Bróðir vinnur bróður og vinur vinnur vin

Bróðir vinnur bróður og vinur vinnur vin

Hin fyrsta kristni vex á þann hátt að bróðir vinnur bróður og vinur vinnur vin.





Á þessum græna degi komum við saman í Hafnarfjarðarkirkju til fundar við Guð og tilbiðjum hann í anda og sannleika. Á vorin látum við hendur standa fram úr ermum og gróðursetjum t.d. gulrófnafræ  í svörðinn, og gulrótarfræ.  Heima sáum við fyrir káli og grænmeti snemma vors og gróðursetjum það í svörðinn í garðinum eða höfum það í pottum á pallinum svo nokkuð sé nefnt. Við setjum niður kartöflur og breiðum dúk yfir til að skýla viðkvæmum kartöflugrösunum sem þola ekki fyrstu frost að hausti.  Það má segja að þessi messa sé uppskerumessa þar sem við þökkum Guði fyrir uppskeruna þótt hún hafi kannski verið heldur rýr að þessu sinni vegna veðurfarsins í sumar.  Bændur og búalið og almenningur sker upp fyrir frost og færir uppskeruna í hús að hausti og nýtir sér fæðuna með ýmsum hætti. Og okkur gefst kostur á því að kaupa uppskeruna hér í safnaðarheimilinu í dag  Kvenfélag Húsavíkur stendur fyrir sölu á grænmeti að lokinni messunni til styrktar Hjálparstarfi kirkjunnar.  Ugglaust verður hægt að leggja inn á reikning félagsins, ef kirkjugestir eru ekki með pening meðferðis. Kvenfélagskonurnar svara fyrir það í safnaðarheimilinu á eftir.

 Fátt heillar hugann sem vorið og allt sem því fylgir. Sá sem hrífst af vorinu verður þá sem annar maður. Ilmurinn á vorin í gróðurmoldinni, örsmá gróðurnálin og fyrsta útsprungna blómið í garðinum eru dásamlegir hlutir.  Og þótt sumarið komi á eftir með enn meiri gnóttir alls konar gæða og fegurðar, þá er sem vorið heilli okkur mest.

Ég hygg að frá bernsku okkar munum við vorið best því að það varði svo lengi. Þá komu farfuglarnir til landsins með sungu Guði lof og dýrrindí í náttúrunni. Náttúran tók að skarta sínu fegursta í öllum sínum fjölbreytileika með hækkandi sól og og hnjúkaþeyrinn vermdi svörðinn.  Vorið er að sönnu fallegur og minnisstæður tími.

 Ef við viljum kynnast kristindómnum þá þá er gott að leita til upphafsins meðan vorblærinn þaut enn yfir höfði frumkristninnar.

Í guðspjallstexta dagsins kynnumst við kristninni á fyrsta vori hennar ef svo má segja. Jesús frá Nazaret hefur ekki enn komið opinberlega fram. Hann hefur enga ræðu haldið. Hann hefur aðeins tekið vígsluna til starfsins og hann hefur í nokkrar vikur dvalið einsamall fjarri mannabyggðum og háð þar andlega baráttu þar sem hans var freistað af djöflinum.

Þar fór maður sem ekki gat látið neitt illt fá vald yfir sér. Til þess bendir frásögnin er hún segir frá Jóhannesi skírara þar sem hann horfir á Jesú á gangi og segir: ,,Sjá guðslambið!” eða m.ö.o. líkir honum við ímynd sakleysis og hreinleika á tungu sinnar þjóðar. Hins sama verðum við vör í orðum Filippusar er hann svarar efasemdum Natanaels með þessum orðum: ,,Kom þú og sjá!” Hann er ekki í hinum minnsta vafa um að sá sem aðeins sjái hann hljóti þegar að sannfærast  um að þar sé sjálfur Messías, konungsefnið mikla og margþráða komið. Við fáum ofurlitla hugmynd um hvað til þess hafi þurft.

 Það voraði í lífi frásöguritarans Jóhannesar postula er hann sá Jesú.  Stundin er honum svo minnisstæð að hann man þegar Jesús sneri sér við og mælti fyrstu orðin, man jafnvel augnatillit hans og sjálfa klukkustundina fram á gamals ár.

Það fer stundum ekki mikið fyrir vorinu þegar það byrjar starf sitt. Venjulega kemur það hægt og hljótt. Það birtist e.t.v. í hægum vindblæ eða hlýrri regnskúr. Fyrsti vottur vorsins er kannski örsmár strábroddur. Þannig var fyrsta vor kristninnar í þessum heimi.

Það byrjar þannig að tveir menn sjá Jesú á gangi og veita honum eftirför. Þeir fá að vita hvar hann dvelur og eru þar hjá honum til kvölds. Þá var öll kristin kirkja ekki stærri en þessir tveir menn. Þessir tveir menn eiga sinn bróðurinn hvor. Fyrsta verk þeirra er að finna þá og fara með þá til Jesú. Þá er öll kristni veraldar orðin þessir tvennir bræður. Þeir fjórir hitta kunningja sinn sem þar er staddur úr sama þorpi og hann fer þegar er hann hefur séð Jesú og nær í sinn besta vin.

 Hin fyrsta kristni vex á þann hátt að bróðir vinnur bróður og vinur vinnur vin.

Andrés postuli varð aldrei neitt sérlega nafngetinn maður í postulahópnum því að þar eru aðrir sem meira ber á . En hann vann þó það verk sem aldrei mun fyrnast og alltaf mun bera ávöxt. Hann fann bróður sinn Símon og fór með hann til Jesú. Þannig má einnig vera um okkur sjálf. Við verðum sjálfsagt ekki nafngetið fólk, heldur fólk sem fljótt mun gleymast. En við gætum þó unnið verk sem alltaf mun bera ávöxt ef við gætum fundið einhvern, ungan eða gamlan eða fullorðinn og leitt hann nær Jesú. Enginn veit hvað í barninu býr. Það getur verið sama eða engu síðra efni í því til þess að vinna mikil Guðs verk en í upphafi voru sjáanleg í Símoni Jóhannessyni. Munurinn er sá að til barnsins eða unglingsins kemur enginn Andrés bróðir til þess að leiða hann nær Jesú.

Hvver einstök móðir og heimilismanneskja fær unnið verk sem getur borið þúsundfalda ávöxtu með því að bera börnin til skírnar og kenna þeim að elska Guð og tilbiðja hann með bæn og beiðni og þakkargjörð. Verið viss um að þetta er það verk sem mun lifa lengst og best verður þakkað og launað að lokum.

Við sjáum að þetta hefur frá upphafi verið vaxtarlögmál kristninnar að bróðir vinnur bróður og vinur vinnur vin.  Við vitum að þetta er ekki svo nú á dögum enda fer vöxturinn eftir því. Flestir rækta sína trú í einrúmi. Jesús bendir á að það sé ein leiðin að settu marki en trúin þroskast best í samfélagi með öðru fólki, fólki sem tekur þátt í helgihaldi sérhvers sunnudags þar sem Drottinn er tilbeðinn í anda og sannleika í guðsþjónustunni.  Mörgum þykir erfitt að tala um þessi mál við sína nánustu og vini.

Jafnvel samrýmd hjón geta lifað svo árum saman að þau segi aldrei hvort öðru hug sinn allan í þessum efnum. Hvað veldur?  Nokkru veldur feimni okkar og skortur á einlægni. Til þess að bróðir vinni bróður og vinur vinni vin eins og í frumkristni þá þarf hjartað að vera einlægt.  Ef eitthvað er mest í nösunum eða ekki reist á jafnmikilli einlægni sem vera ætti þá tala menn síst um það við sína nánustu. Fólk er þá feimnast af því að fólk veit að það muni best sjá hvað er og hvað er ekki einlægt mál hjartans.

 Hvað veldur þessu?  Það er meðvitund okkar um eigin galla og veikleika sem mestu veldur. Þá er holt fyrir okkur að aðgæta vel og íhuga hvernig Jesús sjálfur tók á göllum og veikleika þeirra sem hann vildi gera sér að vinum og lærisveinum.

Við vitum það annars staðar frá að þessir menn sem fyrstir fylgdu Jesú voru síður en svo gallalausir menn. Tveir þeirra voru svo bráðlyndir að þeim var líkt við þrumuna sem þar í landi er fljótari að skella á en hér á sér stað.  Annar þeirra breyttist svo að hann hefur síðan verið nefndur kærleikspostulinn og þykir öllum fremur hafa borið það nafn með réttu. Einn þeirra er svo fljóthuga og óstöðugur í rásinni að hann gerir það fáum klukkustundum síðar, sem hann hefur svarið og sárt við lagt að aldrei skyldi fyrir sig koma. En hann verður síðar svo fastlyndur og staðfastur í ráðum að hann er manna fyrstur kvaddur til innan frumkristninnar til að gefa ráð.

Hvernig tók Jesús á þessum áberandi göllum og veikleika í fari þeirra sem hann ól upp til að verða postula sína? Við sjáum þess skýr merki undir eins og hann hittir þá.

Andrés finnur Símon bróður sinn og fer með hann til Jesú.  Síðan kemur frásögnin. ,,Jesús horfði á hann og sagði: ,,Þú ert Símon Jóhannesson. Þú skalt heita Kefas eða Pétur sem þýðir klettur.  Þeim sem frásögnin er frá runnin er minnisstætt hvernig Jesús horfði á hann. Hann hefur horft djúpt inn í sál hans eins og móðir sem best skilur barn sitt. Hann hefur séð hvar veikleiki Símonar lá. Hann hefur séð að hann var hverfull í áformum og óstöðugur í rás. Bendir hann honum þá ekki þegar á þessa leiðinlegu galla og viðkvæmu bletti í fari hans og áminnir hann í leiðinni?

 Nei, Jesús fer oft alveg þveröfugt að við það sem við gætum búist við og ég hvet okkur til að fara að dæmi hans í samskiptum við fólk sem glímir við ýmsa galla í dagfari sínu.

Jesús segir t.d. ,,Þú sem ert hverflyndur getur orðið fastlyndur. Þú sem ert geðbráður getur orðið geðstilltur. Þú sem ert hrösull og óstöðugur í rásinni getur orðið staðfastur, traustur, styrkur og stöðugur sem bjargið sjálft. Þú hefur hæfileika til þess ef þú notar þá og nafnið sem ég gef þér á stöðugt að minna þig á þennan vaxtarhæfileika sem þú sjálfur býrð yfir ef þú notar hann rétt.  Það er m.ö.o sama sem Jesús segði: ,,Þú mátt aldrei gleyma því fremur en nafni þínu  að þú býrð yfir þroskamöguleikum til að yfirvinna þína stærstu galla og veikleika og til að öðlast gagnstæðar dyggðir og mannkosti. Þannig tekur Jesús á göllum og veikleika Símonar í fyrsta sinn sem hann sér hann.

 Það er ekki óáþekkt hvernig Jesús Kristur lítur á fólk og hvernig listamaður lítur á steininn sem hann ætlar að höggva líkneski úr. Í augum annarra er steinninn aðeins venjulegt bjarg. Það er of þungt og óviðráðanlegt til að það verði notað í vegg eða til nokkurs sem að gagni geti komið.. En listamaðurinn sér e.t.v. í steininum ógerða konungsmynd eða óhöggvinn engil eða Kristsmynd sem prýða má musteri Guðs.

Þannig er í öllu fólki ógerð konungsmynd að dómi Jesú. Þannig sér hann í hverri sál óhöggvinn engil sem prýða má musteri Drottins. Hann sá hæfileikana og efnin til þess í hverjum einstakling sem á vegi hans varð. Og við sjáum af fyrstu orðum hans til Símona rog Natanaels að þetta er það sem hann leitar að í okkur öllum.

Við erum sjálf furðu glögg á galla hvers annars. Á sama tíma erum við oft á tíðum blind á vaxtarmöguleikana í fari samborgara okkar. Við erum oft á tíðum furðu fljót að taka undir neikvæða umræðu um fólk á samskiptamiðlum nútímams þar sem gervigreindin getur afvegaleitt okkur og fengið okkur til að trúa hverju sem er sem sagt er um fólk.  Við þurfum að auðsýna meiri varkárni í samskiptum okkar á samskiptamiðlum nútímans. Þar getum við tjáð okkur nafnlaus og drullað yfir fólk eins og stundum er sagt. En þá gleymum við að sá sem við dæmum er lifandi sál með þroskamöguleika líkt og við hin.

Orð Jesú hér í dag minnan okkur á að við eigum að muna það, eins og nafnið okkar, að við höfum vaxtarhæfileika til að öðlast gagnstæða mannkosti við galla okkar. Þau minna okkur jafnframt á það að við erum öll ógerð konungsmynd eða óhöggvinn engill sem getur prýtt musteri guðs. Þegar okkur verður þetta ljóst þá vorar í lífi okkar og bróðir mun vinna bróður og vinur vinnur vin til þess að fylgja Jesú Kriisti sem sér hæfileikana og efnið í hverjum manni og leiðir konungsmyndina í ljós. Amen.

 Flutt í Hafnarfjarðarkirkju 19. sunnudag eftir þrenningarhátíð 2024.  06.10. 

 Sálm 33. 12-22   Kol 1  24-29   Jóh. 1. 43-51