Ég kynntist orgelsmiðnum þegar ég gerðist prestur á eyju í Norður-Noregi. Reyndar held ég að enginn hafi kynnst þessum manni og varla ég heldur. Orgelsmiðurinn var einfari. Hann hafði verið kvæntur og átti eina dóttur. Samband hans við dótturina var lítið og barnsmóðurina ekkert. Það var í raun fátt sem stóð orgelsmiðnum nærri. Kannski bara tvennt; tónlistin og orgelið. Orgelsmiðurinn hafði verið organisti í áratugi þegar ég sá hann fyrst. Hann lifði sig inn í tónlistina og lék á kirkjuorgelið með tilþrifum. Stundum nötraði kirkjan þegar hið mikla hljóðfæri var tekið til kostanna í kröftugu eftirspili eftir messu. Fimir fingur fóru æfðum höndum um nótnaborð orgelsins. Hann gat líka spilað undurblítt þegar útfarir voru og sálmarnir fengu tár kirkjugestanna til að falla á kirkjugólfið. Organistinn kunni að sýna tilfinningar en bara þegar hann lék á orgelið. Í daglega lífinu var hann ætíð fámáll, fáskiptinn og einn með sjálfum sér.
Fyrir allmörgum árum varð að endurnýja orgel í einni af kirkjunum. Það var leitað eftir tilboðum í hljóðfæri. Orgel eru auðvitað ekki eins og önnur hljóðfæri því þau eru völundarsmíð. Nýtt orgel frá viðurkenndri orgelsmiðju kostaði of mikið fyrir fjárvana söfnuð. Orgelsmiðurinn bauðst til að smíða nýtt orgel í kirkjuna sem kostaði brot af því verði sem orgelsmiðjur settu upp. Allir vissu að hann var hagleiksmaður og þess vegna var tilboði hans tekið. Gamla orgelið var tekið niður og orgelsmiðurinn hófst hans við smíða og setja upp stórt og glæsilegt pípuorgel. Það tók reyndar allmörg ár að koma orgelinu nýja inn í kirkjuna. Og þegar allt virtist vera komið á sinn stað þá gerðist samt ekki neitt þegar ýtt var á nótnaborð orgelsins. Það vantaði tónana í orgelið. Orgelsmiðurinn var stöðugt að. Þegar messað var í kirkjunni var notað lítið píanó því að úr orgelinu barst enginn hljómur.
Í fyllingu tímans varð orgelið tilbúið eða kannski frekar eins fullkomið og sköpunarverk orgelsmiðsins geta orðið. Þegar ég kom til starfa hafði liðið um áratugur frá vígslu orgelsins. Orgelsmiðurinn var stöðugt að sem fyrr. Það var ljós í kirkjunni allan sólarhringinn. Þegar inn var komið lágu orgelpípurnar um alla bekki og gólf í kirkjunni. Hann með ljós á höfðinu að rýna inn í innviði orgelsins eða þá að hann blés í pípurnar til að finna hvort þær hefðu ekki hinn sanna hljóm. Stundum var orgelið sett saman þegar þurfti að messa eða ef útför var. Gerðist það þá stundum í tónverkum að nótnaborð orgelsins stóð á sér. Þannig gátu nótur orðið óþægilega langar eða það sem verra var, algjörlega hljóðar. Allt umstangið í kringum orgelið hafði skapað mikla gremju meðal margra. Flestir organistar neituðu að spila í kirkjunni því þeim líkaði miður vel við orgel sem ekki hlýddi fingrum þeirra. Prestar höfðu hætt í söfnuðinum út af orgelsmiðnum og sóknarnefndarfólk einnig. Orgelsmiðurinn kærði sig kollóttan um allt nema hinn sanna hljóm orgelsins. Orgelið var barnið hans. Hugarsmíð og sköpun, ástríða og áhugamál allt í senn – það skyldi einn dag verða fullkomið.
Einhver minnisstæðasti jóladagur sem ég hef upplifað tengist orgelsmiðnum. Við höfðum farið að messa á eyju þar nærri sem ekki hafði brú og tókum við því bílferju. Messan gekk allvel. Margir komu, stundin hátíðleg, jólaguðspjall og jólasálmar. Heimafólk og brottfluttir voru þar saman til að eiga sína árlegu hátíðarstund í kirkjunni samkvæmt gamalli hefð. Eftir messuna tók við löng bið hjá mér og orgelsmiðnum eftir að ferjan kæmi aftur. Við höfðum komið með bílinn minn í ferjunni og því ákvað ég að bjóða upp á bíltúr meðan beðið var eftir ferjunni að flytja okkur heim. Það var froststilla og glaða tunglsljós. Þarna var eins fallegt umhverfi og hægt er að hugsa sér.
Við ókum af stað, fyrst í þögninni en svo fór orgelsmiðurinn að tala. Hann talaði nær látlaust þann tíma sem við ókum um. Tíminn leið eins og örskot. Hér fékk ég að heyra ævisögu manns sem líklega hefur aldrei sagt nokkrum sögu sína. Þetta var saga um vonir og drauma ungs tónlistarmanns. Saga af fyrstu ástinni, af lífsdraumunum sem urðu að víkja fyrir raunveruleikanum. Brostnar vonir í tónlistinni, hjónaband sem rofnaði og erfiðleikar í samskiptum við dóttur. Ég fékk að heyra um einsemdina sem verður þegar höfnun og vonbrigði fá mann til að byrgja allt inni.
Sagan, náttúran og jóladagur þarna í myrkasta skammdegi á norðurhjara gerði minningu mína einstaka. Kannski ekki síst það að fá að vera þarna sem hlustandi manns sem þurfti að tala um sorgir sínar og lífsvegferð.
Ég hef oft sem prestur verið með fólki í gleði og sorg. Ég hef oft verið hlustandi á erfiðum stundum þar sem sagt er frá biturri reynslu. Ég veit hve óendanlega mikilvægt það er að hver og einn fái að segja sína eigin sögu. Það er bókstaflega lækning fólgin í því að segja sögu. Að koma lífi sínu í orð. Oft er sagt að maður geti talað sig frá erfiðri reynslu og er í því mikill sannleikur. Það er líka staðreynd að við þurfum oftar en ekki að segja frá góðu hlutunum og gleðjast með einhverjum. Mikilvægt er að við heyrum sögur annars fólks því þær hjálpa okkur að skilja líf þess og um leið líf okkar.
Orgel sem ekki gefur frá sér tón fær aðra merkingu þegar maður hefur heyrt sögu orgelsmiðsins og veit að hann mun aldrei ljúka við smíði þess. Yfir slíku væri hægt að ergja sig en betra er að sýna þar mannskilning og mæta „orgelsmiðunum“ allt í kringum okkur með hlýju og heyra sögur þeirra. Við erum mörg í sömu stöðu og orgelsmiðurinn; eigum okkar drauma, vonir, þrár og „smíðisgripi“ sem við náum aldrei að klára en veita okkur þó sanna lífsfyllingu.