Ég samfagna Stokkseyrarkirkju á stórum degi og góðum og bið Guð að blessa þau öll sem hér hafa unnið að verki og gert þennan áfanga mögulegan, áfanga til að auðga og efla helgiþjónustuna í þessum helgidómi. Það er okkur hjónum mikið gleðiefni að vera hér, svo kær sem Stokkseyrarkirkja er okkur, og þær minningar sem hún geymir. Hið nýja hljóðfæri er helgað minningu dr.Páls Ísólfssonar, en í dag eru 110 ár liðin frá fæðingu hans. Við blessum minningu hans og ávöxt verka hans sem svo víða gefur að líta til blessunar í kirkju, þjóðlífi og menningu. Og við blessum minningu fólksins hans alls sem á undan er gengið og samleið með þeim sem meðal okkar eru. Hér eru tvær dætur hans viðstaddar, Þuríður, óperusöngkona og séra Anna Sigríður, og annast hún altarisþjónustuna í dag ásamt sóknarpresti. Það er vissulega ánægjulegur viðburður.
Hér stóð Páll Ísólfsson ungur á orgelpallinum með föður sínum og hlustaði á orgelleik og sálmasöng, gagntekinn af helgi og hátíð stundarinnar. Fyrir utan dunaði brimið sem nú, og vindurinn hvein, eða sól glitaði lón og dælur og fyllti loftin fuglasöng. Okkur sem þekkjum þessa strönd þykir ekki undarlegt að hún skuli hafa fóstrað listamenn, hér gefur skaparinn tóninn hreina sem auðheyrt er hverjum þeim sem eyra hefur að heyra, ekki aðeins á sólstafi, vindhörpu og brims, nei, hér hefur söngurinn verið í hávegum, ekki síst hér á þeim stað sem við stöndum nú. Stokkseyrarkirkja sem hér hefur staðið um aldir, lýsir helgi yfir líf og land, boðar að Guð sem lífið gefur og endurleysir vill helga þennan heim, þetta líf, himni sínum. Helgidómurinn, iðkun hans og prýði er að gera eitthvað fallegt fyrir Guð, að tjá elsku til Guðs. Og hér hefur Stokkseyrarkirkja staðið, dyr hennar opnar mót innsiglingunni, og altari hennar opið mót himninum, eilífðinni, og sálir safnaðarins opnar í sameiginlegum söng Guði til dýrðar.
Það hefur komið fram að fólk af sama stofni hafi annast hér orgelleik í 120 ár, og er það merkileg staðreynd. En reyndar má rekja þennan þráð lengra aftur. Síðasti forsöngvari Stokkseyrarkirkju, Gísli Gíslason var móðurafi fyrsta organistans, og forfeður hans einn af öðrum héldu hér uppi kirkjusöng. Þegar fyrsta orgelið kom hér í kirkjuna 1876 og Bjarni Pálsson, föðurbróðir dr. Páls varð organisti, þá hófst söng og tónlistarvakning sem hefur markað djúp spor og gæfurík. Bjarni Pálsson einsetti sér strax að kenna öðrum ungum mönnum að leika á orgel. Þegar sálmabókin kom út 1884 fékk Bjarni keypt harmóníum til barnaskólans og stofnaði barnakór, sem æfði daglega í barnaskólanum og einnig stofnaði hann karlakór. Og verkefnið sem hann setti sér með þessu var að kenna sálmalög og texta nýju sálmabókarinnar. Orgelvæðingin á Íslandi og sálmabókin héldust í hendur, og markmiðið var hið sama, að greiða nýjum söng veg í kirkju og þjóðlífi. Við njótum enn ávaxta þess!
Ég gleymi seint sögu sem Páll Ísólfsson sagði. Hann hitti eitt sinn götusópara fyrir framan Dómkirkjuna.”Þú ert að gera hreint fyrir dyrum Drottins, góði minn,” sagði Páll við hann. “Já, það er ekki vanþörf á því eins og stendur” svaraði hinn. “Ég heyri að þú ert trúaður, “ segir Páll.”Já,” svarar þá hinn og er eins og fjarrænn, úti á þekju. Svo Páll spyr:”En hvernig stóð á því að þér fór að þykja svona vænt um Guð?” Götusóparinn horfði á hann hissa og hryggur að því að Páli fannst og studdist fram á kústinn sinn og sagði síðan fastmæltur: “Það er gáfa að elska Guð.”
Ég hef oft hugleitt þessi orð. Hvers vegna notar hann þetta orð, “gáfa”? Það er gjarna sett í samhengi við snilld og visku. En reyndar merkir gáfa gjöf, náðargjöf. “Það er gáfa að elska Guð.” Gjöf, og gæfa, óumræðileg gæfa. En það er líka hin æðsta viska að elska Guð.
Páll Ísólfsson var djúpt hugsandi trúmaður. Það hafði hann fengið með móðurmjólkinni. Hann hafði ekki mörg orð um það. Það var honum nákomnara og heilagra en svo. Sjálfur sagðist hann ekki vera einn þeirra sem telja sig hafa Guð og eilífðina í rassvasanum. Hann gæti sagt eins og maðurinn í guðspjöllunum: Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni! Að trúa er ekki að hafa allt á hreinu, en að vita hverjum má treysta og elska hann. Og það er gáfa, mikil gáfa og speki.
“Það einkennir þá sem elska að þeir syngja,” sagði Ágústínus kirkjufaðir, endur fyrir löngu. Hann rifjaði upp kynni sín af tónlistinni: “Þegar kirkjan þín fylltist ljúfum ómum helgra ymna og söngva var ég gagntekinn og hrærðist til tára. Þessir ómar flæddu mér um eyru og sannleikurinn streymdi inn í hjarta mitt og heilög hrifning fyllti mig og braust út í tárum sem gerðu mig sælan." Kirkjutónlistin lauk upp fyrir honum sannleikanum himneska. Ágústínus er ekki einn um þá reynslu.
Páll Ísólfsson vildi efla hinn almenna söng í kirkjunni. Hann sagði: “Söngurinn á að vera hreinn og ómengaður eins og hann kemur úr hvers manns brjósti, og týnast í samhljómi safnaðarins. Svona kokkteill er hressandi. Það var þetta sem Lúter kallaði að syngja guði til dýrðar.” Svo mörg voru þau orð. Og það er alveg áreiðanlegt að söngurinn og tilbeiðslan hafa alltaf fylgst að. Það var kristin kirkja sem kenndi okkur Íslendingum að meta og iðka list sem var sprottin af meiði hins besta og göfugasta í listsköpun heimsins. Sífellt er að koma fram í dagsljósið heimildir sem sýna hve tónlistararfleifð okkar Íslendinga er í raun auðug. Og það var kirkjan sem bar þennan arf fram, vegna þess að tónlistin var og er ómissandi hluti þess erindis sem kristin kirkja hefur fram að færa, fagnaðarerindisins um Jesú Krist, hann sem er ímynd hins ósýnilega Guðs og uppspretta allrar fegurðar, gleði, sannleika.
“Það einkennir þá sem elska að þeir syngja!” sagði spekingurinn. “Það er gáfa að elska Guð” sagði götusóparinn. Guði sé lof fyrir gáfu listarinnar. Og þau sem leggja okkur ljóð á munn og lög á tungu. Trúariðkun helgidómsins á að vera þjálfun fyrir himininn. Listin og ljóðið eiga þar jafnan heima og snúa þangað ætíð til að ausa af lindum hins helga og háa, fagra og bjarta.
Vígsla þessa nýja orgels og opnun Pálsstofu hér á eftir í Tónminjasafni Íslands eru vegsauki byggðarlaginu og verðugur minnisvarði um þess besta son og aðra þá sem haldið hafa uppi sönglífi og tónlist hér á ströndinni. Með Pálsstofu er minnt á þátt í minningu og sögu Stokkseyrar sem við getum öll verið stolt af, lífsverk manns sem auðgar Ísland og eflir menningu og manndóm.
Við getum öll verið stolt af því. Og ég verð að segja það að mér finnst þetta líka kærkomið og gott mótvægi við lágkúru hins fyrirhugaða draugaseturs á hér á Stokkseyri sem ég las um að ætti að setja upp hérna fyrir handan! Draugasetrið finnst mér vera minning um myrkrið, um hindurvitni og fáfræði, ógn og ótta. Er það ekki makalaust hvað það selur, hið ljóta, illa, óhamingja og ógn. Það selur, því miður. En mér finnst Stokkseyri lítill greiði gerður með því að gera út á Móra og Skottu og annað það sem læsti helgreipum ótta og myrkurs um hús og hjörtu hér í eina tíð, og matreiða það sem skemmtiefni fyrir túrista.
Kristin kirkja á og vill umfram allt hlynna að list og iðkun sem er bergmál himneskra hljóma í ómstríðri tilveru. List og iðkun sem teflir birtu og fegurð fram gegn myrkri og ljótleika, upplausn og angist.
Orgelið mun prýða helgidóminn, leiða söng safnaðarins og lyfta helgi hárra stunda, auðga gleðina, og milda sorgina. Guð blessi það og þau sem þess munu njóta. Dr Páll Ísólfsson kenndi okkur að meta tónlistajöfurinn, fimmta guðspjallamanninn, Johann Sebastian Bach. Bach byrjaði sérhvert tónverk sitt með orðunum: “Jesu Juva!” - það er “Hjálpa þú, Jesús!” Og hann lauk þeim með orðunum: “Soli Deo Gloria,” “Einum Guði sé dýrð!” Sé það allt sem hér fer fram í þeim anda gert, í bæn um hjálp og hjástoð Jesú og Guði einum til dýrðar, bera ljós hans og gleði vitni, og enduróma hinn hreina tón og fagra söng.
Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.
Flutt á 17. sunnudegi eftir þrenningarhátíð, 12. október 2003 við orgelvígslu í Stokkseyrarkirkju.