Kirkjan er kross

Kirkjan er kross

Já, kirkjan er kross og við erum stödd inni í krossi á þessari stundu.

Velkomin hingað í helgidóminn kæru vinir. Þetta er stór stund og sannarlega ánægjulegt að þið skulið samgleðjast okkur á sjálfu hundrað ára afmæli Keflavíkurkirkju.

Keflavíkurkirkja 2015

Þessi tímamót hafa staðið fyrir augum okkar um langa hríð. Sá sem hér stendur hóf þjónustu sína hér, fyrir níu árum. Þá var ég upptekinn af því hvernig safnaðarstarfið yrði í Keflavík þegar aldarafmælið gengi í garð. Við unnum stefnumótun sem hafði yfirskriftina Keflavíkurkirkja 2015 og hér frammi sjáið þið veggspjöld sem fermingarbörn unnu með þeirri yfirskrift. Það var vorið 2007. Einhvern veginn sáum við þennan dag fyrir okkur eins og prófstein á störf okkar og árangur. Fyrir fimm árum þjófstörtuðum við þessum hátíðarhöldum og héldum 95 ára afmæli kirkjunnar hátíðlegt með pompi og prakt. Margt lærðum við af þeim atburðum. Fyrir þremur árum tókum við allt í gegn hérna inni og reyndum að kalla fram hinn upprunalega svip helgidómsins. Loks höfum við, undanfarin misseri haldið tímamótakvöld og sitthvað fleira. Þá höfum við gleymt okkur í frásögnum af liðnum tíma í lífi Keflavíkurkirkju.

Hús draumanna

Keflavíkurkirkja var í raun réttnefnt hús draumanna. Já, við erum í slíku stórhýsi að sambærileg bygging á okkar dögum hlyti að rúma yfir 4000 manns í sætum. Fyrir einni öld voru bæjarbúar aðeins 500 talsins og þó var pláss fyrir 250 manns í hinum nýreista helgidómi. Í dag erum sóknarbörnin 8000. Við erum á slíku listasafni að það sem fyrir augun ber hefur staðið framar flestu því öðru sem fólkið hafði augum litið. Hversu margir höfðu áður séð jafn stórfenglegt málverk og það sem stendur hér við altarið? Hvað með þá húsalist sem einkennir helgidóminn, nýklassíska bygginguna, teiknaða og mælda samkvæmt reglum gullnisniðs og formum hinna sígildu hefða listarinnar.

Draumarnir birtast með ýmsum hætti. Sjómenn sem sigldu inn Víkina áttu fyrst af öllum mannlegum verkum, að sjá turn kirkjunnar bera við himinn. Þá vissu þeir að senn tæki háskaför enda og þeir kæmust í örugga höfn. Með þeim hætti var kirkjan eins og viti eða leiðarljós sem taka mátti mið af og vísaði leiðina til byggðar. Þegar þetta hús draumanna birtist sjónum sæfarenda hafa þeir sjálfsagt margir látið hugann reika til heimilisins og þeirra sem þar biðu í óþreyju eftir komu þeirra.

Hús krossins

Textar guðsþjónustunnar sem ber upp á sjálfan afmælisdaginn fjalla þó ekki um bjarta drauma. Nei þar er sjálfur krossinn í brennidepli. Hann er til umfjöllunar nú þegar fastan er á næsta leyti. Krossinn hefur löngum verið eitt helsta tákn kristindómsins og þykir það gjarnan vera til marks um að húsnæði sé á einhvern hátt helgað kristinni tilbeiðslu ef þar er kross að finna.

Þessi kirkja er þó á vissan hátt undantekning frá þeirri reglu. Stundum berja hér að dyrum ráðvilltir ferðamenn sem spyrja hvers slags trú sé dýrkuð hér í þessari byggingu. Við þeim blasir þeim sjálf Davíðsstjarnan á hringlaga glugga. Er þetta gyðinglegt musteri? Ofan á turni kirkjunnar eru hnettir tveir, sem tróna þar svo virðulega og sjálfur kann ég enga skýringu á því hvers vegna Rögnvaldur Ólafsson húsameistari valdi þessi tákn á sjálfum hátindi hússins. Víst er þar enginn kross, sem þó er að finna á stóru systur í Hafnarfirði.

Við getum til gamans sagt að Rögnvaldur hafi verið framsýnn maður því það er helst að menn greini krossmarkið ef þeir eru á ferðinni fyrir ofan Keflavíkurkirkju. Líklega eru fáar kirkjur hér á landi jafn sýnilegar úr lofti og einmitt þessi hér, þar sem hún stendur undir hraðbraut áætlunarvéla sem lenda og hefja sig til flugs á Keflavíkurflugvelli. Og séð að ofan myndar hún einmitt kross.

Já, kirkjan er kross og við erum stödd inni í krossi á þessari stundu. Sitjum á einhverjum ásnum, eða í miðju þessa merkilega tákns sem hefur svo víðtæka skírskotun og má í raun finna hjá flestum menningarsamfélögum heims. Í einfaldleika sínum táknar krossinn þó svo margt – stefnumót himins og jarðar, sjóndeildarhring. Mót hins liðna, líðandi stundar og þess sem í vændum er. Fyrir kristnum mönnum hefur krossinn sérstaka merkingu. Það er eitthvað einstakt við túlkun okkar á krossinum. Hann birtir okkur þá mynd Guðs sem gerir heilaga ritningu ólíka öllum öðrum trúartextum og hugrenningum um lífið og höfund þess.

Það sjáum við í þeim orðum sem Páll flutti Kórintumönnum og lesin voru hér áðan. Þar talar hann ekki um krossinn sem slíkan, heldur „orð krossins“ sem hann segir bæði hneyksli og heimsku í augum þeirra sem ekki trúa. Það er eitthvað við þá predikun sem krossinum tengist sem gerir hann í samhengi Krists ólíkan þeim táknum sem menningarsamfélög höfðu rissað upp og dregið á spjöld og veggi bygginga.

Nú þegar við sitjum í þessari aldargömlu krosskirkju hljótum við að spyrja hvert hlutverk hennar hefur verið í því byggðarlagi sem reisti hana og hlúði að, af slíkri alúð sem byggingin sjálf ber vott um. Þar sem hún reis á völlunum langt fyrir ofan byggðina hefur verið svo margt í augum fólksins.

Keflavíkurkirkja hefur predikað orð krossins, með nærveru sinni og hlutverki á löngu æviskeiði. Hingað leitar fólk á þeim tímum þegar það skynjar bjargleysi sitt í grimmum heimi. Hér safnast fólk saman þegar örvæntingin og sorgin heltekur það svo það getur hrópað eins og frelsarinn forðum, „Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ Við höfum rifjað upp sögurnar af því samkomuhúsið Skjöldur brann 30. desember 1935. Inni voru 200 manns á jólatrésskemmtun, þar af 180 börn. Eldur braust út og skyndilega logaði þar allt stafnanna á milli.

Tíu fórust í þeim hamförum, þrír aldraðir og sjö börn. Margir brenndust illa. Lýsingarnar sitja á sálinni, þegar skelfingu lostin börnin sem sluppu úr eldhafinu hlupu út í myrkrið og fólkið leitaði þeirra alla nóttina. Síðar komu syrgjendur saman, hér á þessu gólfi í Keflavíkurkirkju þar sem kisturnar voru. Þá var grátið og höndum fórnað til himins. Séra Eiríkur Brynjólfsson veitti sálgæslu, sjálfur illa brenndur eftir að hafa hlaupið hvað eftir annað, inn í logandi bygginguna til að bjarga börnunum sem þar inni voru. Hvar var Guð í þeim hildarleik? Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?

Og já hingað leitaði fólkið – í kirkjuna sem er kross og fann að það var ekki eitt í sinni sorg. Ef til vill skynjaði það nálægð Guðs sterkar þá en áður. Fann það fyrir þeim styrk sem Kristur einn veitir á stundum sem slíkum? Kristur sem í guðspjalli dagsins lýsir hlutskipti sínu með þeim hætti að hann eigi sjálfur að líða hina verstu þraut, hrakinn, smáður, pyntaður og deyddur. Krossinn er heimska og hneyksli þeim sem ekki líta þeim augum á Guðdóminn – og þó er enginn veruleiki nær manninum en einmitt þjáningin. „Veistu, hvað gleðin tefur tæpa stund, en treginn lengi“ yrkir Hannes Pétursson. Harmurinn situr í hjartanu, jafnvel ævilangt og við fyllumst enn sorg er við rifjum upp þessa atburði sem áttu sér stað árla á æviskeiði þessarar kirkju.

Kristur boðaði lærisveinum sínum að sjálfur ætti hann eftir að syrgja og þjást, en lærisveinarnir skildu ekki orð hans og boðskap. Krossinn er ekki neitt sem menn tengja við hið æðsta og mesta. En það er einmitt kjarni kristinnar trúar, það er orð krossins að Jesús mætir manninum, ekki í upplýstum fyrirlestri þess sem allt veit og getur, heldur í hluttekningu þess sem sjálfur veit hvað það er að gráta og syrgja. Þannig mætir hann manninum í heimi sem er ofurseldur óréttlæti og þrautum.

Hús breytinga

En krossinn er ekki hið endanlega svar. Hjálpræðissaga kristinnar trúar endar ekki í myrki svartnættis. Allt leiðir til birtu upprisunnar þegar við horfum framan í áskoranir uppfull af kærleika til náungans og þeirri djörfung sem sá einn getur haft sem á sér lifandi leiðarljós. Keflavíkurkirkja er ekki bara hús draumanna og krossins. Hún er líka hús byltingarinnar þar sem birtir af degi í djörfum athöfnum kærleiksríks fólks. Hún er vettvangurinn þar sem hrist er upp í hinu staðnaða og ný hugsun ryður sér til rúms.

Afmælisbarn dagsins á sama fæðingarár og kosningaréttur kvenna. Við minnumst þeirra kvenna sem hafa skrifað nafn sitt á Keflavíkurkirkjusöguna. Ásta málari, fyrsta konan sem lauk námi í þeirri iðn, málaði þessa kirkju að innan og gerði hana tilbúna fyrir vígsluhátíðina. Konurnar í bænum söfnuðu fyrir altarisverki Ásgríms Jónssonar. Fyrsti organisti kirkjunnar, árið 1915 var Marta Valgerður Jónsdóttir. Nú búum við svo vel að eiga kvenskörunga í lykilstöðum í kirkjunni, formann sóknarnefndar, rekstrarstjóra og prest. Margir leiðtogar úr hópi kvenna vinna hver á sínu sviði að því að efla þetta samfélag og gera okkur kleift að ná því marki sem að er stefnt.

Já, Keflavíkurkirkja er hús breytinga, umskipta. Leiðtogar úr hópi leikmanna komu því á að hér var unnið afrek á sviði velferðarstarfs og kærleiksþjónustu í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Samfélagið allt, hér suður með sjó, tók við sér og mitt í þeirri lægð sem lagðist yfir svæðið reis upp fólk sem sýndi það í verki hvers virði það er að vera gerandi í erfiðum aðstæðum en ekki aðeins þolandi sem sem horfir aðgerðarlaus á ranglætið bitna á sjálfum sér og náunganum. Hversu merkilegur er sá vitnisburðum um þetta samfélag að fólk skyldi á einu ári safna 20 milljónum í þann sjóð? Í dag stendur sú upphæði í 60 milljónum. Mitt í þrengingum og ótíð, gafst tækifæri til stolts og þeirrar gleði sem ekkert jafnast á við – þá lífsfyllingu að hjálpa náunganum og rétta við hinn bágstadda. Sannarlega hefur sjóður þess skilað árangri enda fer þar saman brennandi eldmóður og fagleg vandvirkni. Allt miðar að því að fjármagnið nýtist með sem bestum hætti.

Þakkir

Keflavíkurkirkja er kross og ásar hennar ná til allra höfuðátta. Krossinn er skurðpunktur og sem slíkur hefur hann höfðað til ólíkra hópa manna sem skynja það hvernig tíminn líður, hvernig eitt tekur við af öðru, hið gamla kveður annað tekur við. Ekkert stendur í stað og í þessum helgidómi má segja að breytingar hafi leitt til meiri farsældar, vegs og virðingar þessa helgidóms sem er í senn vettvangur drauma, huggunar og róttækra breytinga á lífi fólks og samfélags.

Þar sem ég stend hér, á þessum stað á þessari stundu fæ ég ekki varist þeirri hugsun að þessi afmælisdagur skyldi vera mér svo hugleikinn vorið 2006 er mig bar hér að garði. Nú haga aðstæður því svo að þessi predikun verður mín síðasta sem sóknarprestur í Keflavíkurkirkju. Þessi tæpa tíund af sögu þessa helgidóms sem mér hefur auðnast að þjóna hér hefur verið gæfuríkur tími og raunar alveg einstakur. Þrautarlaus hefur hann ekki verið frekar en nokkuð það annað sem kemur manneskjunni frá einum stað til annars. Kirkjan er kross og í krossinum býr svo margt sem snertir mennskuna í okkur, kallar okkur til ábyrgðar og fær okkur til að horfa mót hinu ókomna. Jafnvel draumum sem virðast fjarlægir.

Og nú þegar þessi predikun er á enda runninn færi ég þakkir allar þær gjafir sem Keflavíkurkirkja hefur fært mér. Kirkjan er jú svo margt og auðvitað er hún fyrst og fremst fólkið sem myndar hana. Við ykkur segi ég, takk fyrir allt það sem þið hafið gefið mér og allt það sem þið eigið eftir að miðla til mín og minna.