Það er mikill munur á því að vera barnalegur eða barnslegur, fyrra orðið vísar til ákveðins vanþroska í orðum eða gjörðum en hið síðara vísar til eftirsóknarverðs eiginleika sem allt of margir týna á lífsleiðinni. Guðspjallið sem var flutt hér áðan fjallar um Guðsríki, ekki í útópísku ljósi eða á ævintýralegan hátt heldur sem veruleika er allir eiga kost á að kynnast. Þegar Jesús talar um Guðsríki í guðspjöllunum gerir hann barnshjartað gjarnan að umtalsefni og bendir fólki á að leiðin að Guðsríki liggi í gegnum það, að vera barnslegur en ekki barnalegur. Og hvaða eiginleikar liggja í því að vera barnslegur? Þau sem hafa alið upp börn, sín eigin eða annara, vita að áherslur þeirra eru oft aðrar en okkar sem eldri erum, hver dagur er nýtt upphafi í lífi barnsins, þess vegna er lífið endalaust spennandi, í þeirra augum er tunglið alltaf óvænt ánægja, stjörnurnar undraverðar, kisa klár og hestarnir stórir, fíflarnir fyndnir og biðukollan töfrum gædd ekki hvað síst þegar litlar varir blása á hana, ef það ríkir öryggi og friður þá eru allir dagar góðir dagar í huga barnsins. Guðsríki er allt í kringum okkur en áhyggjur okkar og streita leggja huliðshjálm yfir það svo við finnum ekki leiðina heim. Af því að Guðsríki er heima, lífið eins og Guð skapaði það er heima og heima merkir hér það sem skiptir í raun máli og geymir mestu fegurð lífsins. Þess vegna er mjög eftirsóknarvert að vera barnslegur því það þýðir að við sjáum lífið fyrir innan huliðshjálminn og skynjum gleðina sem er sönn og tær. Það er endalaus áskorun að vera foreldri í heimi hraðans, hver morgunn er línudans milli þess að vera góður vinnukraftur og gefandi foreldri, sjálf er ég sífellt að reyna að staldra við og gefa yngri syni mínum tíma til að njóta lífsins eins og hann á fjórða ári langar til, að feta kantsteinana áleiðis á leikskólann þó klukkan tifi frekjulega í höfði móðurinnar, að púsla eitt lítið púsl með hafragrautnum þó að Fréttablaðið hafi yfirnáttúrulegan sogkraft eða bíða meðan hann bisar við að klæða sig í skóna í von um hrós fyrir dugnaðinn. Ég veit að Hugo Þórisson sálfræðingur myndi nú segja, „jæja fröken hættu að vorkenna þér og vaknaðu bara hálftíma fyrr“ Guði sé lof fyrir menn eins og Hugo, þvílík viska í einum kolli. Veistu það er staðreynd að þegar fólk lifir við of mikla streitu ekki síst innri streitu þá missa skynfærin mátt, allt í einu finnurðu ekki ilm af blómum eða heyrir fuglasöng, það er eins og það dragi úr lífskraftinum og þú ert ekki lengur við stjórn, það er þannig sem fólk tapar gleðinni já og hamingjunni vegna þess að hamingjan fer ekki þó að vondir dagar komi endrum og eins, hún fer ef við erum ekki á staðnum til að lifa þá eins og aðra daga. Veistu hvað það var sem ég tók sérstaklega eftir í viðtalinu við skipverjann Eirík Inga Jóhannsson sem bjargaðist úr skipsskaðanum undan Noregsströndum? Þetta viðtal var náttúrulega einstakt og ógleymanlegt og það var ákveðinn undirtónn í því sem sem er svo mikilvægt fyrir okkur öll að skynja, það var nefnilega það að í öllum þessum óraunverulegu hrakningum, yfirþyrmandi ógnum og sorg ríkti heilmikil hamingja og sá undirtónn var stærsta gjöfin í þessu merkilega viðtali. Manstu þegar hann lýsti fyrir okkur því þegar hann fór að dást að öldunni stóru þar sem hann svamlaði með tóman olíbrúsa undir höndum, eða þegar hann sagði við sig að hann yrði að vera brattur og náði um leið í mynd af börnunum sínum sem hann geymdi í hugskotinu, og þegar hann lýsti samningaviðræðunum við sjálfan sig um að lifa næstu tíu tímana í stað þess að horfa til enda og fyllast bölmóði. Þetta er ástæðan fyrir því að ég efast ekki um það eina stund að það hafi verið rétt af honum að koma í þetta viðtal, sú ákvörðun snerist um það hver maðurinn var og er og hvaða forsendur hann hafði til að takast á við þetta áfall. Það hefði ekki endilega verið skynsamlegt fyrir alla að fara í svona viðtal, það hefði getað farið illa en þessi maður átti erindi, jafnvel svona stuttu eftir atburðinn. Þetta viðtal var prédikun um hamingjuna og nauðsyn þess að rækta hana eins og barn, ég er sannfærð um eins og ég stend hér að þessi ungi maður Eiríkur Ingi Jóhannsson á eftir að ná sér að fullu, vegna þess að þrátt fyrir allt og allt þá hefur hann þessa barnslegu afstöðu til lífsins sem er grundvöllur þess að skynja Guðsríki, hin barnslega afstaða er þegar allt kemur til alls, hin djúpa viska, þetta kennir okkur það hvað það er mikilvægt að staldra við og sjá lífið með augum barnsins sem býr innra með hverjum manni og bíður þess að fá að ríkja. Og svo þurfum við líka alveg endilega að læra að þiggja, það er svo mikilvægt að taka við svona gjöfum eins og þessu viðtali án þess að hika og efast, hann tók sjálfur þessa ákvörðun fullveðja maður, að gefa okkur hlutdeild í reynslu sinni og hann er fullfær um að standa með þeirri ákvörðun, aðstandendur mannanna sem létust veittu samþykki sitt, líklegast af því þau vita hvaða mann Eiríkur hefur að geyma og vita hversu vænt honum þótti um félaga sína og tók andlát þeirra nærri sér og svo er það heldur ekki síst vegna þess að aðstandendur hafa oft ríka þörf fyrir að vita nákvæmlega um afdrif ástvina sinna, við skulum ekki einu sinn láta okkur detta í huga að þau hafi misst af þessari frásögn í Kastljósinu, settu þig í þeirra spor, hefðurðu ekki viljað vita hvað gerðist? Og síðan er það líka þetta með erfiða reynslu og þjáningu, það er svo gott að gefa henni tilgang, hugsaðu þér hvað vonin getur verið sterkt afl ef það er hægt að halda í hana, svamlandi í ísköldu hafi, einn og yfirgefinn, vinir horfnir í djúpið og skipið komið á hlið, jafnvel sokkið. Þessa von þurfum við að meðtaka frá skipverjanum unga, þetta er aflið sem þjóðin hefur týnt, svartsýnin hefur gleypt hana með húð og hári. Vonin er því miður vannýtt auðlind hér á landi og samt blasir lífið eitthvað svo dásamlega við okkur, allt í kringum okkur ríkir svo mikil fegurð og svo mörg tækifæri. Ef Eiríkur Ingi sá tækifæri í einum olíubrúsa út á ballarhafi þá hljótum við að finna mannsæmandi leið út úr kreppunni, hljótum að geta haldið okkar reisn í gegnum uppbygginguna. Í Guðspjalli dagsins segir frá fólki sem færir fórnir til að eignast, við þurfum nefnilega alltaf að færa fórnir til að eignast það sem skiptir máli, við þurfum kannski ekki að eiga aur til að kaupa bíl eða þannig var það a.m.k árið 2007 en við þurfum að brýna okkur til þess að rækta hamingjuna og efla vonina, þess vegna er sá sem það öðlast ríkastur allra, þess vegna gat Eiríkur Ingi Jóhannsson farið í áðurnefnt viðtal, af því að hann er svo ríkur, hann á nóg handa heilli þjóð, nóg af heilbrigði og hamingju til að deila, mitt í skugga sorgar. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Vonin getur jafnvel legið í tómum olíubrúsa
Flokkar