Lexía dagsins er úr seinni hluta Jesabókarinnar. Lestur þessa rismikla texta dró fram í huga mér minningar frá námstíma mínum í guðfræðideild Háskóla Íslands. Þar naut ég kennslu merkra lærimeistara og dr. Þórir Kr. Þórðarson var einn þeirra. Hann var frumlegur fræðimaður, listamaður, merkilegur forystumaður í borgarmálum Reykjavíkur og snilldarkennari. Tímar Þóris Kr. í fræðum Gamla testamentisins voru áhrifaríkir. Stundum var Þórir Kr. í svo miklu stuði að þegar tíma lauk gengu nemendur út úr tíma í uppnámi eða í leiðslu, en með kollana fulla af nýjum hugmyndum. Mér er sérlega eftirminnilegt þegar farið varið í gegnum Jesajabókina.
Úr framtíð Lærifaðirinn kallaði mig einu sinni til sín og sagði að nú hefði hann verkefni: „Þú átt að halda tveggja tíma fyrirlestur um hugmyndir og túlkun Gerhards von Rad.“ Ég hóf undirbúning af kappi og las hina merkilegu bók Gerhard von Rad um boðskap spámannanna Die Botschaft der Propheten, sem til er á mörgum tungumálum því höfundurinn var sem páfi gamlatestamentisfræða á 20. öld. Og ég lærði meira en tilheyrendurnir. Það var – held ég – tilgangur Þóris Kr. að ég næði að orða með mínum hætti og miðla áfram glæsilegum hugmyndum von Rads.
Hverjar voru þær? Með einföldun má segja að von Rad lýsi að á tímum Jesaja hafi Ísraelsþjóðin bakkað inn í framtíðina. Hún hafi lifað í eftirsjá, syrgt fornan glæsitíma þegar þjóðin var sigursælt herveldi, byggði upp glæsilega aðstöðu trúardýrkunar og öfluga stjórnsýslu í Jerúsalem. En svo hafði öllu farið aftur, þjóðin hafði verið illa leikinn af erlendum herjum. Í stað þess að bregðast við hafi þjóðin helst horft til baka, verið upptekin af fornri frægð, glæstri fortíð – og hún bakkaði. En þá komu fram vonarmenn Guðs sem ekki héldu við þessari fortíðarþrá heldur sungu nýja söngva og boðuðu framtíð. Í spádómsbók Jesaja heyrast þeir söngvar. Þessum vonarmönnum framtíðar var trúað og þjóðin byrjaði að snúa sér við, hætti að bakka og tók að opna fyrir framvindu og von. Þar með fékk nútíðin frelsi úr viðjum fortíðarþrár. Guðsvitundin breyttist. Guð var ekki aðeins vald í fortíð. Guð lifði í öllum víddum tímans, kallaði úr framtíð og væri með í nútíð. Allt breyttist þar með.
Lífmagn lexíunnar Það er þessi vitund og skilningur sem speglast í dýptarorðum lexíu dagsins. Guð er ekki smár heldur mikill. Guð er ekki aðeins goð fornaldar heldur Guð tímans. Guð er ekki innilokað skurðgoð í húsi heldur skapar heiminn, breiðir út land eins og brauð, þenur út himinhvelfinguna og leikur sér í sköpun heims og þar með tilveru manna. Guð kallar fólk til að verða ljós fyrir aðra, vill að hans fólk lækni sjón hið innra sem ytra og leiði þau til frelsis sem eru lægð og heft. Það er lífsmáttur í lexíunni.
Hvað viljum við með slíkan boðskap? Sem þjóð og einstaklingar? Snúum við aftur eða fram? Snýrðu baki og bossa í framtíðina? Fólk, sem hefur lent í lífsháska eða upplifað eitthvað sérstakt, nær stundum ekki að sleppa og halda lífinu áfram. Það er klossfast í fortíð og ferðafélagar þess eru bakþankar, eftirsjá og kvíði. Viljum við ganga afturábak inn í framtíðina eða snúa okkur og opna fyrir nýja möguleika?
Fortíð er mikilvæg og enginn ætti að slíta sig algerlega frá sið og sögu, hvorki menningarlega né persónulega. Það væri afstaða hroka og einfeldni. En ógagnrýnin fortíðardýrkun verður jafnan til að draga úr lífsgæðum og hamingju í nútíð og framtíð. Öll ættum við að æfa okkur – temja okkur – að lifa í augnablikinu, njóta alls þess sem okkur er gefið, hvers annars, tækifæra, litbrigða, orða og upplifana. En þau, sem lifa bara í núinu og án nokkurra tengsla við fortíð eða framtíð, munu örugglega stranda á einhverju skeri og slasast illa. Skýjaglópar, sem eru bara uppteknir af draumum og framtíðinni, brotlenda líka. Öfgar meiða.
Bæði gamalt og nýtt Flest erum við smeyk gagnvart hinu óþekkta en megum þó opna. Flest dröslumst við líka með einhver áföll úr fortíðinni, sem við megum gjarnan sleppa og losna við. Mörg okkar eru hamin af verkum eða vitleysu, sem við ættum að segja upp og láta gossa. Að bakka inn í framtíð og horfa aðeins til baka skerðir lífsgæði og fer illa með gleði. Velferð okkar byggist á að okkur auðnist að læra af fortíð og reynslunni og draga lærdóminn til framtíðar. Fortíð – aftur - framtíð – opnun og nýjung. Það er spennan, sem við einstaklingar sem og kristin kirkja erum kölluð til að lifa við. Ætlum við að vera bara í fortíðinni, hefðinni, gera það alltaf hefur verið gert eða ætlum við að breyta svo róttækt að það verði engin fortíð heldur bara framtíð, reyna að vera algerlega á fullu í framtíðinni?
Guð í fortíð – Guð í framtíð Kristnin tekur mið af hefð og sögu en hlustar á hvað Guð kallar til. Okkar viðbrögð verða heil og til farsældar þegar fortíð og framtíð lifa í fléttu.
Jesús var opinn og þorði. Því erum við hér í dag af því hann lifði ekki bara af fortíð, heldur opnaði gagnvart framtíðinni. Hann kom ekki til að brjóta niður fortíð heldur uppfylla hana, ekki til að eyðileggja það sem gert hafði verið heldur til að bera elsku Guðs inn í veröldina, gefa líf þar sem dauði var, hleypa lífsmætti í sið og samfélag. Aftur en líka fram. Til að þú getir lifið í núinu með hamingju og gleði þarftu að vera í góðum tengslum við fortíð en líka framtíð sem Guð kallar þig og aðra menn til. Gott líf er fléttað úr fortíð og framtíð. Söguguðfræði varðar gott jafnvægi tíðanna.
Lífið færir okkur verkefni og þau eru misjöfn og persónuleg. Hver er þín áskorun? Hverju máttu sleppa? Hverju máttu losna frá? Til hvers ertu kölluð eða kallaður?
Hvernig væri að hugsa framþanka í stað bakþanka, vona í stað kvíða? Það stórkostlega er að framtíðin finnur þig ekki í fortíð heldur aðeins í núinu. Jesús Kristur opnaði, þorði og uppfyllti. Amen
Hallgrímskirkja, íhugun 12. júlí, 2015
2015 sjötti sunnudagur eftir þrenningarhátíð - textaröð: B
Lexía: Jes 42.5-7 Svo segir Drottinn Guð sem skapaði himininn og þandi hann út, sem breiddi út jörðina með öllu sem á henni vex, sá er andardrátt gaf jarðarbúum og lífsanda þeim sem á jörðinni ganga: Ég, Drottinn, kallaði þig í réttlæti og held í hönd þína. Ég móta þig, geri þig að sáttmála fyrir þjóðirnar og að ljósi fyrir lýðina til að opna hin blindu augu, leiða fanga úr varðhaldi og úr dýflissu þá sem í myrkri sitja.
Pistill: Gal 3.26-29 Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið.
Guðspjall: Matt 5.17-19 Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það mun kallast minnstur í himnaríki en sá sem heldur þau og kennir mun mikill kallast í himnaríki.