Kraftaverk Eitthvað ótrúlegt hafði gerst.
Hermennirnir, sem áttu að gæta þess að líkama Jesú yrði ekki stolið, lágu steinrotaðir fyrir utan hellinn.
Gröfin var tóm.
Steininum þunga hafði verið velt frá munnanum.
Hver gerði það? Var það Guð? Var það Jesús sjálfur?
Mesta kraftaverk allra tíma hafði orðið. Hann var ekki lengur dáinn. Hann hafði sigrað það sem við öll töldum ósigrandi.
Við Íslendingar þurfum kraftaverk eins og þetta.
Við þurfum hjálp við að lyfta þessum þunga steini sem hefur verið lagður yfir landið okkar.
Þessi þungi steinn hefur gert okkur hokin. Við eigum erfitt með að rétta úr okkur, líta upp og horfast í augu við framtíðina.
Við höfum orðið fyrir andlegu hruni sem hefur dregið úr okkur mikinn kraft. Það er svo erfitt að takast á við raunveruleikann á meðan framtíðarsýnin er lítil sem engin. Við vitum ekki hvað verður.
Flest erum við reið yfir því sem gerðist hér á landi en við þurfum að varast að þessi reiði breytist ekki í vonleysi og uppgjöf.
Það er mikilvægt að vinna úr reiðinni, að finna henni farveg. Í reiðinni felst mikill máttur sem bæði er hægt að nota til góðs og ills.
Réttlát reiði þarf að fá útrás.
Sátt Sú stund mun koma að við verðum að lyfta steininum frá og rísa upp á ný en til þess að það geti gerst verður einhvers konar sátt að hafa átt sér stað.
Með sátt á ég ekki við, að við eigum að sætta okkur við að á okkur hafi verið brotið, fyrirgefa og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Nei, með sátt á ég við, að við viðurkennum hvað hafi gerst, að stjórnun íslensks efnahagslífs hafi farið út af sporinu og keyrt út í skurð.
Með sátt á ég við, að rannsakað verði, í alvöru, hvað gerðist svo við getum lært af mistökunum.
Með sátt á ég við, að venjulegt heiðarlegt fólk verði ekki látið borga brúsann, eitt og sér.
Með sátt á ég við að við fyrirgefum þeim sem eru nógu kjarkmikil að geta beðist fyrirgefningar og þeim sem ekki hafa getu til þess að iðrast.
Með sátt á ég við, að við, þegar tíminn er kominn, sættumst við fortíðina, kveðjum hana og göngum uppreist mót nýrri og sanngjarnari framtíð.
Við þörfnumst upprisu okkar eigin þjóðar.
Við þörfnumst þess að steininum verði velt ofan af okkur svo við getum ristið upp.
Kristur reis upp frá dauðum og við getum risið upp frá efnahagslegu og siðferðilegu hruni en við þurfum öll að leggjast á eitt. Við verðum að reyna að leggja ágreiningsefnin til hliðar augnablik og læra að gefa eftir til þess að eiga möguleika á að sameinast um sátt sem flest okkar geta sætt sig við.
Við getum aldrei farið aftur til fortíðar og breytt hlutunum og við verðum að ná okkur upp úr þessu hjólfari ágreinings og þreytu.
Þetta ótrúlega sem gerðist á Páskadagsmorgun fyrir löngu síðan gefur okkur von um að kraftaverk geti gerst nú. Þetta kraftaverk felst kannski fyrst og fremst í því að allt verði lagt undir til þess að réttlæti og sátt geti náðst, að við sættumst við hvert annað, könnumst við fortíðina eins og hún var og horfum til framtíðar.
Kristur sem sigraði dauðann fyrir þig og mig er Guð réttlætisins. Guð sættir sig aldrei við ríkidæmi sumra á kostnað annarra. Guð sættir sig aldrei við óréttlæti í hvaða mynd sem það er. Guð vill þér vel og vill að við verðum aftur stolt þjóð með góða og raunveruleikatengda sjálfsmynd. Guð gefi þér gleðilega Páskahátíð!