið fyrir þráhyggjukennd manneskjunnar sem vill ekki að púðarnir í sófanum séu á vitlausum stað og bækurnar í hillunni mislangt frá brúninni. Þess vegna gerir trúin kröfu á endalaust hugrekki, hugrekki til að meta hvern dag, hverja stund, sérhverjar aðstæður og uppákomur með augum Jesú, trúin gerir kröfu á að við séum tilbúin að mæta breytingum og gera þær að fannhvítum og skínandi veruleika eins og lærisveinarnir upplifðu á fjallinu. Feðraveldið er án efa þráhyggjukenndasta fyrirbæri sem um getur, það óttast ekkert frekar en breytingar, eiginlega eru breytingar eitur í beinum feðraveldisins, en hefðin er aftur á móti þeirra stjórntæki og öryggisnet. Og ansi er það lífsseigt, það hefur komið sér svo dæmalaust þægilega fyrir, eins og skógarbjörn í hýði sínu. Á 21.öld, rúmum 2000 árum eftir að Jesús fól konum að vera fyrstu kristniboðarnir erum við í kirkjunni að velta fyrir okkur hvort kona geti kannski orðið vígslubiskup í Skálholti, þeim veruleika er velt upp eins og það geti jafnvel orðið viss áhætta, er tíminn kominn eður ei? Og má hún þá vera ung eða er kannski öruggara að velja miðaldra karl af því að það er svo rík hefð fyrir því og hefðin er okkar tjaldbúð, svo er hægt að reisa aðra tjaldbúð fyrir konurnar, þær virðast nefnilega standa sig prýðilega í prestskapnum. Mikið væri það nú gaman að sjá umbreytandi trú að verki í næsta biskupskjöri sem fer fram von bráðar á suðurlandi, nú eru einmitt liðin tæp fjörutíu ár síðan fyrsta konan var vígð til prestþjónustu og síðan þá hefur ósköp lítið gerst, biskuparnir þrír eru karlar, í kirkjuráði sitja fjórir karlar og ein kona og á kirkjuþingi sitja að mér telst 11 konur og 18 karlar, þar af eru vígðir kirkjuþingsfulltrúar 12, 9 karlar og 3 konur. Í kirkjunni eru starfandi 10 prófastar, 6 karlar og 4 konur. Í Kjalarnesprófastsdæmi og báðum Reykjavíkurprófastsdæmum eru 32 sóknarprestsstöður, skiptingin eru 6 konur en 26 karlar, þetta eru ótrúlega litlar breytingar á fjórum áratugum. Ef það er einhver stofnun sem rennur blóðið til skyldunnar í jafnréttismálum, þá er það kirkjan, því í stafni skipsins stendur femínistinn Jesús, og ef einhver ætlar að koma með þau rök að þetta eigi ekki að snúast um kynin heldur hæfasta einstaklinginn, þá er það þráhyggja af svipuðum toga og þegar ég fæ þrifæði til að hafa stjórn á lífi mínu. Þar sem ójafnrétti kynjanna er viðhaft snýst nákvæmlega allt um kynin, það er þversögnin í þessu öllu, nema einhver vilji halda því fram að konur séu yfirleitt ekki eins hæfar og karlar. Verkaskipting íslensku þjóðkirkjunnar er í hæsta máta ójöfn og vil ég ekki meina að þar ráði tilviljun ein, hvað þá offramboð á óhæfum konum sem ganga með sinn kollar og ráða í mesta lagi við að lesa stuttan ritningartexta. Ummyndunarfrásögnin kennir okkur að mæta breytingum með opnum huga og heitu hjarta, já alveg eins og öldrunin hefur sína fegurð, breytingin sem verður á líkama okkur með hverju ári og áratugum er merki um að við höfum lifað og reynt, þroskast og gefið af okkur, þá þróun megum við ekki stöðva af ótta við hið ókomna og til að hafa lífið undir í baráttunni, við eigum ekki að stjórna heilbrigðri þróun lífsins sem undirstrikar reynslu og fegurð. Og það er eins með hlutverkaskipan þjóðfélagsins, eitt skref kallar á annað, jafnrétti er dagleg ganga og þjóðfélag sem gefst upp á þeirri göngu, stirðnar fljótt og kólnar, þráhyggjan er versti óvinur breytinganna, hún verður ekki rekin burt nema með bæn og því hugrekki sem fæst með trú og von um að rödd Guðs heyrist í gegnum ský stjórnseminnar. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen