Um þetta leyti í fyrra, átti ég samtal við nokkrar mótórhjólalöggur. Áður en lengra er haldið er rétt að taka það fram að í fáum starfsstéttum er karlmennskan jafn sýnileg eins og í fasi þessara laganna þjóna, sem renna á vélfákum sínum eftir götunum. Það er hluti af ímyndinni að aka upp að hlið ökumanna sem sitja oftar en ekki skör neðar og ,,presensinn” er mikill, eins og við segjum stundum. Jæja, við vorum að ræða gleðigönguna, þennan árvissa viðburð þar sem fólk fagnar fjölbreytileikanum. Hún var framundan og þeir höfðu í nógu að snúast við undirbúninginn. Enginn skyldi ætla að þessir ágætu menn hefðu eitthvað við gönguna sem slíka að athuga. Það var öðru nær. Umræðan snerist aðallega um faratækið sem Páll Óskar hafði útbúið og hugðist fara á eftir götum miðborgarinnar.
Svanur og víkingaskip
Árið áður var það víst einhver svanur sem að þeirra sögn teygði hálsinn svo svo hátt upp að hann næstum rakst upp í trén við Fjólugötuna. Þeir höfðu af þessu áhyggjur og þegar allt var að baki, báðu þeir snillinginn um að gæta hófs þetta skiptið. ,,En hvað gerist þá?” spurðu þeir og svöruðu um hæl og svöruðu: ,,Jú ætlar að mæta á víkingaskipi sem gnæfir enn hærra upp í loftið. Ekki höldum við Gay pride án Páls Óskars svo niðurstaðan varð sú, bættu þeir við, glaðir í bragði, gangan var færð til svo greinarnir flækist ekki í drekahöfði og seglum gnarrarins bleika.
Mér varð hugsað til þessa samtals nú síðustu helgi þegar téður Páll Óskar mætti með einhyrning, sem virtist vera jafnvel enn plássfrekari en fyrri árin.
Menning breytist
Já, enginn skyldi láta sér detta til hugar að þessir lögreglumenn væru annað en sælir með gönguna. Þeir eins og aðrir fögnuðu henni og samglöddust samkynheigðum og þeim öðrum sem tóku þátt, af innileik. Það er fjarri því sjálfsagt mál, hvað vegur hinsegin fólks hefur aukist á síðustu árum. Við megum öll vera stolt af þeim sem hafa staðið í fararbroddi í þessari réttindabaráttu og hafa opnað augu heillar þjóðar fyrir þeirri auðlegð sem í fjölbreytninni felst. Og við getum verið stolt af því hversu fólk hefur tekið við boðskapnum opnum örmum og fagnað þeirri litadýrð sköpunarinnar sem þar birtist.
Hagsmunir þeirra sem standa höllum fæti eru ekki einkamál nokkurs tiltekins hóps. Þeir varða ekki aðeins þau sem staðið hafa í kuldanum og ekki heldur þeirra sem kunna að fylgja á eftir. Nei, staða hinna jaðarsettu, er prófsteinn á siðferði alls samfélagsins. Ekkert endurspeglar það betur en framkoman við þau sem skera sig á einhvern hátt úr, þurfa að hafa meira fyrir hlutunum en öll hin. Og þá um leið að opna augu okkar fyrir því, eins og forsetinn komst að orði – að öll erum við hinsegin. Engir tveir eru eins og það er ekkert eftirsóknarvert við samfélag sem er einsleitt og grátt.
Þetta á við um alla hópa. Réttindi flóttamanna eru réttindi okkar allra. Hagur þeirra sem búa við líkamlega skerðingu er hagur okkar. Rangindi, bitna ekki aðeins á þeim sem þau þarf að þola á skinni sínu, heldur einnig þann sem þeim beitir og að sönnu allra hinna sem standa álengdar og aðhafast ekkert.
Hvernig hefst þetta allt? Hvar byrjar sú barátta sem leiðir okkur svo fram eftir veginum? Ég staldraði við þá hugsun þar sem ég rifjaði upp samtalið við þessa ágætu lögreglumenn, sem voru svo fullkomlega meðvitaðir um þessi mál, hversu skammt er liðið frá því það þótti sjálfsagt að gantast eða jafnvel hæðast að þeim sem voru öðruvísi. Já, hvar byrjar þetta?
Daufdumbur maður fær mál
Víkur nú sögunni að ferðum Jesú í landinu helga. Týrusarbyggðir, Sídon og Dekapólis allt að hinu frjósama Galíleuvatni. Vatn þetta kemur við sögu í mörgum frásögnum frelsarans. Gaman er að geta þess, að lífríki þess er auðugt og það helgast ekki aðeins af uppsprettunni sem í það rennur, ánni Jórdan. Sú sama á rennur einnig í Dauðahafið og ekkert líf þrífst þar. Munurinn á þeim liggur í því að annað vatnið, hið lífríka Galíleuvatn, sendir vatnið áfram frá sér, það miðlar því áfram sem því hefur verið gefið. Dauðahafið lokar það inni og söltin setjast að í vatninu sem verður fyrir vikið lífvana eins og nafnið gefur til kynna. Gjafirnar auðga gefandann – birtast þau sannindi ekki víðar?
Þarna er sagt frá kraftaverki sem Jesús vann. Daufur maður og mállaus varð á vegi hans og undrið er það að Jesús gaf þessum einstaklingi mál. Hvað merkir þessi atburður? Er þetta einangrað hjálparstarf, líkn og lækning á sárri neyð einstaklings. Vissulega, en verkið vísar vitaskuld út fyrir sig. Atburðir eru skráðir á spjöld fagnaðarerindisins og þeir standa eftir sem skilaboð til okkar allra sem þeim kynnast og vilja fræðast um. Í guðspjalli Jóhannesar er þessi tilgangur kraftaverkanna áréttaður með því að þau eru kölluð, tákn. Þau vísa út fyrir sig enda sjáum við hvernig sú umbreyting sem greint er frá hefur þau áhrif að blindir fá sýn, lamaðir mátt og daufir heyra.
Að gefa einstaklingi heyrn og róm átti eftir að reynast hluti af því starfi sem kirkja Krists átti eftir að standa fyrir. Jesús horfði á þá sem stóðu á jaðrinum og gilti þar einu hvers vegna. Hann gaf sig á tal við fólk sem tilheyrði minnihlutahópum, þjóðarbrotum, játaði ólík trúarbrögð, við embættismenn Rómverja, tollheimtumenn og fólk sem hafði misst tökin á sínu lífi og kallað var bersyndugt. Kristur spurði að stétt og stöðu, en ekki í þeirri merkingu sem við leggjum í það, því hann átti samfélag með þeim sem stóðu utangarðs. Það fólk sem að öðrum kosti hefði aldrei fengið athygli, viðurkenningu og staðfestingu og vægi sínu og gildi, fékk hana í þeim samskiptum. Já, hann gaf þeim rödd, svigrúm og stað í tilverunni. Hann minnti þau á að þau eru dýrmæt sköpun Guðs. Hann gaf þann tón sem átti eftir að óma í gegnum aldir og kynslóðir þar sem fordómar og þröngsýni áttu eftir að vinna gegn því að fólk gæti uppfyllt tilgang sinn og göfuga köllun, að elska náungann eins og sjálfan sig.
Áður en Jesús mætti hinum daufdumba manni, hafði hann átt orðaskipti við kanverska konu sem bað hann um að lækna dóttur sína. Það var á skjön við allar reglur og viðmið að meistari, rabbíni gæfi sig á tal við konu af erlendum uppruna. Enn í dag lesum við um þessa konu, sem er ekki aðeins fulltrúi nafnleysingja sögunnar heldur einnig málleysingjanna, þeirra sem áttu ekki rödd sem hljómaði, höfðu ekki áhrif. En þrábeiðni hennar hafði að sönnu áhrif og við lesum um það hvernig bænir hennar breyttu afstöðu Jesú sjálfs. Kanverska konan hitti fyrir mann sem hlustaði og orð hennar höfðu áhrif. Í framhaldi af því mætti Jesús manninum daufdumba og gaf honum bæði heyrn og mál.
Bókstafur og andi
Sannarlega á frásögn þess enn erindi við okkur. Kristið fólk fyllist gleði þegar það leggur systkinum sínum lið og leggur sitt af mörkum til að þau geti lifað lífinu í fullri gnægð. Það er ekkert kristilegt við það að setja bræður okkar og systur út á jaðarinn. ,,Því að bókstafurinn deyðir en andinn lífgar,” segir postulinn, og minnir á að við erum ekki blindir þrælar lögmáls siða og formlegheita, heldur erum við frjálsir baráttumenn fyrir því að ávextir andans fái vaxið og dafnað. Postulinn talar um hvernig lögmálið hefur vikið fyrir fagnaðarerindinu og segir: ,,Ef þjónustan sem sakfellir var dýrleg, þá er þjónustan sem réttlætir enn þá auðugri að dýrð”.
Að gefa hópum rödd, er eitt verðugasta verkefni hvers samfélags. Við erum öll hinsegin, sagði forsetinn, og fyrir okkur ljúkast um orð ritningarinnar um að við erum svo óendanlega dýrmæt í augum Guðs, ekki fyrir það að vera fullkomin – vera öll eins í útliti og háttum – heldur einmitt fyrir hitt, að vera margbreytileg, vera í litum regnbogans sem Biblían notar sem tákn um sáttmála manns og Guðs.
Samtal mitt við hina vörpulegu lögreglumenn er lýsandi fyrir þau viðhorf sem hinsegin fólk nýtur í dag. Það er gott en um leið er það brýnt að huga að því hversu skjótt veður skipast í lofti og auðlegðin getur horfið í einni andrá. Undir lokin hugðist ég skipta um umræðuefni og spurði sisvona hvort þeir væru ekki að fara að fá nýja búninga, úr einhverju gerfiefni. Þeir játtu því en bætti svo við brosandi, ,,en við förum ekki úr leðrinu fyrr en eftir Gaypride”.