Hann er hér

Hann er hér

Gröfin er tóm. Predikun á páskamorgni, útlegging helgra texta þessa dags, þessa undarlega, undursamlega dags verður hljómlítil og nánast aumkunarverð frammi fyrir upprisuundrinu. Margar stærstu fréttir sem við fáum, hvort sem er um líf eða dauða, eru þannig. Fréttir um óvænt andlát, fréttir um undursamlega björgun gera orðin smá. Hann er upprisinn.
fullname - andlitsmynd Kristján Valur Ingólfsson
08. apríl 2007
Flokkar

Lifandi Drottinn, með upprisu Sonar þíns hefur þú tekið allan mátt frá dauðanum, og lætur kunngjöra öllum heimi fagnaðarboðskapinn um hjálpræðið í Jesú Kristi. Sendu okkur styrk og kraft trúarinnar og sigra efann. Leyfðu okkur öllum að taka með fögnuði undir lofsöng páskanna,með öllum þeim sem bera vitni um að Kristur er risinn upp frá dauðum og lifir og ríkir að eilífu. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

En engillinn mælti við konurnar: Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann. Þetta hef ég sagt yður. Mt.28.5-7

Gleðilega páskahátíð, góð systkin.

Systkin. Þannig segjum við á jólunum.

Vér fögnum komu frelsarans, vér erum systkin orðin hans.

Ef það var rétt að segja þetta á jólunum þá er það sannarlega rétt hér og nú, árla morguns á upprisudeginum. Við höfum slegist í för með kynslóðum kristinna bræðra og systra, og erum hluti af þeim. Ein fjölskylda ásamt systrum okkar, konunum sem guðspjallið greinir frá. Við lögðum líka af stað áður en birti almennilega. Við lögðum af stað til að fylgja konunum eftir. En við vitum það sem þær vissu ekki. Gröfin er tóm. Predikun á páskamorgni, útlegging helgra texta þessa dags, þessa undarlega, undursamlega dags verður hljómlítil og nánast aumkunarverð frammi fyrir upprisuundrinu. Margar stærstu fréttir sem við fáum, hvort sem er um líf eða dauða, eru þannig. Fréttir um óvænt andlát, fréttir um undursamlega björgun gera orðin smá. Hann er upprisinn. Með stamandi undrun og ótta tökum við á móti þessum fréttum. Hann er upprisinn, hann er ekki í gröfinni, hann er farinn til Galíleu til að hitta lærisveinana þar. Hann er upprisinn, og meira en það hann hefur hrifið með sér hina dauðu úr greipum dauðans og gefið þeim líf með sér. Öll höfum við misst einhvern. Þessar fréttir eru ekki bara af Jesú Kristi, heldur af þeim.

Hann er upprisinn. Hann er ekki hér, sagði engillinn.

Hann er hér segjum við. Hann er hér þegar við tökum á móti orði hans í heilagri ritningu. Hann talar beint við okkur í orði sínu: Sjá, ég fer á undan yður til Galíleu, segir hann. Við okkur.

Hann er hér þegar við lútum honum í lotningu, áköllum hann, biðjum til hans, tilbiðjum hann. Hann er hér þegar við krjúpum við borð hans og meðtökum líkama hans og blóð í brauði og víni eins og hann hefur heitið okkur. Hann er hér þegar við berum börnin til hans að hann blessi þau, og helgi þau til eilífs lífs, af því að hann hefur opnað leiðina fyrir þau þangað inn. Hann er hér þegar brúðhjónin krjúpa og biðja til hans um blessun yfir kristið heimili, eins og í gær þegar Vilma og Brynjar krupu hér við þetta altari.

Hann er hér þegar við berum fram fyrir auglit hans látinn bróður eða systur, á leiðinni til grafar. Hann er hér þegar enginn er , því þetta er staður hans. Hann er hér.

Hann er hér segir sálin, segir óttinn, segir trúin, segir huggunin.

Hann er hér í söfnuði sínum, vínviðurinn sanni, sem á allar þessar greinar.

Hann er hér, getur hver grein sagt við sig þegar hún gengur héðan út, og við næstu grein sem gengur við hliðina, á undan eða eftir.

Því sjá ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar, segir hann í orði sínu. Til þess að minna á þetta les kirkjan við fyrstu messu morgunsins guðspjallið samkvæmt Mattheusi, og bætir við orðunum til lærisveinanna, sem voru komnir til að hitta hinn upprisna í Galíleu. Þau voru þarna mörg, og sumir voru í vafa, en voru samt komnir. Og hann sendi þau burt til þjónustu, og gaf þeim fyrirheit um að hann myndi fylgja þeim alla tíð.

Það eru orðin sem sögð voru yfir okkur þegar við vorum skírð og verða sögð yfir litlu stúlkunni sem borin verður til skírnar hér í kirkjunni ídag.

Það eru Orðin sem geyma í sér kraft upprisunnar. Kraftinn sem við erum send með út lífið, til að vera vitnisburður um upprisuna og til að lífa í henni, að sönnu á jörðu, en þó um leið þegar á himnum.

Frammi fyrir upprisuundrinu verður predikunin hljóðlát. Hvað er þá hægt að segja? Vertu trúr, vertu trú, allt til dauða og Guð mun gefa þér lífsins kórónu.

Hann er upprisinn. Hann er sannarlega upprisinn.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen