Sigríður Þorgeirsdóttir heimspekiprófessor skrifaði athyglisverða hugvekju um ofbeldi gegn konum og börnum í Fréttablaðið fyrir skömmu. Svo áleitin var hugvekjan að hún vakti meira að segja huga minn, karlklerks á eftirlaunum. Í hugvekjunni beinir Sigríður athyglinni að menningarbundnum rótum slíks ofbeldis, sem hún telur ekki nægur geumur gefinn. Hún vekur athygli á rótum vestrænnar menningar og leitast við að greina hvaðan hugmyndir vestrænna hvítra karla um rétt sinn til að vaða yfir konur og börn með ofbeldi séu komnar. Hún skrifar: „Þetta virðingarleysi gagnvart öllum þeim sem eiga ekki hlutdeild í kerfi karlhverfra, hvítra yfirráða, gegnsýrir hugmyndasögu Vesturlanda. Í einu af ritum Páls postula í Biblíunni er boðað að konum skuli meinað að tala í kirkjum. Konur eru sagðar óhreinar.“ Sigríður segir þennan „hugarburð“ eiga sér „rætur í forngrískri heimspeki sem leggur fræðilegan grunn að kvenfyrirlitningu okkar menningar. Heimspeki Aristótelesar fer í gegnum heimspeki Tómasar frá Akvínó beint inn í kenningar kristinnar kirkju.“ Hvetur Sigríður til þess að í menntun guðfræðinga, heimspekinga og kennara sé lögð meiri áhersla á menningarlega greiningu þessa vandamáls. Síðan spyr hún: „Hefur samstaða karla í gegnum aldirnar að einhverju leyti fengið kraft úr ímynd sambands guðföður og sonar?“
Upptendraður af hvatningu prófessorsins til að skoða þennan vanda í ljósi menningar hvarflaði hugur minn til Kína en þar tíðkaðist öldum saman að reyra fætur stúlkubarna í frumbernsku til að auka kvenleika þeirra, þannig að þær urðu nær ófærar til gangs. Hugurinn leitaði einnig til hins kommúníska Kína þar sem stúlkubörn voru gjarnan borin út fremur en piltbörn eftir að stjórnvöld settu kvóta á barneignir. Og mér var hugsað til Indlands þar sem konur hafa verið brenndar lifandi með líki eiginmanna sinna. Og hugurinn leitaði til Afríku, þar sem víða tíðkast að meta gildi kvenna til kýrverðs og ungar stúlkur eru limlestar með umskurði. Og allt eru þetta hefðir lausar við áhrif frá þeim kumpánum Aristótelesi, Páli postula og Tómasi frá Akvínó, og þar sem kristnar ímyndir um samband „guðföður og sonar“ eru órafjarri.
Þetta menningarlega sjónarhorn vakti með mér þá spurn hvort hér væri ekki um að ræða sammannlegan brest, ásókn í vald og hneigð til undirokunar þeirra sem lítils mega sín, hneigð sem býr til eða leitar að farvegi innan heimspekikerfa, trúarbragða og menningar. Er hugsanlegt að menningararfurinn og trúarbrögðin sem slík séu ekki sökudólgurinn, heldur maðurinn sjálfur, hver sem hann er og hvar sem hann er? Ástæða er vissulega til að greina þá þætti menningar eða átrúnaðar sem hægt er að misbeita til illvirkja. Við þá greiningu ættum við jafnframt að hjálpast að við að greina og rækta þá þætti í menningu og trúarbrögðum hvarvetna í heiminum sem hamlað geta hvers konar kúgun og ofbeldi. Þá væri jafnvel hægt að syngja með Páli postula óð hans til kærleikans sem hefst svona: „Þótt ég talaði tungum manna og engla en hefði ekki kærleika, yrði ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.“ Í slíku mannræktar- og uppbyggingarstarfi væri dýrmætt að geta notið leiðsagnar fordómalausra og víðlesinna fræðimanna. Ég þakka Sigríði hugvekjuna.