„Þetta er nú bara það vitlausasta sem ég hef nokkru sinni lesið.“ „Þú ert algjör asni.“
„Það er nóg að hafa bara eina von og svo getur hún vaxið.“
Ég ætla að tala um dólgshátt og um von í dag.
Dólgar
Í þessari viku hef ég verið minntur á skaðsemi dónaskapar og dólgsháttar á netinu.
Ég varð vitni að samtali á netinu, þar sem einn einstaklingur fór yfir strikið og talaði illa um annan. Lét eins og dólgur. Hann fékk strax hörð viðbrögð. Upp úr því spratt samtal um það hvernig orðin sem við notum mynda og móta samfélagið okkar. Og við hugsðum kannski aðeins um það að orð sem eru skrifuð í tölvu og birt á skjá geta meitt alveg jafn mikið og þau sem eru sögð augliti til auglitis.
Þegar hreyft er við þessu spyrja sumir:
Hver er eiginlega vandinn við meiðandi orð? Er þetta ekki bara krassandi orðalag? Má fólk ekki takast á?
Kannski gæti einhver bætt við:
Óskapa viðkvæmni er þetta. Og jafnvel vísað máli sínu til stuðnings í Martein Lúther sem gat verið býsna hryssingslegur í mannlýsingum, svo ekki sé tekið dýpra í árinni.
Vandinn er þessi:
Þegar við notum meiðandi orð í samskiptum ráðumst við að einstaklingum og víkjum málefnum til hliðar. Ræðum manneskjur en ekki málefni.
Þegar við notum meiðandi orð í samskiptum beinum við athyglinni frá samtalinu sjálfu og að einkennum þess og jafnvel einstökum orðum.
Þegar við notum meiðandi orð í samskiptum hnikum við mörkum. Og ef okkur leyfist að nota meiðandi orð aftur og aftur þá gerist það smátt og smátt að mörk þess sem telst vera sæmilegt í samfélaginu okkar færast frá því sem er uppbyggilegt og gagnlegt yfir til þess sem rífur niður og gerir lítið gagn. Þegar við notum meiðandi orð særum við aðra og brjótum þau niður.
Dólgur og dóni getur haft það að markmiði með framkomu sinni að hnika mörkum. Gera það ásættanlegt sem ekki var ásættanlegt. Hliðstætt dæmi getum við séð í því hvernig mörk ofbeldiskvikmynda hafa hnikast í gegnum árin – það sem hefði þótt óásættanlegt ofbeldi fyrir nokkrum áratugum er sjálfsagt í dag. Blóðið flýtur og ekki er víst að allir átti sig á því hvað það merkir.
En málið er þetta: Dólgsleg framkoma á netinu – og annars staðar – byggir samfélagið okkar ekki upp. Hún er ekki til gagns og við skulum vera vakandi fyrir henni, við skulum forðast hana og við skulum berjast gegn henni.
Vonarberar
Ég ætla líka að tala um vonina í dag. Þessa dagana er jóladagatal kirkjunnar sýnt á vefnum og við skulum skoða fyrstu fjóra gluggana sem hafa þegar birst:
Við köllum þetta fólk, sem ber okkur vonarrík skilaboð á aðventunni, vonarbera. Þau eru líka salt í samfélaginu okkar – svo vísað sé til samtalsins okkar fyrir rúmum mánuði hér í Víðistaðakirkju.
Og hvað segja þau okkur?
Þau minna okkur að afstaða okkar til lífsins skiptir miklu máli. Við erfiðustu mögulegu aðstæður – andspænis dauðanum – er samt hægt að segja að allir dagar séu góðir dagar.
Þau minna okkur á að drifkraftur lífsins er ekki ótti heldur von og hugrekki.
Þau minna okkur á að vonin skiptir máli og við þurfum að rækta hana og hlúa að henni og breiða hana út.
Þau minna okkur á að fjölskyldan skiptir máli.
Þetta eru fjórir vonarberar er tuttugu og fjórum. Þið getið horft á hina á www.kirkjan.is/joladagatal og þið getið líka deilt myndböndunum. Til dæmis á ykkar vefsíðum eða á Facebook og þannig gerst vonarberar sjálf. Borið vonina áfram í samfélaginu.
Og það skiptir máli.
Dólgar eða vonarberar?
Auðvitað er þetta ekki annaðhvort-eða spurning. Annað hvort er fólk dólgar eða vonarberar. Flestir eru líklega mitt á milli.
En spurning dagsins - innblásin af því sem við lesum um í lestrunum á öðrum sunnudegi í aðventu - snýst svolítið um stefnu. Í fallega textanum úr spádómsbók Jesaja er lýst sýn á samfélag þar sem réttlæti og trúfesti er í fyrirrúmi. Þar sem úlfar og lömb búa saman, pardusdýr og kiðlingar.
Þar sem ekki er bitið eða glefsað. Þar sem ekki er meitt.
Þetta er ekki samfélag hniksins og dólganna. Heldur samfélag öryggis og vonar.
Samfélag vonarberanna, ekki dólganna.
Og þannig samfélag viljum við vera – og með því að koma hingað hafið þið þegar svarað: Þið viljið taka þátt í að bera vonina áfram og byggja þannig upp gott samfélag.
Eftir stendur spurningin um það hvað við eigum gera þegar við mætum dónaskap og dólgshætti í lífinu. Við því á ég bara eitt svar: Við skulum vera vakandi og vera óhrædd við að nefna hlutina sínum réttu nöfnum. Kalla dónaskap dónaskap og dólgshátt dólgshátt. Og segja það upphátt og berjast þannig gegn ofbeldinu og hnikinu á samfélaginu sem samtalið okkar mótar.
Þannig byggjum við upp gott og fallegt samfélag og það viljum við gera.
Í því verki vil ég biðja ykkur blessunar með orðum pistilsins sem við lásum áðan:
„Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda.“