Það er grænt um að litast hér í helgidómnum. Steingrímur organisti hefur fært hingað plöntur úr aldingarðinum sínum og fleiri hafa fylgt í kjölfarið.
Grænt
Framundan er það sem við köllum kærleiksmáltíð og sækir fyrirmynd sína allt til fyrstu safnaða kristinna manna. Þar var ómissandi þáttur í helgihaldinu að setjast niður að snæðingi og fólk deildi hvert með öðru. Máltíð er ákveðin staðfesting á því að við erum í sama liðinu ef svo má að orði komast.
Altarisgangan sem venjulega fer fram í kirkjunni vísar í síðustu kvöldmáltíð Jesú. En hér fögnum við því sem vex og grær, við minnum okkur á það að gjafir náttúrunnar eru okkur dýrmætar, við þurfum að fara vel með þér og síðast en ekki síst mæta þeim af þakklæti.
Græni liturinn sem þið sjáið hér á altari og klæðunum er ákveðin hugleiðing um þetta. Fermingarbörnin tengja fljótt við boðskapinn sem hann miðlar. Grænt er grasið, sjálfur gróandinn, gróskan sem messa þessi dregur heiti sitt af.
Orðið ,,grænt í einhverri mynd þekkist í skyldum tungumálum og nær að sögn aftur til fyrstu tungumála af indóevrópskum stofni, sem er sögnin ,,grhe” – og þýðir að gróa.
Flesta daga ársins er þessi græni hér alls ráðandi og skilaboðin eru einföld: köllun okkar og hlutverk er að vaxa, rétt eins og allt það sem er grænt og grær. Allt frá fyrsta andardrætti okkar til hins síðasta eigum við að uppfylla þessa köllun. Ein mynd hennar er að hlúa að því sem bætir og eflir en vinna gegn því sem brýtur niður og skaðar.
Eden
Og þegar gróandinn er annars vegar er ekki ósennilegt að biblíufróðir leiði hugann að sjálfum aldingarðinum, ekki þessum í Kópavoginum hjá Steingrími, heldur þeim sem kallast Eden og sagt er frá á fyrstu blaðsíðum Biblíunnar.
Sú helgisögn lýsir hinu ákjósanlega ástandi með vísan í garð, fullan af liti og lífi. Líf mannsins kann að vera á köflum þrautarganga en öll eigum við samt einhverja hugmynd um það hvernig lífið ætti að vera. Já, það er þessi litríki garður. Og svo túlkar Biblían allt það sem brotið í tilverunni sem brottrekstur úr þessum fagra aldingarði. Maðurinn átti ekki þangað afturkvæmt þótt vitundin um hann blundaði í hugskotinu.
Þar mætir okkur önnur vídd kristinnar trúar, nefnilega að víst fer því fjarri að allt stefni fram til hins betra. Nei, margt er það í veröldinni sem brýtur niður og skaðar. Sú afstaða er raunar bakgrunnur þessarar messu hérna sem helguð er gróanda og grósku. Þessar óspilltu afurðir komnar beint úr moldinni verða alltaf minni og minni hluti af þeim matvælum sem við neytum.
Ánetjuð
Og ekki er allt gott sem grær. Mér verður oft hugsað til þeirra ára þegar tóbakið var hér allt um kring, reykjamökkur mætti manni á ólíklegustu stöðum og þótti eðlilegt. Skelfilegir sjúkdómar plöguðu fólk sem ýmist reykti eða var í slíku umhverfi. Nú horfir vissulega til betri vegar í þeim efnum og miklu færri er ánetjaðir þeirri skaðlegu afurð.
Ég gerði það fyrir forvitnis sakir að kanna hvað hefði eiginlega orðið um þessa tóbaksrisa sem birtust okkur í litríkum auglýsingum hvert sem litið var og menguðu öll mannamót. Og viti menn þeir hafa fundið sér aðra tekjulind: ,,Gerðu tóbaksframleiðendur okkur háð ruslfæði?” spyr greinarhöfundur á því virta viðskiptablaði Forbes. Og já, þangað hafa þeir beint kröftum sínum. Þeir hafa keypt matvælafyrirtækin stóru, hafa lært að umbreyta hráefninu, spilla því með ýmsum aukaefnum og gert okkur ánetjuð öllu þessu sulli sem þeir setja í matinn okkar.
Með færustu efnafræðinga og klókustu markaðsmenn gera þeir óspillta gróskuna óspennandi í augum fólks, hið óunna og óspillta fær lítinn gaum innan um allan áróðurinn. Vestanhafs falla tæp 70% allra matvæla í flokk unninna matvara. Og tollurinn er óskaplegur í skertum lífsgæðum og mannslífum að því ógleymdu hversu illa sú vinnsla fer með sjálfa náttúruna.
Að vaxa
Víst var þetta ekki vandamálið hér á tímum Biblíunnar, en Sálmurinn sem hér var lesinn – davíðssálmurinnn er trúarjátning mitt í brotnum heimi. Í raunum og dauða segir skáldið forna: „Jörðin er full af gæsku Guðs“. Já, þrátt fyrir allt þá er til staðar þessi veruleiki þar sem fegurðin ríkir. Þetta er yfirlýsing um hið ásættanlega ástand, „gagn-heim“ þar sem trúin og vonin beinast í átt að kærleika.
Frásagnir af Kristi má lesa sem vitnisburð um það hvernig hjálpræðið getur komið úr óvæntri átt. „Getur nokkuð gott komið frá Nazaret?“ spyrja þeir í guðspjalli dagsins – alveg mögnuð setning þar sem við fáum innsýn í ja hvað? hrepparíg í landinu helga? Þau sem til þekkja, segja að Nazarenar hafi verið hálfgerðir hellisbúar, híbýlin voru í klettum sem fólkið klæddi með hálmi og sprekum. Hvaða rugl er þetta? hafa menn getað sagt, í samfélagi sem hafði þann sjálfsskilning að vera hin Guðs útvalda þjóð og hjarta hennar í musterinu í Jerúsalem, ekki í klettaskútum í þorpinu Nazaret.
Þessi tónn er víða í Biblíunni, þar sem hið lítils metna reynist vera það mikilvægasta. Og við fáum í eyrun þann boðskap að sjálf eigum við að vaxa og eflast.
Já, ,,grhe” kölluðu þau gróandann sjálfan fyrir 12 þúsund ára og svo mótaðist tungumálið og breyttist. Orðið vísaði svo til litarins græna. Nú vitum við hversu dýrmætur hann er. Lífið á þessari jörðu á allt sitt undir starfi blaðgrænukornanna.
Litríki
Það er líka eitthvað töfrandi við þessa garða okkar sem við leggjum mismikla rækt við eins og gengur. Edengarðurinn var ímynd hins fullkomna ástands og hann var afgirtur eins og segir í sögunni. Þangað komst enginn aftur inn. Við leitum hans þó ítrekað í lífinu þegar við drögum upp mynd af hinu ákjósanlega ástandi. Ríki Guðs er litríkt og margbreytilegt. Trúin er ekki einsleit heldur birtist hún í margvíslegri mynd. Hún auðgar líf þeirra sem eiga hana og fyllir hjörtu þeirra þeirri sýn að lífið og lífverurnar eru stórbrotið kraftaverk sem okkur ber að hlú að og fagna.
Vöxtur okkar og þroski snýst ekki um að afla nýrra upplýsinga, nóg er af þeim á okkar dögum. Nei, það er miklu fremur hvernig við nýtum þær og beislum, tengjumst öðrum og okkur sjálfum, já finnum jafnvægi í óravíddum huga okkar og sálar. Er líf okkar tilviljun? Er þar tilgangur? svona getum við spurt og niðurstöðuna finnum við ekki í þeim hafsjó af gögnum sem að okkur streyma – heldur í því hvernig við skynjum, túlkum og færum kenndir í myndir og orð.
Það þarf sérstakt auga til að sjá hið guðlega í því jarðneska. Lífið er heimikill leyndardómur. Hið forna litu menn svo á að þegar fræi væri sáð í jörðu myndi það fæðast að nýju og vakna til nýs lífs. Þær upplýsingar sem líffræðin hefur fært okkur eru í raun ekki síður merkilegar. Það er ekki lítið undur að þessi frjókorn sem eru allt í kringum okkur skuli í raun réttri vera gagnabankar, stútfullir af upplýsingum. Fræin sem Steingrímur sáði í vor geymdu upplýsingar sem gerðu þeim kleift að vaxa upp í það form sem við sjáum hér á borðinu. Já frækorn eru allt í kringum okkur. Þau svífa um í loftinu, liggja í görðum og á stéttum, sofa í frostinu eins og við syngjum hér í lokin undir borðhaldinu.
Já, athöfn þessi er öðru fremur óður til sköpunar, þakklætis, kærleika til jarðar og alls þess góða sem hún færi okkur. Þar mætumst við á jafningjagrunni í borðhaldinu og hlúum að því sem er okkur dýrmætt. Því þegar kemur að hinu stóra samhengi, þá erum við öll í sama liðinu.